Fyrir höfunda

Greinar skulu berast með tölvupósti á netfangið ulfljotur@ulfljotur.is.

Fræðilegar greinar verða ekki birtar á vefriti Úlfljóts nema þær standist ritrýni.

Ritrýninefnd Úlfljóts er svo skipuð:
Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir, fræðilegur ritstjóri prentritsins
Víðir Smári Petersen, fræðilegur ritstjóri vefritsins
Ásgerður Ragnarsdóttir
Benedikt Bogason
Kristín Benediktsdóttir
Dr. M. Elvira Méndez Pinedo

Höfundar eru hvattir til þess að kynna sér vel efni handbókarinnar. Almennar ritrýnikröfur Úlfljóts (sjá bls. 11-13 í handbókinni) gilda um vefritið að öðru leyti en því að í ljósi tilgangs vefritsins eru gerðar strangari kröfur en ella til bæði nýnæmis og fræðslu- og upplýsingagildis greinanna. Greinar tímaritsins þurfa, með öðrum orðum, að hafa eitthvað nýtt fram að færa. Þær þurfa að vera til þess fallnar að auka aðgengi og áhuga almennings og fjölmiðla að umfjöllun um lögfræðileg málefni. Greinarnar geta t.d. falið í sér greiningu eða gagnrýni á dómaframkvæmd, áleitnar spurningar um fræðikenningar, lög eða lagafrumvörp eða rökstutt álit á því hvað betur mætti fara í núverandi lagaumhverfi. Höfundar þurfa að hafa í huga að greinarnar eiga að vera skarpar og hnitmiðaðar (1.500-3.500 orð að lengd) og ekki er gert ráð fyrir löngum dómareifunum eða ítarlegri umfjöllun um kenningar fræðimanna. Greining höfundar þarf að vera skörp, hugvitssöm og studd lögfræðilegum rökum.

Tilgangurinn með fyrrgreindum afbrigðum frá ritrýnireglum Úlfljóts er að frjórri umræður geti skapast, t.d. á netinu og samfélagsmiðlum, og að fræðaskrif hafi áþreifanlegri áhrif á laga- og réttarframkvæmd hér á landi.

Vakin skal athygli á því að Úlfljótur veitir jafnframt óritrýndum greinum viðtöku, til dæmis hugleiðingum um lögfræðileg málefni líðandi stundar. Þótt þessar greinar yrðu ekki ritrýndar yrðu þær að sjálfsögðu ritstýrðar og myndu ekki verða birtar nema þær væru studdar lögfræðilegum og málefnalegum rökum.