Ritstjórapistill

Eftir Víði Smára Petersen, fræðilegan ritstjóra Úlfljóts

Í dag er eitt ár liðið frá því að vefrit Úlfljóts, ulfljotur.com, opnaði með birtingu fyrstu greinarinnar. Fyrir nokkrum misserum nefndi ég við Arnar Svein Harðarson, þáverandi ritstjóra Úlfljóts, að mér fyndist vanta vettvang fyrir lögfræðileg fræðaskrif hér á landi utan hinna hefðbundnu tímarita. Einhvern vettvang sem lögmenn eða lögfræðingar úr stjórnsýslunni eða atvinnulífinu, og aðrir þeir sem almennt hefðu ekki tíma til rannsóknarstarfa og skrifa á fræðigreinum vegna anna í störfum sínum, gætu birt styttri greinar um afmörkuð efni sem þeir væru mögulega að sýsla við á þeim tíma. Þeir sem hafa frá einhverju fróðlegu að segja geta vissulega skrifað greinar í dagblöðin, en oft þarf að sjóða málefnið vel saman til þess að greinin passi innan strangra orðafjöldatakmarkana dagblaða og henti til lestrar fyrir almenning. Að mínu mati vantaði því vettvang sem væri einhvers staðar mitt á milli, þar sem skrifa mætti fræðilegt efni sem ekki þyrfti þó að vera í formi langrar og þunglamalegrar fræðigreinar. Þannig væri enda bagalegt ef fræðilegt efni, sem ætti erindi til lögfræðisamfélagsins, félli milli skips og bryggju því það hentaði hvorki dagblöðunum né lögfræðitímaritunum.

Arnar Sveinn tók síðan við keflinu og þróaði hugmyndina með miklu og óeigingjörnu starfi þar til vefritið varð að veruleika 1. október 2017. Segja má að tilgangur vefritsins sé tvíþættur. Annars vegar, eins og áður segir, að virkja fleiri til þátttöku í fræðilegri umræðu um lögfræði. Hins vegar að skapa auðveldari aðgengi almennings og fjölmiðla að skýrri og hnitmiðaðri umfjöllun um lögfræðileg málefni.

Vefritið hófst sem tilraunaverkefni, því enginn sem stóð að þessu vissi svo sem við hverju mátti búast. Myndi einhver hafa áhuga á að birta á þessum vettvangi? Þessari spurningu hefur verið svarað játandi og viðbrögðin hafa verið vonum framar, enda tel ég bersýnilegt að þennan vettvang hafi einmitt vantað í flóru fræðilegra skrifa á sviði lögfræði. Á þessu eina ári höfum við birt 13 greinar, sem er eins og heill árgangur lögfræðitímaritanna hér á landi. Allar greinarnar eru ritrýndar og fara í gegnum strangt ritrýniferli á grundvelli reglna vefritsins þar um. Við höfum birt greinar eftir prófessora, lögmenn, doktorsnema, laganema og lögfræðinga úr atvinnulífinu. Þá hafa efnistök greinanna verið afar fjölbreytt, allt frá lagasetningarfræðum og samningarétti yfir í það álitefni hvort Norður-Kórea hefði mátt beita kjarnorkuvopnum vegna yfirlýsinga Donalds Trump, Bandaríkjaforseta.

Þessu til viðbótar hafa sumar greinar vefritsins verið áberandi í samfélagslegri umræðu. Má þar nefna að í frumvarpi því er varð að lögum nr. 16/2018 um breytingu á almennum hegningarlögum var sérstaklega minnst á grein Ragnheiðar Bragadóttur, prófessors (sem var einmitt fyrsta greinin sem birtist á þessum vettvangi fyrir ári síðan) þar sem fjallað var um hvort breyta þyrfti skilgreiningu nauðgunarhugtaksins. Þá hefur margsinnis verið vísað til greinar Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, í almennri umræðu um áhrif hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Á þessu eina ári hafa þeir sem komið hafa að vefritinu lært heilmikið og hefur tíminn verið afar lærdómsríkur. Við hyggjumst byggja ofan á þá reynslu og munum halda áfram að þróa vefritið til hins betra. Þannig er t.d. fyrirhugað á næstunni að breyta útliti vefritsins til þess að bæta viðmót þess. Þá stefnum við að því að opna fyrir birtingu óritrýndra greina sem myndi auka enn frekar á möguleika þeirra sem vilja koma á framfæri hugleiðingum um lögfræðileg málefni líðandi stundar. Þótt þessar greinar yrðu ekki ritrýndar yrðu þær að sjálfsögðu ritstýrðar og myndu ekki verða birtar nema þær væru studdar lögfræðilegum og málefnalegum rökum.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg með óeigingjörnu starfi á síðastliðnu ári. Ber þar helst að nefna ritstjórana Arnar Svein Harðarson, Jóhannes Tómasson, Thelmu Christel Kristjánsdóttur og Ólöfu Emblu Eyjólfsdóttur, og ritrýninefnd vefritsins sem í sitja, auk mín, Ásgerður Ragnarsdóttir, Kristín Benediktsdóttir og Valgerður Sólnes.