Lögbann á fjölmiðlaumfjöllun – Dómur Hæstaréttar Íslands 22. mars 2019 (29/2018) í máli Glitnis HoldCo ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf.

Eftir Halldóru Þorsteinsdóttur, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Sækja pdf-útgáfu

Efnisyfirlit

1   Inngangur
2   Almennt um skilyrði lögbanns á fjölmiðlaumfjöllun
3   Nokkrir eldri dómar Hæstaréttar Íslands
4   Mál Glitnis HoldCo ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf.
4.1 Málsatvik
4.2 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 (E-3434/2017).
4.3 Dómur Landsréttar 5. október 2018 (188/2018).
4.4 Dómur Hæstaréttar Íslands 22. mars 2019 (29/2018).
5   Ályktanir af niðurstöðunni
6   Fyrirhugað frumvarp til laga um breytingar á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990.
7   Lokaorð
Heimildaskrá
Dómaskrá

 


Ágrip

Með dómi Hæstaréttar Íslands 22. mars 2019 (29/2018) í máli Glitnis HoldCo ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf. var endanlega til lykta leitt mál sem hefur borið hátt í opinberri umræðu hér á landi frá 16. október 2017, þegar lagt var lögbann við umfjöllun tveggja síðarnefndu félaganna sem byggði á gögnum Glitnis HoldCo ehf. og undirorpin voru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í greininni er fjallað um þann þátt dómsins sem laut að álitaefnum tengdum umræddu lögbanni og þeirri kröfu Glitnis HoldCo ehf. að viðurkennt yrði að umræddum fjölmiðlum væri óheimilt að birta eða fá birtar fréttir sem unnar væru upp úr fyrrgreindum gögnum. Er markmiðið öðrum þræði að greina hvaða sjónarmið leiða af dómi Hæstaréttar í framangreindu máli um lögbann við umfjöllun fjölmiðla og hvernig 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi horfir við þegar beitt er slíkri bráðabirgðaráðstöfun í tengslum við fréttaflutning. Þá verður vikið stuttlega að fyrirliggjandi frumvarpi til laga um breytingar á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 vegna skilyrða fyrir lögbanni þar sem tjáningarfrelsi kemur við sögu.

Rétt er að nefna að dómurinn snerti einnig önnur atriði á sviði fjölmiðlaréttar, svo sem meginregluna um vernd heimildarmanna, en vegna lengdartakmarkana greina í vefritinu ákvað höfundur að haga efnisafmörkun með þessum hætti að svo stöddu og láta umfjöllun um hinn þáttinn bíða annarrar greinar.

Abstract

This article discusses the findings of The Supreme Court of Iceland in a judgment from 22. March 2019 (29/2018) in relation to the claim of Glitnir HoldCo ehf. that the publishing companies Stundin ehf. and Reykjavik Media ehf. would be prohibited from publishing news or any information based on certain documents of Glitnir HoldCo ehf. The claim was made in relation to an injunction initially made on news and media coverage of the same documents. The author intends to sum up the most important findings of the judgment in relation to the aforementioned claim and analyze what conclusions may be drawn from it in relation to conditions for an injunction on media coverage. A brief reference will also be made to the existing bill amending the Act on Detention, Injunction, etc. no. 31/1990 regarding conditions for injunction when the matter concerns freedom of expression.
It might be mentioned that The Court also touched upon other issues in the field of media law, such as the protection of sources, but due to the length limitation of articles the author decided to limit the article in this way at this point. Rules regarding the sources protection will be discussed in another article.


1              Inngangur

Með dómi Hæstaréttar Íslands 22. mars 2019 (29/2018) í máli Glitnis HoldCo ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. (hér eftir Stundin) og Reykjavík Media ehf. lá endanlega fyrir niðurstaða í máli sem hlotið hefur mikla umfjöllun í fjölmiðlum frá 16. október 2017, þegar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði lögbann við því að Stundin og Reykjavík Media ehf. birtu fréttir eða umfjöllun byggða á gögnum eða kerfum Glitnis HoldCo ehf. og undirorpin voru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Eins og frægt er orðið tengdist lögbannið umfjöllun fjölmiðlanna um viðskipti þáverandi forsætisráðherra, ættingja hans og viðskiptafélaga í aðdraganda hrunsins og byggði sú umfjöllun á gögnum úr Glitni.

Í greininni er ætlunin að fjalla um helstu efnisatriðum dómsins hvað snertir bann við umfjöllun um umrætt málefni og þeim ályktunum sem draga má af forsendum hans um lögbann á fjölmiðlaumfjöllun. Það athugast að vegna takmarkana á lengd greina á vefritinu er efni greinarinnar takmarkað við þann þátt málsins er laut að umræddu lögbanni og/eða banni við vinnslu frétta tiltekins eðlis. Umfjöllun dómsins um vernd heimildarmanna verður þannig látin bíða að sinni. Þá er rétt að taka fram að áður en málinu var skotið til Hæstaréttar hafði fyrrgreindu lögbanni verið aflétt og því stóð einungis eftir krafa um viðurkenningu á því að óheimilt væri að vinna fréttir byggðar á gögnunum. Enda þótt Hæstiréttur hafi þannig ekki fjallað með beinum hætti um lögbannið var lögbannið vitanlega undirliggjandi í málinu og sakarefni málsins varðaði í reynd heimild til þess að takmarka umfjöllun fjölmiðils með líkum hætti og lögbann. Má því ætla að draga megi af dómi réttarins víðtækari ályktanir og þ.á m. um skilyrði lögbanns almennt á fjölmiðlaumfjöllun.

Efnistökum verður hagað þannig að fyrst verður fjallað stuttlega um almenn skilyrði lögbanns og sérstök sjónarmið sem leiða má af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um slíka fyrirfram takmörkun á tjáningarfrelsi. Því næst verður fjallað stuttlega um eldri dómaframkvæmd Hæstaréttar þar sem reynt hefur á lögbann á fjölmiðla og að því loknu um fyrrgreindan dóm Hæstaréttar ásamt niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar í málinu. Að svo búnu verður sjónum beint að helstu ályktunum sem draga má af niðurstöðunni og þannig reynt að gera grein fyrir því hvaða ramma stjórnarskráin og mannréttindasáttmálinn setur slíkum takmörkunum á tjáningarfrelsi fjölmiðla samkvæmt dómnum.

2              Almennt um skilyrði lögbanns á fjölmiðlaumfjöllun

Lögbann er ein tegund sérstakra fullnustugerða.[1] Um er að ræða einskonar neyðarráðstöfun til þess að hindra að réttindi fari forgörðum eða verði fyrir spjöllum á meðan beðið er dóms um þau. Markmið lögbanns er þannig að stöðva eða fyrirbyggja með skjótum hætti tilteknar athafnir sem raska eða eru líklegar til að raska lögvörðum rétti annars.[2]

Um lögbann á fjölmiðlaumfjöllun fer í megindráttum eftir sömu skilyrðum og almennt gilda samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990. Þannig þarf sá sem krefst lögbanns á umfjöllun að sanna eða gera sennilegt að umfjöllunin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að viðkomandi fjölmiðill hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi gerðarbeiðanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau, sbr. 24. gr. laganna.[3] Lögbann er hins vegar bráðabirgðaráðstöfun og gerðarbeiðandi þarf því að höfða dómsmál til staðfestingar gerðinni innan viku. Er nánar fjallað um slíka málshöfðun í 36.-41. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skal í einu lagi höfða mál um kröfu um hin efnislegu réttindi sem að baki lögbannskröfunni búa og til staðfestingar gerðinni. Með öðrum orðum er, auk kröfu um staðfestingu á gerðinni, gert ráð fyrir kröfu um viðurkenningu viðkomandi réttinda. Að því er fjölmiðlaumfjöllun varðar mætti t.d. nefna sem dæmi tvíþætta kröfu; annars vegar að staðfest verði með dómi tiltekið lögbann sem sýslumaður hefur lagt á og hins vegar kröfu um viðurkenningu á því að tiltekin umfjöllun brjóti gegn rétti stefnanda samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum meiðyrðalöggjafarinnar.

Það blasir hins vegar við að í málum þar sem reynir á lögbann vegna tjáningar kemur í langflestum tilvikum til kasta ákvæða stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi í 73. gr. og friðhelgi einkalífs í 71. gr.[4] Að því er tjáningarfrelsið snertir hefur lögbann ekki verið talið falla undir ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 73. gr. um bann við ritskoðun og öðrum sambærilegum tálmunum á tjáningarfrelsi[5], þótt vissulega megi halda því fram að lögbann feli í sér einhvers konar ,,fyrirfram ritskoðun“. Dómstólar virðast heldur nálgast slík álitaefni út frá því hvort skilyrðum 3. mgr. greinarinnar um takmörkun tjáningarfrelsis almennt teljist fullnægt hverju sinni. Í því sambandi má benda á héraðsdóminn í Hrd. 2006, bls. 2759 (541/2005), þar sem lögmæti lögbanns var metið með hliðsjón af 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, og Hrd. 1968, bls. 1007, þar sem Hæstiréttur staðfesti lögbann við birtingu upplýsinga hvað sem tilvísun gerðarþola til þágildandi prentfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar leið.[6] Er þetta í fullu samræmi við athugasemdir með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, en af þeim verður ráðið að lögbann teljist ekki til eiginlegrar ritskoðunar heldur takmarkana sem falla undir 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.[7] Þannig segir í athugasemdunum:

,,Með banni við ritskoðun og öðrum sambærilegum tálmunum er hér nánar tiltekið átt við að ekki megi lögfesta reglur sem feli í sér að maður verði knúinn til að leita opinbers leyfis fyrir fram til að mega tjá skoðun sína við aðra. Er þannig gengið út frá að almennt verði þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem geti talist heimilar eftir 11. gr. frumvarpsins að koma fram á þann hátt að þeim verði fyrst og fremst beitt eftir að tjáning hefur átt sér stað, líkt og gerist við málsókn til að koma fram viðurlögum vegna meiðyrða sem felist í þegar föllnum ummælum. Eftir atvikum eiga þær þó við áður en tjáningin á sér stað ef komið er fram að hún vofi yfir eins og getur t.d. gerst þegar leitað er lögbanns til að koma í veg fyrir útgáfu rits sem geymir ærumeiðandi ummæli um mann.“

 Af þessu er ljóst að við lögfestingu 73. gr. stjórnarskrárinnar var ekki ætlunin að girða fyrir að lögbann yrði notað sem úrræði til þess að koma í veg fyrir að tiltekin tjáning færi fram. Með öðrum orðum er ekki loku fyrir það skotið að einstaklingar eða lögaðilar geti fengið lagt lögbann við yfirvofandi tjáningu sem brýtur gegn lögvörðum rétti þeirra samkvæmt t.d. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Slíkt lögbann þarf hins vegar, líkt og aðrar takmarkanir á tjáningarfrelsi, að styðjast við lög, vera í þágu einhverra þeirra markmiða sem talin eru upp í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og vera ,,nauðsynlegt og samrýmast lýðræðishefðum“. Af dómaframkvæmd verður ráðið að þetta þriðja skilyrði er það sem einkum reynir á þegar lögbannsmál eru rekin fyrir dómi, enda er það einatt svo að viðkomandi ráðstöfun styðst við ákvæði laga og stefnir að einhverju þeirra markmiða sem fjallað er um í ákvæðinu, svo sem þegar lögbann er lagt við tjáningu með vísan til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um einkalífsvernd, en niðurstaða málsins ræðst af því hvort viðkomandi ráðstöfun sé nauðsynleg til þess að ná því markmiði sem að er stefnt og samrýmist lýðræðishefðum. Það mat getur ráðist af mörgum atriðum eins og ráðið verður af niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli því sem varð tilefni þessarar greinar, sbr. síðari umfjöllun í kafla 5 og 6, og togast í reynd þar á sömu sjónarmið og almennt reynir á í meiðyrðamálum þar sem vegast á tjáningarfrelsi og vernd æru eða friðhelgi einkalífs.

Rétt er þó að hafa í huga að það leiðir af sérstöku eðli lögbanns, sem einskonar fyrirfram tálmunar á tjáningarfrelsi, að gera verður ríkari kröfur til slíkrar tálmunar en annars konar takmarkana. Það er enda ólíklegra að slík fyrirfram takmörkun á tjáningu, sem ekki hefur enn litið dagsins ljós, teljist nauðsynleg og samrýmist lýðræðishefðum. Þannig hefur mannréttindadómstóll Evrópu t.d. margoft slegið föstu að meira þurfi að koma til en ella svo að slíkar takmarkanir verði taldar nauðsynlegar í lýðræðislegu þjóðfélagi í skilningi 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans.[8] Á það ekki síst við í tilviki fjölmiðla, enda ljóst að tafir á birtingu fjölmiðlaumfjöllunar vegna íhlutunar á borð við lögbann getur haft skaðleg áhrif á tjáningarfrelsið séu skilyrði þess ekki uppfyllt, sbr. t.d. MDE Gaweda gegn Póllandi 14. mars 2002 (26229/95) og MDE Observer og Guardian gegn Bretlandi 26. nóvember 1991 (13585/88).

3              Nokkrir eldri dómar Hæstaréttar Íslands

Nokkur dæmi eru um það hér á landi að leitað hafi verið lögbanns við birtingu efnis þar sem reynt hefur á tjáningu fjölmiðla eða annarra einstaklinga. Til þess að varpa nokkru ljósi á dómaframkvæmd að því leyti má vísa til eftirfarandi dóma:

Hrd. 2006, bls. 2759 (541/2005). Í málinu var deilt um greinar Fréttablaðsins með umfjöllun um tölvupóstsamskipti A og B þar sem m.a. kom fram að blaðið byggi yfir gögnum þar sem fram kæmi að A hefði ásamt B og C unnið að undirbúningi málaferla gegn forsvarsmönnum fyrirtækisins Baugs. Komu m.a. fram í greinunum tilvitnanir úr tölvupóstsamskiptum fyrrgreindra einstaklinga þar sem lagt var á ráðin um afhendingu gagna til skattyfirvalda vegna Baugsmálsins. Auk þess var fjallað um gögn þar sem finna mátti persónulegar fjárhagsupplýsingar A. Hún krafðist því lögbanns við birtingu gagnanna og í kjölfarið staðfestingar á lögbanni sem sýslumaður lagði á að hennar kröfu. Þá krafðist hún þess að ritstjóra Fréttablaðsins yrði gerð refsing samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á þeim forsendum að hann hefði greint frá einkamálefnum hennar í skilningi ákvæðisins. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að skrif blaðsins hefðu lotið að einkamálefnum A. Á hinn bóginn taldi rétturinn ekki verða framhjá því litið að umfjöllunin hefði verið liður í umræðu sem hefði verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þannig sagði m.a. í dómnum að um væri að ræða mál sem miklar deilur hefðu staðið um í þjóðfélaginu. Þótt jafnframt hefði verið greint frá fjárhagsmálefnum A hefði sú umfjöllun verið svo ,,samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki varð greint á milli“. Voru útgefandinn og ritstjórinn því sýknaðir af kröfu A.

Hrd. 2002, bls. 1941 (218/2002). Fallist var á kröfu þátttakenda í fegurðarsamkeppni um að lagt yrði lögbann við því að A o.fl. gæfu út, sýndu eða birtu opinberlega kvikmyndina Í skóm drekans, sem fjallaði um fegurðarsamkeppnina Ungfrú Ísland.is árið 2000. Var aðdragandinn sá að A, einn þátttakenda í keppninni, hafði tekið upp myndskeið frá undirbúningi og framkvæmd keppninnar, m.a. af þátttakendum hennar, án þess að hafa haft heimild til að taka myndir til opinberrar sýningar. Í úrskurði héraðsdóms var vísað til þess að A o.fl. hefðu þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir neitað að sýna myndina við meðferð málsins og væri því ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort atriði í henni brytu gegn rétti þátttakendanna. Yrðu þau að bera hallann af því að neita að sýna myndina, enda yrði að telja að við þessar aðstæður vægju hagsmunir þátttakendanna af friðhelgi einkalífs þyngra en frelsi A o.fl. til sýningar myndarinnar. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti úrskurð héraðsdóms að þessu leyti, kom fram að umrædd mynd hefði verið lögð fram undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti. A o.fl. hefðu hins vegar lítið sem ekkert vísað til hennar í málatilbúnaði sínum, auk þess sem þau hefðu einungis afhent eintak myndarinnar til sýningar fyrir dómendur og því ekki gætt jafnræðis um rétt málsaðila til að kynna sér sönnunargögn. Var því ekki litið til hennar við úrlausn málsins og hinn kærði úrskurður staðfestur.

Hrd. 1979, bls. 588. Börn og eftirlifandi eiginkona A kröfðust þess að lagt yrði lögbann við lestri skáldsögunnar Þjófur í paradís í útvarpi, en þau töldu ljóst að sagan, sem hafði komið út tæpum átta árum áður og fjallaði um bónda sem m.a. hlaut refsidóma fyrir hrossaþjófnað, byggði á lífshlaupi A. Í dómi Hæstaréttar, þar sem reyndi á staðfestingarmál lögbanns sem sýslumaður hafði lagt á lestur bókarinnar, kom fram að ekki væri byggt á réttarreglum um æruvernd eða friðhelgi einkalífs heldur ólögfestum meginreglum um lögvernd persónuleika manna. Í forsendum dómsins sagði síðan að í skáldsögunni hefði höfundur að ýmsu leyti stuðst við vissa atburði úr lífi A og að henni bæri mjög saman við atvikalýsingu í refsidómi sem hann hefði hlotið. Á hinn bóginn hefði A andast árið 1954 og fyrir lægi að frásagnir bókarinnar virtust að miklu leyti sóttar í prentaðar heimildir. Bókin hefði komið út árið 1967, hún væri í margra höndum og ekki annað komið fram en að hún væri á almenningsbókasöfnum. Lögbannskrafan varðaði lestur bókarinnar eins og hún lægi þegar fyrir prentuð og ekki yrði séð að lesturinn færi í bága við meginreglur laga um persónuvernd. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfu um staðfestingu lögbannsins.

Hrd. 1968, bls. 1007. Fallist var á að skilyrði lögbanns við birtingu upplýsinga um kynforeldra tiltekins kjörbarns í æviskrárriti um lækna væru uppfyllt og í þeim efnum vísað til þess að samkvæmt grunnreglum laga um þagnarvernd einkalífs ætti gerðarbeiðandi rétt á því að nöfn kynforeldra sinna yrðu ekki birt í ritinu.

4              Mál Glitnis HoldCo ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf.

4.1 Málsatvik

Í október 2017 voru birtar fréttir á vefsíðu og í dagblaði Stundarinnar sem sagðar voru afrakstur samvinnu blaðamanna Stundarinnar, Reykjavík Media ehf. og breska fjölmiðilsins Guardian. Voru fréttirnar sagðar byggja á gögnum ,,innan úr Glitni banka“, en í þeim var fjallað ítarlega um viðskipti nafngreindra viðskiptamanna Glitnis HoldCo ehf. (Glitnis), sem áður hét Glitnir banki hf., og tölvupóstsamskipti þeirra við bankann ásamt tölvupóstsamskiptum fyrrverandi starfsmanna bankans um nafngreinda viðskiptamenn hans. Meðal frétta af þessum toga voru fréttir af viðskiptum Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra, föður hans og föðurbróður, dagana fyrir hrun bankakerfisins í október 2008. Í fyrstu fréttinni sagði að Bjarni hefði selt fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni á tímabilinu 2.-6. október 2008 og þannig bjargað sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu dagana á eftir. Í kjölfarið voru birtar reglulega fréttir í Stundinni um fjárhagsleg málefni forsætisráðherrans auk þess sem birtar voru fréttir af fjárhagslegum málefnum fjölda annarra einstaklinga sem ýmist tengdust honum fjölskylduböndum eða höfðu starfað með honum á vettvangi viðskiptalífsins. Þá tóku aðrir fjölmiðlar til við að birta fréttir sama efnis, svo sem Morgunblaðið, Fréttablaðið, DV og Ríkisútvarpið.

Glitnir taldi ljóst að upplýsingarnar sem fjölmiðlafyrirtækin hefðu undir höndum væru undirorpnar trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og krafðist Glitnir því lögbanns við því að Stundin og Reykjavík Media ehf. birtu fréttir eða aðrar umfjallanir sem byggðu á eða væru unnar upp úr viðkomandi gögnum. Af hálfu sýslumanns var fallist á þá kröfu gagnvart bæði Stundinni og Reykjavík Media ehf.

4.2 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 (E-3434/2017).

Fyrir héraðsdómi krafðist Glitnir þess að staðfest yrði annars vegar lögbannið á Stundina og hins vegar Reykjavík Media ehf. Þá var þess krafist að viðurkennt yrði að þeim væri óheimilt að birta og/eða birtar fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum stefnanda og undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.[9]

Í dómi héraðsdóms var tekið fram að uppfyllt væru þau skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að skerðing tjáningarfrelsisins í þessu tilviki væri samkvæmt lögum og að hún miðaði að því markmiði að vernda réttindi annarra og koma í veg fyrir uppljóstrun trúnaðarmála, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Eftir stæði þá að taka afstöðu til þess hvort lögbannið hefði verið nauðsynlegt og samrýmst lýðræðishefðum, sbr. þriðja skilyrði 3. mgr. greinarinnar. Í því sambandi tók dómstóllinn fram að lögbannið hefði falið í sér algert bann við birtingu frétta unnum upp úr umræddum gögnum sem beindist að viðskiptum einstaklinga sem tengdust Glitni áður en Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008. Með lögbanninu hefði verið komið í veg fyrir að almenningur fengi frekari upplýsingar um málið og þannig verið raskað grundvallargildum um frjáls skoðanaskipti um samfélagsleg málefni. Þegar lögbannið hefði verið lagt á hefðu einungis 12 dagar verið til Alþingiskosninga 28. október 2008. Rétturinn til frjálsra kosninga og frelsið til að tjá sig um stjórnmál væru ein af undirstöðum lýðræðislegs stjórnarfars og því væri brýnt að fólk hefði frelsi til að tjá skoðanir sínar og miðla upplýsingum í aðdraganda kosninga.

Í niðurstöðukafla dómsins var síðan lögð á það áhersla að þungamiðja umfjöllunarinnar hefði verið þátttaka þáverandi forsætisráðherra í ýmsum viðskiptum og aðilum honum tengdum. Umfjöllunin hefði beinst að viðskiptalegum umsvifum einstaklings sem hefði sem stjórnmálamaður sjálfur gefið kost á sér til opinberra trúnaðarstarfa, en almenningur ætti við ákveðnar aðstæður tilkall til upplýsinga um stjórnmálamenn sem öllu jöfnu teldust til einkamálefna – einkum þegar upplýsingarnar tengdust því hvernig þeir hefðu rækt hlutverk sitt sem stjórnmálamenn. Einnig yrði að líta til þess að umfjöllunin um umsvif þáverandi forsætisráðherra og aðila sem tengdust honum hefði lotið að viðskiptasambandi þeirra við einn hinna föllnu banka, Glitni hf., á sama tíma og hann hefði verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá hefði setið í ríkisstjórn. Umfjöllunin hefði þannig tengst viðskiptaháttum í einum stóru viðskiptabankanna fyrir fall þeirra 2008, en fallið hefði haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Umfjöllunin um viðskiptaleg umsvif þáverandi forsætisráðherra og annarra, þar sem m.a. hefði verið vikið að áhættusömum fjárfestingum sem ekki hefðu skilað tilætluðum árangri væru þáttur í umfjöllun fjölmiðla um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kynni að hafa átt þátt í því hvernig fór. Skerðing á frelsi fjölmiðla til þess að fjalla um slík málefni gæti ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi.

Að því er aðra einstaklinga en forsætisráðherrann snerti var síðan litið til þess að þeir væru nátengdir forsætisráðherranum í gegnum fjölskyldubönd eða viðskiptasambönd, auk þess sem þeir hefðu haft tengsl við Glitni. Umfjöllun um þá hefði verið svo samofin fréttaefninu í heild að ekki yrði greint á milli, sbr. Hrd. 2006, bls. 2759 (541/2005). Með vísan til þessa var talið að ekki væri fullnægt áskilnaði 24. gr. laga nr. 31/1990 um að sannað væri að athöfn hefði eða myndi brjóta gegn lögvörðum rétti stefnanda. Var því synjað kröfu Glitnis um staðfestingu lögbannsins. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu var einnig sýknað af viðurkenningarkröfu stefnanda.

4.3 Dómur Landsréttar 5. október 2018 (188/2018).

Fyrir Landsrétti var að frágenginni aðalkröfu um ómerkingu héraðsdóms og skyldu nánar tilgreindra vitna til að svara tilteknum spurningum, sem ekki er ætlunin að fjalla nánar um í þessari grein eins og fram hefur komið, gerð varakrafa um að dómur héraðsdóms yrði felldur úr gildi og breytt á þá leið að staðfest yrði lögbann sýslumannsins. Þá var gerð sama krafa og fyrir héraðsdómi um að viðurkennt yrði að óheimilt væri að birta eða fá birtar fréttir byggðar á umræddum gögnum. Að því er þessar kröfur varðar sagði svo í dómi Landsréttar:

,,Með vísan til gagna málsins er fallist á þær forsendur héraðsdóms að umfjöllun Stundarinnar hafi í megindráttum beinst að viðskiptaháttum í einum af stóru viðskiptabönkunum fyrir fall þeirra 2008 og viðskiptaumsvifum þáverandi forsætisráðherra og lögaðila og einstaklinga sem tengdust honum fjölskylduböndum og/eða í gegnum viðskipti sem jafnframt tengdust eða voru fjármögnuð af umræddum banka. Enda þótt komið hafi fram í umfjöllun þessa stefnda upplýsingar um einstaklinga og lögaðila, svo sem kennitölur og heimilisföng, sem rétt hefði verið að afmá, verður ekki dregið í efa að umfjöllunin átti að stærstum hluta erindi til almennings á þeim tíma sem hún var sett fram í aðdraganda þingkosninga. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að ekki verði dregnar þær ályktanir af umfjölluninni að ætlunin hafi verið að nýta þau bankagögn sem stefndu höfðu undir höndum og njóta verndar samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 til þess að fjalla um fjárhagsmálefni einstaklinga sem ekki eiga erindi til almennings.“

Með skírskotun til þessa en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans staðfest að því er umræddar kröfur varðaði.

4.4 Dómur Hæstaréttar Íslands 22. mars 2019 (29/2018).

Með beiðni 1. nóvember 2018 leitaði Glitnir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Með ákvörðun réttarins 23. sama mánaðar var vísað til þess að vegna 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 gæti Glitnir ekki lengur krafist staðfestingar á hinu álagða lögbanni. Á hinn bóginn gæti málið haft almennt gildi að því er varðaði kröfur um viðurkenningu á því að Stundinni og Reykjavík Media ehf. væri óheimilt að birta eða fá birtar fréttir upp úr gögnum Glitnis, auk álitaefna um þagnarskyldu starfsmanna fjölmiðla varðandi heimildarmenn. Var því fallist á beiðni um áfrýjunarleyfi hvað þá þætti málsins varðaði.

Að því er viðurkenningarkröfuna varðar kom fram í dómi Hæstaréttar að þó svo að lögbannskrafan sem slík væri ekki til úrlausnar fyrir réttinum yrði við mat á fyrrnefndu kröfunni að hafa í huga aðdragandann og þær aðstæður sem uppi hafi verið þegar lögbannið var lagt á, enda stæðu rök til þess að meta umfjöllunina sem deilt væri um með heildstæðum hætti. Var enda ljóst að úrlausn um réttmæti banns við fréttaumfjöllun byggðri á umræddum gögnum hlaut að haldast mjög í hendur við forsendur mats á því hvort lögbann væri tækt vegna hennar.

Í dómi Hæstaréttar, þar sem kröfum Glitnis að þessu leyti var hafnað, var því lýst að í málinu reyndi á tjáningarfrelsi annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar. Við matið yrði að líta til þess að einungis 12 dagar hefðu verið til kosninga þegar lögbannið hefði verið lagt á og því brýnna en ella að upplýst fréttaumfjöllun yrði ekki skert umfram nauðsyn. Meginþungi umfjöllunarinnar hefði lotið að viðskiptasambandi eins æðsta embættismanns þjóðarinnar við einn af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins í aðdraganda íslenska bankahrunsins 2008, en eðli máls samkvæmt hefði öll opinber umræða undanfarin ár litast mjög af þeim atburðum og m.a. lotið að því að greina orsakir þeirra og eftirmála. Í dómi réttarins sagði síðan:

,,Í ljósi þeirra stórfelldu almennu áhrifa sem bankahrunið hafði á íslenskt samfélag er og eðlilegt að slíkt uppgjör fari fram á grundvelli opinberrar fréttaumfjöllunar og þeirrar almennu umræðu sem henni að jafnaði fylgir. Verður að líta svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning.“

Hvað aðra þá aðila sem umfjöllunin varðaði var tekið undir það með héraðsdómi og Landsrétti að ekki yrði annað séð en að þar hafi í flestum tilvikum verið um að ræða einstaklinga og lögaðila sem tengdust þáverandi forsætisráðherra með einum eða öðrum hætti, ýmist viðskipta- eða fjölskyldutengslum, og viðskiptum við bankann á umræddum tíma. Málefni þeirra hafi verið svo samofin umfjöllunarefninu að ekki yrði skilið á milli, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. júní 2006 (541/2005). Í þeim tilvikum sem slík tengsl við ráðherrann væru ekki augljós sýndist allt að einu um vera að ræða aðila sem hefðu verið umsvifamiklir eða áberandi í aðdraganda og eftirleik hruns bankanna eða sem tengdust þeim með augljósum hætti.

Í niðurstöðukafla dómsins sagði síðan að einnig væri til þess að líta að viðurkenningakrafan væri sett fram án frekari afmörkunar á því um hverja kynni að verða fjallað. Þannig sagði í dómnum:

,,Ná kröfur áfrýjanda því jafnt til þeirra sem vegna starfa sinna eða stöðu að öðru leyti þurfa að sæta því að búa við skertari friðhelgi einkalífs heldur en aðrir, svo sem áður hefur verið fallist á að meðal annars eigi við um kjörna fulltrúa, og svo á hinn bóginn þeirra sem rétt eiga á slíkri friðhelgi óskertri. Útilokar þessi framsetning áfrýjanda á kröfugerð sinni að unnt sé að fallast á hana. Tekið skal þó fram að einstaklingar sem kunna að telja að á sér hafi verið brotið geta eftir sem áður látið reyna á ætlaðan rétt sinn, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

5               Ályktanir af niðurstöðunni

Þó svo að lögbannið sem slíkt hafi ekki komið til kasta Hæstaréttar leiðir af forsendum réttarins, og skírskotun til þess að matið væri heildstætt þrátt fyrir að einungis viðurkenningarkrafan sæti eftir, að dómurinn felur a.m.k. með óbeinum hætti í sér almenna afstöðu til réttmætis þeirrar takmörkunar sem fólst í lögbanninu enda er þar almennt fjallað um skilyrði takmörkunar tjáningarfrelsisins, án þess að gildissvið þeirrar umfjöllunar hafi verið þrengt sérstaklega við tilteknar skerðingar, og raunar sérstaklega fjallað um að ríkar ástæður hefði þurft fyrir lögbanninu. Dómurinn hefur því að mati höfundar ekki síður fordæmisgildi að því er takmörkun tjáningar í formi lögbanns varðar en annars konar takmarkana.

Verður þá vikið að helstu ályktunum sem draga má af framangreindum úrlausnum. Af forsendum allra dómstiganna leiðir sú afdráttarlausa niðurstaða að ríkar ástæður þurfa að liggja til grundvallar skerðingu tjáningar í formi fyrirfram tálmunar eins og lögbanns á fjölmiðla. Er það í samræmi við það sem áður er rakið um að lögbann sé sú takmörkun sem hvað lengst gangi, auk þess sem við blasir að það er einungis í undantekningartilvikum sem slíkt getur talist nauðsynlegt, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, a.m.k. þegar fyrir hendi eru möguleikar á öðrum úrræðum á borð við miska- eða skaðabætur. Þetta er og í samræmi við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem því hefur verið slegið föstu að hafa þurfi í huga að slíkar fyrirfram takmarkanir á tjáningarfrelsi geti leitt til þess að fjölmiðlar bíði of lengi með fréttaefni sem oft þoli ekki bið, sbr. t.d. MDE Gaweda gegn Póllandi 14. mars 2002 (26229/95) og MDE Observer og Guardian gegn Bretlandi 26. nóvember 1991 (13585/88). Á þetta ekki síst við þegar um er að ræða samfélagslega umræðu í aðdraganda kosninga, en athygli vekur að bæði héraðsdómur og Hæstiréttur lögðu á það ríka áherslu að einungis 12 dagar hefðu verið til kosninga til Alþingis. Þó svo að telja verði ólíklegt að það eitt og sér hafi ráðið úrslitum, sbr. t.d. forsendur dómanna að öðru leyti þar sem ýmislegt fleira er dregið fram, verður a.m.k. ekki litið öðruvísi á en svo að væntanlegar kosningar hafi verið ein af lykilforsendum niðurstöðunnar. Þar skipti þó vitanlega einnig miklu að um var að ræða málefni stjórnmálamanns og þáverandi forsætisráðherra, sem hafði setið á Alþingi þegar þeir atburðir er umfjöllunin tók til áttu sér stað, en bæði Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa ítrekað staðfest að tjáningarfrelsið sé ríkara þegar um ræðir slíkar opinberar persónur sem hafa boðið sig fram til að gegna opinberum trúnaðarstörfum fyrir almenning.[10] Af dómi Hæstaréttar verður ekki annað ráðið en að sú forsenda hafi spilað stærsta hlutverkið ásamt þeirri staðreynd að umfjöllunin snerti atvik í aðdraganda hruns og tengsl umrædds stjórnmálamanns við einn af stóru viðskiptabönkunum þremur. Þessi forsenda þarf e.t.v. ekki að koma á óvart, enda hafa afleiðingar og orsakir hrunsins 2008 verið umfjöllunarefni fjölmiðla allar götur síðan og hefur Hæstiréttur áður staðfest að málefni tengd hruninu, svo sem lánveitingar stóru bankanna í aðdraganda þess, séu atriði sem rýmra tjáningarfrelsi ríki um, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands 24. nóvember 2011 (100/2011). Verður a.m.k. ekki annað ráðið en að síðarnefnda atriðið hafi einnig haft nokkra þýðingu. Það tengdist svo aftur álitaefnum um aðra einstaklinga í umfjöllun Stundarinnar, en ásamt því að vísa til þess að umfjöllun um þá væri svo samofin fréttaefninu í heild sinni að ekki yrði greint á milli benti Hæstiréttur á að þeir hefðu verið umsvifamiklir eða áberandi í aðdraganda og eftirleik hruns bankanna. Með öðrum orðum virðist Hæstiréttur þannig hafa litið svo á að viðkomandi einstaklingar hefðu, sem áberandi þátttakendur í viðskiptalífinu á greindum tíma, þurft að þola umfjöllun um viðskiptaleg umsvif sín að því marki sem umfjöllunin skírskotaði til hinnar samfélagslegu umræðu tengdri hruninu. Er það í samræmi við aðra dóma Hæstaréttar þar sem rétturinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að þátttakendur í viðskiptalífinu skapi sér ákveðna stöðu í þjóðfélaginu og þurfi þar með að þola um sig nærgöngulli umfjöllun í fjölmiðlum en aðrir, sbr. t.d. Hrd. 10. desember 2015 (238/2015) og Hrd. 18. október 2012 (673/2011).

Samandregið eru forsendur bæði héraðsdóms, sem staðfestur var í Landsrétti, og Hæstaréttar í reynd þess eðlis að nokkur atriði, sem teljast til grundvallarþátta tjáningarfrelsisins samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans, virðast saman hafa leitt til þeirrar niðurstöðu að bann við fjölmiðlaumfjölluninni hafi verið talið höggva of nærri umræddum ákvæðum. Þar skiptu mestu máli staða fyrrverandi forsætisráðherra, sú staðreynd að umfjöllunin tengdist bankahruninu árið 2008 og að um aðdraganda kosninga var að ræða. Þar sem að öll atriðin virðast hafa haft talsverða vigt verða ekki dregnar víðtækari ályktanir af dóminum en þessar forsendur gefa tilefni til, þótt ólíklegt verði að teljast að tilvist allra þriggja atriðanna saman hafi verið óhjákvæmileg forsenda. Þannig má auðveldlega færa rök fyrir því, miðað við fyrirliggjandi dómaframkvæmd, að niðurstaðan hefði orðið sú sama ef t.d. fyrsta og öðru atriðinu hefði verið fyrir að fara, þ.e. ef um hefði verið að ræða umfjöllun um fjármál alþingismanns í tengslum við bankahrunið og viðskipti hans við einn af föllnu bönkunum. Tæpast verður hins vegar talið að hér hefði dugað eitt og sér að um stjórnmálamann hefði verið að ræða, án tengingar við bankana og hrunið 2008, enda ljóst að stjórnmálamenn mega að jafnaði vænta þess að fjármál og önnur atriði sem tengjast þeirra einkalífi séu ekki dregin upp á yfirborðið nema að því marki sem slík atriði skírskota til stöðu þeirra sem opinberra persóna eða starfa þeirra í þágu almennings. Ennfremur má ljóst telja að niðurstaðan hefði orðið önnur ef um alveg óþekktan einstakling hefði verið að ræða, enda tóku bæði héraðsdómur og Hæstiréttur fram, eftir að hafa rakið sérstaklega stöðu forsætisráðherrans á hinu opinbera sviði, að umfjöllun um aðra en hann, sem ekki nytu slíkrar opinberrar stöðu, hefði verið of samofin umfjölluninni í heild sinni, auk þess sem þeir hefðu sjálfir verið þátttakendur í viðskiptum við bankanna. Er ljóst að ekki hefði þurft að taka þetta sérstaklega fram nema vegna þess að annars hefði umfjöllun um umrædd málefni viðkomandi einstaklinga ekki notið verndar tjáningarfrelsisins. Til stuðnings þessari ályktun má einnig vísa til þeirrar viðbótar í dómi Landsréttar, sem annars staðfesti héraðsdóm, að ekki yrðu dregnar þær ályktanir að ,,ætlunin hafi verið að nýta þau bankagögn sem stefndu höfðu undir höndum og njóta verndar samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 til þess að fjalla um fjárhagsmálefni einstaklinga sem ekki eiga erindi til almennings.“ Verður ekki annað ráðið en að hér hafi Landsréttur gefið sér að niðurstaðan kynni að verða önnur í tilviki annarra einstaklinga og að markmiðið hafi þannig verið að koma í veg fyrir að of víðtækar ályktanir yrðu dregnar af dóminum.

Hvað sem framangreindu líður er ljóst að lögbann er það úrræði vegna tjáningar sem hvað lengst gengur og forðast ber að beita því nema í undantekningartilvikum. Í öllu falli er hæpið að slík skerðing standist 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu ef umfjöllunin beinist að samfélagslega mikilvægu málefni sem á erindi í hina opinberu umræðu. Öðru gegnir ef umfjöllun hefur enga slíka skírskotun, svo sem ef fjölmiðill hyggst birta viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um einstakling sem njóta verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar eða upplýsingar um bankareikninga einstaklinga sem hafa engu hlutverki að gegna á opinbera sviðinu. Í slíkum tilvikum væri beiting lögbanns eðlilegt úrræði og mögulega nauðsynlegt til verndar viðkomandi réttindum, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

6              Fyrirhugað frumvarp til laga um breytingar á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990.

Rétt er að taka fram að fyrir liggur frumvarp til laga um breytingar á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, en frumvarpið er afrakstur sérstakrar nefndar um umbætur á sviði tjáningar- upplýsinga- og fjölmiðlafrelsis sem skipuð var af forsætisráðherra 16. mars 2018. Markmiðið með frumvarpinu, sem samið var vegna fyrrgreinds máls Stundarinnar og Reykjavík Media ehf., er að styrkja tjáningarfrelsi með því að bæta umgjörð lögbannsmála á hendur fjölmiðlum, en með því er lagt til að bætt verði við ákvæði í fyrrgreind lög þess efnis að ef gerðarþoli mótmæli framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að gerðin fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar, og sýslumaður hafni þeim mótmælum, geti gerðarþoli borið þá ákvörðun undir héraðsdómara, þó svo að gerðarbeiðandi mótmæli því, svo fremi sem hann skuldbindi sig til að láta af athöfn á meðan mál sé rekið fyrir dómi. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að málsmeðferð í slíkum tilvikum skuli flýtt eins og kostur er. Má gera ráð fyrir að meðferð lögbannsmála vegna fréttaumfjöllunar taki meira mið af þeim grundvallarsjónarmiðum sem leiða af stjórnarskrárvernd tjáningarfrelsisins en áður. Þá blasir við að flýtimeðferð slíks máls fyrir héraðsdómi er mikil réttarbót og í reynd nauðsynleg ef tryggja á að leyst sé með hraði úr álitaefnum tengdum lögmæti frétta og fjölmiðlaumfjöllunar án óeðlilegra tafa eða íhlutunar í umfjöllun fjölmiðla um samfélagsleg málefni.

7              Lokaorð

Þó svo að lögbann á fjölmiðlaumfjöllun teljist ekki til ritskoðunar samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar telst slík takmörkun til fyrirfram tálmunar á tjáningarfrelsi sem verður að uppfylla ströng skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Skilyrðin um lög og réttmæt markmið takmörkunar myndu jafnan teljast uppfyllt, en skilyrðið um að takmörkun sé ,,nauðsynleg og samrýmist lýðræðishefðum“ er það skilyrði sem helst gæti staðið því í vegi að lögbann verði lagt á umfjöllun. Í því sambandi skiptir veigamiklu máli hvaða erindi umfjöllun á í hina opinberu umræðu og hvort fjölmiðill sé að flytja fréttir af einstaklingum eða málefnum sem almenningur hefur hagsmuni af að fjallað sé um opinberlega. Hafi umfjöllun slíkt erindi leiðir af dómi Hæstaréttar Íslands 22. mars 2019 (29/2018) að mikið þarf að koma til svo að úrræði á borð við lögbann teljist samrýmast 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi umfjöllun enga slíka skírskotun eru á hinn bóginn rýmri skilyrði til beitingar lögbanns sem viðbragðs við tiltekinni tjáningu

 


Heimildaskrá

Alþingistíðindi

Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur – Mannréttindi. Reykjavík 2008.

Eiríkur Jónsson: Mannréttindi lögaðila. Vernd lögaðila samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, einkum 71. og 73 gr. Reykjavík 2011.

Eiríkur Jónsson og Halldóra Þorsteinsdóttir: Fjölmiðlaréttur. Reykjavík 2017.

Markús Sigurbjörnsson: Aðfarargerðir. Reykjavík 1995.

Markús Sigurbjörnsson: Aðför, kyrrsetning, lögbann o.fl.: Handbók. Reykjavík 1992.  

Dómaskrá

Dómar Hæstaréttar Íslands
Hrd. 22. mars 2019 (29/2018)
Hrd. 10. desember 2015 (238/2015)
Hrd. 18. október 2012 (673/2011)
Hrd. 24. nóvember 2011 (100/2011)
Hrd. 2006, bls. 2759 (541/2005)
Hrd. 2002, bls. 1941 (218/2002)
Hrd. 1979, bls. 588
Hrd. 1968, bls. 1007

Dómar Landsréttar
Dómur Landsréttar 5. október 2018 (188/2018)

Héraðsdómar
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2018 (E-3434/2017).

Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Gaweda gegn Póllandi 14. mars 2002 (26229/95)
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Observer og Guardian gegn Bretlandi 26. nóvember 1991 (13585/88)


Eftirmálsgreinar

[1] Markús Sigurbjörnsson: Aðfarargerðir, bls. 27.

[2] Markús Sigurbjörnsson: Aðför, kyrrsetning, lögbann o.fl.: Handbók, bls. 185.

[3] Þó er sú takmörkun gerð að samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laganna verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega eða ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola, enda setji hann eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.

[4] Auk þess getur vitanlega reynt á ákvæði meiðyrðalöggjafarinnar í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

[5] Í 2. máls. 1. mgr. 73. gr. eru tilteknar fyrirfram tálmanir á tjáningarfrelsi bannaðar með öllu, en þar segir að „[r]itskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi [megi] aldrei í lög leiða“.

[6] Eiríkur Jónsson og Halldóra Þorsteinsdóttir: Fjölmiðlaréttur, bls. 73.

[7] Alþt. 1994–95, A-deild, bls. 2105. Sjá og Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur – Mannréttindi, bls. 367, Eiríkur Jónsson: Mannréttindi lögaðila, bls. 152-153 og Eiríkur Jónsson og Halldóra Þorsteinsdóttir: Fjölmiðlaréttur, bls. 73.

[8] Eiríkur Jónsson og Halldóra Þorsteinsdóttir: Fjölmiðlaréttur, bls. 74.

[9] Þess var auk þess krafist að félögunum yrði gert að afhenda Glitni öll gögn og afrit af þeim sem hann hefði í fórum sínum sem kæmu frá Glitni, en eins og fram kemur í inngangi verða hér einungis til umfjöllunar fyrrgreindu kröfurnar.

[10] Sbr. t.d. MDE, Stoll gegn Sviss, 25. apríl 2006 (69698/01), MDE, Lingens gegn Austurríki, 8. júlí 1986 (9815/82) og Hrd. 2000, bls. 4506 (272/2000) og Hrd. 28. maí 2009 (575/2008).