Áhrif nauðgunarmýta á íslenska dómaframkvæmd í nauðgunarmálum*

Eftir Evu Huld Ívarsdóttur, lögfræðing.[1]

* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.

Efnisyfirlit

1 Inngangur
2 Rannsókn á dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum
2.1 Aðferðafræði dómarannsóknar
2.2 Áhrif nauðgunarmýta á dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum
2.2.1 Hæstaréttardómur 29. september 2016 í máli 35/2016 (Breiðholt)
2.2.2 Hæstaréttardómur 4. febrúar 2016 í máli 190/2015 (menntaskólanemar)
2.2.3 Hæstaréttardómur 19. júní 2013 í máli nr. 215/2013 (myndbandsleiga)
2.3 Niðurstöður dómarannsóknar
3 Lokaorð
Heimildaskrá
Dómaskrá


Ágrip

Í þessari grein verður fjallað um rannsókn höfundar á átján dómum Hæstaréttar Íslands í nauðgunarmálum á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2017. Sérstaklega verður fjallað um birtingarmyndir nauðgunarmýta og áhrif þeirra á sönnunarmat í dómunum þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að ranghugmyndir um nauðganir, svonefndar nauðgunarmýtur, eru afar útbreiddar.[2]

Abstract

This article discusses a case study on eighteen judgments of the Supreme Court of Iceland in rape cases from the 1st of January 2013 to the 31st of December 2017. The case study aims to find out whether manifestations of rape myths can be analysed and categorized depending on how the incidents and circumstances fit the myths surrounding the concept of rape.


1 Inngangur

„Lögfræði og sálfræði eru sín hvor hliðin á sama teningnum“ er setning sem ég heyrði skömmu eftir að ég hóf nám í lögfræði. Þessi setning varð mér hugleikin og ég hafði það í huga í gegnum námið. Samningaréttur eru lögfestar reglur sem mótuðust með hliðsjón af því hvað þótti sanngjarnt[3] og markmið umferðarlaganna er að vernda líf vegfarenda.[4] Jafnframt hefur refsilöggjöfinni verið lýst sem viðbrögðum samfélagsins til að bæta upp fyrir óþroskuð skammarviðbrögð þeirra einstaklinga sem fremja afbrot. [5]

Afbrotinu nauðgun hefur verið lýst sem öfgakenndustu birtingarmynd valdamisræmis kynjanna.[6] Samkvæmt upplýsingum um tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009 eru brotaþolar nauðgunarbrota í flestum tilvikum ungar konur.[7] Fáar konur kæra hins vegar nauðganir því þær vita að þær geta átt von á að mæta lífseigum staðalímyndum og fordómum í réttarkerfinu.[8] Þessar staðalímyndir hafa verið kallaðar nauðgunarmýtur og eru hluti af menningargerð sem samþykkir, viðheldur og ýtir undir ofbeldi gegn konum.[9]

Samfélagslegar hugmyndir um nauðgun kristallast í frásögninni um konu sem verður fyrir árás ókunnugs manns sem ræðst að henni með ofbeldi, gjarnan vopnaður í dimmu húsasundi þar sem hún veitir honum virkt viðnám. Þessi frásögn hefur verið nefnd mýtan um „alvöru nauðgun“. Hugmyndin sækir ekki stoð í raunveruleikann því rannsóknir sýna að brotaþoli og gerandi þekkjast í flestum tilvikum fyrir verknaðinn og algengt er að brotaþoli hafi ekki möguleika á að verja sig eða sé of hrædd til þess. Fyrir vikið eru líkamlegir áverkar oft ekki til staðar til að styðja við frásögn brotaþola.[10]

Mýtan um „alvöru nauðgun“ getur einnig orðið leiðbeinandi þegar kemur að þeim viðmiðum sem atvik og aðilar þurfa að fullnægja til að sakfellt sé fyrir nauðgun fyrir dómstólum. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að því ólíkari sem atburðarásin er þessari staðalímynd því færri eru tilbúnir að skilgreina atvikin sem nauðgun og telja brotaþola síður trúverðuga.[11] Í samfélaginu gætir tregðu til að gangast við því að „venjulegt“ fólk fremji nauðganir og að hver sem er geti orðið fyrir þeim. Því hefur samfélagið ríka þörf fyrir að varpa ábyrgðinni á herðar þolenda.[12]

2 Rannsókn á dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum

Sönnun í nauðgunarmálum er erfið[13] og sönnunarmat dómara er matskennt og frjálst. Dómarar eru þó bundnir af því að ómálefnaleg sjónarmið mega ekki ráða för við mat þeirra.[14] Með það að markmiði að varpa nánara ljósi á þær kröfur sem dómstólar gera um sönnun í nauðgunarmálum rannsakaði ég dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum á fimm ára tímabili, frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2017.[15]

Á tímabilinu voru átján mál þar sem ákært var fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hér eftir „hgl.“) Sautján málum lauk með efnisdómi en eitt mál var ómerkt og því vísað heim í hérað. Af þeim sautján málum sem lauk með efnisdómi var sakfellt í fjórtán málum. Í tólf málum var sakfellt fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. hgl. en í þremur málum voru sakborningar sýknaðir af nauðgun.[16] Þau mál eru hér til umfjöllunar.

2.1 Aðferðafræði dómarannsóknar

Við upphaf vinnunnar greindi ég öll þau gögn sem lögð voru fram í málunum, þ.e.  réttarmeinafræðileg gögn, fjölda framburða almennra vitna og sérfræðivitna, sýnileg sönnunargögn og vettvangsskýrslur. Einnig greindi ég verknaðaraðferðir, vettvang, tengsl aðila og mat á trúverðugleika brotaþola og sakborninga. Frá slíku sjónarhorni var ekki að finna neinn þráð í gegnum málin sem draga mætti ályktanir af og erfitt var að greina hvað var sammerkt með málunum öllum, enda eru þau fjölbreytt og ólík um margt. Það var ekki fyrr en ég greindi málin eftir því hve vel eða illa þau féllu að þekktum nauðgunarmýtum að fram komu þættir sem málin áttu sameiginlega og finna mátti rauðan þráð sem var sá að því fjær hugmyndum um nauðgunarmýtur sem málin voru því ólíklegra var að sakfellt væri í þeim.

Mýtan um „alvöru nauðgun“, þar sem maður ræðst vopnaður á konu utandyra, er fjarri þeim raunveruleika sem birtist í íslenskum nauðgunarmálum. Ég  greindi því nauðgunarmýturnar eftir þremur ráðandi þáttum og mátaði að atvikalýsingum í áðurnefndum átján dómsmálum.

Í fyrsta lagi greindi ég hvar brotið átti sér stað og tengsl brotaþola og gerenda. Þessi þáttur tengist þeirri mýtu að gerandi í nauðgunarmálum sé brotaþola ókunnugur og að brotin gerist á víðavangi. Í öðru lagi greindi ég mýtur um brotaþola. Hér koma við sögu margar nauðgunarmýtur. Fyrst ber að nefna að talið er að þolendur „alvöru nauðgunar“ leggi strax fram kæru. Einnig er litið til þeirrar mýtu að sé brotaþoli drukkin er það talið draga úr trúverðugleika hennar og auka þátt hennar í brotinu. Einnig leitaði ég eftir því hvort greina mætti aðrar mýtur líkt og mýtuna um að konur sem saki karla um nauðgun séu ekki brotaþolar heldur sjái eftir samræði sem veitt var með samþykki og vegna þeirrar eftirsjár greini þær frá því sem nauðgun.[17] Í þriðja lagi greindi ég mýtur um gerendur. Þessi þáttur tengist hugmyndum um að gerendur nauðgana séu siðblindir og harðneskjulegir karlar[18] sem séu ólíkir öðrum og því sé hægt að forðast þá.[19] Heimspekingurinn Kate Manne lýsir því hvernig gerendur kynferðisofbeldis njóti oft ofaukinnar meðaumkunar sem leiðir til þess að tregðu gætir til að refsa þeim, jafnvel þegar sök sannast[20] og að þolendum þeirra sé síður trúað.[21] Hún nefnir þessa sérstöku gerð meðaumkunar „himpathy“[22] sem útleggst sem veraumkun[23] á íslenska tungu.

2.2 Áhrif nauðgunarmýta á dóma Hæstaréttar í nauðgunarmálum

Af þeim dómum sem rannsakaðir voru var sýknað af öllum ákæruliðum í þremur málum.[24] Í meðferð málanna mátti greina áhrif nauðgunarmýta. Brotaþolar voru í öllum málunum ungar stúlkur sem voru undir áhrifum áfengis og í tveim málum drógu þær að kæra.[25] Það vakti auk þess athygli að samtölum brotaþola við jafningja var veitt mikið vægi við sönnunarmatið.

2.2.1 Hæstaréttardómur 29. september 2016 í máli 35/2016 (Breiðholt)

H 35/2016 (Breiðholt) er eina málið þar sem sakborningar voru fimm talsins. Því greindi ég framburði sakborninga, vitna og brotaþola og bar þá saman í ljósi fjölda þeirra.

Atvik málsins voru þau að brotaþoli var stödd í samkvæmi í heimahúsi í Breiðholti þar sem hún hefur kynferðislegt samneyti við einn gerenda, X, þann elsta. Hún lýsir því þannig að X hafi í kjölfarið boðið hinum gerendunum að taka þátt í kynferðisathöfnunum og hún hafi árangurslaust reynt að ýta þeim frá sér þar til mótstaða hennar var brotin á bak aftur þegar þrír menn voru farnir að brjóta gegn henni áður en tveir bættust við. Ákærðu lýsa atvikum hins vegar á mismunandi hátt. Þannig greinir einn gerandinn frá því að X hafi kallað á hann til að koma og verða vitni að kynferðisathöfnunum á meðan X lýsir því að hann hafi farið inn á salerni eftir að hafa hafnað brotaþola kynferðislega. Þegar hann kom út af salerninu hafi allir samkvæmisgestir verið farnir utan brotaþola og hinna fjögurra ákærðu sem hann kvað þiggja munnmök frá brotaþola. Hann hafi síðan fylgst með en ekki tekið þátt. Aðrir ákærðu ásamt brotaþola lýsa því þó að hann hafi verið þátttakandi.

Þegar framburður í málinu er skoðaður heildrænt og framburður einstakra aðila borinn saman kemur í ljós að sitthvað stemmir ekki og að horft er fram hjá því að ákærðu ber ekki saman um hvernig samræðið hófst og enn síður hverjir tóku þátt. Jafnframt var þetta eina málið þar sem tekið var fram að framburður sakborninga væri trúverðugur. Á sama tíma var það talið draga úr trúverðugleika brotaþola að hún gat ekki greint frá með vissu hvort hún fór sjálf úr skónum eða hvort þeir voru teknir af henni.[26]

2.2.2 Hæstaréttardómur 4. febrúar 2016 í máli 190/2015 (menntaskólanemar)

Atvik málsins eru þau að brotaþolinn A hitti ákærða X á skemmtistað fyrir tilstuðlan sameiginlegra vina. A þótti X þegjandalegur og var um sig. A fór frá skamma stund er hún skildi drykkinn sinn eftir og man svo ekki eftir sér fyrr en í íbúð X með hann ofan á sér. Samkvæmt X fóru þau heim saman skömmu eftir að þau hittust. Þegar þangað var komið kvað hann A hafa farið á salernið og „algerlega rotast“ í kjölfarið og sofið til morguns. X neitaði alfarið að samræði hefði átt sér stað.

A dró að kæra málið til lögreglu í sextán mánuði en leitaði engu að síður til Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis daginn eftir brotið þar sem áverkar voru greindir. A lýsti því að hún hefði í upphafi ákveðið að kæra ekki en fengið samviskubit þegar hún frétti að X hefði nauðgað annarri stelpu og þá ákveðið að kæra. Í dóminum kemur fram að A hafi í sjálfu sér ekki verið ótrúverðug hvað frásögn af samræðinu varðar, sér í lagi því framburður hennar sækir stoð í gögn málsins en dómurinn taldi frásögn A um ölvunarástand sitt misvísandi.

2.2.3 Hæstaréttardómur 19. júní 2013 í máli nr. 215/2013 (myndbandsleiga)

Brotaþoli lýsti atvikum svo að ákærðu hefðu komið að henni þar sem hún var að reykja fyrir utan veitingastað og tekið hana upp í bifreið og keyrt að heimili annars ákærðu þar sem þeir héldu henni nauðugri og þvinguðu til samræðis meðal annars með því að halda henni fastri. Loks hafi þeir látið af háttseminni og borið brotaþola skólausa og grátandi út í bíl og ekið henni heim til vina.

Atvik máls eru mjög sérstök hvað varðar tengsl ákærðu og brotaþola. Brotaþoli hafði einungis hitt ákærða X nokkrum dögum áður þegar hann kom á vinnustað hennar og hafði beðið um símanúmerið hennar með ógnandi framkomu. X sendi henni í kjölfarið fjölda skilaboða sem hún tók ekki undir nema til að vísa þeim frá sér. Annan ákærða hafði hún aldrei hitt er þeir komu saman á bíl og tóku hana með sér þar sem hún stóð fyrir utan veitingastað að reykja.

Í málinu er mikið lagt upp úr því að brotaþoli kvaðst í skýrslutöku hjá lögreglu einungis hafa drukkið hvítvín en spurð nánar fyrir dómi kvaðst hún einnig hafa drukkið bjór. Sú túlkun meirihlutans er þó gagnrýnd í sératkvæði.

2.3 Niðurstöður dómarannsóknar

Af dómarannsókninni má draga þá ályktun að staðalímyndir og mýtur um nauðganir, brotaþola og gerendur hafi áhrif á hvaða vægi gögnum, sem lögð voru til grundvallar niðurstöðum í málunum, var veitt. Nauðgunarmýtur höfðu þannig áhrif á sönnunarmat í dómunum.

Í málunum er því veitt mikið vægi að fram kemur að brotaþolar ræða upplifunina við jafningja, jafnvel meira en réttarmeinafræðilegum gögnum og framburði sérfræðinga. Í H 190/2015 (menntaskólanemar) segir brotaþoli við vinkonu í gegnum Facebook ,,hann reið mér, mér var fokking nauðgað“. Hún lýsir því nánar og segir: „hann ýtti hausnum mínum niður“, „reið mér í rassinn líka“ og „mér er illt alls staðar“. Þegar vinkonan hvetur brotaþola til að leita sér aðstoðar færist hún undan og það kemur ítrekað fram hjá henni að hún sé ekki viss hvort þetta teljist nauðgun. Í H 35/2016 (Breiðholt) koma óvissa og vangaveltur brotaþola fram í því orðalagi að hún segir við vinkonu að hún hafi lent í kynlífsathöfnum sem hún vildi ekki og að hún ætli að gleyma þeim. Hún ákveður síðan að kæra þegar það kemur í ljós að gerendurnir tóku athæfið upp á myndband.[27] Hér er komið inn á tvær gamalkunnar nauðgunarmýtur. Annars vegar þá að konur sem sjá eftir því að hafa stundað kynlíf tilkynni það sem nauðgun og hins vegar þá að raunverulegir þolendur nauðgana tilkynni strax um nauðgunina til lögreglu.[28] Bæði málin bera þess merki að viðhorf brotaþola sé mótað af staðalímyndinni um alvöru nauðgun þar sem þær virðast eiga erfitt með að sjá sig sjálfar sem þolendur nauðgunar þrátt fyrir að hafa verið þvingaðar til samræðis.[29] Það er algengt að konur sem verða fyrir nauðgun af hendi aðila sem þær þekkja vilja síður nota hugtakið nauðgun yfir upplifun sína þó að hlutrænt séð hafi verið um nauðgun að ræða og þær ekki samþykkt kynmök.[30]

Í öllum málunum sem lauk með sýknu var þeirri hugmynd komið að í vörn sakborninga að brotaþoli hafi séð eftir samræði sem fengið hefði verið fram með samþykki en af einhverjum ástæðum borið fyrir sig að um nauðgun hefði verið að ræða. Í H 215/2013 (myndbandsleiga) báru ákærðu fyrir sig að brotaþoli hefði farið að gráta í miðjum samförum og viljað komast burt því hún hefði séð eftir því að hafa samræði við báða ákærðu þar sem hún átti kærasta.

Í samanburði við önnur mál var mikið fjallað um persónulega hagi ákærðu í H 35/2016 (Breiðholt) og H 190/2015 (menntaskólanemar). Fram kemur að þeir eru menntaskólanemar þó ekki sé algengt að starfsgrein ákærðu komi fram í nauðgunarmálum.[31] Það var fjallað um hve miklar og slæmar afleiðingar ákærunnar hefðu verið. Í ljósi þess má greina birtingarmynd veraumkunar sem lítið bar á í hinum dómunum. Afstaða dómsins til ákærðu í H 35/2016 (Breiðholt) virtist jákvæð og gagnrýnislaus þar sem það var mat dómsins að framburður ákærðu hafi verið ,,í aðalatriðum eins um það sem gerðist og mestu varðar“, en um vitnisburð brotaþola segir að hann hafi verið ,,breytilegur um sumt“ og ,,hún mundi sumt illa“.[32]

Af dómunum má draga þá ályktun að mikilvægara sé að vera staðfastur í frásögn sinni heldur en að færa fram gögn máli sínu til stuðnings. Það er miður, því raunveruleikinn er sá að þegar fólk dregur fram erfiðar og áfallatengdar minningar er frásögn þess ekki staðföst vegna eðlis minnisins og afleiðinga áfallastreitu.[33] Mat á gögnum málanna virðist því í sumum tilvikum litað af áhrifum nauðgunarmýta, bæði hvað varðar afstöðu til brotaþola og sakborninga. Öðruvísi er erfitt að útskýra mat dómara á misræmi í frásögn ákærðu í H 35/2016 (Breiðholt) sem er jafnframt eina málið þar sem dómurinn taldi sakborninga einfaldlega trúverðuga og brotaþola ótrúverðuga.[34] Það gæti einnig haft áhrif á matið að samkvæmt rannsóknum virðist fólk ekki vilja gangast við því að „venjulegir“ menn fremji nauðgun og að hver sem er geti orðið fyrir nauðgun. Því hefur samfélagið ríka þörf fyrir að varpa ábyrgðinni á herðar þolenda.[35]

3 Lokaorð

Nauðgunarmýtur hafa neikvæð áhrif fyrir brotaþola sem eru í langflestum tilvikum konur en eru körlum, gerendum afbrotsins, hliðhollar. Í dómum Hæstaréttar í nauðgunarmálum má greina kynjaða slagsíðu þar sem staðalímyndir og mýtur um nauðganir hafa áhrif á hvaða vægi gögnum var veitt sem lögð voru til grundvallar niðurstöðum í málunum.

Verndarandlag nauðgunarbrota er kynfrelsi einstaklingsins.[36] Að veita kynfrelsi kvenna vernd er þó hið samfélagslega vandamál sem við okkur blasir þar sem konur eru að mestum hluta þolendur brotanna.[37] Ef við sem samfélag viljum vernda kynfrelsi kvenna en tregðu gætir til að dæma unga karla fyrir nauðgun verðum við að finna önnur úrræði en fangelsisrefsingar. Ellegar sendum við þau skilaboð til kvenna að brotin séu refsilaus með þeim afleiðingum að brotaþolar sitja uppi með skömmina sem stöðvaði ekki gerendur þegar brotin voru framin. Þannig hafa lögfestar refsingar fyrir nauðgunarbrot ekki þau sérstöku og almennu varnaráhrif sem þeim er ætlað að hafa.


Heimildaskrá

Bergljót Baldursdóttir: ,,Fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt“, http://www.ruv.is/frett/fjordu-hverri-konu-naudgad-eda-thad-reynt, 14. nóvember 2018 (skoðað 22.11.2018).

Eiríkur Tómasson: ,,Sitt er hvað, sönnunarbyrði og sönnunarmat. Umfjöllun um dóm Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 148/2005“, Úlfljótur, 3. tbl. 2007, bls. 481-516.

Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum: Saklaus uns sekt er sönnuð? Ritgerð til MA-prófs í lögfræði. Leiðbeinandi Ragnheiður Bragadóttir. Reykjavík 2019.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir: ,,Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst. Um áhrif nauðgunarmenningar á daglegt líf kvenna“. Rannsóknir í félagsvísindum XV. Félags-vísindastofnun Háskóla Íslands. Ritstj. Silja Bára Ómarsdóttir. Reykjavík 2014, bls. 1-9.

Guðbrandur Árni Ísberg: Skömmin. Reykjavík 2019.

Guðrún Jónsdóttir: Um nauðganir, afleiðingar, málsmeðferð, Stígamót. Reykjavík 2012.

Hildur Fjóla Antonsdóttir: Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum. Edda – Öndvegissetur í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2014.

Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Einkenni og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. Innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2013.

Hildur Fjóla Antonsdóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð. Edda – Öndvegissetur í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2013.

Hrönn Stefánsdóttir: Gögn frá Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. ,,Kynning fyrir dyraverði og starfsfólk skemmtistaða“, óbirt, Reykjavík 2018.

James Ost og Christopher C. French: ,,How misconceptions about memory may undermine witness testimony“. Witness testimony in sexual cases. Evidential, investigative and scientific perspectives. Ritstj. Pamela Radcliffe o.fl. Oxford 2016, bls. 361-373.

Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap. A Question of Attitude. Oxford and Portland. Oregon 2008.

Jónatan Þórmundarson: Afbrot og refsiábyrgð II. Reykjavík 2002.

Kate Manne: Down Girl. The logic of misogyny. Oxford University Press 2018.

Nancy Levit og Robert R. M. Verchick: Feminist legal theory. New York og London 2016.

Pamela Radcliffe og Gísli H. Guðjónsson CBE: ,,Witness testimony: Vulnerabilities, context, and issues“. Witness testimony in sexual cases. Evidential, investigative and scientific perspectives. Ritstj. Pamela Radcliffe o.fl. Oxford 2016, bls. 11-24.

Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun. Reykjavík 2015.

Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Reykjavík 2018.

Ragnhild Hennum: ,,Voldtekt og seksuella overgrep mot barn – spiller strafferetten en rolle?“. Norstedts Jurdik. Ritstj. Kerstin Nordlöf. Stokkhólm 2013, Bls. 69-84.

Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík 2010.

Róbert R. Spanó: Túlkun lagaákvæða. Reykjavík 2007.

Submission to the Universal Periodic Review of Iceland 26th UPR Session. Mannréttindaskrifstofa Íslands, Reykjavík 2016.

Trine Baumbach og Christina D. Tvarnø: „Discrimination against Women in the Field of Criminal Law. Particularly on gender-based violence“, Scandinavian Womens’s Law in the 21st Century. Ritstj. Ruth Nielsen og Christina D. Tvarnø. Kaupmannahöfn 2012,bls. 169-194.

Ulrika Andersson: Hans (ord) eller hennes? Lundur 2004.

Þórdís Eva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli. Reykjavík 2009.

Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: „,,Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“: Greining á niðurstöðum Hæstaréttar í nauðgunarmálum“. Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar. Árgangur 3/2018. Ritstj. Rannveig Sverrisdóttir. Þema ritstj. Bergljót S. Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Reykjavík 2018, bls. 67-96.

Dómaskrá

Dómar Hæstaréttar Íslands
H 521/2012
H 93/2013
H 215/2013
H 619/2013
H 790/2013
H 727/2013
H 757/2013
H 335/2014
H 508/2014
H 190/2015
H 249/2015
H 748/2015
H 36/2016
H 35/2016
H 559/2016
H 440/2016
H 176/2017
H 486/2016


[1] Grein þessi er byggð á meistararitgerð höfundar við lagadeild Háskóla Íslands, sem ber heitið „Um sönnun í nauðgunarmálum: Saklaus uns sekt er sönnuð?“ Leiðbeinandi var Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

[2] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 36.

[3] Greinargerð með frumvarpi til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

[4] 1. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

[5] Guðbrandur Árni Ísberg: Skömmin (2019), bls. 52.

[6] Ulrika Andersson: Hans (ord) eller hennes? (2004), bls. 21.

[7] Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð (2013), bls. 1.

[8] Guðrún Jónsdóttir: Um nauðganir, afleiðingar, málsmeðferð, Stígamót (2012), bls. 59.

[9] Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir: ,,Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við það að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst!“ (2014), bls. 1. Bent hefur verið á að tilgangur nauðgunarmýta sé að réttlæta og gera lítið úr ofbeldisfullri hegðun karla gegn konum, sbr. Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 34.

[10] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 31-31.

[11] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 32.

[12] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: ,,Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 76.

[13] Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun (2015), bls. 14.  Sjá einnig Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks (2018).

[14] Eiríkur Tómasson: „Sitt er hvað, sönnunarbyrði og sönnunarmat“ (2007), bls. 507. 

[15] Rannsóknin var afmörkuð við mál þar sem ákært var fyrir brot á 1. mgr. 194. gr. hgl. gegn einstaklingum 15 ára og eldri.

[16] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 33.

[17] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 34. 

[18] Kate Manne: Down girl (2018), bls. 199. 

[19] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: „Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 76. 

[20] Frægt er mál bandaríska sundkappans sem dæmdur var í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um að nauðga meðvitundarlausri stúlku á bak við ruslagám í júní 2016. Sjá nánar: Kate Manne: Down girl (2018), bls. 198. 

[21] Kate Manne: Down girl (2018), bls. 197. 

[22] Kate Manne: Down girl (2018), bls. 197. 

[23] Veraumkun er þýðing Eyju M. Brynjarsdóttur, doktors í heimspeki. 

[24] H 35/2016 (Breiðholt), H 190/2015 (menntaskólanemar)  og H 215/2013 (myndbandsleiga).

[25] Hrd. 29. september 2016 (35/2016) ,,Breiðholt“ og Hrd. 4. febrúar 2016 (190/2015) ,,menntaskólanemar“.

[26] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 62-64.

[27] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 59.

[28] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 39.

[29] Jennifer Temkin og Barbara Krahé: Sexual Assault and the Justice Gap: A Question of Attitude (2008), bls. 13.

[30] Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli (2009), bls. 35.

[31] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: ,,Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 87.

[32] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 61-62.

[33] James Ost og Christopher C. French: „How misconceptions about memory may undermine witness testimony“ (2016), bls. 371.

[34] Eva Huld Ívarsdóttir: Um sönnun í nauðgunarmálum (2019), bls. 64-66.

[35] Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: „Hún reyndi ekki að kalla á hjálp“ (2018), bls. 76. 

[36] Jónatan Þórmundarson: Afbrot og refsiábyrgð II (2002), bls. 19 og Ragnheiður Bragadóttir: Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks (2018), bls. 70-74. 

[37] Bergljót Baldursdóttir: ,,Fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt“ (2018). Ruv.is.