Eftir Diljá Helgadóttur, lögfræðing, LL.M.
* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.
Efnisyfirlit
1 Inngangur
2 Skaðabótaábyrgð hluthafa gagnvart þrotabúi
3 Skaðabótaábyrgð annarra en hluthafa gagnvart þrotabúi
4 Lokaorð
Heimildaskrá
Dómaskrá
Ágrip
Í grein þessari er leitast við að skýra og gera grein fyrir rétti þrotabús til skaðabóta úr hendi hluthafa og annarra tengdra aðila samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og almennum reglum skaðabótaréttar. Samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum er hluthöfum skylt að bæta það tjón sem þeir hafa valdið félagi, öðrum hluthöfum eða þriðja aðila af ásetningi eða stórfelldu gáleysi með broti á lögunum eða samþykktum félagsins. Af dómaframkvæmd má enn fremur ráða að aðrir tengdir aðilar, svo sem endanlegir eigendur, móðurfélög, systurfélög og önnur félög í eigu eða undir yfirráðum sömu aðila geta einnig verið skaðabótaskyldir gagnvart félagi á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins. Markmið greinarinnar er að greina hverjir geti verið ábyrgir gagnvart þrotabúi á grundvelli áðurnefndra reglna og hvað þurfi til að koma svo til skaðabótaskyldu þeirra stofnist.
Abstract
This publication seeks to clarify and explain the right of damages to bankruptcy estate following article 134(2) of Act no. 2/1995 on Public Limited Companies, article 108(2) of Act no. 138/1994 on Private Companies and general tort law. The aforementioned provisions imply that shareholders are obliged to compensate for the damage they have caused to a company, other shareholders, or third parties intentionally or by gross negligence with a violation of Act no. 2/1995, Act no. 138/1994, or the company‘s articles of association. Caselaw indicates that other related parties, e.g. beneficial owners, parent companies, sister companies, and other companies owned or controlled by the same party may also be liable to a company based on general tort law. The purpose of the article is to identify who can be held liable towards a bankruptcy estate based on the aforementioned rules and the circumstances that can lead to tort liability of these parties.
1 Inngangur
Í XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir skammstöfuð „gþl.“) er að finna heimildir til riftunar tiltekinna ráðstafana þrotamanns og er um tæmandi talningu að ræða. Áður en til gjaldþrots kemur hefur skuldara oftast verið kunnugt um slæma fjárhagsstöðu sína í nokkurn tíma og að ólíklegt sé að honum takist að greiða skuldir eða efna samninga við kröfuhafa. Við þær aðstæður kann að vera að skuldari standi fremur skil á skuldum við kröfuhafa sem hann á í persónulegum tengslum við eða eru honum nákomnir. Einnig kann að vera hætta á að skuldari grípi til þess ráðs að skjóta eignum undan með það að markmiði að geta nýtt þær síðar. Ráðstafanir af þessu tagi hafa verið taldar sérstaklega varhugaverðar[1] enda kunna þær að rýra eignir þrotabús og um leið raska jafnræði kröfuhafa og rýra möguleika þeirra til fullnustu krafna sinna.[2] Skiptastjóri getur því að fullnægðum skilyrðum riftunarreglna gþl. rift ráðstöfunum sem þrotamaður hefur framkvæmt skömmu fyrir upphaf gjaldþrotaskipta.
Úrræði skiptastjóra til endurheimtar verðmæta eru ekki takmörkuð við riftunarreglur gþl.[3] Önnur úrræði kunna einnig að vera tæk. Til greina getur komið að þrotabú beini skaðabótakröfu að þriðja manni og fái þannig tjón sitt bætt.[4] Helsti kostur skaðabótakrafna umfram beitingu riftunarreglna gjaldþrotaskipta er sá að ólíkt riftunarreglum gþl. er skaðabótakrafa hvorki háð sérstökum málshöfðunarfresti, sbr. H 1987:1031, né tímaskilyrðum öðrum en þeim er leiða af ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og eftir atvikum reglum um tómlæti. Þá er ekki útilokað þótt ráðstöfun kunni að vera riftanleg, að hlutaðeigandi aðili sem riftunarkrafa kann að beinast gegn, verði þess í stað talinn bótaskyldur og gert að greiða skaðabætur í sérstöku skaðabótamáli. Við mat á því hvaða úrræði skuli beita við endurheimt verðmæta verður skiptastjóri að hafa hliðsjón af atvikum og aðstæðum hverju sinni.
Í grein þessari verður fjallað um skaðabótarétt þrotabús gagnvart hluthöfum og öðrum tengdum aðilum samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög (hér eftir skammstöfuð „hfl.“)[5], 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög (hér eftir skammstöfuð „ehfl.“) og almennum reglum skaðabótaréttar. Fræðilegt gildi greinarinnar felst í því að varpa ljósi á það hverjir geta verið skaðabótaskyldir gagnvart þrotabúi vegna tjóns sem þeir hafa valdið félagi áður en það er tekið til gjaldþrotaskipta.
2 Skaðabótaábyrgð hluthafa gagnvart þrotabúi
Fjallað er um skaðabótaskyldu hluthafa gagnvart félagi í 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl.[6] Þar kemur fram að hluthafi sé skyldur til að bæta tjón sem hann hefur valdið félagi, öðrum hluthöfum eða þriðja aðila af ásetningi eða stórfelldu gáleysi með broti á lögunum eða samþykktum félagsins. Af orðalagi ákvæðanna má ráða að þrjú skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo til skaðabótaskyldu stofnist. Í fyrsta lagi ná ákvæðin eingöngu til hluthafa en ekki annarra er hafa áhrif eða yfirráð yfir félagi. Ekki er gerð krafa um að hluthafar fari með tiltekið hlutfall atkvæðisréttar eða yfirráð yfir félagi með öðrum hætti. Því geta almennir hluthafar orðið skaðabótaskyldir gagnvart félagi að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðanna. Í öðru lagi þarf hluthafi að hafa valdið tjóni með broti á lögum er gilda um félagaform viðkomandi félags, þ.e. annað hvort hfl. eða ehfl., eða samþykktum þess. Hér getur til að mynda verið um að ræða brot gegn ákvæðum hfl. og ehfl. um úthlutanir fjármuna úr félögum.[7] Brot gegn ákvæðum annarra laga falla ekki hér undir.[8] Í þriðja lagi þarf hluthafi að hafa valdið félagi tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Einfalt gáleysi nægir því ekki til þess að baka hluthafa skaðabótaábyrgð. Hér er því ekki um að ræða jafn stranga útfærslu bótaábyrgðar og í tilviki stjórnenda og annarra þeirra sem eru taldir upp í 1. mgr. 134. gr. hfl. og 1. mgr. 108. gr. ehfl. Ástæðan fyrir þessu er sú að ólíkt stjórnendum hlutafélags gegna hluthafar ekki sérstöku hlutverki þegar kemur að hagsmunum félagsins eða annarra hluthafa. Þeir eru sjálfráðir um það hvort þeir taki þátt í stefnumótun félagsins sem fer fram á hluthafafundum eða hvort þeir sitji aðgerðarlausir. Á hinn bóginn hvíla strangari skyldur á stjórnendum félaga sem skylt er að sinna starfi sínu með hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Þrátt fyrir þetta ber hluthöfum ávallt að taka mið af jafnræðisreglu hfl. og grunnreglu 95. gr. hfl.[9] Meta þarf huglæg skilyrði skaðabótaábyrgðar gagnvart hverjum og einum hluthafa er valdið hefur tjóni. Við það mat kemur staða viðkomandi hluthafa til skoðunar. Ef um er að ræða ráðandi hluthafa má jafnvel ætla að hann hefði mátt átta sig á aðstæðum sem kynnu að fela í sér misnotkun og baki honum þar af leiðandi skaðabótaskyldu, ólíkt því sem ætti við í tilviki annarra hluthafa.[10]
Þegar hlutafélag eða einkahlutafélag á svo stóran hluta hlutafjár í öðru hlutafélagi eða einkahlutafélagi að hið fyrrnefnda fer með meirihluta atkvæða í því síðarnefnda telst fyrrnefnda félagið móðurfélag en hið síðarnefnda dótturfélag, sbr. 2. gr. hfl. og 2. gr. ehfl.[11] Hugsanlegt er að dótturfélag verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ákvarðana sem teknar hafa verið af móðurfélagi þess. Eins er hugsanlegt að móðurfélag grípi til ráðstafana, áður en til gjaldþrotaskipta dótturfélags kemur, sem eru til þess fallnar að skerða þær eignir sem annars rynnu til þrotabús dótturfélagsins. Þannig kann móðurfélag að grípa til þess ráðs að færa eignir úr dótturfélagi til sín eða annarra tengdra félaga eða aðila gegn óeðlilegu endurgjaldi. Af áðurnefndu eðli sambands móðurfélags og dótturfélags leiðir að líkur standa til þess að móðurfélag hafi beitt ráðandi hlut sínum í dótturfélaginu til þess að koma slíkum ráðstöfunum í kring.[12]
Aðstæður kunna einnig að vera með þeim hætti að formleg samstæðutengsl séu ekki til staðar en tengsl félaga séu engu að síður afar náin. Slík staða getur til að mynda verið fyrir hendi þegar hlutafélag eða einkahlutafélag er stór hluthafi í öðru hlutafélagi eða einkahlutafélagi án þess að teljast móðurfélag þess. Náin stjórnunar- og eignatengsl milli tveggja félaga geta einnig orðið þess valdandi að annað þeirra fari í raun með stjórn hins.[13] Erfitt er að svara því með almennum hætti hvenær félag fer raunverulega með stjórn annars félags ef samstæðutengsl eru ekki þeirra á milli. Er hér fremur um að ræða atriði sem færa þarf sönnur á í hverju einstöku máli með tilliti til atvika og aðstæðna hverju sinni. Við mat á því hvort unnt sé að byggja skaðabótaábyrgð á 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl. er eftir sem áður lykilatriði að staðreyna hvort tjónvaldur hafi verið hluthafi þess félags er varð fyrir tjóni. Ef sú er ekki raunin verður skaðabótaábyrgð ekki reist á fyrrnefndum ákvæðum.
Í H 292/2003 krafðist þrotabú TL ehf.[14] skaðabóta úr hendi TV ehf. og H hf. á grundvelli 134. gr. hfl., 108. gr. ehfl. og sakarreglunnar. Af hálfu þrotabús TL ehf. var því haldið fram að TV ehf. og H hf. hefðu valdið TL ehf. verulegu fjártjóni með því að hafa tekið til sín öll verðmæti félagsins og skilið kröfuhafa eftir með eignalaust bú. Þegar atvik málsins áttu sér stað voru TL ehf. og H hf. í eigu TV ehf. Var TV ehf. samkvæmt þessu móðurfélag TL ehf. og H hf., sbr. 1. mgr. 2. gr. ehfl. Nánar verður fjallað um skaðabótaskyldu H hf. gagnvart þrotabúi TL ehf. í næsta kafla.
Gagnvart TV ehf. byggði þrotabú TL ehf. m.a. á því að skilyrði til úthlutunar fjármuna til hluthafa samkvæmt ákvæðum XII. kafla hfl. og ehfl. hefðu ekki verið uppfyllt. Byggði þrotabú TL ehf. einnig á því að TV ehf. hefði ráðstafað umræddum fjármunum í skjóli yfirburðavalds samkvæmt X. kafla hfl. og ehfl. og brotið með saknæmum og ólögmætum hætti gegn 76. og 95. gr. hfl. Um skaðabótaskyldu TV ehf. sagði m.a. í forsendum Hæstaréttar:
Svo sem áður var getið var [TV ehf.] móðurfélag hins gjaldþrota félags. Verður lagt til grundvallar að stjórn síðarnefnda félagsins hafi ekki verið unnt að ráðstafa eignum þess í svo ríkum mæli sem gert var án þess að það væri gert með vilja og fullri vitneskju stjórnar [TV ehf.]. Af skýrslum tveggja stjórnarmanna [TV ehf.] hjá skiptastjóra og fyrir dómi verður heldur ekkert annað ráðið en að sú hafi verið raunin. Breytir þá engu að ráðstöfun eignanna var ekki gerð móðurfélaginu sjálfu til hagsbóta heldur öðru dótturfélagi þess, stefnda Húsasmiðjunni hf. Voru engin skilyrði til þess að eigandi Teppalands hf. gæti tekið verðmætin út úr félaginu á grundvelli VII. eða XII. kafla laga nr. 2/1995 eða sambærilegra ákvæða í lögum nr. 138/1994 og engin formleg ákvörðun var heldur tekin í þá veru. Er niðurstaðan af því, sem að framan greinir sú, að þessi stefndi er skaðabótaskyldur gagnvart áfrýjanda samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Almennar skaðabótareglur leiða til sömu niðurstöðu. (áherslubr. höf.)
Skaðabótaskylda TV ehf. var byggð á 2. mgr. 108. gr. ehfl. enda var félagið móðurfélag TL ehf. og þar með hluthafi þess. Í forsendum Hæstaréttar er sérstaklega tekið fram að almennar reglur skaðabótaréttar myndu leiða til sömu niðurstöðu. Hlutlæg skilyrði 2. mgr. 108. gr. ehfl. voru uppfyllt þar sem skilyrði til úthlutunar verðmæta samkvæmt VII. og XII. kafla hfl. og sambærilegra ákvæða ehfl. voru ekki uppfyllt. Þá voru formskilyrði fyrir úthlutun verðmæta heldur ekki uppfyllt. Við mat á saknæmi lagði Hæstiréttur síðan til grundvallar að stjórn TL ehf. hefði ekki getað ráðstafað fjármunum sínum með þeim hætti sem gert var án þess það væri gert með vilja og fullri vitneskju stjórnar TV ehf. Hæstiréttur tekur ekki sérstaklega fram hvort um ásetning eða stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Að mati höfundar bendir orðalagið til þess að tjóninu hafi verið valdið af ásetningi. Engu var talið breyta þó ráðstöfun fjármunanna hafi ekki verið gerð til hagsbóta TV ehf. heldur H hf. Er sú niðurstaða í samræmi við orðalag 2. mgr. 108. gr. ehfl. enda er þar ekki gerður áskilnaður um auðgun tjónvalds.
3 Skaðabótaábyrgð annarra en hluthafa gagnvart þrotabúi
Sú staða kann að vera fyrir hendi að tjónvaldur hafi ekki verið hluthafi í félagi sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta en hafi engu að síður verið í aðstöðu til að hafa áhrif á ákvarðanatöku og rekstur félagsins. Við þær aðstæður vaknar sú spurning hvort viðkomandi kunni að vera skaðabótaskyldur gagnvart þrotabúi vegna tjóns sem hann hefur valdið því. Í þessum kafla verður fjallað um skaðabótaskyldu annarra en hluthafa gagnvart þrotabúi vegna tjóns sem þeir hafa valdið því.
Í áðurnefndum H 292/2003 hafði þrotabú TL ehf. ekki aðeins uppi kröfu á hendur TV ehf., sem hafði verið móðurfélag TL ehf., heldur einnig H hf., sem hafði verið systurfélag TL ehf. Hæstiréttur féllst á skaðabótaskyldu H hf. sem byggð var á því að H hf. hefði ásamt TV ehf. farið með raunveruleg yfirráð yfir TL ehf. Af bréfum sem lögð höfðu verið fram í málinu mátti ráða að H hf. hefði stjórnað samningaviðræðum um kaup á TL hf. og komið fram sem væntanlegur kaupandi í viðræðunum. Bréfin voru undirrituð af stjórnarformanni H hf. sem jafnframt sat í stjórn TV ehf. Ákvörðun um að gera kaupin í nafni TV ehf. var ekki tekin fyrr en skömmu áður en þau fóru fram. Taldi Hæstiréttur að stjórnarformaður TL ehf. hefði notið takmarkaðs sjálfstæðis gagnvart H hf. um töku ákvarðana með jafnræði kröfuhafa að leiðarljósi þegar sýnt mátti vera að í erfiðleika stefndi. Þá átti annar stjórnarmaður sem einnig var framkvæmdastjóri TL ehf. jafnframt sæti í stjórnum bæði TV ehf. og H hf. Um þetta sagði Hæstiréttur:
Voru allir þræðir þannig í sömu hendi til að taka samræmda ákvörðun fyrir öll félögin í senn. Er ekki varhugavert að leggja til grundvallar niðurstöðu að báðir stefndu [TV ehf. og H hf.] hafi haft raunveruleg yfirráð yfir Teppalandi hf. og að ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995 taki til stefnda Húsasmiðjunnar hf. sem móðurfélags Teppalands hf. […] Stuðluðu stefndu [TV ehf. og H hf.] að því í sameiningu að eignir dótturfélags þeirra gengju að verulegu leyti til Húsasmiðjunnar hf. og báru um leið fyrir borð hagsmuni annarra kröfuhafa. Ber stefndi Húsasmiðjan hf. skaðabótaábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum á tjóni, sem áfrýjandi [þrotabú TL rúllna ehf.] varð fyrir af þeim sökum. (áherslubr. höf.)
Af ofangreindum forsendum Hæstaréttar má ráða að skaðabótaskylda H hf. hafi byggt á almennum reglum skaðabótaréttar. Þrátt fyrir að hafa ekki verið hluthafi TL ehf. hafði H hf. engu að síður yfirráð yfir hinu fyrrnefnda félagi vegna náinna stjórnunar- og eignatengsla sem rakin eru að ofan. Taldi Hæstiréttur að tengslin væru svo náin að allir þræðir hafi verið í sömu hendi til að taka samræmda ákvörðun fyrir öll félögin í senn. Því hefðu TV ehf. og H hf. farið saman með raunveruleg yfirráð yfir TL ehf.
Hér vísast einnig til L 362/2018. Í málinu krafðist þrotabú B ehf.[15] skaðabóta óskipt úr hendi H, Á ehf. og B Ltd. vegna sölu á þyrlu sem hafði verið í eigu B ehf. til félagsins B Ltd. H hafði verið sakfelldur fyrir umboðssvik í H 452/2016 vegna sölu B ehf. á þyrlunni til B Ltd. H hafði verið eini eigandi B Ltd., kaupanda þyrlunnar, og sömuleiðis eini eigandi Á ehf., móðurfélags B ehf., seljanda þyrlunnar.
Í dómi Landsréttar var talið að sú ráðstöfun sem H hafði komið til leiðar, persónulega og í gegnum einkahlutafélög sín, hefði valdið B ehf. tjóni enda hefði ekkert endurgjald komið fyrir þyrluna. Skaðabótaábyrgð H var byggð á sakarreglunni og var hann talinn hafa valdið B hf. tjóni með saknæmum, ólögmætum og refsiverðum hætti. Um yfirráð H yfir félögunum og aðkomu hans að ráðstöfuninni sagði eftirfarandi í forsendum dóms héraðsdóms sem staðfestar voru að þessu leyti af Landsrétti:
Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, var stefndi Hermann Eyjólfsson eini eigandi stefnda Árnýjar ehf., en það félag átti allt hlutafé í B 230 hf. þegar þyrlunni var ráðstafað með afsalinu 3. nóvember 2009. Stefndi Hermann var eini eigandi Birken Ltd., sem keypti þyrluna. Samkvæmt því er ljóst að ótvíræð eignatengsl voru milli stefnda Árnýjar ehf. og stefnda Birken Ltd. Stefndi Hermann átti aðkomu að samningagerð beggja megin borðsins og nýtti til þess eignarráð sín og yfirráð yfir stefnda Árnýju ehf. og gaf fyrirmæli um viðskiptin, sbr. framburð A hjá skiptastjóra, sem hann staðfesti í vitnaskýrslu sinni við aðalmeðferð máls þessa. Með vísan til þessa verður að telja að stefndi Hermann Eyjólfsson hafi verið í raunverulegri aðstöðu til að taka ákvörðun um viðskiptin þótt hann gegndi engri formlegri stöðu hjá B 230 hf. (áherslubr. höf.)
Framangreind umfjöllun er að mörgu leyti sambærileg forsendum Hæstaréttar í H 292/2003, sem áður hefur verið fjallað um. Þannig virðist lykilatriðið við mat á skaðabótaskyldu tjónvalds sem ekki var hluthafi vera að staðreyna raunveruleg yfirráð hans eða aðstöðu til þess að taka ákvörðun sem veldur tjóni. Þrátt fyrir að H hafi ekki verið hluthafi B ehf. var hann engu að síður talinn hafa haft aðkomu að samningagerð beggja megin borðsins. H var eini eigandi Á ehf. sem síðan var eini eigandi B ehf. þegar sala á þyrlunni fór fram. H var síðan einnig eigandi B Ltd., kaupanda þyrlunnar. Samkvæmt þessu voru ótvíræð eignatengsl milli Á ehf. og B Ltd. H var talinn hafa nýtt eignar- og yfirráð sín yfir Á ehf. og gefið fyrirmæli um viðskiptin. Var hann því talinn hafa verið í raunverulegri aðstöðu til þess að taka ákvörðun um þau þó hann hafi hvorki verið hluthafi né gegnt formlegri stöðu hjá B ehf.
Krafa þrotabús B ehf. um skaðabætur úr hendi Á ehf. byggði á sakarreglunni, 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl. Á ehf. var sem fyrr segir móðurfélag B ehf. og mynduðu félögin þannig samstæðu í skilningi 1. mgr. 2. gr. hfl. og 1. mgr. 2. gr. ehfl. Talið var að í gegnum eignarhald sitt á Á ehf. hefði H komið því til leiðar í krafti hlutafjáreignar sinnar í Á ehf. að þyrlunni yrði ráðstafað til B Ltd. Þannig hefði Á ehf. verið óslítandi hlekkur í því að þessi ráðstöfun var með þeim hætti sem raun varð á. Með hliðsjón af þessu var talið að Á ehf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóni B ehf. með vísan til sakarreglunnar og 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl.
Kröfur þrotabús B ehf. á hendur B Ltd. voru reistar á sakarreglunni og almennri auðgunarreglu. Í forsendum héraðsdóms sem staðfestar voru að þessu leyti af Landsrétti kom fram að B Ltd. hefði verið í eigu H og notið alls ágóða af ráðstöfun á þyrlunni. B Ltd. var talið órjúfanlegur hlekkur í ólögmætri háttsemi stefndu sem miðaði að því að ráðstafa þyrlunni án þess að raunverulegt kaupverð hefði verið greitt. Fallist var á skaðabótaskyldu B Ltd. á grundvelli sakarreglunnar þar sem félaginu var með saknæmum og ólögmætum hætti aflað fjárhagslegra hagsmuna á kostnað B ehf. og kröfuhafa félagsins. Samkvæmt þessu er ljóst að viðtakandi fjármuna kann að vera skaðabótaskyldur gagnvart þrotabúi á grundvelli sakarreglunnar hafi hann verið órjúfanlegur hlekkur ráðstöfunar og notið fjárhagslegs ávinnings af henni.
Í L 155/2018 krafði þrotabú E ehf. SGS, sem hafði verið endanlegur eigandi E ehf., um skaðabætur vegna tjóns sem þrotabúið hafði orðið fyrir vegna greiðslu E ehf. á skuld við E Ltd. Byggði þrotabúið kröfu sína á því að SGS hefði sem endanlegur eigandi E ehf. gefið fyrirmæli um greiðslu skuldar við E Ltd. þrátt fyrir að hafa þá verið grandsamur um ógjaldfærni félagsins. Af þeim sökum bæri hann skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu skaðabótareglunnar á því tjóni sem þrotabúið hefði orðið fyrir vegna greiðslu skuldarinnar. Fyrir lá að SGS var eigandi allra hluta í E ehf. og S ehf. í gegnum L ehf. E ehf. hafði annast innflutning og dreifingu hráefnis til S ehf., m.a. frá E Ltd.
Í málinu lágu fyrir milliliðalaus samskipti SGS við FF sem hafði milligöngu um greiðslu skuldarinnar, þar sem sá fyrrnefndi lagði áherslu á að umrædd skuld yrði greidd. FF starfaði sem rekstrarráðgjafi fyrir félagið E ehf. en gegndi hvorki stöðu framkvæmdastjóra né stjórnarmanns. Hafði SGS augljósa viðskiptalega hagsmuni af því uppgjöri í ljósi eignarhalds síns á S ehf. í gegnum eignarhaldsfélagið L ehf. Í forsendum Landsréttar sagði m.a.:
[…] verður lagt til grundvallar að stefndi [SGS] hafi í skjóli eignarhalds síns í EK 1923 ehf. í gegnum Leiti eignarhaldsfélag ehf. með beinum eða óbeinum hætti gefið fyrirmæli í ágúst 2016 um að skuldin við Evron Foods Ltd. yrði greidd. Þótt stefndi [SGS] hafi ekki verið stjórnarmaður í EK 1923 ehf. þegar fyrirmæli voru gefin liggur fyrir að stjórnarmaður félagsins sótti umboð sitt til hans sem eina eiganda félagsins. Samkvæmt því var hann í aðstöðu í skjóli eignarhalds síns til að hafa fyrrgreind áhrif á ákvarðanatöku innan félagsins. (áherslubr. höf.)
Þrátt fyrir að SGS hafi hvorki verið stjórnarmaður né prókúruhafi í E ehf. var talið að hann hefði í krafti eignarhalds síns komið umræddri ráðstöfun til leiðar. Var því fallist á að SGS bæri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af hlaust. Skaðabótaskylda SGS var byggð á sakarreglunni en ekki 2. mgr. 108. gr. ehfl. enda var SGS sem fyrr segir ekki hluthafi í E ehf. þó hann hafi verið raunverulegur eigandi í gegnum eignarhald sitt í L ehf. Sótt var um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar en ekki var á það fallist, sbr. ákvörðun Hæstaréttar 22. janúar 2019 nr. 2019-12.
4 Lokaorð
Í framangreindri umfjöllun hefur verið leitast við að greina ákvæði 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl. til að varpa ljósi á þá aðila sem kunna að bera skaðabótaábyrgð samkvæmt ákvæðunum gagnvart þrotabúi. Þessi ákvæði bera með sér að hluthöfum er skylt að bæta það tjón sem þeir hafa valdið félagi, öðrum hluthöfum eða þriðja aðila af ásetningi eða stórfelldu gáleysi með broti á lögunum eða samþykktum félagsins. Af dómaframkvæmd má ráða að aðrir tengdir aðilar, svo sem endanlegir eigendur, móðurfélög, systurfélög og önnur félög í eigu eða undir yfirráðum sömu aðila geta einnig verið skaðabótaskyldir gagnvart félagi á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins.
Þrotabú getur átt skaðabótakröfu á hendur hluthafa á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins, 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl. Við mat á saknæmi virðist minna þurfa til ef tjónvaldur er móðurfélag, eða ráðandi hluthafi eða eigandi allra hluta, sé um einkahlutafélag að ræða. Ástæðan fyrir þessu er sú að móðurfélag er stöðu sinnar vegna í aðstöðu til að hafa áhrif á ákvarðanatöku félags fyrir gjaldþrot, sbr. H 292/2003.
Af L 362/2018 má ráða að móðurfélag geti einnig orðið skaðabótaskylt ásamt endanlegum eiganda samstæðu verði það talið óslítandi hlekkur ráðstöfunar er olli tjóni.
Þá kann þrotabú að eiga skaðabótakröfu á hendur endanlegum eiganda þar sem hann kann að vera í aðstöðu til að hafa áhrif á ákvarðanir innan félags. Til viðbótar þurfa skilyrði skaðabótaskyldu samkvæmt sakarreglunni að vera uppfyllt. Sjá í því sambandi L 155/2018 og L 362/2018.
Loks er hugsanlegt að þrotabú geti haft uppi skaðabótakröfu á hendur systurfélagi. Þetta kann að vera í tilvikum þar sem systurfélag hefur farið með raunveruleg yfirráð yfir félaginu fyrir gjaldþrot, sbr. H 292/2003. Einnig kemur til greina að systurfélag geti orðið skaðabótaskylt sem viðtakandi fjármuna úr félagi fyrir gjaldþrot. Vísast í þessu sambandi til dóms L 362/2018.
Heimildaskrá
Ása Ólafsdóttir: „Almenn skilyrði riftunar við gjaldþrotaskipti“. Stefánsbók. Rit til heiðurs Stefáni Má Stefánssyni. Reykjavík 2018.
Diljá Helgadóttir: „Kröfur þrotabús vegna óheimilla úthlutana úr félagi“. Tímarit Lögréttu, 15. tbl. 2019, bls. 1-30.
Eiríkur Jónsson og Viðar Már Matthíasson: Bótaréttur I. Reykjavík 2015.
Filip Truyen: Aksjonærenes myndighetsmisbruk – en studie av asl./asal. § 5-21 og uskrevne misbruksprinsipper. Bergen 2005.
Grímur Sigurðsson: „Skaðabótaábyrgð hluthafa“. Afmælisrit. Viðar Már Matthíasson sextugur. Reykjavík 2014.
Jan Hellner og Marcus Radetzki: Skadeståndsrätt. Stokkhólmur 2014.
Skýrsla Lagastofnunar um minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum 30. september 2009.
Stefán Már Stefánsson: Hlutafélagaréttur. Reykjavík 2013.
Stefán Már Stefánsson: Íslenskur gjaldþrotaréttur. Reykjavík 1982.
Viðar Már Matthíasson: Endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Reykjavík 2011.
Dómaskrá
Dómar Hæstaréttar Íslands
H 1987:1031
H 292/2003
H 452/2016
H 325/2017
Dómar Landsréttar
L 155/2018
L 362/2018
Ákvarðanir Hæstaréttar
Ákvörðun Hæstaréttar 22. janúar 2019 nr. 2019-12
[1] Stefán Már Stefánsson: Íslenskur gjaldþrotaréttur (1982), bls. 152-153; Viðar Már Matthíasson: Endurheimt verðmæta við gjaldþrot (2011), bls. 65.
[2] Ása Ólafsdóttir: „Almenn skilyrði riftunar við gjaldþrotaskipti“ (2018), bls. 3.
[3] Sjá umfjöllun um önnur úrræði þrotabús t.d. í: Diljá Helgadóttir: „Kröfur þrotabús vegna óheimilla úthlutana úr félagi“ (2019), bls. 1-30.
[4] Viðar Már Matthíasson: Endurheimt verðmæta við gjaldþrot (2011), bls. 75.
[5] Þegar vísað er til hfl. er einnig vísað til ehfl., nema annað sé tekið fram.
[6] Eiríkur Jónsson og Viðar Már Matthíasson: Bótaréttur I (2015), bls. 93.
[7] Sjá til hliðsjónar H 292/2003.
[8] Alþt. 1977-78, A-deild, þskj. 51 – 49. mál.
[9] Grímur Sigurðsson: „Skaðabótaábyrgð hluthafa“ (2014), bls. 179-198. Sjá einnig: Skýrsla lagastofnunar um minnihlutavernd í hlutafélögum og einkahlutafélögum (2009), bls. 76-78.
[10] Filip Truyen: Aksjonærenes myndighetsmisbruk (2005), bls. 371.
[11] Stefán Már Stefánsson: Hlutafélagaréttur (2013), bls. 387.
[12] Stefán Már Stefánsson: Hlutafélagaréttur (2013), bls. 391-392.
[13] Stefán Már Stefánsson: Hlutafélagaréttur (2013), bls. 391-392.
[14] Félagið var áður hlutafélagið Teppaland hf. en félagaforminu var breytt í ehf. áður en til gjaldþrots kom.
[15] Félagið var áður hlutafélagið B 230 hf. en félagaforminu var breytt í ehf. áður en til gjaldþrots kom.