Fjártækni og löggjöfin: Yfirlit yfir aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 8. mars 2018

Eftir Sigvalda Fannar Jónsson, lögfræðing hjá BBA lögmannsstofu

Sækja pdf-útgáfu

 

1. Innngangur
2. Fjártækni á Íslandi
3. Fjártækni og löggjöfin
4. Aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði fjártækni
     4.1.        Inngangur
     4.2.        Markmið og efni
     4.3.        Samantekt
5. Niðurlag

 

Ágrip

Þann 8. mars 2018 setti Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sér sérstaka aðgerðaáætlun á sviði fjártækni. Meginviðfangsefni þessarar greinar er að kanna hvað sú áætlun hefur í för með sér og víkja að því sem betur hefði mátt fara. Þá verður fjallað lítillega um stöðu fjártækni á Íslandi og hlutverkið sem löggjöfin getur gegnt þar. Greininni er ætlað að vera handhægt yfirlit yfir aðgerðaáætlunina á sviði fjártækni enda er þar að finna breytingar sem kunna að raungerast á Íslandi með hliðsjón af aðild Íslands að samningum um Evrópska Efnahagssvæðið.

 

Abstract

On 8 March 2018, the European Commission adopted a specific action plan in the field of fintech. The main objective of this article is to explore what the action plan entails and where improvements may still be needed. The article will also contain a high-level review of fintech in Iceland and the role of the legislation within that area. The article is intended to provide a general overview of the fintech action plan, especially because of amendments mentioned in the plan, that might take effect in Iceland, due to its membership to the Agreement on the European Economic Area.

 

1.         Innngangur[1]

Fjártækni (e. fintech) er hugtak sem hefur verið töluvert í umræðunni síðustu misseri í ljósi vaxandi tækniframfara innan fjármálageirans.[2] Í víðasta skilningi hugtaksins getur skilgreining þess náð yfir allar nýjungar og uppfinningar á fjármálamarkaði. Í þessari grein verður hugtakið hins vegar afmarkað við hvers kyns tæknilega nýsköpun eða frumkvæði sem leitt getur til nýrra ferla, smáforrita eða viðskiptaaðferða sem hafa áhrif á fjármálastofnanir og/eða fjármálamarkaði.[3] Það mætti jafnframt segja að eitt af grunnmarkmiðum fjártækninnar sé að bjóða upp á þjónustu innan fjármálageirans sem er notendavænni, skilvirkari og sjálfvirkari, en sú þjónusta sem fyrir er.[4] Mikil þróun hefur átt sér stað undanfarin ár á sviði fjártækni og hafa fjárfestingar þar að lútandi verið mjög miklar. Í þessu tilliti má nefna að á árinu 2017 er talið að fjárfestingar í fjártæknifyrirtækjunum hafi numið um 31 milljörðum bandaríkjadala, eða u.þ.b. 3840 milljörðum íslenskra króna.[5]

Meðfram tækninýjungum er mikilvægt að tengd löggjöf standi ekki í stað. Breytingar innan Evrópusambandsins (ESB) munu, í flestum tilvikum, þýða breytingar innan íslenska regluverksins í ljósi aðildar Íslands að samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið (EES-svæðið). Samkvæmt EES-samningnum eru EES ríki skuldbundin að taka upp löggjöf ESB sem samningurinn nær til í því skyni að ná samræmingu á þeim reglum sem varða fjórfrelsið innan Evrópu, sbr. einnig lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

Þann 8. mars 2018 setti Framkvæmdastjórn ESB sér sérstaka aðgerðaáætlun á sviði fjártækni. Markmiðið með þessari grein er að kanna hvað sú áætlun hefur í för með sér og víkja að því sem betur hefði mátt fara. Fyrst verður fjallað um stöðu fjártækni á Íslandi í öðrum kafla. Í framhaldinu er að finna almenna umfjöllun um samspil fjártækninnar og löggjafar í þriðja kafla. Að svo búnu verður fjallað um meginviðfangsefnið, aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 8. mars 2018, í fjórða kafla.

 

2.         Fjártækni á Íslandi

Íslendingar hafa ekki farið varhuga af þróun fjártækni á Íslandi. Notkun smáforrita og nýrra lausna á fjármálamarkaði eykst jafnt og þétt, hvort sem það er í gegnum snjallsímaforrit eins og Aur og Kass, smáforrit sem einfalda millifærslur og greiðslur, eða Meniga sem býður upp á ýmsar fjármálalausnir fyrir heimili. Að sama skapi mætti einnig nefna útlánastarfsemi t.d. hjá Framtíðinni eða hópfjármögnun í gegnum Karolina Fund. Án efa eiga enn fleiri fyrirtæki og lausnir eftir að líta dagsins ljós hér á landi, t.d. innan vátryggingarstarfsemi og fjárfestingarráðgjafar, þar sem enn má eygja sóknarfæri. Nýlega voru svo stofnuð Samtök fjártæknifyrirtækja en tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna þeirra fjártæknifyrirtækja á Íslandi sem, með nýsköpun í fjármálageiranum, vinna að því að breyta og bæta núverandi umhverfi fjármálakerfisins. Fyrirtæki með meginstarfsemi sem snúa að nýsköpun, nýtingu og þróun á tæknilausnum á sviði fjármálaþjónustu, geta átt aðild að samtökunum.[6] Þróunin innan viðskiptabankanna hérlendis hefur einnig verið á margan hátt í takt við þróunina erlendis, þar sem viðskiptabankar hafa aukið áherslu tækninnar hvað varðar notkun snjallsíma, sjálfvirkni í útibúum, ákvarðanir við lánveitingu o.fl. Þá hefur eitt einkenni fjártækni hér á landi verið að viðskiptabankarnir hafa kosið að vinna með fjártæknifyrirtækjum og hagnast þannig á tækniþekkingu og drifkrafti þeirra. Á sama tíma hafa fjártæknifyrirtækin fengið aðgang að reynslu, lagalegri þekkingu, innviðum og viðskiptavinum bankanna.[7]

Með slíkri þróun er gríðarlega mikilvægt að löggjöfin, eða regluverkið sem varðar hina nýju starfsemi, staðni ekki eða úreldist. Fjármálaeftirlitið hefur þegar sett á fót sérstakt þjónustuborð fyrir þá sem kunna að hafa spurningar um eftirlit á fjármálamarkaði vegna fjártækni, og er það vel. Með þessu hyggst Fjármálaeftirlitið stuðla að samskiptum við framangreinda aðila í því skyni að greina hvort leyfi þurfi til starfseminnar sem um ræðir hverju sinni og hvort starfsemin eða þjónustan sé í samræmi við lög.[8] Hvað regluverkið varðar, er nefnilega að ýmsu að huga þegar frumkvöðull hyggst kynna til sögunnar nýja fjártæknilausn. Um það verður fjallað stuttlega í næsta kafla.

 

3.         Fjártækni og löggjöfin

Það er mikilvægt að löggjöfin taki mið af og sé í takt við tækniþróun samfélagsins. Fyrir marga getur verið freistandi að byrja að nýta sér nýja og aðgengilega tækni áður en regluverkið hefur jafnvel séð þróunina fyrir eða brugðist við henni á nokkurn hátt.[9] Nýjar tæknilausnir innan fjármálamarkaðarins eru þar engin undantekning. Mikilvægur þáttur í áframhaldandi þróun og vexti fjártækni er löggjöfin sem skapar umgjörðina um starfsemina. Fjártæknifyrirtæki falla sjaldnast beint inn í hefðbundið skipulag og form fjármálalöggjafarinnar enda er markmið þeirra oft að breyta því sem hefur verið talið vera hefðbundið og falla þannig frá þeim hefðum sem gilt hafa, svo sem sjá má með innkomu Bitcoin.[10] Í þessu samhengi mætti nefna umræðuskjal Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, EBA, sem sýndi fram á að 31% fjártæknifyrirtækja, sem voru hluti af rannsókninni, féllu ekki undir neina tiltekna löggjöf, hvorki innanlands né á vettvangi ESB.[11]

Það væri hins vegar efni í sérstaka grein að fjalla sérstaklega um fjártækni og löggjöfina, enda getur það verið háð vandkvæðum að flokka lög og reglugerðir sérstaklega eftir því hvort þau tengjast fjártækni eða ekki. Það er nauðsynlegt að afmarka slíkt eftir starfseminni hverju sinni. Það er þó nærtækast í þessu samhengi að nefna innkomu og áhrif nýrrar greiðsluþjónustutilskipunar ESB, PSD 2 (Payment Services Directive 2) 2015/2366/EB. Tilskipunin er önnur löggjöf ESB um greiðsluþjónustu og mun m.a. fela í sér skyldu greiðsluþjónustuveitenda, t.a.m. viðskiptabanka, til að veita þriðju aðilum aðgang að bankareikningum umbjóðenda þeirra. Þessum aðilum verður þá heimilt að nýta sér þessar upplýsingar í tengslum við reikningsupplýsingar neytenda og þjónustu við upphaf greiðslna.[12] Að mörgu öðru er að huga í þessu samhengi enda hefur fjártækni snertifleti á ýmsum öðrum sviðum, svo sem innan almenns regluverks fjármálamarkaða, neytendaréttar, hugverkaréttinda, persónuverndar og netöryggis.

Ljóst er að hinn íslenski fjármálamarkaður tengist náið hinum sameiginlega evrópska fjármálamarkaði í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Þær breytingar sem munu eiga sér stað innan Evrópu munu oftast koma fram innan íslenska markaðarins á einn eða annan hátt. Það er jafnframt yfirlýst stefna stjórnvalda á Íslandi að í ljósi örra tæknibreytinga og áskorana sem þeim fylgja innan fjártæknigeirans sé mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, þar með talið nýsköpunarfyrirtæki, fjármálafyrirtæki og neytendur, að fylgst sé vel með þróun á þessu sviði, þ.e. upplýsingaöflun og greiningarvinnu á vettvangi ESB.[13] Því víkur sögunni næst að aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar ESB á sviði fjártækni.

 

4.         Aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði fjártækni

4.1.            Inngangur

Þann 23. mars 2017 kom út aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar um fjármálaþjónustu til neytenda sem snerti töluvert tilkomu og áhrif fjártækni. Þann 28. apríl á sama ári, kom síðan út skýrsla nefndar Evrópuþingsins um þau áhrif sem tækniframfarir munu hafa á framtíð fjármálakerfisins í Evrópu. Evrópuþingið ályktaði í kjölfar útgáfunnar og setti á laggirnar starfshóp á sviði fjártækni. Markmið starfshópsins var að skila inn tillögum til framkvæmdastjórnar ESB, um þær aðgerðir sem nauðsynlegar væru á þessu sviði. Í framhaldi af þessu var komið á fót opnu samráði á milli hagsmunaaðila í þeim tilgangi að afla upplýsinga um tækninýjungar í fjármálaþjónustu. Jafnframt var markmiðið að meta hvort að núgildandi regluverk ESB væri fullnægjandi, og ef ekki, til hvaða aðgerða hægt væri að grípa. Þann 8. mars 2018 setti framkvæmdastjórn ESB sér sérstaka aðgerðaáætlun á sviði fjártækni, sem verður meginviðfangsefni þessa kafla. Forsögu og ástæður má rekja til samráðsins sem vísað er til hér ásamt vinnu starfshópsins. Um markmið og efni áætlunarinnar er fjallað nánar í næsta kafla.

4.2.            Markmið og efni

Í aðgerðaáætluninni eru tiltekin þrjú meginmarkmið framkvæmdastjórnarinnar á sviði fjártækni:

  • Að virkja og beisla þær hröðu tækniframfarir sem átt hafa sér stað til hagsbóta fyrir hagkerfi, borgara og atvinnugreinar innan ESB;
  • að stuðla að enn meiri samkeppnishæfni og nýsköpun innan evrópska fjármálakerfisins; og
  • tryggja heiðarleika fjármálakerfis ESB.

Þær tillögur sem framkvæmdastjórnin setur fram til að ná þessum markmiðum og til að stuðla áfram að þróun fjártækni innan ESB eru margar og ólíkar. Um kosti og galla þessara tillagna verður nánar fjallað í kafla 4.3 en fyrst verður kannað hvað í þeim felst. Tekið skal þó fram að umfjöllunin er ekki tæmandi heldur er beint sjónum að því sem höfundur telur markverðast í tillögunum.

i. Leyfisveitingar vegna hópfjármögnunar

Ein áhugaverðasta tillagan sem er að finna í áætluninni tengist nýju regluverki um hópfjármögnun. Framkvæmdastjórnin rekur ástæður þess að þörf sé á heildarregluverki um hópfjármögnun og tekur fram að aðildarríki séu almennt með sundurleita löggjöf á þessu sviði. Framkvæmdastjórnin metur það svo að tími sé kominn á samræmdar reglur um slíka fjármögnun. Reglugerðin á að taka bæði til hópfjármögnunar vegna lánveitinga og fjárfestinga.[14]

Enn fremur er stefnt að því að hægt verði að gefa út svipuð „vegabréf“ og tíðkast innan MiFID regluverksins svo fyrirtæki geti boðið upp á þjónustu sína innan ESB á samræmdan og einfaldan hátt.[15] Telur framkvæmdastjórnin að markaðurinn fyrir hópfjármögnun innan Evrópu sé eftirbátur annarra landssvæða. Er nýja regluverkinu ætlað að bæta stöðu aðildarríkja sambandsins á þessu sviði. Regluverkið mun meðal annars innihalda skýrar og samræmdar reglur um upplýsingagjöf aðila, áhættustýringu og eftirlit.[16]

ii. Netöryggi

Eitt af helstu markmiðum framkvæmdastjórnarinnar sem sett eru fram í aðgerðaáætluninni tengist netöryggi. Fáar atvinnugreinar eru eins líklegar til að verða fyrir netárásum eins og fjármálakerfið en jafnframt eru þó fáar atvinnugreinar sem eru eins vel í stakk búnar til að takast á við þær.[17] Rík áhersla er lögð á að samræma áhættustýringu er varðar upplýsingakerfi. Ásamt því er áhersla lögð á að tryggja að ekki séu hindranir fyrir því að upplýsingum um mögulegar ógnir sé miðlað á milli landa, svo sem þannig að slík miðlun brjóti ekki reglur persónuverndar.[18]

Evrópsku eftirlitsstofnanirnar eru loks hvattar til að greina hversu skilvirkt regluverkið sé hvað varðar netöryggi. Margir telja að þetta sé vettvangur sem gæti orðið mjög virkur og lifandi á komandi tímum, með nýjum kröfum og reglugerðum.[19] Aðrir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að styrking netöryggis og regluverks þess sé grunnforsenda fyrir vexti fjártækni innan Evrópu. Ef alvarlegir öryggisbrestir verða er líklegt að fjártækni, í heild sinni, verði litin hornauga. Það gæti reynst erfitt að endurvekja traust á fjártækni fari svo að Evrópubúar missi trúna á hana.[20]

iii. Gjaldmiðlaútboð og bálkakeðjur

Um gjaldmiðlaútboð er það að segja að framkvæmdastjórnin mun halda áfram að kanna þær áskoranir og tækifæri sem rafeyrir og gjaldmiðlaútboð hafa í för með sér, sérstaklega með tilliti til regluverks ESB. Þá er ráðgert að halda áfram starfi rannsóknarseturs um bálkakeðjur (e. EU Blockchain Observatory and Forum).[21] Vonir standa til þess að tillögur verði gerðar í framhaldinu sem nái til bálkakeðja og tengdrar starfsemi.[22] Eins og fjallað verður nánar um í kafla 4.3 bjuggust margir við sterkari afstöðu og skýrari markmiðum framkvæmdastjórnarinnar í þessum efnum og undrast þeir sömu því aðgerðaleysi framkvæmdastjórnarinnar.

iv. Nýsköpunarsetur

Framkvæmdastjórnin hyggst kanna hverjar bestu aðferðirnar hafa reynst vera að því er varðar nýsköpunarsetur eða prófunarumhverfi.[23] Einnig verður möguleikinn kannaður á svokölluðu sandkassaregluverki (e. sandbox regulation). Sandkassaregluverk felur í sér að fjártæknifyrirtæki starfa almennt undir eftirliti eftirlitsstofnana en hafa þó frjálsari hendur þangað til löggjafarvaldið hefur öðlast betri sýn inn í starfsemi og eðli fyrirtækjanna.[24] Eftirlitsstofnanir fá þá betri innsýn inn í starfsemi nýsköpunarfyrirtækjanna og fyrirtækin sjálf þurfa ekki að starfa undir of íþyngjandi regluverki á sínum fyrstu stigum.

Rannsókn framkvæmdastjórnarinnar mun beinast að þeim aðgerðum sem ríki hafa gripið innan Evrópu til að stuðla að frekari þróun frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja á sviði fjártækni. Kannaðar verða aðferðir og hugmyndir mismunandi landa og skýrsla unnin út frá því.[25] Í þessu samhengi mætti nefna þjónustuborðið, sem Fjármálaeftirlitið kom á fót hér á landi og var rætt um í kafla 2. Framkvæmdastjórnin mun svo hýsa sérstök EU Fintech Lab sem verður eins konar rannsóknarvettvangur á sviði fjártækni á milli hagsmunaaðila, nýsköpunarfyrirtækja og löggjafarþinga sambandsins.[26]

v. Núverandi regluverk

Stofnaður verður stýrihópur sem á að skila inn skýrslu um mitt ár 2019 þar sem gerð er grein fyrir núverandi regluverki og samspili þess við nýsköpun innan fjármálageirans. Skýrslan mun innihalda enn ítarlegri tillögur og kannaðar verða sérstaklega þær aðgangshindranir sem til staðar eru og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir þær. Framkvæmdastjórnin hefur þegar tiltekið ýmsa þætti, til dæmis kröfur um skil á gögnum á pappírsformi, sem eina af mögulegum hindrunum fyrir hröðun nýsköpunar innan ESB.[27]

vi. Annað

Í aðgerðaáætluninni er stefnt að því að útbúa sérstaka staðla fyrir fjártæknifyrirtæki og vinna náið með Alþjóðlegu staðlasamtökunum í þessu samhengi.[28] Þá hvetur framkvæmdastjórnin eftirlitsstjórnvöld og hagsmunaaðila til að útbúa sérstakar leiðbeiningar og fyrir skýjalausnir m.a. svo að útrýma megi þeim aðgangshindrunum sem kunna að vera til staðar.[29]

4.3.            Samantekt

Mörg orð er hægt að hafa um aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnarinnar. Almennt séð er áætlunin frekar opin og markmið hennar góð og gild. Markmið ESB um regluverk sem er „hlutlaust“ gagnvart tækniframförum (e. technology-neutral) er að sama skapi góðra gjalda vert. Þá eru einstakar nýjungar mjög jákvæðar, m.a. tilkoma sérstakra prófunarumhverfa, sandkassaregluverks og þekkingarseturs vegna fjártækni. Sérstaklega í ljósi þess að nýsköpunarfyrirtæki hafa kallað eftir slíkum lausnum. Eins og áður sagði, þá fá eftirlitsstofnanir með því betri innsýn inn í starfsemi nýsköpunarfyrirtækjanna og fyrirtækin sjálf þurfa ekki að starfa undir of íþyngjandi regluverki á sínum fyrstu stigum. Einnig verður spennandi að fylgjast með hvernig nýtt regluverk á sviði hópfjármögnunar mun þróast. Drögin að reglugerðinni sem gefin hafa verið út, benda alltént til ýmissa breytinga á því sviði.[30]

Aðgerðaáætlunina má þó gagnrýna. Það er þörf á fleiri bitastæðari tillögum, líkt og fyrir hópfjármögnun. Það ætti þó ekki endilega að koma á óvart, þar sem kosning til Evrópuþingsins fer fram á næsta ári og líklegt að dagskráin sé þétt þangað til. Fyrir vikið er áætlunin mjög rannsóknarmiðuð og stefnt að því að kanna ýmsa möguleika og skoða, í stað þess að koma með skýrari tillögur. Staðreyndin er sú að ESB er í mikilli samkeppni við önnur svæði heimsins á sviði fjártækni. Hafa sumir haldið því fram að ESB sé hreinlega að dragast aftur úr, t.d. ef horft er til ríkja á borð við Singapore og Bretland.[31] Hins vegar er ljóst að það er enginn hægðarleikur að útbúa áætlun af þessu tagi. Feta þarf veginn á milli heildstæðs og sterks regluverks og þess að kaffæra ekki sprotafyrirtækjum með nýjum lögum og reglum. Jafnframt þarf að gæta að eðli nýrra fjártæknifyrirtækja, sprotafyrirtækja sem oft hefja starfsemi sína með fáum starfsmönnum, þar sem íþyngjandi regluverk getur verið mjög tímafrekt og kostnaðarsamt.[32]

Annað sem lýst hefur verið vonbrigðum með í tengslum við aðgerðaáætlunina er að lítið er minnst á rafmyntir nema í tengslum við peningaþvætti. Því hefur verið haldið fram að hyggist ESB ekki vera leiðandi á þessu sviði muni það leiða til sundurleitrar löggjafar milli aðildarríkjanna sem erfitt verði að samræma eftir á, á svipaðan hátt og nú er reynt fyrir hópfjármögnun.[33] Bent hefur verið á að hugsanlega væri hægt að taka á gjaldmiðlaútboðum í samræmi við almennar reglur ESB um útboðslýsingar.[34] Hins vegar er ljóst að einhverja breytinga er að vænta á því sviði með tilkomu laga nr. 91/2018 um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006. Frumvarpið var samið með hliðsjón af innleiðingu á fjórðu peningaþvættistilskipun ESBFjármálaeftirlitið hefur þegar kallað eftir því að þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla, og þjónustuveitendur stafrænna veskja óski eftir skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en einum mánuði frá gildistöku laganna þ.e. fyrir lok júlí 2018.[35]

Markmið og verkefni ESB hlýtur að vera að styðja nýsköpun og heilbrigða samkeppni innan svæðisins eftir fremsta megni á meðan að vernd neytenda er tryggð og fjármálastöðugleiki ríki innan sambandsins.[36] Í ljósi þess að lagasetning og samráð innan ESB getur verið þungt í vöfum gæti löggjöfin þurft að „elta“ sjálfa tækniþróunina. Í þeim tilvikum er mikilvægt að brúa millibilsástandið, hvort sem það er gert með útgáfu staðla, sameiginlegs ramma eða einhvers konar leiðbeininga frá eftirlitsstjórnvöldum. Tilraunir til þessa eru gerðar í aðgerðaáætluninni, líkt og áður kom fram, og gætu stuðlað frekar að því að aðildarríki ESB, ásamt EFTA ríkjunum, fari ekki öll í sitthvora áttina.[37] En betur má ef duga skal, og margt má meira koma til, að mati höfundar. Vonandi mun það eiga sér stað eftir kosningar til Evrópuþingsins á næsta ári sem vísað er til hér að framan.

 

5.         Niðurlag

Þegar kemur að nýjum tæknilausnum á vettvangi fjármálakerfisins er að mörgu að huga. Mikilvægt er að löggjöfin, eða regluverkið sem varðar hina nýju starfsemi, staðni ekki eða úreldist, líkt og áður kom fram. Jafn mikilvægt er að lagasetning taki af skarið og freisti þess að fyrirbyggja ýmis vandkvæði áður en til þeirra kemur, fremur en að leysa vandamálin eftir á. Í þeim efnum hefur Ísland alla burði til að vera í fararbroddi, hvort sem um sé að ræða lausnir á sviði sýndarfés, skýjalausna, gervigreindar og svona mætti áfram telja. Þrátt fyrir að aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar ESB bjóði ekki upp á umfangsmiklar breytingar á regluverki munu einhverjar breytingar verða á næstunni. Ljóst er að Ísland mun fylgja í fótspor ESB í ljósi aðildar þess að EES samstarfinu, líkt og fjallað var um í upphafi greinarinnar. Sést það meðal annars af markmiðum ríkisstjórnarinnar hér að neðan þar sem fjallað er um fjártækni;

Lagt er til að haldið verði áfram að funda með framkvæmdastjórn ESB til að fylgjast með þróun mála. Aflað verði upplýsinga um starfsemi ESB og evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjártækni og leitast við að tryggja aðgang að þáttum sem framkvæmdaáætlun ESB um fjártækni[38] og stefna EBA kveða á um. Kanna þarf hvort nauðsynlegt er að undirbúa sameiginlegt álit EFTA-ríkja innan EES hvað varðar nýja tillögu framkvæmdastjórnarinnar um reglugerð sem lýtur að hópfjármögnun til að senda til ESB.[39]

Yfirvöld hérlendis þurfa að fylgjast vel með málum og vera viðbúin fyrir breytingar. Því er við að bæta að innleiðingarhalli tilskipana og reglugerða sem falla undir EES samninginn hefur ekki verið minni frá 2010, sem verður að teljast jákvætt í þessu samhengi.[40] Í ljósi þess að margir bjuggust við meiru af aðgerðaáætluninni, mætti þó spyrja sig hvort yfirvöld hérlendis ættu fremur að taka af skarið, í stað þess að bíða tíðinda frá Brussel.

 

 

HEIMILDASKRÁ

Bjarke Smith og Cat Contiguglia: „EU joins the fintech revolution“. https://www.politico.eu/article/eu-joins-the-fintech-revolution/, (skoðað 3. júlí 2018).

„Communication from the Commission to the European Parliament, the Council, the European Central Bank, the European Econonomic and Soical Committe and the Committe of the Regions – Fintech Action plan: For a more competitive and innovative European financial sector“, COM/2018/0109. https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:52018DC0109, 8. mars 2018 (skoðað 22. júní 2018).

„Crowdfunding“, http://www.ec.europa.eu. https://ec.europa.eu/info/business-economy-euro/growth-and-investment/financing-investment/crowdfunding_en (Sótt 8. júlí 2018).

David Strachan, Suchitra Nair, Scott Martin og Quentin Mosseray: „The EU´s Fintech Action Plan“, http://blogs.deloitte.co.uk/financialservices/2018/03/the-eus-fintech-action-plan.html, 8. mars 2018 (skoðað 25. júní 2018).

Discussion Paper on the EBA´s approach to financial technology (FinTech), bls. 20.

Gregor Dorfleitner, Lars Hornuf, Matthias Schmitt, Martina Weber. Fintech in Germany. 2017. Springer.

Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB. Forgangsmál 2018. Stjórnarráðið. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=a78e9413-550d-11e8-9428-005056bc4d74. (skoðað 29. júní 2018).

Helena Pálsdóttir: „Tæknin, internetið og fjármálaþjónusta – hindranir fyrir Fintech aðila og hlutverk Fjármáleftirlitsins“, Fjármál – Rit Fjármálaeftirlitsins, bls. 2-6.

Hildigunnar Hafsteinsdóttir: „Fintech – framtíð fjármálagerninga“, Fjármál – Rit Fjármálaeftirlitsins, bls. 5.-6.

Jacqui Hatfield: „The EU Commission´s draft Action Plan for Fintech“, http://s3.amazonaws.com/cdn.orrick.com/files/Insights/Jacqui-Hatfield-PFL-March-2018-p10-11.pdf, (skoðað 30. júní 2018).

Kevin Petrasic: „The Role of Regulation in Financial Innovation: Does Fintech Need Regulation to Flourish?“, http://www.whitecase.com, (skoðað 4. júlí 2018).

KPMG Fintech Pulse Report. Global analysis of investment in fintech. 13. febrúar 2018. KPMG.

„Innri markaður: Innleiðingarhalli Íslands ekki minni frá 2010“, http://www.eftasurv.int/press–publications/press-releases/internal-market/innri-markadur-innleidingarhalli-islands-ekki-minni-fra-2010, 6. júlí 2018 (skoðað 8. júlí 2018).

Proposal for a Regulation of the European Parliament and of the Council on European Crowdfunding Service Providers (ECSP) for Business. http://www.ec.europa.eu. (skoðað 1. júlí 2018).

„Samtök fjártæknifyrirtækja stofnuð“, http://www.vb.is/frettir/samtok-fjartaeknifyrirtaekja-stofnud/144430/, 22. janúar 2018 (skoðað 5. júlí 2018).

“What is a regulatory sandbox?”, bbva.com. https://www.bbva.com/en/what-is-regulatory-sandbox/, 20. nóvember 2017 (skoðað 9. júlí 2018).

„Þjónustuborð vegna fjármálatækni (e. FinTech)“. http://www.fme.is. https://www.fme.is/eftirlitsstarfsemi/fintech-thjonustubord/ (skoðað 9. júlí 2018).

„Þjónustuveitendum með sýndarfé, rafeyri, gjaldmiðla og stafræn veski skylt að skrá sig fyrir lok júlímánaðar“, http://www.fme.is. https://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/thjonustuveitendum-med-syndarfe-rafeyri-gjaldmidla-og-stafraen-veski-skylt-ad-skra-sig-fyrir-lok-julimanadar, 7. júlí 2018 (skoðað 16. júlí 2018).

 


Eftirmálsgreinar

[1] Grein þessi er ekki ritrýnd, þar sem um yfirlitsgrein er að ræða, en hún hefur staðist kröfur ritstjórnar að öðru leyti.

[2] Einnig hefur verið notast við hugtakið fjármálatækni en hér verður hugtakinu fjártækni beitt. Í raun mætti segja að hugtakið fjártækni væri stytting á hugtakinu fjármálatækni, sem síðan er þýðing á enska hugtakinu financial technology eða fintech.

[3] Hildigunnar Hafsteinsdóttir: „Fintech – framtíð fjármálagerninga“, bls. 5.

[4] Gregor Dorfleitner o.fl.: Fintech in Germany, bls. 5.

[5] The Pulse of Fintech Q4 2017, bls. 5.

[6] „Samtök fjártæknifyrirtækja stofnuð“, http://www.vb.is.

[7] Helena Pálsdóttir: „Tæknin, internetið og fjármálaþjónusta – hindranir fyrir Fintech aðila og hlutverk Fjármálaeftirlitsins “, bls. 2.

[8] „Þjónustuborð vegna fjármálatækni (e. FinTech).“. http://www.fme.is.

[9] Hildigunnar Hafsteinsdóttir: „Fintech – framtíð fjármálagerninga“, bls. 5.

[10] Kevin Petrasic. „The Role of Regulation in Financial Innovation: Does Fintech Need Regulation to Flourish?“, http://www.whitecase.com.

[11] Discussion Paper on the EBA´s approach to financial technology (FinTech), bls. 20.

[12] Sjá 66. og 67. tilskipunar nr. 2015/2366/EB

[13] Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB, bls. 14.

[14] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 7.

[15] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 5.

[16] „Crowdfunding“, http://www.ec.europa.eu.

[17] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 15.

[18] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 16.

[19] David Strachan o.fl.: „The EU´s Fintech Action Plan“, http://www.blogs.deloitte.co.uk.

[20] Jacqui Hatfield: „The EU Commission´s draft Action Plan for Fintech“, aws.amazon.com.

[21] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 14-15.

[22] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 14

[23] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 9.

[24] „What is a regulatory sandbox?”, bbva.com.

[25] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 9.

[26] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 14.

[27] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 14-15.

[28] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 7-8.

[29] „Communication from the Commission: Fintech Action Plan“, bls. 11.

[30] Proposal for a Regulation of the European Parliament and of the Council on European Crowdfunding Service Providers (ECSP) for Business.

[31] David Strachan o.fl.: „The EU´s Fintech Action Plan“, http://www.blogs.deloitte.co.uk.

[32] Bjarke Smith og Cat Contiguglia: „EU joins the fintech revolution“, http://www.politico.eu.

[33] Jacqui Hatfield: „The EU Commission´s draft Action Plan for Fintech“, http://www.aws.amazon.com.

[34] Jacqui Hatfield: „The EU Commission´s draft Action Plan for Fintech“, http://www.aws.amazon.com.

[35] „Þjónustuveitendum með sýndarfé, rafeyri, gjaldmiðla og stafræn veski skylt að skrá sig fyrir lok júlímánaðar“, http://www.fme.is.

[36] David Strachan o.fl.: „The EU´s Fintech Action Plan“, http://www.blogs.deloitte.co.uk.

[37] David Strachan o.fl.: „The EU´s Fintech Action Plan“, http://www.blogs.deloitte.co.uk.

[38] Hér er áætlunin kölluð „framkvæmdaáætlun ESB um fjártækni“ en höfundur hefur notast við heitið „aðgerðaáætlun ESB á sviði fjártækni“, í grein þessari.

[39] Hagsmunagæsla Íslands gagnvart ESB, bls. 14.

[40] „Innri markaður: Innleiðingarhalli Íslands ekki minni frá 2010“, http://www.eftasurv.int.