Eftir Diljá Helgadóttur, lögfræðing[1]
Efnisyfirlit
- Inngangur
- Dómaframkvæmd
2.1 Almennt
2.2 Slit fyrningar vegna háttsemi skuldara
2.3 Slit fyrningar gagnvart ábyrgðarmanni
2.4 Slit fyrningar með málsókn
2.5 Heimild kröfuhafa til að gera fjárnám í eign þrotamanns
Ágrip
Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 voru heimildir kröfuhafa til fyrningarslita takmarkaðar verulega. Af 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti leiðir að kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum frá skiptalokum. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laganna getur kröfuhafi slitið fyrningu krafna á hendur þrotamanni höfði hann mál á hendur þrotamanni innan fyrningarfrests og fái þar viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Í greininni er fjallað um hvaða ábyrgð þrotamaður beri á þeim kröfum sem ekki fengust greiddar við skiptalok og hvort hann beri yfir höfuð einhverja ábyrgð á þeim, einkum að teknu tilliti til dómaframkvæmdar.
Abstract
Following the financial crisis in 2008, the abilities of creditors to prevent time limitations of their claims were significantly reduced. Article 165 (2) of Act No. 21/1991 on Bankruptcy provides that claims that are not paid during bankruptcy will expire two years from the conclusion of bankruptcy proceedings. In order to extend this limitation period, a creditor is required to obtain a judgment thereon and demonstrate that it has a special interest in extending the time limitation and that it may be considered that enforcement can be obtained from his claim during a new time limitation, cf. Article 165 (3) of the Act on Bankruptcy. This Article addresses the liability of the debtor for claims that were not paid at the conclusion of bankruptcy proceedings and whether any such liability exists. Particular attention will be paid to the time limitation provision in Article 165 of the Act on Bankruptcy given its interpretation in jurisprudence.
1. Inngangur
Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 lentu fjölmargir einstaklingar hér á landi í alvarlegum skuldavanda. Gripið var til ýmissa aðgerða af þessum sökum. Gerðar voru breytingar m.a. á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti[2] á fyrningu krafna á hendur þrotamanni við gjaldþrot, en sá tími sem þrotamaður bar ábyrgð á kröfum við lok gjaldþrotaskipta var styttur og leiðir kröfuhafa til að viðhalda kröfu sinni jafnframt skertar.[3] Fyrning í þessum skilningi felst í því að kröfuréttindi falla niður eða missa réttarvernd að meira eða minni leyti af þeirri ástæðu að þeim er ekki fylgt eftir í tiltekinn tíma og ekki gerðar aðrar ráðstafanir um þau að lögum sem gætu varnað að þau fyrnist.[4] Gjaldþrotaskipti fela í sér sameiginlega fullnustugerð allra kröfuhafa þrotamanns sem hefst við uppkvaðningu dómsúrskurðar um skiptin.[5] Við uppkvaðningu þessa dómsúrskurðar[6] verður til sjálfstæð lögpersóna, þrotabú, sem tekur við öllum fjárhagslegum réttindum og skyldum sem skuldari átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins.[7] Í kjölfarið getur þó vaknað sú spurning hvaða ábyrgð þrotamaður beri á þeim kröfum sem ekki fengust greiddar við skiptin eða hvort hann beri yfir höfuð einhverja ábyrgð á þeim.
Áður var sú regla við lýði að fyrningarfrestur skyldi vera í samræmi við eldri fyrningarlög nr. 14/1905, sem voru síðar leyst af hólmi með lögum nr. 150/2007. Fyrningarfrestur og ábyrgðartími þrotamanns fór þá eftir efni kröfunnar samkvæmt fyrningarlögum ásamt því hvort fyrning kröfunnar hefði verið rofin, sbr. þáverandi 2. mgr. 165. gr. gþl.[8] Ein þeirra aðgerða sem gripið var til í því skyni að rétta stöðu skuldara fól í sér breytingar samkvæmt lögum nr. 142/2010 á fyrningarreglu gjaldþrotalaga. Með þessari breytingu var lögfest sú sérregla að allar kröfur sem lýst er í þrotabú og fást ekki greiddar við skiptalok fyrnast á tveimur árum án tillits til þess um hverskonar kröfu sé að ræða, sbr. 2. mgr. 165. gr. gþl. Það er auk þess óháð því hver fyrningarfrestur kröfunnar kynni að vera samkvæmt fyrningarlögum.[9] Af þessu er ljóst að sé mál ekki höfðað innan tveggja ára fyrningarfrests 165. gr. gþl. fellur krafa samkvæmt 2. mgr. framangreinds ákvæðis sannarlega niður vegna fyrningar, sbr. Hrd. 4. janúar 2018 (780/2017).[10] Þá verður ekki séð að sambærilega reglu sé að finna á sviði norræns gjaldþrotaréttar.[11] Slíkt er athyglisvert í ljósi þess að íslensk löggjöf um gjaldþrotaskipti hefur frá upphafi byggst á dönskum lögum og norrænum rétti.
Með breytingarlögunum voru heimildir kröfuhafa til slita fyrningar takmarkaðar verulega. Verður kröfuhafi að fá viðurkenningardóm fyrir slitum fyrningar. Til þess þarf hann að sýna fram á sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningu slitið og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Af hálfu kröfuhafa hefur því verið haldið fram að 3. mgr. 165. gr. gþl. feli í sér afturvirka skerðingu kröfuréttinda í andstöðu við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994.[12] Hæstiréttur hefur talið að ákvæðið sé ekki afturvirkt í öðrum skilningi en að því sé ætlað að taka til allra krafna á hendur þrotamanni, sem ekki er fullnægt við gjaldþrotaskipti. Slíkt sé án tillits til þess hvort kröfurnar hafi orðið til áður eða eftir gildistöku breytingarlaga nr. 142/2010, sbr. t.d. Hrd. 2. nóvember 2017 (645/2016). Draga má þá ályktun af framangreindum dómi að löggjafinn hafi svigrúm til að setja reglur um hvernig og með hvaða hætti fyrningu kröfu verði slitið en ekki var talið að breytingin væri andstæð eignarrréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur sló því einnig föstu að ákvæðið feli í sér almenna takmörkun á rétti kröfuhafa til að slíta fyrningu við tilteknar aðstæður og taki hún jafnt til allra.[13]
Meginviðfangsefni greinarinnar snýr að túlkun og beitingu fyrningarákvæðis 165. gr. gþl. m.t.t. dómaframkvæmdar. Nánar verða rakin þau atriði sem koma til skoðunar í tengslum við slit fyrningar samkvæmt ákvæðinu og heimild kröfuhafa til fjárnáms í eign þrotamanns.
2. Dómaframkvæmd
2.1 Almennt
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar þar sem reynt hefur á túlkun 165. gr. gþl. hefur ítrekað komið til athugunar hvort fyrningu hafi verið slitið. Með slitum fyrningar er átt við þau atvik, aðstæður eða ráðstafanir að lögum sem geta varnað því að krafa fyrnist.[14] Slíta má fyrningu ýmist með aðgerð kröfuhafa, s.s. með málsókn eða beiðni um aðför, eða háttsemi skuldara. Í hinu síðarnefnda felst að skuldari viðurkennir berum orðum eða með aðgerðum sínum skuld sína við kröfuhafa.[15] Hér í framhaldi verða rakin þau sjónarmið sem koma til skoðunar þegar deilt er um slit fyrningar samkvæmt 165. gr. gþl. Í því samhengi verður því m.a. velt upp hvort um sé að ræða sérreglu eða hvort enn sé stuðst við ákvæði almennra fyrningarlaga nr. 150/2007.
2.2 Slit fyrningar vegna háttsemi skuldara
Áður er rakið að skuldara sé mögulegt að slíta fyrningu kröfu með atferli sínu. Í því felst að skuldari viðurkenni beinlínis eða með háttsemi sinni skylduna til þess að greiða kröfuna, s.s. með loforði um greiðslu eða með innborgun inn á kröfuna. Þær aðstæður hafa komið upp að skuldari hafi sjálfur rofið fyrningu kröfu á hendur sér, samkvæmt 2. mgr. 165. gr. gþl., með því að greiða af kröfunni. Verður þannig að telja að skuldari hafi viðurkennt skuld sína og því slitið fyrningu, sbr. 3. mgr. 165. gr. gþl. Benda má á að hvergi segir berum orðum í ákvæðinu né í lögskýringargögnum að unnt sé að slíta fyrningu með þessum hætti. Á þetta reyndi m.a. í Hrd. 27. október 2016 (119/2016). Ágreiningur aðila snéri að því hvort krafa vegna skuldabréfs sem þrotamaður gaf út til Lánasjóðs íslenskra námsmanna[16] árið 2005 væri fyrnd á grundvelli 2. mgr. 165. gr. gþl., sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010. Skiptalok þrotabús þrotamanns voru þann 23. júlí 2012 og taldi þrotamaður tveggja ára fyrningarfrest liðinn þegar málið var höfðað þann 16. mars 2015. Aftur á móti lá fyrir að þrotamaður hafði greitt inná skuldina þann 4. mars 2014. Í dómi Hæstaréttar, sem taldi kröfuna ófyrnda, sagði:
Umrædd lagabreyting fól þannig í sér takmörkun á einhliða rétti kröfuhafa til þess að rjúfa fyrningu kröfu án tillits til vilja skuldara. Með henni var hins vegar engin breyting gerð á því með hvaða hætti skuldari getur rofið fyrningu kröfu á hendur sér, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda sem gilda um fyrningu kröfu áfrýjanda [LÍN] á hendur stefndu [þrotamanni og ábyrgðarmanni], sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. Standa engin efni til þess að túlka umrædda lagareglu með rýmri hætti en felst í bókstaflegum skilningi orða hennar, skýrðum til samræmis við 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. (áherslubr. höf.)
Samkvæmt þessu taldi Hæstiréttur að þrotamaður hefði rofið fyrningu með fyrirvaralausri afborgun, sbr. 6. gr. eldri fyrningarlaga og við hefði tekið nýr fyrningarfrestur í samræmi við 4. gr. sömu laga.[17] Af framansögðu má álykta að Hæstiréttur telji að skuldara sé unnt að rjúfa fyrningu með háttsemi eftir skiptalok á grundvelli almennra fyrningarreglna, enda hafi engin breyting verið gerð á því með lögum nr. 142/2010 með hvaða hætti skuldari getur rofið fyrningu kröfu á hendur sér. Ákvæði 165. gr. gþl. felur þannig einungis í sér takmörkun á möguleikum kröfuhafa til slita fyrningar.
2.3 Slit fyrningar gagnvart ábyrgðarmanni
Ákvæði 165. gr. gþl. hefur ekki að geyma sérstök fyrirmæli um fyrningu gagnvart þriðja manni, sem kann að hafa gengist í sjálfskuldarábyrgð eða sett tryggingar fyrir skuldum þrotamanns sem ekki fást greiddar við skiptalok. Kemur því til skoðunar hvaða reglur gilda gagnvart þriðja manni í tengslum við slit fyrningar eftir skiptalok. Á það reyndi í Hrd. 6. apríl 2017 (507/2016). Þar hafði aðalskuldari samkvæmt skuldabréfi verið úrskurðaður gjaldþrota þann 2. desember 2011 og lauk skiptum í búi hans þann 13. mars 2012. Rúmum tveimur árum og fimm mánuðum eftir skiptalok hóf kröfuhafi innheimtuaðgerðir á hendur ábyrgðarmanni sem gaf út skuldabréf til kröfuhafa til uppgjörs á ábyrgð sinni í desember 2014. Ábyrgðarmaðurinn höfðaði síðar mál á hendur kröfuhafa og byggði á því að skuldabréfið hefði verið fyrnt og væri jafnframt ógildanlegt með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Í forsendum héraðsdóms sem staðfestar voru af Hæstarétti sagði:
Hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst áður en fyrningu hafi verið slitið gagnvart ábyrgðarmanni með þeim hætti sem í lögunum greinir, telst krafan á hendur ábyrgðarmanni jafnframt fyrnd. Með vísan til framangreindrar sérreglu 3. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti með síðari breytingum er því ljóst að krafa á hendur aðalskuldara fyrntist á tveimur árum og samkvæmt 7. gr. laga nr. 150/2007 gilti sami fyrningarfrestur um ábyrgðarmann skuldarinnar. Þegar stefndi [L hf.] hóf innheimtuaðgerðir gagnvart stefnanda [ábyrgðarmanni] var krafa hans á hendur honum því fallin niður sakir fyrningar en nægilega er í ljós leitt að útgáfa hins síðara skuldabréfs tengdist eingöngu ábyrgð stefnanda á hinu fyrra skuldabréfi. (áherslubr. höf.)
Af ofangreindum dómi má ráða að hinn tveggja ára fyrningarfrestur 3. mgr. 165. gr. gþl. gildi ekki aðeins um aðalskuldara heldur einnig um ábyrgðarmenn, sbr. 7. gr. fyrningarlaga. Einnig má draga þá ályktun af dómnum að hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst þá gildi hið sama gagnvart ábyrgðarmanni, hafi fyrningu ekki áður verið slitið gagnvart honum. Samkvæmt þessu virðist því vera unnt að slíta fyrningu eingöngu gagnvart ábyrgðarmanni. Var þetta staðfest í Hrd. 27. mars 2018 (305/2017). Þar hafði kröfuhafi höfðað mál á hendur tveimur ábyrgðarmönnum til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi. Ágreiningur aðila snerist einkum um það hvort krafa kröfuhafa á hendur ábyrgðarmönnum væri fyrnd, en fyrningu hafði ekki verið slitið gagnvart aðalskuldara. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem kröfuhafi hefði höfðað mál á hendur ábyrgðarmönnum innan fyrningarfrests þá hefði brottfall kröfunnar á hendur aðalskuldara engin áhrif á stöðu þeirra.
2.4 Slit fyrningar með málsókn
Af framangreindu er ljóst að möguleikar kröfuhafa til slita fyrningar voru skertir verulega með gildistöku laga nr. 142/2010. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. gþl. ber kröfuhafa að höfða mál gegn þrotamanni innan tveggja ára frá skiptalokum og fá þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum.[18] Svo slík viðurkenning fáist skal kröfuhafi sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af fyrningarslitunum, sbr. 3. mgr. 165. gr. gþl., og að telja megi líkur á fullnustu kröfunnar á nýjum fyrningartíma. Bæði skilyrðin skulu uppfyllt og sagði í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 142/2010 að um undartekningartilvik sé að ræða sem skuli túlkuð þröngt. Ekki verður ráðið af lögskýringargögnum hvað felist í seinna skilyrðinu og hafa dómstólar ekki fjallað um það.
Hvað varðar fyrra skilyrðið má færa sterk rök fyrir því að kröfuhafi hafi ávallt ríka hagsmuni af innheimtu kröfu sinnar og því að fyrningu sé slitið. Því vaknar sú spurning við hvaða aðstæður kröfuhafi verði talinn hafa sérstaka hagsmuni af fyrningarslitum í skilningi 3. mgr. 165. gr. gþl. Í athugasemdum frumvarps er varð að lögum nr. 142/2010 eru talin upp nokkur tilvik í dæmaskyni, s.s. að tilurð kröfu megi rekja til saknæmrar eða ámælisverðrar háttsemi. Einnig er gert ráð fyrir að um undantekningartilvik væri að ræða og því skyldi heimildin túlkuð þröngt. Er það lagt í hendur dómstóla að afmarka í framkvæmd þau tilvik sem heyrt geta undir ákvæðið.[19] Skilyrðið er því matskennt og þarfnast túlkunar í hverju tilviki fyrir sig. Verður af þeim sökum að kanna nánar dómaframkvæmd.
Í Hrd. 2. nóvember 2017 (730/2016) var m.a. deilt um hvort kröfuhafinn LÍN hefði sýnt fram á sérstaka hagsmuni sína af því að slíta fyrningu samkvæmt 3. mgr. 165. gr. gþl. Byggði kröfuhafi á því að sérstaða hans fælist í hlutverki hans sem væri að veita námsmönnum námslán og tryggja námsmönnum tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í því skyni benti hann m.a. á að í lögum nr. 21/1992 um LÍN segi að miða skuli við að lán sem falla undir ákvæði laganna nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði á meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar hans. Lánstími sé einnig ótilgreindur en greitt skuli af námsláni þar til skuldin sé að fullu greidd. Einnig komi fram að endurgreiðsla námslána hefjist tveimur árum eftir námslok. Um mat Hæstaréttar á því hvort LÍN hefði sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu sagði eftirfarandi:
Í lögskýringargögnum, sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi, verður lítið séð sem máli skiptir um hvernig löggjafinn hafi ætlast til að skýrð yrðu þau fyrirmæli í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafi þurfi að sýna fram á sérstaka hagsmuni sína af því að slíta fyrningu kröfu til þess að við því megi verða. Eftir orðalagi þessa lagaákvæðis og því, sem þó kom fram í lögskýringargögnum, verður að líta svo á að í tilvikum, þar sem krafa hefur ekki orðið til út af ólögmætri háttsemi skuldarans, feli þetta skilyrði einkum í sér að kröfuhafi þurfi vegna sinna eigin aðstæðna að hafa svo að teljandi sé hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa verði ekki látin falla niður fyrir fyrningu. Þótt L beri eftir lögum nr. 21/1992 […] ríkar skyldur til að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð með lánum geta þær einar ekki valdið því að aðstæður hans séu í framangreindum skilningi sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur. (áherslubr. höf.)
Hæstiréttur leggur þannig til grundvallar að til þess að unnt væri að fallast á að kröfuhafi hefði sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu kröfu yrði krafa annað hvort að hafa stofnast vegna ólögmætrar háttsemi skuldara eða kröfuhafi hefði vegna sinna eigin aðstæðna teljandi hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að tiltekin krafa yrði ekki látin niður falla fyrir fyrningu. Ekki er augljóst til hvers Hæstiréttur er að skírskota með orðalaginu „ólögmæt háttsemi“, en hvers konar háttsemi sem er í ósamræmi við lög myndi bersýnilega falla þar undir. Af orðalaginu og lögskýringargögnum verður þó að telja að með hugtakinu ólögmæti sé Hæstiréttur ekki að vísa til þess að háttsemi þurfi að vera refsiverð heldur að hún sé ólögmæt í skilningi skaðabótaréttar. Jafnframt er unnt að draga þá ályktun af framangreindum dómi að Hæstiréttur túlki orðalag ákvæðis 3. mgr. 165. gr. gþl. þröngt í samræmi við áðurnefnd lögskýringargögn og þá rótgrónu reglu í lögskýringum að undantekningarreglur skuli skýra á þröngan hátt.
Hvað varðar skilyrðið um sérstaka hagsmuni umfram aðra kröfuhafa taldi Hæstiréttur að LÍN nyti ekki slíkrar sérstöðu miðað við aðra kröfuhafa að skilyrðinu væri fullnægt. Í því skyni vísaði Hæstiréttur til þess að lögbundið hlutverk sjóðsins fælist í því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð með lánum. Þar sem þær skyldur gætu ekki einar valdið því að aðstæður hans væru sérstakar í samanburði við aðra lánveitendur var kröfum LÍN hafnað.
Af framansögðu má ráða að lánveitandi sem veitir lán á afar hagstæðum kjörum, líkt og á við um greiðslukjör námslána, hafi ekki sérstaka hagsmuni af slitum fyrningar í skilningi 3. mgr. 165. gr. gþl.[20] Færa má rök fyrir því að ólíklegt sé að annað gildi um aðra lánveitendur, s.s. viðskiptabanka. Þannig verður í fljótu bragði ekki séð á hvaða grunni þeir hefðu ríkari hagsmuni en LÍN af slitum fyrningar krafna sinna. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1991 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk LÍN að tryggja námsmönnum jöfn tækifæri til náms án efnahags. Starfsemi annarra lánveitenda s.s. viðskiptabanka er aftur á móti yfirleitt rekin í ágóðaskyni og því er samfélagslegum hagsmunum ekki fyrir að fara í jafn ríkum mæli.
2.5 Heimild kröfuhafa til að gera fjárnám í eign þrotamanns
Í tvö ár eftir skiptalok er kröfuhafa tækt að gera fjárnám í eign þrotamanns, sbr. 3. mgr. 165. gr. gþl. Sami fyrningarfrestur gildir um kröfu hvort sem henni var lýst við skiptin eður ei. Í athugasemdum við frumvarp er varð að lögum nr. 142/2010 kemur fram að ef skuldari eignast á þessu tveggja ára tímabili eign og kröfuhafi gerir fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans er greiðist af andvirði þess sem fjárnám var gert í.[21] Því er hægt að krefjast fjárnáms í eign sem þrotamaður kann að eignast á þessu tveggja ára tímabili. Má þ.a.l. velta því upp hvort kröfuhafa væri mögulegt að gera fjárnám í eign sem ekki var ráðstafað við skiptin, enda kynni verðmæti eignarinnar að hafa aukist eftir skiptalok.
Á þetta reyndi í úrskurði Landsréttar 25. apríl 2018 (314/2018). Deilt var um hvort 165. gr. gþl. stæði því í vegi að gert yrði fjárnám í eignarhluta þrotamanns í félaginu LK þjónusta ehf. Þrotamaður átti þriðjungs hlut í félaginu að nafnverði 166.666 krónur en skiptastjóri hafði metið eignarhluta þrotamanns verðlausan við skiptin. Skiptum á búi þrotamanns hafði lokið í febrúar 2016 en fjárnáms var krafist þann 5. september 2017. Af hálfu þrotamanns var því m.a. haldið fram að ekki væri unnt að gera fjárnám í eigninni þar sem hún gæti ekki talist ný eign í skilningi 165. gr. gþl. enda hefði hún verið til staðar við gjaldþrotaskiptin. Landsréttur vísaði til þess að í 3. mgr. 165. gr. gþl. kæmi fram að fyrningu krafna samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins yrði aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfðaði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanni og fengi þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Þá segði í niðurlagi 3. mgr. 165. gr. gþl. að hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamannsins áður en frestur samkvæmt 2. mgr. væri á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fengist á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingarréttinda. Með vísan til þessa, en að öðru leyti til forsenda héraðsdóms, féllst Landsréttur á að framangreind ákvæði hefðu ekki girt fyrir rétt kröfuhafa til þess að fá fjárnám í eignarhluta þrotamannsins í LK þjónustu ehf. þegar gerðin var stöðvuð 5. september 2017, en þá hefði krafan verið ófyrnd.
Af hálfu kröfuhafa var jafnframt byggt á því að fyrningu kröfu hans hefði verið slitið þegar beiðni um fullnustugerð barst sýslumanni, sbr. 1. mgr. 17. gr. fyrningarlaga og 52. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.[22] Gæti ákvæði 3. mgr. 165. gr. gþl. engu breytt um þá niðurstöðu. Í úrskurði Landsréttar var vísað til þess að um væri að ræða sérákvæði varðandi fyrningarslit kröfu sem hvíldi á þrotamanni eftir skiptalok. Í athugasemdum frumvarps er varð að lögum nr. 142/2010 kæmi fram að markmið þeirra væri að auðvelda einstaklingum sem teknir hefðu verið til gjaldþrotaskipta, en bæru áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hefðu fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Þar væri einnig lögð áhersla á að yrði frumvarpið að lögum yrði ekki unnt að slíta fyrningu slíkra krafna nema í undantekningartilvikum, en til þess þyrfti lánardrottinn að höfða mál fyrir dómstólum á hendur þrotamanni og fá viðurkenningu á fyrningarslitum. Ákvæði 3. mgr. 165. gr. gþl. væri yngra en fyrirmæli 52. gr. afl. og 1. mgr. 17. gr. fyrningarlaga. Í því ljósi og að teknu tilliti til afdráttarlauss orðalags 3. mgr. 165. gr. gþl., markmiðs ákvæðisins og ummæla í lögskýringargögnum, gengi það framar ákvæðum afl. og fyrningarlaga um fyrningarslit kröfuréttinda. Af þeim sökum væri ekki unnt að líta svo á að fyrningu hefði verið slitið með því að aðfararbeiðni kröfuhafa barst sýslumanni. Kröfuhafi hefði því ekki öðlast tryggingarréttindi í eigninni enda hafði gerðinni ekki verið lokið þegar hún var stöðvuð 5. september 2017. Hann hefði heldur ekki höfðað mál til viðurkenningar á fyrningarslitum hennar og hefði þrotamaður ekkert gert sem gæfi til kynna að hann viðurkenndi tilvist kröfunnar. Hefði krafan því fyrnst 11. febrúar 2017, enda voru þá liðin tvö ár frá lokum gjaldþrotaskipta þrotamanns. Taldi Landsréttur því að kröfuhafi hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að gerðinni yrði fram haldið til þess að kröfuhafi gæti öðlast tryggingarréttindi fyrir kröfu sem fallið hefði niður fyrir fyrningu. Var kröfum kröfuhafa því vísað frá héraðsdómi.
Af úrskurði Landsréttar verður ráðið að fyrningu kröfu sem lýtur fyrirmælum 2. og 3. mgr. 165. gr. gþl. verði einungis slitið með því að kröfuhafi höfði mál til viðurkenningar á fyrningarslitum eða þrotamaður viðurkenni tilvist hennar, s.s. með innborgun innan fyrningarfrests. Er þannig að minnsta kosti ekki unnt að slíta fyrningu með því að senda aðfararbeiðni til sýslumanns, sbr. 17. gr. fyrningarlaga og 52. gr. afl.
Framangreindur úrskurður er einnig athyglisverður fyrir þær sakir að ekki var um að ræða nýja eign í skilningi 165. gr. gþl. heldur eign sem skiptastjóri hafði metið verðlausa við gjaldþrotaskiptin. Þá var kröfuhafa ekki kunnugt um þessa eign þrotamanns og ekkert lá fyrir um að afstaða skiptastjóra til hennar hefði verið kynnt á skiptafundi. Verður því að telja að verði breyting á verðmæti eignar sem er til staðar við skiptalok þá geti kröfuhafi öðlast tryggingarréttindi í eigninni sé krafa hans ófyrnd.
3. Lokaorð
Í framangreindri umfjöllun hefur verið leitast við að varpa ljósi á túlkun og beitingu 165. gr. gþl., sbr. lög nr. 142/2010. Af 2. mgr. ákvæðisins leiðir að kröfur sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum frá skiptalokum. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. getur kröfuhafi slitið fyrningu krafna á hendur þrotamanni, höfði hann mál á hendur honum innan áðurnefnds fyrningarfrests og fái þar viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum.
Það er ljóst að 165. gr. gþl. felur í sér talsverðar takmarkanir á heimildum kröfuhafa til slita á fyrningu. Aftur á móti má draga þá ályktun af niðurstöðu Hæstaréttar í Hrd. 27. október 2016 (199/2016) að engin breyting hafi orðið á því með hvaða hætti skuldari geti slitið fyrningu kröfu á hendur sér og eigi reglur fyrningarlaga áfram við í þeim efnum.
Af Hrd. 6. apríl 2017 (507/2016) má ráða að hinn tveggja ára fyrningarfrestur 3. mgr. 165. gr. gþl. gildi ekki aðeins um aðalskuldara heldur einnig um kröfur gagnvart ábyrgðarmönnum, sbr. 7. gr. fyrningarlaga. Jafnframt má draga þá ályktun af dóminum að hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst þá gildi hið sama gagnvart ábyrgðarmanni, að því gefnu að fyrningu hafi ekki áður verið slitið gagnvart honum. Er þannig unnt að slíta fyrningu eingöngu gagnvart ábyrgðarmanni, sbr. Hrd. 27. mars 2018 (305/2017).
Hvað fyrra skilyrði 3. mgr. 165. gr. gþl. um sérstaka hagsmuni kröfuhafa af fyrningarslitum varðar, þá má draga þá ályktun af dómaframkvæmd að krafa þurfi að hafa orðið til vegna ólögmætrar háttsemi skuldara eða að kröfuhafi hafi teljandi hagsmuni umfram aðra kröfuhafa. Fjallað var um síðara skilyrðið í Hrd. 2. nóvember 2017 (730/2016) þar sem ekki var fallist á að LÍN, sem veitir námsmönnum lán á afar hagstæðum kjörum, hefði sérstaka hagsmuni sem kröfuhafi í skilningi ákvæðisins. Er það mat höfundar að ólíklegt sé að annað gildi um aðra lánveitendur, svo sem viðskiptabanka, sem veita yfirleitt lán í ágóðaskyni en ekki í sérstaklega lögákveðnum tilgangi eða með samfélagslegt markmið að leiðarljósi, líkt og LÍN. Þó verður að hafa hugfast að ekki liggur fyrir skýr leiðsögn um túlkun á skilyrðum 3. mgr. 165. gr. gþl. í dómaframkvæmd.
Í athugasemdum frumvarps er varð að lögum nr. 142/2010 kemur fram að ef skuldari eignast nýja eign á meðan hinum tveggja ára fyrningartíma 3. mgr. 165. gr. gþl. stendur og kröfuhafi geri fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu kröfuhafa sem greiðist af andvirði þeirrar eignar sem fjárnám var gert í. Í úrskurði Landsréttar 25. apríl 2018 (314/2018) hafði kröfuhafi krafist fjárnáms í eignarhluta þrotamanns í tilteknu félagi sem hafði verið metinn verðlaus af skiptastjóra við gjaldþrotaskiptin. Af úrskurði Landsréttar má draga þá ályktun að ákvæði 3. mgr. 165. gr. gþl. komi ekki í veg fyrir að gert sé fjárnám í slíkri eign innan fyrningarfrests. Af úrskurðinum er jafnframt ljóst að ekki er unnt að slíta fyrningu kröfu sem lýtur fyrirmælum 2. og 3. mgr. 165. gr. gþl. með því að senda sýslumanni aðfararbeiðni, sbr. 17. gr. fyrningarlaga og 52. gr. afl., heldur verði kröfuhafi að höfða mál til viðurkenningar á fyrningarslitum eða þrotamaður að viðurkenna tilvist hennar.
Loks má benda á að í lögum nr. 142/2010 er mælt fyrir um endurskoðun ákvæða þeirra innan fjögurra ára frá gildistöku. Nú að liðnum átta árum frá setningu laganna leikur vafi á hvort slík endurskoðun hafi í raun farið fram.[23]
Heimildaskrá
Alþingistíðindi.
Ása Ólafsdóttir: Handbók: Gjaldþrotaskipti o.fl. Reykjavík 2011.
Ása Ólafsdóttir: ,,Fyrning krafna við gjaldþrotaskipti“. Rannsóknir í félagsvísindum XII. Lagadeild. Ritstj. Hrefna Friðriksdóttir. Reykjavík 2011, bls. 1-8.
Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi. Reykjavik 2008.
Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. Reykjavík 1999.
Ólafur Lárusson: Fyrirlestrar um fyrningu. Reykjavík án útgáfuárs.
Víðir Smári Petersen: „Slit fyrningar og réttaráhrif þess að fyrningu er slitið“. Úlfljótur, 3. tbl. 2013.
Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I. Reykjavík 2009.
Dómaskrá
Dómar Hæstaréttar Íslands
Hrd. 28. september 2006 (90/2006)
Hrd. 6. apríl 2017 (507/2016)
Hrd. 27. október 2016 (119/2016)
Hrd. 2. nóvember 2017 (643/2016)
Hrd. 2. nóvember 2017 (644/2016)
Hrd. 2. nóvember 2017 (645/2016)
Hrd. 2. nóvember 2017 (730/2016)
Hrd. 2. nóvember 2017 (731/2016)
Hrd. 4. nóvember 2016 (712/2016)
Hrd. 4. janúar 2018 (780/2017)
Hrd. 27. mars 2018 (305/2017)
Dómar Landsréttar
Landsréttur 25. apríl 2018 (314/2018)
Eftirmálsgreinar
[1] Hugmynd að grein þessari á uppruna sinn í hópverkefni höfundar, Óskar Elfarsdóttur og Sigrúnar Magnúsdóttur laganema við Háskólann í Reykjavík. Hluti inngangs greinarinnar á rætur að rekja til hópverkefnisins en að öðru leyti staðfestir höfundur að greinin byggir á og er afrakstur sjálfstæðrar rannsóknar hennar einnar.
[2] Hér eftir skammstöfuð gþl.
[3] Ása Ólafsdóttir: „Fyrning krafna við gjaldþrotaskipti“, bls. 1-2.
[4] Ólafur Lárusson: Fyrirlestrar um fyrningu, bls. 1. Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 41.
[5] Ása Ólafsdóttir: Handbók: Gjaldþrotaskipti o.fl., bls. 17.
[6] Vert er að benda á að dómsúrskurðurinn hefur ekki aðeins í för með sér að skuldarinn, eða þrotamaður eins og hann er nefndur frá því að úrskurðurinn hefur gengið, sé sviptur umráðarétti að eignum sínum eða öðrum réttindum í öllum meginatriðum, heldur eignarrétti sínum að þeim. Eignarrétturinn flyst í hendur þrotabús sem kennt er að nafni við þrotamann.
[7] Alþt. 1990, A-deild, þskj. 113 – 97. mál, um 72. – 74. gr.
[8] Ása Ólafsdóttir: „Fyrning krafna við gjaldþrotaskipti“, bls. 1-2.
[9] Vísast hér til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og eldri laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
[10] Í því sambandi verður að telja að þingfesting stefnu sé nauðsynlegur þáttur í því að slíta fyrningu þó svo að fyrningunni sé slitið þegar stefna er birt, sbr. Hrd. 28. september 2006 (90/2006).
[11] Hér vísast til dönsku gjaldþrotalaganna (d. Konkursloven nr. 1259 af 23.10.2007) og fyrningarlaganna (d. Forældelsesloven nr. 522 af 06.06.2007), norsku gjaldþrotalaganna, (n. Lov om gjeldsforhandling og konkurs 8. júní 1984 nr. 58), fyrningarlaganna (n. Lov om foreldelse av fordringer 18. maí 1979 nr. 18), laga um ábyrgð krafna við gjaldþrotaskipti (n. Lov om fordringshavernes dekningsrett 8. júní 1984 nr. 59) auk sænsku fyrningarlaganna (s. Preskriptionslagen 1981:130).
[12] Hér eftir skammstöfuð stjskr.
[13] Hafa ber í huga að hafi takmörkunin aðeins verið lögð á nokkra eigendur eigna af tiltekinni gerð þá er ekki lengur um almennar takmarkanir að ræða og mögulega kynni að vera brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjskr.; Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi., bls. 491 og Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur, bls. 555.
[14]Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 41.
[15] Víðir Smári Petersen: „Slit fyrningar og réttaráhrif þess að fyrningu er slitið“, bls. 335, 338.
[16] Hér eftir nefndur LÍN.
[17] Áþekka niðurstöðu er að finna í Hrd. 4. nóvember 2016 (712/2016). Þar hafði skuldari andmælt því að fjárnám yrði gert með þeim rökum að krafa sú sem krafist var fjárnáms í væri fyrnd með vísan til 2. mgr. 165. gr. gþl. Þá lá fyrir að skuldarinn hafði greitt í tvígang inná kröfuna innan tveggja ára fyrningarfrestsins. Vegna þessa taldi Hæstiréttur að skuldarinn hefði viðurkennt tilvist kröfunnar á hendur sér með innborgunum á hana og rofið fyrningarfrest kröfunnar, sbr. 6. gr. eldri fyrningarlaga.
[18] Í þessu samhengi ber að hafa í huga að ef mál er höfðað eftir að fyrningarfrestur er liðinn hefur málssóknin enga þýðingu enda krafan niður fallin og kröfuhafi hefur glatað rétti sínum til efnda. Málsókn hefur því einkum þau áhrif að slíta fyrningu ef krafa kröfuhafa er ekki þegar fyrnd: Víðir Smári Petersen: „Slit fyrningar og réttaráhrif þess að fyrningu er slitið“ bls. 335, 360.
[19] Þskj. 116, 108. löggjafarþ. 2010-11, bls. 2-3 (enn óbirt í A-deild Alþt.)
[20] Sambærilega niðurstöðu er að finna í Hrd. 2. nóvember 2017 (731/2016), Hrd. 2. nóvember 2017 (645/2016), Hrd. 2. nóvember 2017 (644/2016) og Hrd. 2. nóvember 2017 (643/2016).
[21] Þskj. 116, 108. löggjafarþ. 2010-11, bls. 2-3 (enn óbirt í A-deild Alþt.).
[22] Hér eftir skammstöfuð afl.
[23] Árið 2014 taldi þáverandi innanríkisráðherra ekki ástæðu til breytinga og að ekki þyrfti að staðfesta að ákvæðið væri enn í gildi heldur héldi það gildi sínu þar til lögum væri breytt: ÓN, 25. júní 2015, ræða hófst kl. 11:16 (enn óbirt í B-deild Alþt.).