Þegar þær verða sjö? Hugleiðing um konur á dómarabekk í kjölfar andláts Ruth Bader Ginsburg*

Eftir Maríu Rún Bjarnadóttur, lögfræðing og stofnanda aðdáendaklúbbs RBG á Íslandi.

* Grein þessi hefur ekki verið ritrýnd.

Efnisyfirlit

1 Inngangur
2 Konur í Hæstarétti
3 Hvað er jafnrétti?
4 Lagalegar lausnir
4.1 Almennt
4.2 Sértækar aðgerðir
4.3 Forgangsregla
4.4 Hæfisnefnd um skipan dómara
5 Skiptir kyn dómara máli?
6 Lokaorð
Heimildaskrá
Dómaskrá
Lagaskrá


1 Inngangur

Við andlát Ruth Bader Ginsburg, sem hefur verið andlit hins frjálslynda arms í Hæstarétti Bandaríkjanna, hefur umræða skapast um arftaka hennar á dómarabekk. Ferli við skipan dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna er nokkuð ólíkt því sem gildir á Íslandi, en afstaða dómaraefna til álitaefna á sviði lögfræði, stjórnmála og hugmyndafræði er meðal þess sem horft er til við skipan þar. Ekki verður fjölyrt um þær aðstæður sem nú eru uppi í bandarískum stjórnmálum, en Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt alríkisdómarann Amy Coney Barrett til setu í dóminum. Um tilnefninguna hefur skapast nokkur styr, meðal annars vegna þeirra íhaldssömu sjónarmiða sem dómarinn leggur til grundvallar í leik og starfi. Pólítískir andstæðingar forsetans og kvenréttindasamtök eru meðal þeirra sem telja mikilvægt að skipun Barrett verði ekki staðfest af þinginu vegna afstöðu hennar til lagalegra álitaefna á borð við rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama, umhverfisvernd og stöðu hinsegin fólks.[1]

Sambærilegar vangaveltur verða seint þungamiðja skipunar dómara við Hæstarétt Íslands, enda eru þeir mælikvarðar sem lagðir er til grundvallar við hæfismat dómara við Hæstarétt Íslands nokkuð hlutlægari þó að fyrirkomulagið hafi ekki þótt gallalaust í framkvæmd. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á jafnrétti kynjanna um árabil og hefur rýr hlutur kvenna á dómarabekk Hæstaréttar reglulega komið til umræðu í því samhengi. Í þessari grein er stiklað á stóru um skipan dómara í Hæstarétt Íslands í ljósi ákalls um kynjajafnrétti.

2 Konur í Hæstarétti 

Konur eru nú um þriðjungur dómarastéttarinnar, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Það á þó ekki við um æðstu dómstóla ríkjanna.[2] Af fimm dómurum við Hæstarétt Íslands er ein þeirra kona.[3] Í Hæstarétti Bandaríkjanna eiga sæti tvær konur og sex karlar.[4]

Markmið íslenska löggjafans hefur um árabil verið að jafna stöðu kynjanna og gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til þess að styðja við þátttöku kvenna í stjórnmálum og áhrifastofnunum samfélagsins.[5] Hins vegar hafa langtum færri konur en karlar verið skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands og ekki verið ráðist í neinar aðgerðir til að breyta því. Frá því að dómstólnum var komið á laggirnar árið 1920 hafa 43 karlar gegnt embætti hæstaréttardómara og fjórar konur. Guðrún Erlendsdóttir var fyrst kvenna sett dómari við réttinn árið 1982 og skipuð í embætti dómara fjórum árum síðar, árið 1986.[6] Til samanburðar starfaði Hæstiréttur Bandaríkjanna frá 1790 til 1981 án þess að kona ætti sæti á dómarabekk. Þar, eins og á Íslandi, hafa fjórar konur gegnt embætti hæstaréttardómara.[7]

3 Hvað er jafnrétti?

Jafnrétti og frelsi hefur verið lýst sem hinum tveimur stóru gildum sem jafnframt takast helst á, ekki síst við setningu laga.[8] Margar réttarheimspekikenningar líta á jafnrétti og frelsi sem andstæður þar sem jafnrétti feli í sér takmarkanir á frelsi einhverra og frelsi takmarki að einhverju leyti að jafnrétti verði náð.[9] Aðrar kenningar hafa þó einnig náð fótfestu, eins og kenningar Ronald Dworkin sem leit á jafnrétti sem eina af helstu dyggðum lýðræðislegs velferðarsamfélags sem hefði gildi í sjálfu sér og væri grundvallarréttur.[10] Þá hefur því verið haldið fram að jafnrétti sé grundvallarþáttur mannréttinda, frekar en að það sé af þeim leitt.[11] Þó er nokkuð óumdeilt að sameiginleg mennska mótar hugmyndina um jafnrétti. Í þessari hugsun eiga jafnræðisreglur rætur og ástæður þess að talið hefur verið að réttlæta verði sérhverja mismunun fólks með málefnalegum hætti.[12]

Pólítísk umræða um jafnrétti kynjanna hefur oft markast af andstæðum sjónarmiðum um réttmæti inngrips ríkisvaldsins með lagasetningu í þeim tilgangi að stuðla að jafnrétti kynjanna eða draga úr misrétti. Þar sem slík umræða fer fram ræðst niðurstaðan ekki aðeins af virði þeirra gilda sem um ræðir heldur skiptir líka máli hvernig hið pólitíska, lagalega og menningarlega umhverfi er. Þessi viðmið geta verið ólík á milli ríkja og landssvæða en þau geta einnig tekið breytingum innan ríkja.[13] Mælikvarði á jafnrétti verður þannig aldrei algildur, hvorki í einstökum samfélögum né í samanburði þeirra á milli. Hins vegar hefur verið leitast við að draga fram þætti sem taldir eru til merkis um jafnrétti í samfélögum og nýta þau viðmið til að „mæla jafnrétti“ á heimsvísu. Ísland hefur raðað sér efst á lista ríkja hvað varðar jafnrétti kynjanna í röskan áratug, og fátt bendir til þess að stjórnvöld stefni að öðru en að viðhalda þeim árangri.[14] Meðal þeirra viðmiða sem horft er til við þetta mat er til að mynda hversu margar konur gegni lykilstöðum í samfélaginu og má ætla að embætti dómara séu þar á meðal.[15]

4 Lagalegar lausnir

4.1 Almennt

Framan af voru aðeins karlar þingmenn og dómarar á Íslandi, eins og annars staðar í heiminum. Karlar bæði settu lögin og túlkuðu þau.[16] Gríðarleg framfaraskref hafa verið stigin í átt að auknu kynjajafnrétti á öllum sviðum frá því að pólitíska hugmyndafræðin femínismi varð til fyrir um 150 árum.[17] Þetta hefur meðal annars átt sér stað í krafti lagasetningar.

Gildandi jafnréttislög, lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (hér eftir „jafnréttislög“), fólu meðal annars í sér  breytingar á stofnanauppbyggingu jafnréttismála, áherslu á skyldu stjórnvalda til þess að vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða, bæði að efni og formi, í stefnumótun og áætlanagerð og ríkari skyldum atvinnurekenda til þess að tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Þá fólu lögin í sér innleiðingu á skuldbindingum stjórnvalda varðandi jafnrétti og stöðu kvenna á vinnumarkaði í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum.[18] Lögin voru sett til að jafna stöðu kynjanna, þar sem hallaði á konur, en þó standa vörð um réttindi bæði kvenna og karla.[19] Nálgunin er því kynjuð að því marki að hún tekur mið af ójafnri stöðu kynjanna sem löggjöfinni er ætlað að rétta af. Þetta er ólíkt nálgun fyrstu jafnréttislaganna frá 1976, sem byggðu á kynhlutleysi með áherslu á jafnrétti kynjanna, fremur en leiðréttingu á stöðu kvenna.[20] Tilkynnt hefur verið um heildarendurskoðun jafnréttislaga og forsætisráðherra stefnir á að leggja fram tvö frumvörp sem eiga að taka við gildandi jafnréttislögum.[21]

4.2 Sértækar aðgerðir

Í lögum margra ríkja er fjallað um ýmiss konar ívilnanir, fyrirgreiðslur, forgang eða sérstaka meðferð sem miða að því að leiðrétta stöðu einstaklinga sem tilheyra tilteknum hópum í samfélaginu sem hafa með einhverjum hætti verið undirokaðir eða sætt óréttmætri mismunun.[22] Í bandarískum rétti er fjallað um jákvæða mismunun (e. affirmative action) í þágu fleiri hópa en þeirra sem sætt hafa mismunun á grundvelli kyns. Þannig eru til að mynda mörg dæmi úr bandarískri réttarframkvæmd um aðgerðir til þess að leiðrétta stöðu fólks sem sætt hefur mismunun með vísan til uppruna þess.[23] Í evrópskum rétti  hefur verið fjallað um jákvæðar aðgerðir (e. positive action) sem taka til þess að vinna að jafnrétti kynjanna á hinum ýmsu sviðum.[24] Ein regla sem þróast hefur er um svokallaðar sértækar aðgerðir og er meðal annars orðuð í 4. gr. samningsins um afnám alls misréttis gegn konum. Þar segir: „[g]eri aðildarríki sérstakar bráðabirgðaráðstafanir sem miða að því að flýta fyrir að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna náist skal það ekki talið mismunun eins og það er skilgreint í samningi þessum, en skal ekki á neinn hátt hafa í för með sér að ójöfnum eða ólíkum skilyrðum sé viðhaldið. Ráðstafanir þessar skulu felldar niður þegar markmiðunum um sömu tækifæri og meðferð hefur verið náð.“[25]

Ákvæði 2. mgr. 24. gr. jafnréttislaga kveður á um að sértækar aðgerðir gangi ekki gegn lögunum. Sértækar aðgerðir eru skilgreindar í 2. gr. sem „[s]érstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi.“ Í þessu felst að íslenska reglan er takmarkaðri en bæði sú bandaríska og evrópska, þar sem sérstaklega er tilgreint að aðgerðir á grundvelli ákvæðisins séu „tímabundnar“.[26]

Til viðbótar ákvæði jafnréttislaga eru sértækar aðgerðir í þágu jafnréttis kynjanna heimilaðar á nokkrum afmörkuðum sviðum í íslenskri löggjöf, þó ekki hafi reynt oft á inntak þeirra í réttarframkvæmd. Eitt mál hefur komið til úrlausnar kærunefndar jafnréttismála af slíkum toga. Með úrskurði sínum í máli nr. 8/2011 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að húsmæðraorlof á grundvelli laga um húsmæðraorlof nr. 53/1972 sem veita konum sérstakan rétt á orlofsferðum á vegum sveitarfélaga, væri sértæk aðgerð í skilningi jafnréttislaga og heimilt væri að mismuna um rétt til þátttöku í orlofsferðinni á grundvelli kyns.[27]

4.3 Forgangsregla

Ein beiting jafnréttisreglunnar hefur verið kölluð forgangsregla, enda felur hún í sér forgangsáhrif við tilteknar aðstæður í afmörkuðum og skýrum tilgangi. Reglan hefur einnig verið kölluð „sérstök jafnræðisregla“. Í reglunni felst, eins og henni hefur verið beitt af dómstólum, að veita skuli konu starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin um menntun og annað sem máli skiptir og annar umsækjandi um sama starf af gagnstæðu kyni, enda séu fáar konur á starfssviðinu. Reglan á því við þegar karl og kona eru metin jafnhæf til þess að gegna starfi.[28] Í slíkum tilvikum ber veitingarvaldshafa að horfa til kynferðis umsækjenda og skipa það þeirra sem tilheyrir því kyni sem á hallar í starfsstéttinni. Í íslenskum rétti hefur helst reynt á regluna við skipan í opinber embætti eða ráðningu í störf, en um helmingur allra mála sem komu til kasta kærunefndar jafnréttismála frá gildistöku gildandi jafnréttislaga árið 2008 til ársins 2019 varðar hæfismat við starfsráðningu eða skipan í embætti.[29] Á umliðnum árum hafa skipanir í embætti dómara, sérstaklega við Hæstarétt Íslands, vakið athygli í þessu samhengi.

4.4 Hæfisnefnd um skipan dómara

Sérstök hæfisnefnd sér um mat á umsóknum um embætti dómara og veitir ráðherra umsögn um hæfi umsækjenda. Ráðherra þarf að hafa sérstakar ástæður til þess að ganga gegn niðurstöðu nefndarinnar.[30] Fyrirkomulaginu er ætlað að draga úr pólitískum áhrifum við skipan dómara. Nefndin er skipuð einstaklingum sem tilnefndir eru af nokkrum aðilum, þar á meðal Hæstarétti og Lögmannafélagi Íslands. Við skipan dómara í Hæstarétt árið 2010 varð nokkur umræða um gildissvið jafnréttislaga gagnvart öðrum lögum þegar hæfisnefndin var einvörðungu skipuð körlum, þrátt fyrir ákvæði 15. gr. jafnréttislaga um að tilnefningaraðili skuli tilnefna bæði karl og konu. Innanríkisráðuneytið, sem þá fór með málefni dómsmála, vakti athygli á þessu við dómstólaráð. Í því ferli kom fram að hvorki Hæstiréttur né  Lögmannafélags Íslands töldu sig bundin af skyldu ákvæðisins um tilnefningu þar sem ákvæði dómstólalaga gengu framar jafnréttislögum, í samræmi við gildandi lögskýringarsjónarmið um að sérlög gangi framar almennum lögum.[31] Þessi nálgun er þó ekki óumdeild. Til að mynda hefur verið bent á þá viðurkenndu lögskýringarreglu að þegar ákvæði ólíkra laga eiga við um sama tilvik, beri almennt að leitast við að túlka ákvæðin svo þau verði samrýmanleg áður en forgangsreglum líkt og reglunni um sérlög er beitt, og líta megi á jafnréttislögin sem sérlög varðandi jafnrétti kynjanna.[32]

Í tengslum við skipan dómara við réttinn árið 2015 kom fram að afstaða Hæstaréttar og Lögmannafélags Íslands til gildissviðs laganna var sú sama og árið 2010. Af þessu tilefni sendi Félag kvenna í lögmennsku frá sér yfirlýsingu þar sem það taldi afstöðu Lögmannafélagsins til málsins ótæka og til þess fallna að „draga úr áhrifum jafn­rétt­islaga á vinnu­mark­aði sem og ann­ars staðar í sam­fé­lag­in­u.“[33] Reglan um tilnefningu í nefndir og ráð stendur bæði í reynd og í umræðu afar nærri forgangsreglu jafnréttislaganna, þar sem um er að ræða skipan þeirra sem taka ákvörðun um hæfismat sem ræður því hvort að forgangsreglunni verði beitt eður ei. Hér verður ekki fullyrt hvort að hæfismat umsækjenda yrði annað ef kynjasamsetning nefndarmanna væri annars konar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að það skiptir máli fyrir framkvæmd laga hvernig stofnanir samfélagsins eru mannaðar[34] og að það er mikilvægt að hæfileikar kvenna séu metnir að verðleikum þegar hæfi til dómarastarfa er metið.[35] Úr þessu var reynt að leysa með setningu 11. gr. laga um dómstóla nr. 50 frá 7. júní 2016:

„Tilnefningaraðilar skulu tilnefna bæði karl og konu, jafnt í sæti aðalmanns sem varamanns, en heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Ráðherra skal gæta þess við skipun í nefndina að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í ráð og nefndir sé fullnægt.“

5 Skiptir kyn dómara máli?

Erfitt er að fullyrða um hvaða áhrif kyn dómara hefur á meðferð mála hjá dómstólum og ekki er hægt að slá því föstu að konur dæmi öðruvísi en karlar.[36] Sigríður Ingvarsdóttir telur mikilvægt fyrir ásýnd og trúverðugleika réttarkerfisins að það sé mannað breiðum hópi einstaklinga sem endurspegli samfélagið. Þannig sé mikilvægt að konur taki þátt í mótun réttarins eins og karlar hafa lengst af gert einir.[37] Reynsluheimur karla og kvenna sé  ólíkur sem skipt geti máli þegar dómarar þurfi að skýra, meta og túlka löggjöf.[38] Auk þess geti komið upp staða þar sem „lögin renna út“ og dómari hafi ekki annað að styðjast við en „eigin rökvísi, innsæi, lífsreynslu og dómgreind“ þó í samræmi við almennar viðmiðanir.[39] Það sé því mikilvægt að bæði karlar og konur veljist til dómarastarfa því hópur þannig skipaður verði „færari um en ella að tryggja að almennum viðmiðunum verði beitt og þar eð hlutleysis gætt.“[40] Guðrún Erlendsdóttir hefur sett fram sambærileg sjónarmið og telur að gæta þurfi að kynjahlutföllum í fjölskipuðum dómi, því að konur færi fram sjónarmið sem karlar hafi jafnvel ekki hugsað um. Greta Baldursdóttir telur ekki að Hæstiréttur dæmdi öðruvísi en hann gerir ef hann væri allur skipaður körlum eða allur konum, en telur gott fyrir ásýnd dómstólsins að fleiri konur séu dómarar.[41] Af þessu má draga þá ályktun að jafnara hlutfall kvenna og karla við Hæstarétt sé ekki mikilvægt til að hafa áhrif á niðurstöður í einstaka dómsmálum heldur til að dómstóllinn endurspegli samfélagið betur. Það sé svo til þess fallið að auka traust til Hæstaréttar Íslands og jafnvel dómskerfisins í heild.[42]

6 Lokaorð

Erfitt er að meta hvenær fullu jafnrétti kynjanna er náð, hvort heldur sem er almennt eða í sérstöku samhengi. Að því marki sem hægt er að setja einhvers konar töluleg viðmið er fjöldi kvenna í lykilstöðum samfélagsins eitt viðmið. Það felur þó ekki sjálfkrafa í sér að staða jafnréttis sé betri eða verri, enda konur fjölbreyttur hópur rétt eins og karlar og ekki einsýnt að sjónarmið þeirra í hlutverki dómara verði þau sömu. Hins vegar er mikilvægt, ekki síst fyrir ásýnd réttarvörslukerfisins og trúverðugleika þess gagnvart almenningi, að dómarar séu fulltrúar allra hópa samfélagsins, ekki bara af einu kyni.

Þegar horft er til þeirra sértæku aðgerða sem heimilar eru í þágu kynjajafnréttis í íslenskum rétti má velta því upp hvenær jafnrétti er náð þannig að tímabært sé að fella úr gildi þær heimildir. Í því samhengi verður að teljast líklegt að meta þurfi stöðuna á hverju málefnasviði fyrir sig. Ef horft er til mönnunar Hæstaréttar Íslands frá þessum sjónarhóli má velta upp svari Ruth Bader Gisburg þegar hún var spurð hvenær það yrðu nógu margar konur dómarar við Hæstarétt Bandaríkjanna. „When there are nine“, sem í íslensku samhengi myndi leggjast út sem „þegar þær verða sjö“. Hún bætti við að það ætti varla að teljast til tíðinda, dómarabekkurinn hefði verið skipaður körlum eingöngu athugasemdalaust og því ætti það sama að gilda ef aðeins konur sætu í réttinum.[43] Í Hæstarétti Íslands eiga sæti sjö dómarar, en nú eru þar fimm dómarar, þar af ein kona. Nýlega voru tvö embætti auglýst til umsóknar við réttinn. Átta umsækjendur eru um stöðurnar, fjórar konur og fjórir karlar.[44] Það er því ljóst að þær verða ekki sjö í dómshúsinu við Arnarhól á næstunni.


Heimildaskrá

Aðalheiður Ámundadóttir „Þriðjungur dómara á Íslandi eru konur“ Fréttablaðið 13. júní 2019. Aðgengilegt á slóðinni: https://www.frettabladid.is/frettir/thridjungur-domara-islandi-er-konur/

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. „Hæstiréttur Íslands 100 ára – grein í Morgunblaðinu.“ 15. febrúar 2019. Aðgengileg á slóðinni: https://www.stjornarradid.is/raduneyti/domsmalaraduneytid/domsmalaradherra/stok-raeda-domsmalaradherra/2020/02/19/Haestirettur-Islands-100-ara-grein-i-Morgunbladinu-15.-februar-2019/

Brynhildur G. Flóvenz: „Jafnréttislög í þrjátíu ár.“ Tímarit Úlfljóts. 1. tbl. 2007. 60 árgangur. Bls. 5 – 24.

Brynhildur G. Flóvenz: „Kvennaréttur – hvað er það?”, Tímarit Úlfljóts. 3. tbl. 50 árgangur. 1997. Bls. 619 – 630.

Colm O‘Cinneide. „Positive action“. Birt á slóðinni: http://www.era-comm.eu/oldoku/SNLLaw/04_Positive_action/2012_Cinneide_EN.pdf

David Smith og Marin Pengelly: „Trump names Amy Coney Barrett for supreme court, stoking liberal backlash”, 26. september 2020: https://www.theguardian.com/law/2020/sep/26/donald-trump-amy-coney-barrett-supreme-court-ruth-bader-ginsburg

Haestirettur.is „Dómarar“ Aðgengilegt á slóðinni:  https://www.haestirettur.is/haestirettur/domarar/ 

Haestirettur.is „Fyrrverandi dómarar“ Aðgengilegt á slóðinni:  https://www.haestirettur.is/haestirettur/fyrrverandi-domarar/

Hjördís Hákonardóttir: „Að eiga sér líf: hugleiðingar um jafnrétti, konur og fóstureyðingar“. Guðrúnarbók. Pétur Hafstein ritstjóri. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. 2006. Bls. 277 – 295.

Inga Valgerður Stefánsdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir. ”Jafnréttislögin og Hæstiréttur: Hvernig er hægt að virkja forgangsreglu jafnréttislaga við skipun dómara við Hæstarétt Íslands?” Þjóðarspegillinn; Rannsóknir í félagsvísindum XVII. Helgi Áss Grétarsson, ritstjóri. Reykjavík. 2016.

Inga Valgerður Stefánsdóttir. „Skiptir kyn máli við skipan dómara í Hæstarétt Íslands?“ Meistararitgerð í lögfræði. Júní 2016.

Jill Filipovic: „Justice Ginsburg´s distant dream of an all-female supreme court“ 30. nóvember 2012. Aðgengilegt á slóðinni: https://www.theguardian.com/commentisfree/2012/nov/30/justice-ginsburg-all-female-supreme-court

Logoglifstill.wordpress.com. „ Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála frá gildistöku jafnréttislaga nr. 10/2008 til október 2018.” Aðgengilegt á slóðinni: https://logoglifstill.wordpress.com/2020/10/08/urskurdir-kaerunefndar-jafnrettismala-fra-gildistoku-jafnrettislaga-nr-10-2008-til-oktober-2018/

Margrét Vala Kristjánsdóttir. „Fremst(ur) á meðal jafningja.“ Tímarit Lögréttu, árgangur 4, nr. 2 (2007), bls. 153-169.

Nefndarálit sérnefndar um stjórnarskrármálefni. Þskj., 758, lögþ. 118 (1994-1995). https://www.althingi.is/altext/118/s/0758.html

Páll Hreinsson. „Litróf jafnræðisreglna“. Afmælisrit til heiðurs Gunnari G. Schram sjötugum. Almenna bókafélagið. Reykjavík. 2002. Bls. 339 – 366.

Ronald Dworkin. Sovereign Virtue. Harvard University Press. 2000.

RU.is „Fjórar konur skipaðar við Hæstarétt frá upphafi“ Aðgengilegt á slóðinni: https://www.ru.is/haskolinn/frettir/timarit-logrettu-helgad-konum-i-haestaretti

Ruv.is. “Hvatt til að konur veljist til forystu”. 15. janúar 2014. Aðgengilegt á slóðinni: http://www.ruv.is/frett/hvatt-til-ad-konur-veljist-til-forystu 

Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (samþykktur 18. desember 1979, tók gildi 3. september 1981) Stjtíð. C, 5/1985.

Sandra Fredman. Discrimination Law. 2nd Edition. Oxford University Press. Oxford. 2011.

Sigríður Dúna Kirstmundsdóttir: „Gosvirkni í íslenskri kvennabaráttu.“ Tímarit Máls og menningar, 4. tölublað 77. árgangur (2016), bls. 4-23. 

Sigríður Ingvarsdóttir: „Hvers vegna konur í dómarastörf?“. Afmælisrit. Guðrún Erlendsdóttir sjötug. Ritstj. Pétur Kr. Hafstein o.fl. Reykjavík 2006, bls. 429-446.

Stjornarradid.is. „Dómnefnd til að fjalla um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara.“ Aðgengilegt á slóðinni: https://www.stjornarradid.is/raduneyti/nefndir/nanar-um-nefnd/?itemid=dc04e5b1-4214-11e7-941a-005056bc530c

Stjornarradid.is „Frumvörp til nýrra jafnréttislaga kynnt í ríkisstjórn.“ Aðgengilegt á slóðinni:  https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/09/18/Frumvorp-til-nyrra-jafnrettislaga-kynnt-i-rikisstjorn/

Supremecourt.gov „Justices“ Aðgengilegt á slóðinni: https://www.supremecourt.gov/about/justices.aspx

Supremecourt.gov „Sandra Day O‘Connor“ Aðgengilegt á slóðinni: https://www.supremecourt.gov/visiting/SandraDayOConnor.aspx.

USCourts.gov „Women´s History Month“ Aðgengilegt á slóðinni: https://www.uscourts.gov/about-federal-courts/educational-resources/annual-observances/womens-history-month

World Economy Forum. The Global Gender Gap 2017. Sviss. 2017.

Þórunn Elísabet Bogadóttir. „Konur í lögmennsku mótfallnar afstöðu Lögmannafélagsins. Eru útilokaðar frá áhrifum.“ 25. september 2015. Aðgengilegt á slóðinni: https://kjarninn.is/frettir/konur-i-logmennsku-motfallnar-afstodu-logmannafelags-eru-utilokadar-fra-ahrifum/

Dómaskrá

Dómar Hæstaréttar Íslands

H 591/2017

H 592/2017

Dómar Hæstaréttar Bandaríkjanna

Fisher gegn University of Texas 579 U.S. ___ [2016].

Lagaskrá

Lög um dómstóla nr. 15 frá 25. mars 1998.

Lög um dómstóla nr. 50 frá 7. júní 2016.

Lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2 frá 13. janúar 1993. 

Lög um jafna stöðu karla og kvenna nr. 10 frá 6. mars 2008. 


[1] David Smith og Marin Pengelly: „Trump names Amy Coney Barrett for supreme court, stoking liberal backlash”, http://www.guardian.co.uk.

[2] Sjá „Women‘s History Month“, heimasíða United States Courts (21. sept. 2020). Sjá einnig „Þriðjungur dómara á Íslandi er konur“ (2019), bls. 6.

[3] „Dómarar“, http://www.haestirettur.is.

[4] „Justices“, http://www.supremecourt.gov.

[5] Þessu má sjá stoð víða í löggjöf, til að mynda í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Varðandi átök til að auka þátt kvenna í stjórnmálum má nefna átakið Konur til forystu sem naut þverpólitísks stuðnings, sjá: „Hvatt til að konur veljist til forystu“, http://www.ruv.is.

[6] „Fyrrverandi dómarar“, http://www.haestirettur.is.

[7] Sandra Day O‘Connor var fyrsta konan sem skipuð var í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, árið 1981. Sjá: „Sandra Day O‘Connor“, http://www.supremecourt.gov.

[8] Sandra Fredman: Discrimination Law, bls. 33.

[9] Hér má sérstaklega vísa til kenninga Joseph Raz og Robert Noziek eins og fjallað er um í Hjördís Hákonardóttir: „Að eiga sér líf: hugleiðingar um jafnrétti, konur og fóstureyðingar“, bls. 279.

[10] Ronald Dworkin: Sovereign Virtue, bls. 237 og 131-133.

[11] Hjördís Hákonardóttir: „Að eiga sér líf: hugleiðingar um jafnrétti, konur og fóstureyðingar.“ bls. 277.

[12] Páll Hreinsson: „Litróf jafnræðisreglna“, bls. 346.

[13] Sandra Fredman: Discrimination Law, bls. 34.

[14] Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir: „Hæstiréttur Íslands 100 ára – grein í Morgunblaðinu 15. febrúar 2019“, http://www.stjornarradid.is.

[15] Sjá mælikvarða Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) á stöðu kynjajafnréttismála (e. the Global Gender Gap Index). Mælingin tekur til 144 ríkja og kannar þætti sem varða efnahagslega þátttöku og tækifæri kvenna, aðgang að menntun, heilsu og dánartíðni og valdeflingu á sviði stjórnmálanna. World Economy Forum. The Global Gender Gap 2017.

[16] Brynhildur G. Flóvenz: „Kvennaréttur – hvað er það?“, bls. 629.

[17] Sigríður Dúna Kristinsdóttir: „Gosvirkni í íslenskri kvennabaráttu“, bls. 4.

[18] Lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. 

[19] Inga Valgerður Stefánsdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir. „Jafnréttislögin og Hæstiréttur: Hvernig er hægt að virkja forgangsreglu jafnréttislaga við skipun dómara við Hæstarétt Íslands?“, bls. 4.

[20] Brynhildur G. Flóvenz. „Jafnréttislög í þrjátíu ár“, bls. 9.

[21] „Frumvörp til nýrra jafnréttislaga kynnt í ríkisstjórn“, http://www.stjornarradid.is.

[22] Colm O‘Cinneide: „Positive action“, bls. 5.

[23] Sjá til að mynda niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna varðandi lögmæti stefnu Texas háskóla um að veita svörtum umsækjendum forgang við nemendaval í skólann. Fisher gegn University of Texas 579 U.S. ___ [2016].

[24] Colm O‘Cinneide: „Positive action“, bls. 1.

[25] Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum.

[26] Við endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995 var sambærileg regla í eldri jafnréttislögum tekin til umfjöllunar í tengslum við setningu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Í þinglegri meðferð kom fram sú afstaða sérnefndar um stjórnarskrármál að nefndin teldi að „það gæti verið réttlætanlegt að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði en öðrum með það að markmiði að rétta skertan hlut þeirra.“ Var það mat nefndarinnar að í jafnræðisreglunni í stjórnarskránni fælist heimild til sértækra aðgerða, ef beiting slíkrar reglu byggðist á málefnalegum forsendum. Sjá nánar í áliti sérnefndar um stjórnarskrármál, þskj., 758, lögþ. 118 (1994-1995).   

[27] Í þessari grein verður ekki tekin nánari afstaða til þessarar mismununar. Almennt skiptir máli að löggjafinn tryggi að þær sértæku aðgerðir sem heimilar eru á hverjum tíma séu í takt við samfélagsleg viðmið. Ef svo er ekki er ákveðin hætta á að grafist undan trúverðugleika slíkrar reglu sem aftur valdi tjóni í þeim tilvikum sem sannarlega þarf á sértækum aðgerðum að halda.

[28] Margrét Vala Kristjánsdóttir. „Fremst(ur) á meðal jafningja“, bls. 161. Að þessu er vikið í forsendum Hæstaréttar í H 591/2017 og H 592/2017, sem báðir varða skipun dómara í Landsrétt, en þar segir m.a.:  „Þá gátu sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna ekki komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því.“

[29] Logoglifstill.wordpress.com: „Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála frá gildistöku jafnréttislaga nr. 10/2008 til október 2018“.

[30] „Dómnefnd til að fjalla um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara og héraðsdómara“, http://www.stjornarradid.is.

[31] 1. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Með nýjum lögum nr. 50/2016 um dómstóla er kveðið á um skipan dómara í III. kafla laganna.  

[32] Inga Valgerður Stefánsdóttir og Oddný Mjöll Arnardóttir: „Jafnréttislögin og Hæstiréttur: Hvernig er hægt að virkja forgangsreglu jafnréttislaga við skipun dómara við Hæstarétt Íslands?“, bls. 7.

[33] Þórunn Elísabet Bogadóttir: „Konur í lögmennsku mótfallnar afstöðu Lögmannafélagsins. Eru útilokaðar frá áhrifum.“ 

[34] Sigríður Ingvarsdóttir: „Hvers vegna konur í dómarastörf?“, bls. 429.

[35] Ibid, bls. 443.

[36] Inga Valgerður Stefánsdóttir: „Skiptir kyn máli við skipan dómara í Hæstarétt Íslands?“, bls. 104.

[37] Sigríður Ingvarsdóttir: „Hvers vegna konur í dómarastörf?“, bls. 437.

[38] Ibid, bls. 433.

[39] Ibid, bls. 435.

[40] Ibid, bls. 437.

[41] „Fjórar konur skipaðar við Hæstarétt frá upphafi“, http://www.ru.is.

[42] Inga Valgerður Stefánsdóttir: „Skiptir kyn máli við skipan dómara í Hæstarétt Íslands?“, bls. 104.

[43] Jill Filipovic: „Justice Ginsburg’s distant dream of an all-female supreme court“.

[44] „Átta sóttu um tvö laus embætti dómara við Hæstarétt Íslands“, http://www.stjornarradid.is.

Um tilkynningarskyldu lögmanna í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka*

Eftir Þóri Helga Sigvaldason, lögmann hjá Lögmönnum Laugardal.[1]

* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.

Efnisyfirlit

1 Inngangur
2 Þagnarskylda lögmanna
3 Tilkynningarskylda lögmanna
3.1 Dómar um tilkynningarskyldu lögmanna
3.1.1 Forúrskurður Evrópudómstólsins í máli belgísku lögmannafélaganna
3.1.2 Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Michaud gegn Frakklandi
4 Tilkynningarskylda lögmanna til fagfélaga í stað stjórnvalda
5 Lokaorð
Heimildaskrá


Ágrip

Greinin fjallar um tilkynningarskyldu lögmanna um refsiverða háttsemi í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Markmið greinarinnar er að leggja mat á hvort tilkynningarskylda lögmanna samræmist þeim trúnaðarskyldum sem þeir eru bundnir gagnvart skjólstæðingum sínum. Í því skyni eru skoðaðir tveir dómar þar sem reyndi á hvort tilkynningarskylda lögmanna væri andstæð Mannréttindasáttmála Evrópu. Af niðurstöðum þeirra er dregin sú ályktun að betur myndi samræmast trúnaðarskyldum íslenskra lögmanna að þeir gætu tilkynnt refsiverða háttsemi til fagfélags, líkt og Lögmannafélags Íslands, í stað stjórnvalda.

Abstract

This article is concerned with the duties of lawyers and legal professionals to report suspicious activities concerning efforts to combat money laundering and the financing of terrorism. The goal of this article is to examine whether this duty is compatible with the doctrine of legal professional privilege as protected by the European Convention on Human Rights. The article examines the case law of European courts on whether the obligation of lawyers to report suspicious activities is compatible with the European Convention on Human Rights. The case law supports the author’s opinion that legal professional privilege would be better protected if Icelandic lawyers could choose whether they report suspicious activities to the Icelandic Bar Association rather than authorities.


1 Inngangur

Peningaþvætti grefur undan trúverðugleika fjármálakerfisins, raskar samkeppni og veitir brotamönnum gróðavon, sem svo stuðlar að auknum afbrotum. Því er mikilvægt að gera fjármálakerfið fjandsamlegt brotamönnum, þó án þess að íþyngja um of lögmætri starfsemi.

Hinn 1. janúar 2019 tóku gildi lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (hér eftir pþl.). Með lögunum var innleidd fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins, auk hluta þeirrar fimmtu.[2] Með þeim var einnig komið til móts við niðurstöður athugunar alþjóðlega aðgerðahópsins Financial Action Task Force (FATF) sem leiddi í ljós alvarlega vankanta á íslensku regluverki í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Brotamenn nýta gjarnan þjónustu fjármálafyrirtækja til þess að koma illa fengnu fé inn í lögmæta hagkerfið. Fjármálafyrirtæki standa því næst vandanum og eru oftast í bestu stöðunni til að koma auga á peningaþvætti og skyld brot. Á vettvangi FATF og Evrópusambandsins var því framan af lögð sérstök áhersla á reglusetningu og eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Þetta leiddi til þess að brotamenn leituðu í auknum mæli annarra leiða til að þvætta fjármuni sína, til dæmis með því að nýta þjónustu svokallaðra hliðvarða fjármálakerfisins, líkt og lögmanna og endurskoðenda. Í dag eru þessir aðilar tilkynningarskyldir til stjórnvalda með sama hætti og fjármálastofnanir, vakni hjá þeim grunur um refsiverða háttsemi.

Í þessari grein er til skoðunar hvernig tilkynningarskylda lögmanna samræmist trúnaðarskyldum þeirra og hvort ástæða sé til þess að gera breytingar á lögum um efnið.

2 Þagnarskylda lögmanna

Vegna eðlis starfa sinna búa lögmenn oft yfir viðkvæmum upplýsingum um hagi skjólstæðinga sinna og sæta ríkri þagnarskyldu um þær. Mælt er fyrir um þagnarskyldu lögmanna í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn:

Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna. 

Um trúnaðarskyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum er einnig fjallað í siðareglum lögmanna. Í 17. gr. siðareglnanna segir um þagnarskylduna:

Lögmaður skal aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing.

Því er ljóst að lögmenn eru bundnir ríkri þagnarskyldu um það sem þeir komast að í störfum sínum. Vegna þessarar ríku þagnarskyldu lögmanna reyna brotamenn oft að nýta sér þjónustu þeirra til peningaþvættis, sem getur nýst brotamönnum á ýmsan hátt.

Framan af voru lögmenn, á alþjóðavísu, tregir við að gefa eftir þagnarskylduna í þágu reglna um peningaþvætti og var slíkum reglum mótmælt víðsvegar um heim.[3] Óttast var að sjálfstæði lögmanna sem málsvara skjólstæðinga sinna gagnvart stjórnvöldum yrði að víkja fyrir sífellt umsvifameira regluverki.[4] Á Íslandi mættu hugmyndir um tilkynningarskyldu lögmanna einnig harðri andstöðu. Í umsögn Lögmannafélags Íslands um frumvarp til breytinga á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti frá 1999, þar sem lagt var til að lögmenn yrðu tilkynningarskyldir aðilar, sagði meðal annars:

[…] þó félagið sé sammála því höfuðmarkmiði að spornað sé af alefli gegn peningaþvætti og annarri glæpastarfsemi, leggst félagið eindregið gegn frumvarpi þessu, eins og það hljóðar nú. Niðurstaðan byggist á því að verði frumvarpið samþykkt óbreytt sé vegið alvarlega að trúnaðarskyldum lögmanna gagnvart skjólstæðingum þeirra, en telja verður hættu á að slíkt dragi verulega úr réttaröryggi þjóðfélagsþegnanna.[5]

Sama ár ritaði Jakob R. Möller, hæstaréttarlögmaður og þáverandi formaður Lögmannafélagsins, í Lögmannablaðið um þagnarskyldu lögmanna í þessu samhengi:

Lögmaður, sem er ekki bundinn nánast algjörum trúnaði við skjólstæðinga sína, hefur ekki það sjálfstæði sem lögmenn verða að krefjast sér til handa. Þetta eru ekki sérréttindi lögmannanna vegna, heldur af hagsmunum skjólstæðinga og þjóðfélagsins alls.[6]

Lögmenn eru bundnir ríkum trúnaði gagnvart skjólstæðingum sínum og er þagnarskylda lögmanna meðal mikilvægustu trúnaðarskyldna þeirra. Slíkar trúnaðarskyldur lögmanna tryggja réttaröryggi borgaranna og fara verður varlega í að takmarka þær.

3 Tilkynningarskylda lögmanna

Í dag eru lögmenn tilkynningarskyldir um málefni skjólstæðinga sinna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sbr. 21. gr. pþl. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu og aðrir eftirlitsaðilar samkvæmt lögunum[7] hafa víðtækar heimildir til þess að kalla eftir upplýsingum frá tilkynningarskyldum aðilum, sbr. 2. mgr. 20. gr. og 3. mgr. 38. gr. pþl. Í 3. og 4. málslið ákvæðanna er að finna samhljóða fyrirvara um að lögbundin þagnarskylda takmarki ekki skyldu til að afhenda upplýsingar nema þær sem lögmenn öðlast í tengslum við dómsmál:

Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum. Þetta gildir þó ekki um upplýsingar sem lögmaður öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings í tengslum við dómsmál, þ.m.t. þegar hann veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli, eða upplýsingar sem hann öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við málið.

Lögmanni ber þar af leiðandi ekki skylda til að afhenda skrifstofu fjármálagreininga lögreglu eða ríkisskattstjóra upplýsingar, sem honum væri annars skylt að afhenda á grundvelli pþl., ef þær tengjast rekstri dómsmáls fyrir skjólstæðing hans. Gildir það sama um tilkynningarskyldu endurskoðenda og annarra sérfræðinga þegar þeir veita lögmanni aðstoð við vinnu sem undanskilin er tilkynningarskyldu.[8]

Af lestri ákvæðis 2. mgr. 20. gr. pþl. er ljóst að undantekningin er ekki bundin við þau tilvik er dómsmál hafa formlega verið höfðuð, enda tekið fram að hún eigi meðal annars við þegar lögmaður veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi mál eða komast hjá máli. Erfitt er að festa hendur á hvenær störf lögmanna fela í sér ráðgjöf um höfðun dómsmáls eða hvernig komast megi hjá dómsmáli, enda má færa rök fyrir því að nánast öll lögfræðileg ráðgjöf snúi að því, á einn eða annan hátt, að höfða mál eða forða skjólstæðingum frá rekstri dómsmála. Í þessu samhengi skal haft í huga að Mannréttindadómstóll Evrópu (hér eftir MDE) hefur gert ríkar kröfur til skýrleika og fyrirsjáanleika laga sem takmarka trúnaðarskyldur lögmanna í þágu rannsókna sakamála.[9]

Lögmenn sinna fjölbreyttum störfum fyrir skjólstæðinga sína og starf lögmanns í tengslum við eitt og sama verkefnið getur breyst yfir tiltekið tímabil. Verkefni, sem hefst sem lögfræðileg ráðgjöf, getur þróast og breyst í hagsmunagæslu vegna reksturs dómsmáls. Í upphafi verkefnis getur verið óljóst hvaða stefnu það mun taka og því getur verið erfitt fyrir lögmenn að meta hvort trúnaðarskyldan skuli víkja fyrir öðrum hagsmunum.

Sjálfsagt er algengt að lögmenn þurfi að meta slíkt, enda segir beinlínis í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til pþl. að betra sé að tilkynningarskyldir aðilar tilkynni grun um refsiverða háttsemi „oftar en sjaldnar“.[10]Að mati höfundar er því æskilegra að lögmenn séu ekki tilkynningarskyldir beint til stjórnvalda heldur frekar til fagfélags, líkt og Lögmannafélags Íslands. Veigamikil rök eru fyrir slíku fyrirkomulagi, líkt og nánar verður rakið.

3.1 Dómar um tilkynningarskyldu lögmanna

Evrópskir dómstólar hafa þurft að svara spurningunni hvort tilkynningarskylda lögmanna sé andstæð reglum um friðhelgi einkalífsins, sbr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE) og réttarins til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 6. gr. MSE. Hér verður getið tveggja dóma þar sem á þetta reyndi. Um ræðir forúrskurð Evrópudómstólsins í máli belgísku lögmannafélaganna[11] og dóm MDE í máli Michaud gegn Frakklandi.[12] Í báðum málunum var til skoðunar hvort reglur um tilkynningarskyldu lögmanna væru andstæðar MSE, en þó með ólíkri aðferðafræði.

3.1.1 Forúrskurður Evrópudómstólsins í máli belgísku lögmannafélaganna

Málið höfðuðu fagfélög belgískra lögmanna gegn belgískum stjórnvöldum á þeim grundvelli að reglur fyrstu tveggja peningaþvættistilskipana Evrópusambandsins[13], sem kváðu á um tilkynningarskyldu lögmanna, brytu meðal annars gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. MSE.

Kærendur báru fyrir sig að reglurnar væru ekki nægilega skýrar um mörkin milli þeirra starfa lögmanna sem væru tilkynningarskyld og þeirra sem vernduð væru af þagnarskyldu lögmanna. Ákvæði þágildandi peningaþvættistilskipana, eins og þær voru innleiddar í belgísk lög, geymdu tæmandi talningu þeirra tilvika þar sem lögmenn voru tilkynningarskyldir og voru þar undanskilin tilvik tengd rekstri dómsmála. Reglurnar voru að því leyti sambærilegar þeim sem gilda hér á landi á grundvelli núgildandi peningaþvættistilskipana, sbr. m-lið 1. mgr. 2. gr. pþl.[14] 

Dómstóllinn tók fram að rétturinn til þess að njóta aðstoðar lögmanns við rekstur dómsmáls væri þáttur í réttlátri málsmeðferð, sbr. 6. gr. MSE, og að þagnarskylda lögmanna væri nauðsynlegur hluti þess réttar. Þá vísaði dómstóllinn til þess að tilvik þar sem lögmenn sættu tilkynningarskyldu samkvæmt tilskipuninni tengdust ekki rekstri dómsmála og væru tæmandi talin. Dómstóllinn sagði að undantekningar­ákvæði, sem kvað á um að lögmenn væru ekki tilkynningarskyldir um upplýsingar sem þeir kæmust yfir þegar þeir ynnu fyrir skjólstæðinga sína í tengslum við rekstur dómsmála, veitti fullnægjandi vernd þessara réttinda. Í ljósi þessa taldi dómstóllinn að ekki hefði verið brotið gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 6. gr. MSE.

Af þessu er ljóst að tilkynningarskylda lögmanna sem slík er ekki andstæð MSE, að minnsta kosti ekki í þeim tilvikum er þeir vinna verkefni sem aðrir sérfræðingar sinna einnig. Í málinu voru lögmenn þó ekki tilkynningarskyldir beint til stjórnvalda heldur til fagfélaga en eftirfarandi dómur MDE bendir til þess að það fyrirkomulag samræmist betur MSE.

3.1.2 Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Michaud gegn Frakklandi

Í máli belgísku lögmannafélaganna var Evrópudómstóllinn aðeins spurður að því hvort tilkynningarskylda lögmanna bryti gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar og því kom ekki til skoðunar hvort reglurnar kynnu að brjóta gegn öðrum grundvallarréttindum, líkt og réttinum til friðhelgi einkalífs, sbr. 8. gr. MSE. Það álitamál kom hins vegar til skoðunar í MDE, Michaud gegn Frakklandi, 6. desember 2012 (12323/11).

Fyrir MDE var til skoðunar hvort ákvæði þriðju peningaþvættistilskipunar Evrópusambandsins nr. 2005/60/EB um tilkynningarskyldu lögmanna, líkt og þau voru innleidd í franskan rétt, brytu gegn rétti lögmanna til friðhelgi einkalífs, sbr. 8. gr. MSE. Samkvæmt 8. gr. MSE eiga einstaklingar rétt til að njóta leyndar um samskipti sín við aðra, þar með talin samskipti sem eru þáttur í atvinnustarfsemi.[15]Kærandi, sem var franskur lögmaður, hafði tapað dómsmáli fyrir frönskum dómstólum, sem töldu reglurnar ekki brjóta gegn réttinum til friðhelgi einkalífs og vísuðu því til stuðnings meðal annars til niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli belgísku lögmannafélaganna.

MDE tók fram að tilkynningarskyldan væri skerðing á rétti lögmanna samkvæmt 8. gr. MSE og skoðaði hvort sú skerðing væri lögmæt, það er hvort hún byggði á lögum og væri nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. MSE. MDE féllst á að aðgerðir til að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka væru lögmæt markmið. Um mat á því hvort frönsku reglurnar væru nauðsynlegar til þess að ná slíkum markmiðum, það er hvort meðalhófs væri gætt, sagði MDE tvennt ráða úrslitum. Annars vegar reifaði MDE sambærileg rök og Evrópudómstóllinn lagði til grundvallar í máli belgísku lögmannafélaganna, það er að lögmenn væru aðeins tilkynningarskyldir í þeim tilvikum er þeir sinntu störfum sem ekki fælu í sér rekstur dómsmála og að störf tengd rekstri dómsmála væru undanþegin tilkynningarskyldu. Hins vegar tók MDE fram að samkvæmt frönskum lögum væru lögmenn ekki tilkynningarskyldir til stjórnvalda, heldur til fagfélags lögmanna. Þetta kallaði MDE „síu“, sem verndaði trúnaðarskyldu lögmanna. Um þessa síu sagði í niðurstöðu MDE:

The second factor is that the legislation has introduced a filter which protects professional privilege […] It can be considered at this stage, when a lawyer shares information with a fellow professional who is not only subject to the same rules of conduct but also elected by his or her peers to uphold them, professional privilege has not been breached. The fellow professional concerned, who is better placed than anybody to determine which information is covered by lawyer-client privilege and which is not, transmits the report of suspicions to the FIU […][16]

MDE tók fram að trúnaðarskyldunni væri í rauninni ekki aflétt þegar tilkynning væri send til fagfélags. Fagfélagið væri auk þess í betri stöðu en aðrir til þess að meta hvers kyns upplýsingar væru háðar trúnaðarskyldu. Meðal annars af þessum sökum taldi MDE að frönsku reglurnar væru í samræmi við meðalhóf og að ekki hefði verið brotið gegn 8. gr. MSE.

4 Tilkynningarskylda lögmanna til fagfélaga í stað stjórnvalda

Í seinna málinu, Michaud gegn Frakklandi, er athyglisvert að MDE taldi það meðal ástæðna þess að ekki væri brotið gegn 8. gr. MSE að franskir lögmenn væru tilkynningarskyldir til fagfélags í stað stjórnvalda. Í máli belgísku lögmannafélaganna fyrir Evrópudómstólnum voru lögmenn einnig tilkynningarskyldir til fagfélaga í stað stjórnvalda en dómstóllinn fjallaði ekki sérstaklega um það fyrirkomulag. Í áliti lögsögumanns Evrópudómstólsins í málinu eru þó færð rök fyrir því að tilkynningarskylda lögmanna til fagfélaga í stað stjórnvalda samræmist betur meðalhófi í tengslum við skerðingu réttinda samkvæmt 6. gr. MSE.[17]

Meðal þess sem FATF beindi til íslenskra yfirvalda í skýrslu sinni frá 2018 var að kanna hvort rétt væri að leyfa lögmönnum að tilkynna grunsamleg viðskipti til Lögmannafélags Íslands.[18] Er fyrirkomulagið með þessum hætti í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og víðar.[19]

Tilmæli FATF og peningaþvættistilskipanir Evrópusambandsins gera ráð fyrir að eftirlit með ákveðnum tilkynningarskyldum aðilum geti verið í höndum slíkra fagfélaga.[20] Í aðfararorðum fjórðu peningaþvættistilskipunarinnar segir um mikilvægi slíks fyrirkomulags:

For certain obliged entities, Member States should have the possibility to designate an appropriate self-regulatory body as the authority to be informed in the first instance instead of the FIU. In accordance with the case-law of the European Court of Human Rights, a system of first instance reporting to a self-regulatory body constitutes an important safeguard for upholding the protection of fundamental rights as concerns the reporting obligations applicable to lawyers. Member States should provide for the means and manner by which to achieve the protection of professional secrecy, confidentiality and privacy.[21] (leturbreyting höf.)

Af aðfararorðum fjórðu peningaþvættistilskipunarinnar, tilmælum FATF og niðurstöðu MDE í máli Michaud gegn Frakklandi má draga þá ályktun að það fyrirkomulag að lögmenn séu tilkynningarskyldir til fagfélaga í stað stjórnvalda sé mikilvægur þáttur í að vernda trúnaðarskyldur lögmanna.

Lögmannafélag Íslands skilaði ekki inn umsögn um frumvarp það sem varð að nýju pþl. Hins vegar hafði stjórn félagsins ritað dómsmálaráðherra bréf í tengslum við samningu frumvarpsins, þar sem tekið var undir sjónarmið FATF um mikilvægi þess fyrir sjálfstæði stéttarinnar að lögmenn sættu eftirliti fagfélags í stað stjórnvalda. Lýsti félagið sig reiðubúið til þess að taka að sér eftirlit með lögmönnum í tengslum við lögin.[22]

Af niðurstöðu MDE í máli Michaud gegn Frakklandi má draga þá ályktun að hefði kærandi verið tilkynningarskyldur beint til stjórnvalda hefði það falið í sér meiri skerðingu á réttinum til friðhelgi einkalífs, sbr. 8. gr. MSE. Á það fyrirkomulag hefur þó ekki reynt fyrir MDE. Hafa verður í huga að mjög vægar kröfur eru gerðar til gruns tilkynningarskyldra aðila í þessu samhengi. Þannig þarf grunur um refsiverða háttsemi ekki að vera studdur sérstökum gögnum. Líkt og áður segir er beinlínis tekið fram í greinargerð sem fylgdi frumvarpi að pþl. að betra sé að tilkynningarskyldir aðilar tilkynni grun um refsiverða háttsemi „oftar en sjaldnar“.[23]

Með því að fela fagfélögum að yfirfara tilkynningar lögmanna er betur tryggt að þær tilkynningar sem enda hjá stjórnvöldum séu einungis þær sem fullt erindi eiga til þeirra. Væru lögmenn tilkynningarskyldir til fagfélaga í stað stjórnvalda má ætla að þagnarskylda þeirra myndi sjaldnar víkja fyrir tilkynningarskyldu, enda myndu ekki allar tilkynningar um grunsamleg viðskipti enda hjá stjórnvöldum.[24] Til dæmis ráða danskir lögmenn hvort þeir tilkynna grunsamleg viðskipti til danska lögmannafélagsins (d. Advokatsamfundet)eða beint til dönsku peningaþvættisskrifstofunnar. Um það bil helmingur þeirra tilkynninga sem sendar eru danska lögmannafélaginu enda hjá dönsku peningaþvættisskrifstofunni.[25]

Þegar lögmenn eru tilkynningarskyldir beint til stjórnvalda er hætt við að þeir verði annað hvort tregir við að tilkynna grunsamleg viðskipti eða að trúnaðarskylda þeirra víki í ónauðsynlegum tilvikum. Því er full ástæða til að kanna hvort rétt sé að taka upp sama kerfi og á Norðurlöndunum, hér á landi.

5 Lokaorð

Í kjölfar skýrslu FATF frá apríl 2018 voru samin og sett ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi. Á grundvelli nýju laganna sæta lögmenn eftirliti og eru tilkynningarskyldir til ríkisskattstjóra. Það samræmist illa trúnaðarskyldum lögmanna að vera tilkynningarskyldir til stjórnvalda um málefni skjólstæðinga sinna, enda eru þeir oft eini málsvari þeirra gagnvart sömu stjórnvöldum.

Tilmæli FATF og peningaþvættistilskipanir Evrópusambandsins gera ráð fyrir að ákveðnir tilkynningarskyldir aðilar, líkt og lögmenn, geti verið tilkynningarskyldir til fagfélaga í stað stjórnvalda. Er þetta fyrirkomulag við lýði á Norðurlöndunum og víðar. Af fordæmi MDE má telja að þetta fyrirkomulag samræmist betur ákvæðum MSE. Að mati höfundar er full ástæða til þess að endurskoða fyrirkomulagið hérlendis og gera lögmönnum kleift að velja milli þess að tilkynna grunsamleg viðskipti til Lögmannafélags Íslands eða skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Lögmannafélag Íslands hefur lýst sig reiðubúið til þess að sinna þessu hlutverki. Félagið fer þegar með lögbundið eftirlit með lögmönnum og ekki er ástæða til að ætla annað en að félagið sé fært til þess að sinna þessu hlutverki.

Að endingu er vert að nefna að sjónarmið þess efnis að smæð íslensku lögmannastéttarinnar í alþjóðlegum samanburði leiði til þess að fagfélag lögmanna geti ekki sinnt þessu hlutverki eru ekki lögmæt sjónarmið sem heimilað geti skerðingu á réttindum, sbr. 2. mgr. 8. gr. MSE.


Heimildaskrá 

Alþingistíðindi.

Anti-Money Laundering and Counter-Terrorist Financing Measures. Denmark. Mutual Evaluation Report. FATF, París 2018.

Anti-Money Laundering and Counter-Terrorist Financing Measures. Iceland. Mutual Evaluation Report. FATF, París 2018.

Álit Poiares Maduro lögsögumanns Evrópudómstólsins 14. desember 2006 í EBD, mál C-305/05, ECR 2007 bls. I-5305. (Ordre des Barreaux Francophones et Germanophone v. Conseil des Ministres).

Björg Thorarensen o.fl.: Mannréttindasáttmáli Evrópu. Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Reykjavík 2005.

Danielle Jasmin Kirby: „The European Union‘s Gatekeeper Initiative: The European Union Enlists Lawyers in the Fight Against Money Laundering and Terrorist Financing“. Hofstra Law Review, 1. tbl. 2008, bls. 261-311.

Financial Action Task Force on Money Laundering: Annual Report 1998-1999. FATF, París 1999.

Jakob R. Möller: „Ógnir við sjálfstæði lögmanna, alþjóðlegar og heimafengnar“ Lögmannablaðið, 4. tbl. 1999, bls 3-5.

Laurel S. Terry „U.S. Legal Profession Efforts to Combat Money Laundering and Terrorist Financing“. New York Law School Law Review, 3. tbl. 2014. bls. 487-518.

Lögmannafélag Íslands: Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti“, dbnr. 933, 226. mál, 123. lögþ. 1998-99.

Ríkislögreglustjórinn. Ársskýrsla 2013. Ríkislögreglustjóri, 2014.

Skýrsla stjórnar Lögmannafélags Íslands til aðalfundar félagsins, föstudaginn 25. maí 2018.


[1] Grein þessi er byggð á meistararitgerð höfundar við lagadeild Háskóla Íslands, sem ber heitið „Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka: Eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum öðrum en fjármálastofnunum og trúnaðarskylda lögmanna“. Leiðbeinandi var Finnur Magnússon hæstaréttarlögmaður.

[2] Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/849/EB um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2018/843/EB um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/849/EB um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka.

[3] Laurel S. Terry „U.S. Legal Profession Efforts to Combat Money Laundering and Terrorist Financing“, bls. 494.

[4] Danielle Jasmin Kirby: „The European Union‘s Gatekeeper Initiative: The European Union Enlists Lawyers in the Fight Against Money Laundering and Terrorist Financing“, bls 261. Sjá einnig bls. 265 um  mótmæli samtaka lögmannafélaga í Evrópu (CCBE) gegn tilkynningarskyldu lögmanna.

[5] Lögmannafélag Íslands: „Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti“, dbnr. 933, 226. mál, 123. lögþ. 1998-99.

[6] Jakob R. Möller: „Ógnir við sjálfstæði lögmanna, alþjóðlegar og heimafengnar“, bls. 4.

[7] Samkvæmt pþl. er eftirlit með fjármálastofnunum í höndum fjármálaeftirlits Seðlabankans en eftirlit með öðrum tilkynningarskyldum aðilum, þar á meðal lögmönnum, er í höndum ríkisskattstjóra.

[8] Þskj. 367, 149. lögþ. 2018-19, bls. 55.

[9] Sjá t.d. MDE Niemetz gegn Þýskalandi, 16. desember 1992 (13710/88), MDE Sallinen gegn Finnlandi, 27. september 2005 (50882/99) og MDE, Kopp gegn Sviss, 25. mars 1998 (23224/94). Síðastnefnda málið varðaði hlerun síma á lögmannsstofu kæranda í tengslum við rannsókn á því hvort eiginkona hans, sem hafði verið í ríkisstjórn Sviss, hefði komið opinberum leyndarmálum til skjólstæðings hans. Niðurstaða MDE var að hlerunin hefði brotið gegn rétti kærandans til friðhelgi einkalífsins, sbr. 8. gr. MSE, þar sem svissnesk lög væru ekki nægilega skýr um umfang og framkvæmd símhlerunar sem varðaði trúnaðarskyld samskipti lögmanna og skjólstæðinga; Sjá einnig úrskurð héraðsdóms frá 15. júlí 2016, sem birtur var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 523/2016, en málið varðaði húsleit hjá lögmanni, sem handtekinn var við komu í skýrslutöku með skjólstæðingi sínum vegna gruns um aðild hans að brotum skjólstæðings síns. Engar sérstakar takmarkanir voru á húsleitarheimildunum og lagt var hald á upplýsingar um skjólstæðinga lögmannsins sem engin tengsl höfðu við málið. Héraðsdómur vísaði til lögbundinnar þagnarskyldu lögmanna, sbr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og þátt hennar í trúnaðarskyldu lögmanna. Í forsendum héraðsdóms kom mðal annars fram að trúnaðarskylda lögmanna væri „[…] einn af mikilvægustu þáttum réttarríkisins og horfir til réttaröryggis borgaranna.“ Héraðsdómur vísaði til fordæma MDE um þær ströngu kröfur sem gerðar væru til skerðingar á trúnaðarskyldum lögmanna og sagði að með haldlagningu gagnanna hefði sjónarmiðum um mikilvægi trúnaðarskyldu lögmanna „með öllu verið varpað fyrir róða.“ Var niðurstaða héraðsdóms að haldlagningin hafi verið of víðtæk. Kæru héraðssaksóknara til Hæstaréttar var vísað frá Hæstarétti.

[10] Þskj. 367, 149. lögþ. 2018-19, bls. 56.

[11] EBD, mál C-305/05, ECR 2007 bls. I-5305. (Ordre des Barreaux Francophones et Germanophone v. Conseil des Ministres).

[12] MDE, Michaud gegn Frakklandi, 6. desember 2012 (12323/11).

[13] Tilskipun ráðs Evrópubandalagsins nr. 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvottar og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/97/EB um breytingar á þeirri fyrrnefndu.

[14] Sjá ákvæði 5. mgr. 2. gr. a tilskipunar nr. 2001/97/EB. Ákvæðið hafði að geyma sambærilega talningu og nýrri peningaþvættistilskipanir Evrópusambandsins, sbr. b-lið 3. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 2015/849/EB.

[15] Björg Thorarensen o.fl.: Mannréttindasáttmáli Evrópu. Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt, bls. 292. Vernd samkvæmt 8. gr. MSE nær til réttarins til að njóta leyndar um samskipti sín við aðra og nær einnig til samskipta sem eru þáttur í atvinnustarfsemi.

[16] MDE, Michaud gegn Frakklandi, 6. desember 2012 (12323/11) 129. málsgr.

[17] Álit Poiares Maduro lögsögumanns Evrópudómstólsins 14. desember 2006 í EBD, mál C-305/05, ECR 2007 bls. I-5305, 82. málsgr. (Auk dómara starfa við Evrópudómstólinn 9 lögsögumenn. Lögsögumenn skrifa álit sem eru dómstólnum til leiðbeiningar. Lögsögumenn sæta sömu hæfisskilyrðum og dómarar við dómstólinn)

[18] Anti-Money Laundering and Counter-Terrorist Financing Measures. Iceland. Mutual Evaluation Report, bls. 92.

[19] Í Danmörku er eftirlitið í höndum danska lögmannafélagsins (d. Advokatsamfundet). Í Noregi er eftirlitið í höndum eftirlitsnefndar lögmanna (n. Tillsynsrådet for advokatvirksomhet). Í Svíþjóð er eftirlitið í höndum sænska lögmannafélagsins (s. Sveriges advokatsamfund).

[20] Sjá 1. mgr. 34. gr. fjórðu peningaþvættistilskipunar Evrópusambandsins, nr. 2015/849. Tilmæli FATF nr. 23 gera ráð fyrir sambærilegu fyrirkomulagi. Í tilmælunum segir meðal annars: „Countries may allow lawyers, notaries, other independent legal professionals and accountants to send their STR to their appropriate self-regulatory organisations, provided that there are appropriate forms of cooperation between these organisations and the FIU.“

[21] Sjá 39. gr. aðfararorða tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2015/849/EB.

[22] Skýrsla stjórnar Lögmannafélags Íslands til aðalfundar félagsins, föstudaginn 25. maí 2018, bls. 18.

[23] Þskj. 367, 149. lögþ. 2018-19, bls. 56.

[24] Ríkislögreglustjórinn. Ársskýrsla 2013, bls. 20. Í skýrslunni segir að af 491 tilkynningu frá tilkynningarskyldum aðilum árið 2013 hafi 254 verið sendar lögregluembættum til meðferðar.

[25] Anti-Money Laundering and Counter-Terrorist Financing Measures. Denmark. Mutual Evaluation Report, bls. 99.

Áhrif nauðgunarmýta á íslenska dómaframkvæmd í nauðgunarmálum*

Eftir Evu Huld Ívarsdóttur, lögfræðing.[1]

* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.

Efnisyfirlit

1 Inngangur
2 Rannsókn á dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum
2.1 Aðferðafræði dómarannsóknar
2.2 Áhrif nauðgunarmýta á dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum
2.2.1 Hæstaréttardómur 29. september 2016 í máli 35/2016 (Breiðholt)
2.2.2 Hæstaréttardómur 4. febrúar 2016 í máli 190/2015 (menntaskólanemar)
2.2.3 Hæstaréttardómur 19. júní 2013 í máli nr. 215/2013 (myndbandsleiga)
2.3 Niðurstöður dómarannsóknar
3 Lokaorð
Heimildaskrá
Dómaskrá


Ágrip

Í þessari grein verður fjallað um rannsókn höfundar á átján dómum Hæstaréttar Íslands í nauðgunarmálum á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2017. Sérstaklega verður fjallað um birtingarmyndir nauðgunarmýta og áhrif þeirra á sönnunarmat í dómunum þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að ranghugmyndir um nauðganir, svonefndar nauðgunarmýtur, eru afar útbreiddar.[2]

Abstract

This article discusses a case study on eighteen judgments of the Supreme Court of Iceland in rape cases from the 1st of January 2013 to the 31st of December 2017. The case study aims to find out whether manifestations of rape myths can be analysed and categorized depending on how the incidents and circumstances fit the myths surrounding the concept of rape.


1 Inngangur

„Lögfræði og sálfræði eru sín hvor hliðin á sama teningnum“ er setning sem ég heyrði skömmu eftir að ég hóf nám í lögfræði. Þessi setning varð mér hugleikin og ég hafði það í huga í gegnum námið. Samningaréttur eru lögfestar reglur sem mótuðust með hliðsjón af því hvað þótti sanngjarnt[3] og markmið umferðarlaganna er að vernda líf vegfarenda.[4] Jafnframt hefur refsilöggjöfinni verið lýst sem viðbrögðum samfélagsins til að bæta upp fyrir óþroskuð skammarviðbrögð þeirra einstaklinga sem fremja afbrot. [5]

Afbrotinu nauðgun hefur verið lýst sem öfgakenndustu birtingarmynd valdamisræmis kynjanna.[6] Samkvæmt upplýsingum um tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009 eru brotaþolar nauðgunarbrota í flestum tilvikum ungar konur.[7] Fáar konur kæra hins vegar nauðganir því þær vita að þær geta átt von á að mæta lífseigum staðalímyndum og fordómum í réttarkerfinu.[8] Þessar staðalímyndir hafa verið kallaðar nauðgunarmýtur og eru hluti af menningargerð sem samþykkir, viðheldur og ýtir undir ofbeldi gegn konum.[9]

Samfélagslegar hugmyndir um nauðgun kristallast í frásögninni um konu sem verður fyrir árás ókunnugs manns sem ræðst að henni með ofbeldi, gjarnan vopnaður í dimmu húsasundi þar sem hún veitir honum virkt viðnám. Þessi frásögn hefur verið nefnd mýtan um „alvöru nauðgun“. Hugmyndin sækir ekki stoð í raunveruleikann því rannsóknir sýna að brotaþoli og gerandi þekkjast í flestum tilvikum fyrir verknaðinn og algengt er að brotaþoli hafi ekki möguleika á að verja sig eða sé of hrædd til þess. Fyrir vikið eru líkamlegir áverkar oft ekki til staðar til að styðja við frásögn brotaþola.[10]

Mýtan um „alvöru nauðgun“ getur einnig orðið leiðbeinandi þegar kemur að þeim viðmiðum sem atvik og aðilar þurfa að fullnægja til að sakfellt sé fyrir nauðgun fyrir dómstólum. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að því ólíkari sem atburðarásin er þessari staðalímynd því færri eru tilbúnir að skilgreina atvikin sem nauðgun og telja brotaþola síður trúverðuga.[11] Í samfélaginu gætir tregðu til að gangast við því að „venjulegt“ fólk fremji nauðganir og að hver sem er geti orðið fyrir þeim. Því hefur samfélagið ríka þörf fyrir að varpa ábyrgðinni á herðar þolenda.[12]

2 Rannsókn á dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum

Sönnun í nauðgunarmálum er erfið[13] og sönnunarmat dómara er matskennt og frjálst. Dómarar eru þó bundnir af því að ómálefnaleg sjónarmið mega ekki ráða för við mat þeirra.[14] Með það að markmiði að varpa nánara ljósi á þær kröfur sem dómstólar gera um sönnun í nauðgunarmálum rannsakaði ég dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum á fimm ára tímabili, frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2017.[15]

Á tímabilinu voru átján mál þar sem ákært var fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hér eftir „hgl.“) Sautján málum lauk með efnisdómi en eitt mál var ómerkt og því vísað heim í hérað. Af þeim sautján málum sem lauk með efnisdómi var sakfellt í fjórtán málum. Í tólf málum var sakfellt fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. hgl. en í þremur málum voru sakborningar sýknaðir af nauðgun.[16] Þau mál eru hér til umfjöllunar.

2.1 Aðferðafræði dómarannsóknar

Við upphaf vinnunnar greindi ég öll þau gögn sem lögð voru fram í málunum, þ.e.  réttarmeinafræðileg gögn, fjölda framburða almennra vitna og sérfræðivitna, sýnileg sönnunargögn og vettvangsskýrslur. Einnig greindi ég verknaðaraðferðir, vettvang, tengsl aðila og mat á trúverðugleika brotaþola og sakborninga. Frá slíku sjónarhorni var ekki að finna neinn þráð í gegnum málin sem draga mætti ályktanir af og erfitt var að greina hvað var sammerkt með málunum öllum, enda eru þau fjölbreytt og ólík um margt. Það var ekki fyrr en ég greindi málin eftir því hve vel eða illa þau féllu að þekktum nauðgunarmýtum að fram komu þættir sem málin áttu sameiginlega og finna mátti rauðan þráð sem var sá að því fjær hugmyndum um nauðgunarmýtur sem málin voru því ólíklegra var að sakfellt væri í þeim.

Mýtan um „alvöru nauðgun“, þar sem maður ræðst vopnaður á konu utandyra, er fjarri þeim raunveruleika sem birtist í íslenskum nauðgunarmálum. Ég  greindi því nauðgunarmýturnar eftir þremur ráðandi þáttum og mátaði að atvikalýsingum í áðurnefndum átján dómsmálum.

Í fyrsta lagi greindi ég hvar brotið átti sér stað og tengsl brotaþola og gerenda. Þessi þáttur tengist þeirri mýtu að gerandi í nauðgunarmálum sé brotaþola ókunnugur og að brotin gerist á víðavangi. Í öðru lagi greindi ég mýtur um brotaþola. Hér koma við sögu margar nauðgunarmýtur. Fyrst ber að nefna að talið er að þolendur „alvöru nauðgunar“ leggi strax fram kæru. Einnig er litið til þeirrar mýtu að sé brotaþoli drukkin er það talið draga úr trúverðugleika hennar og auka þátt hennar í brotinu. Einnig leitaði ég eftir því hvort greina mætti aðrar mýtur líkt og mýtuna um að konur sem saki karla um nauðgun séu ekki brotaþolar heldur sjái eftir samræði sem veitt var með samþykki og vegna þeirrar eftirsjár greini þær frá því sem nauðgun.[17] Í þriðja lagi greindi ég mýtur um gerendur. Þessi þáttur tengist hugmyndum um að gerendur nauðgana séu siðblindir og harðneskjulegir karlar[18] sem séu ólíkir öðrum og því sé hægt að forðast þá.[19] Heimspekingurinn Kate Manne lýsir því hvernig gerendur kynferðisofbeldis njóti oft ofaukinnar meðaumkunar sem leiðir til þess að tregðu gætir til að refsa þeim, jafnvel þegar sök sannast[20] og að þolendum þeirra sé síður trúað.[21] Hún nefnir þessa sérstöku gerð meðaumkunar „himpathy“[22] sem útleggst sem veraumkun[23] á íslenska tungu.

2.2 Áhrif nauðgunarmýta á dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum

Af þeim dómum sem rannsakaðir voru var sýknað af öllum ákæruliðum í þremur málum.[24] Í meðferð málanna mátti greina áhrif nauðgunarmýta. Brotaþolar voru í öllum málunum ungar stúlkur sem voru undir áhrifum áfengis og í tveim málum drógu þær að kæra.[25] Það vakti auk þess athygli að samtölum brotaþola við jafningja var veitt mikið vægi við sönnunarmatið.

2.2.1 Hæstaréttardómur 29. september 2016 í máli 35/2016 (Breiðholt)

H 35/2016 (Breiðholt) er eina málið þar sem sakborningar voru fimm talsins. Því greindi ég framburði sakborninga, vitna og brotaþola og bar þá saman í ljósi fjölda þeirra.

Atvik málsins voru þau að brotaþoli var stödd í samkvæmi í heimahúsi í Breiðholti þar sem hún hefur kynferðislegt samneyti við einn gerenda, X, þann elsta. Hún lýsir því þannig að X hafi í kjölfarið boðið hinum gerendunum að taka þátt í kynferðisathöfnunum og hún hafi árangurslaust reynt að ýta þeim frá sér þar til mótstaða hennar var brotin á bak aftur þegar þrír menn voru farnir að brjóta gegn henni áður en tveir bættust við. Ákærðu lýsa atvikum hins vegar á mismunandi hátt. Þannig greinir einn gerandinn frá því að X hafi kallað á hann til að koma og verða vitni að kynferðisathöfnunum á meðan X lýsir því að hann hafi farið inn á salerni eftir að hafa hafnað brotaþola kynferðislega. Þegar hann kom út af salerninu hafi allir samkvæmisgestir verið farnir utan brotaþola og hinna fjögurra ákærðu sem hann kvað þiggja munnmök frá brotaþola. Hann hafi síðan fylgst með en ekki tekið þátt. Aðrir ákærðu ásamt brotaþola lýsa því þó að hann hafi verið þátttakandi.

Þegar framburður í málinu er skoðaður heildrænt og framburður einstakra aðila borinn saman kemur í ljós að sitthvað stemmir ekki og að horft er fram hjá því að ákærðu ber ekki saman um hvernig samræðið hófst og enn síður hverjir tóku þátt. Jafnframt var þetta eina málið þar sem tekið var fram að framburður sakborninga væri trúverðugur. Á sama tíma var það talið draga úr trúverðugleika brotaþola að hún gat ekki greint frá með vissu hvort hún fór sjálf úr skónum eða hvort þeir voru teknir af henni.[26]

2.2.2 Hæstaréttardómur 4. febrúar 2016 í máli 190/2015 (menntaskólanemar)

Atvik málsins eru þau að brotaþolinn A hitti ákærða X á skemmtistað fyrir tilstuðlan sameiginlegra vina. A þótti X þegjandalegur og var um sig. A fór frá skamma stund er hún skildi drykkinn sinn eftir og man svo ekki eftir sér fyrr en í íbúð X með hann ofan á sér. Samkvæmt X fóru þau heim saman skömmu eftir að þau hittust. Þegar þangað var komið kvað hann A hafa farið á salernið og „algerlega rotast“ í kjölfarið og sofið til morguns. X neitaði alfarið að samræði hefði átt sér stað.

A dró að kæra málið til lögreglu í sextán mánuði en leitaði engu að síður til Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis daginn eftir brotið þar sem áverkar voru greindir. A lýsti því að hún hefði í upphafi ákveðið að kæra ekki en fengið samviskubit þegar hún frétti að X hefði nauðgað annarri stelpu og þá ákveðið að kæra. Í dóminum kemur fram að A hafi í sjálfu sér ekki verið ótrúverðug hvað frásögn af samræðinu varðar, sér í lagi því framburður hennar sækir stoð í gögn málsins en dómurinn taldi frásögn A um ölvunarástand sitt misvísandi.

2.2.3 Hæstaréttardómur 19. júní 2013 í máli nr. 215/2013 (myndbandsleiga)

Brotaþoli lýsti atvikum svo að ákærðu hefðu komið að henni þar sem hún var að reykja fyrir utan veitingastað og tekið hana upp í bifreið og keyrt að heimili annars ákærðu þar sem þeir héldu henni nauðugri og þvinguðu til samræðis meðal annars með því að halda henni fastri. Loks hafi þeir látið af háttseminni og borið brotaþola skólausa og grátandi út í bíl og ekið henni heim til vina.

Atvik máls eru mjög sérstök hvað varðar tengsl ákærðu og brotaþola. Brotaþoli hafði einungis hitt ákærða X nokkrum dögum áður þegar hann kom á vinnustað hennar og hafði beðið um símanúmerið hennar með ógnandi framkomu. X sendi henni í kjölfarið fjölda skilaboða sem hún tók ekki undir nema til að vísa þeim frá sér. Annan ákærða hafði hún aldrei hitt er þeir komu saman á bíl og tóku hana með sér þar sem hún stóð fyrir utan veitingastað að reykja.

Í málinu er mikið lagt upp úr því að brotaþoli kvaðst í skýrslutöku hjá lögreglu einungis hafa drukkið hvítvín en spurð nánar fyrir dómi kvaðst hún einnig hafa drukkið bjór. Sú túlkun meirihlutans er þó gagnrýnd í sératkvæði.

2.3 Niðurstöður dómarannsóknar

Af dómarannsókninni má draga þá ályktun að staðalímyndir og mýtur um nauðganir, brotaþola og gerendur hafi áhrif á hvaða vægi gögnum, sem lögð voru til grundvallar niðurstöðum í málunum, var veitt. Nauðgunarmýtur höfðu þannig áhrif á sönnunarmat í dómunum.

Í málunum er því veitt mikið vægi að fram kemur að brotaþolar ræða upplifunina við jafningja, jafnvel meira en réttarmeinafræðilegum gögnum og framburði sérfræðinga. Í H 190/2015 (menntaskólanemar) segir brotaþoli við vinkonu í gegnum Facebook ,,hann reið mér, mér var fokking nauðgað“. Hún lýsir því nánar og segir: „hann ýtti hausnum mínum niður“, „reið mér í rassinn líka“ og „mér er illt alls staðar“. Þegar vinkonan hvetur brotaþola til að leita sér aðstoðar færist hún undan og það kemur ítrekað fram hjá henni að hún sé ekki viss hvort þetta teljist nauðgun. Í H 35/2016 (Breiðholt) koma óvissa og vangaveltur brotaþola fram í því orðalagi að hún segir við vinkonu að hún hafi lent í kynlífsathöfnum sem hún vildi ekki og að hún ætli að gleyma þeim. Hún ákveður síðan að kæra þegar það kemur í ljós að gerendurnir tóku athæfið upp á myndband.[27] Hér er komið inn á tvær gamalkunnar nauðgunarmýtur. Annars vegar þá að konur sem sjá eftir því að hafa stundað kynlíf tilkynni það sem nauðgun og hins vegar þá að raunverulegir þolendur nauðgana tilkynni strax um nauðgunina til lögreglu.[28] Bæði málin bera þess merki að viðhorf brotaþola sé mótað af staðalímyndinni um alvöru nauðgun þar sem þær virðast eiga erfitt með að sjá sig sjálfar sem þolendur nauðgunar þrátt fyrir að hafa verið þvingaðar til samræðis.[29] Það er algengt að konur sem verða fyrir nauðgun af hendi aðila sem þær þekkja vilja síður nota hugtakið nauðgun yfir upplifun sína þó að hlutrænt séð hafi verið um nauðgun að ræða og þær ekki samþykkt kynmök.[30]

Í öllum málunum sem lauk með sýknu var þeirri hugmynd komið að í vörn sakborninga að brotaþoli hafi séð eftir samræði sem fengið hefði verið fram með samþykki en af einhverjum ástæðum borið fyrir sig að um nauðgun hefði verið að ræða. Í H 215/2013 (myndbandsleiga) báru ákærðu fyrir sig að brotaþoli hefði farið að gráta í miðjum samförum og viljað komast burt því hún hefði séð eftir því að hafa samræði við báða ákærðu þar sem hún átti kærasta.

Í samanburði við önnur mál var mikið fjallað um persónulega hagi ákærðu í H 35/2016 (Breiðholt) og H 190/2015 (menntaskólanemar). Fram kemur að þeir eru menntaskólanemar þó ekki sé algengt að starfsgrein ákærðu komi fram í nauðgunarmálum.[31] Það var fjallað um hve miklar og slæmar afleiðingar ákærunnar hefðu verið. Í ljósi þess má greina birtingarmynd veraumkunar sem lítið bar á í hinum dómunum. Afstaða dómsins til ákærðu í H 35/2016 (Breiðholt) virtist jákvæð og gagnrýnislaus þar sem það var mat dómsins að framburður ákærðu hafi verið ,,í aðalatriðum eins um það sem gerðist og mestu varðar“, en um vitnisburð brotaþola segir að hann hafi verið ,,breytilegur um sumt“ og ,,hún mundi sumt illa“.[32]

Af dómunum má draga þá ályktun að mikilvægara sé að vera staðfastur í frásögn sinni heldur en að færa fram gögn máli sínu til stuðnings. Það er miður, því raunveruleikinn er sá að þegar fólk dregur fram erfiðar og áfallatengdar minningar er frásögn þess ekki staðföst vegna eðlis minnisins og afleiðinga áfallastreitu.[33] Mat á gögnum málanna virðist því í sumum tilvikum litað af áhrifum nauðgunarmýta, bæði hvað varðar afstöðu til brotaþola og sakborninga. Öðruvísi er erfitt að útskýra mat dómara á misræmi í frásögn ákærðu í H 35/2016 (Breiðholt) sem er jafnframt eina málið þar sem dómurinn taldi sakborninga einfaldlega trúverðuga og brotaþola ótrúverðuga.[34] Það gæti einnig haft áhrif á matið að samkvæmt rannsóknum virðist fólk ekki vilja gangast við því að „venjulegir“ menn fremji nauðgun og að hver sem er geti orðið fyrir nauðgun. Því hefur samfélagið ríka þörf fyrir að varpa ábyrgðinni á herðar þolenda.[35]

3 Lokaorð

Nauðgunarmýtur hafa neikvæð áhrif fyrir brotaþola sem eru í langflestum tilvikum konur en eru körlum, gerendum afbrotsins, hliðhollar. Í dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum má greina kynjaða slagsíðu þar sem staðalímyndir og mýtur um nauðganir hafa áhrif á hvaða vægi gögnum var veitt sem lögð voru til grundvallar niðurstöðum í málunum.

Verndarandlag nauðgunarbrota er kynfrelsi einstaklingsins.[36] Að veita kynfrelsi kvenna vernd er þó hið samfélagslega vandamál sem við okkur blasir þar sem konur eru að mestum hluta þolendur brotanna.[37] Ef við sem samfélag viljum vernda kynfrelsi kvenna en tregðu gætir til að dæma unga karla fyrir nauðgun verðum við að finna önnur úrræði en fangelsisrefsingar. Ellegar sendum við þau skilaboð til kvenna að brotin séu refsilaus með þeim afleiðingum að brotaþolar sitja uppi með skömmina sem stöðvaði ekki gerendur þegar brotin voru framin. Þannig hafa lögfestar refsingar fyrir nauðgunarbrot ekki þau sérstöku og almennu varnaráhrif sem þeim er ætlað að hafa.


Heimildaskrá

Bergljót Baldursdóttir: ,,Fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt“, http://www.ruv.is/frett/fjordu-hverri-konu-naudgad-eda-thad-reynt, 14. nóvember 2018 (skoðað 22.11.2018).

Eiríkur Tómasson: ,,Sitt er hvað, sönnunarbyrði og sönnunarmat. Umfjöllun um dóm Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 148/2005“, Úlfljótur, 3. tbl. 2007, bls. 481-516.

Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum: Saklaus uns sekt er sönnuð? Ritgerð til MA-prófs í lögfræði. Leiðbeinandi Ragnheiður Bragadóttir. Reykjavík 2019.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir: ,,Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst. Um áhrif nauðgunarmenningar á daglegt líf kvenna“. Rannsóknir í félagsvísindum XV. Félags-vísindastofnun Háskóla Íslands. Ritstj. Silja Bára Ómarsdóttir. Reykjavík 2014, bls. 1-9.

Guðbrandur Árni Ísberg: Skömmin. Reykjavík 2019.

Guðrún Jónsdóttir: Um nauðganir, afleiðingar, málsmeðferð, Stígamót. Reykjavík 2012.

Hildur Fjóla Antonsdóttir: Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum. Edda – Öndvegissetur í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2014.

Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Einkenni og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. Innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2013.

Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð. Edda – Öndvegissetur í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2013.

Hrönn Stefánsdóttir: Gögn frá Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. ,,Kynning fyrir dyraverði og starfsfólk skemmtistaða“, óbirt, Reykjavík 2018.

James Ost og Christopher C. French: ,,How misconceptions about memory may undermine witness testimony“. Witness testimony in sexual cases. Evidential, investigative and scientific perspectives. Ritstj. Pamela Radcliffe o.fl. Oxford 2016, bls. 361-373.

Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap. A Question of Attitude. Oxford and Portland. Oregon 2008.

Jónatan Þórmundarson: Afbrot og refsiábyrgð II. Reykjavík 2002.

Kate Manne: Down Girl. The logic of misogyny. Oxford University Press 2018.

Nancy Levit og Robert R. M. Verchick: Feminist legal theory. New York og London 2016.

Pamela Radcliffe og Gísli H. Guðjónsson CBE: ,,Witness testimony: Vulnerabilities, context, and issues“. Witness testimony in sexual cases. Evidential, investigative and scientific perspectives. Ritstj. Pamela Radcliffe o.fl. Oxford 2016, bls. 11-24.

Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun. Reykjavík 2015.

Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Reykjavík 2018.

Ragnhild Hennum: ,,Voldtekt og seksuella overgrep mot barn – spiller strafferetten en rolle?“. Norstedts Jurdik. Ritstj. Kerstin Nordlöf. Stokkhólm 2013, Bls. 69-84.

Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík 2010.

Róbert R. Spanó: Túlkun lagaákvæða. Reykjavík 2007.

Submission to the Universal Periodic Review of Iceland 26th UPR Session. Mannréttindaskrifstofa Íslands, Reykjavík 2016.

Trine Baumbach og Christina D. Tvarnø: „Discrimination against Women in the Field of Criminal Law. Particularly on gender-based violence“, Scandinavian Womens’s Law in the 21st Century. Ritstj. Ruth Nielsen og Christina D. Tvarnø. Kaupmannahöfn 2012,bls. 169-194.

Ulrika Andersson: Hans (ord) eller hennes? Lundur 2004.

Þórdís Eva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli. Reykjavík 2009.

Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: „,,Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“: Greining á niðurstöðum Hæstaréttar í nauðgunarmálum“. Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar. Árgangur 3/2018. Ritstj. Rannveig Sverrisdóttir. Þema ritstj. Bergljót S. Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Reykjavík 2018, bls. 67-96.

Dómaskrá

Dómar Hæstaréttar Íslands
H 521/2012
H 93/2013
H 215/2013
H 619/2013
H 790/2013
H 727/2013
H 757/2013
H 335/2014
H 508/2014
H 190/2015
H 249/2015
H 748/2015
H 36/2016
H 35/2016
H 559/2016
H 440/2016
H 176/2017
H 486/2016


[1] Grein þessi er byggð á meistararitgerð höfundar við lagadeild Háskóla Íslands, sem ber heitið „Um sönnun í nauðgunarmálum: Saklaus uns sekt er sönnuð?“ Leiðbeinandi var Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

[2] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 36.

[3] Greinargerð með frumvarpi til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

[4] 1. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

[5] Guðbrandur Árni Ísberg: Skömmin (2019), bls. 52.

[6] Ulrika Andersson: Hans (ord) eller hennes? (2004), bls. 21.

[7] Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð (2013), bls. 1.

[8] Guðrún Jónsdóttir: Um nauðganir, afleiðingar, málsmeðferð, Stígamót (2012), bls. 59.

[9] Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir: ,,Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst!“ (2014), bls. 1. Bent hefur verið á að tilgangur nauðgunarmýta sé að réttlæta og gera lítið úr ofbeldisfullri hegðun karla gegn konum, sbr. Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 34.

[10] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 31-31.

[11] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 32.

[12] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: ,,Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 76.

[13] Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun (2015), bls. 14.  Sjá einnig Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks (2018).

[14] Eiríkur Tómasson: „Sitt er hvað, sönnunarbyrði og sönnunarmat“ (2007), bls. 507. 

[15] Rannsóknin var afmörkuð við mál þar sem ákært var fyrir brot á 1. mgr. 194. gr. hgl. gegn einstaklingum 15 ára og eldri.

[16] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 33.

[17] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 34. 

[18] Kate Manne: Down girl (2018), bls. 199. 

[19] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: „Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 76. 

[20] Frægt er mál bandaríska sundkappans sem dæmdur var í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um að nauðga meðvitundarlausri stúlku á bak við ruslagám í júní 2016. Sjá nánar: Kate Manne: Down girl (2018), bls. 198. 

[21] Kate Manne: Down girl (2018), bls. 197. 

[22] Kate Manne: Down girl (2018), bls. 197. 

[23] Veraumkun er þýðing Eyju M. Brynjarsdóttur, doktors í heimspeki. 

[24] H 35/2016 (Breiðholt), H 190/2015 (menntaskólanemar)  og H 215/2013 (myndbandsleiga).

[25] Hrd. 29. september 2016 (35/2016) ,,Breiðholt“ og Hrd. 4. febrúar 2016 (190/2015) ,,menntaskólanemar“.

[26] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 62-64.

[27] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 59.

[28] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 39.

[29] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 13.

[30] Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli (2009), bls. 35.

[31] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: ,,Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 87.

[32] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 61-62.

[33] James Ost og Christopher C. French: „How misconceptions about memory may undermine witness testimony“ (2016), bls. 371.

[34] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 64-66.

[35] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: „Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 76. 

[36] Jónatan Þórmundarson: Afbrot og refsiábyrgð II (2002), bls. 19 og Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks (2018), bls. 70-74. 

[37] Bergljót Baldursdóttir: ,,Fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt“ (2018). Ruv.is.