Eftir Ómar Berg Rúnarsson, lögfræðing, LL.M., hjá Eftirlitsstofnun EFTA
Efnisyfirlit
1 Inngangur
2 Nokkur almenn atriði og forsaga dómsins
3 Aðdragandi í máli C.K. o.fl. gegn Slóveníu
4 Dómur Evrópudómstólsins
5 Ályktanir um dóminn
6 Hefur dómurinn þýðingu fyrir íslenskan rétt?
Heimildaskrá
Dómaskrá
Ágrip
Í greininni er fjallað stuttlega um dóm Evrópudómstólsins í EBD 16. febrúar 2017, PPU – C.K. o.fl., C-578/16, EU:C:2017:127. Í dóminum er að finna nokkur mikilvæg sjónarmið sem Evrópudómstóllinn brýndi fyrir aðildarríkjum ESB, sem öll taka þátt í Dyflinnarsamstarfinu, að huga að við flutninga á alvarlega veikum umsækjendum um alþjóðlega vernd. Í dóminum reyndi m.a. á túlkun á 4. gr. sáttmála ESB um grundvallarréttindi.
Tekið er stuttlega til skoðunar hvort dómurinn hafi þýðingu fyrir íslenskan rétt, en áðurnefndur sáttmáli hefur ekki gildi á Íslandi. Íslenska ríkið tekur þó þátt í bæði Schengen og Dyflinnarsamstarfinu og er einnig bundið af MSE. Í þessu samhengi er einnig bent á að bæði Hæstiréttur Íslands og kærunefnd útlendingamála hafa áður vísað til dómafordæma Evrópudómstólsins um túlkun á Dyflinnarreglugerðunum.
Abstract
This article briefly discusses the ruling of the Court of Justice of the European Union in the Judgement of 16. February 2017, PPU – C.K. and Others, C-578/16, EU:C:2017:127. According to the CJEU, the Member States of the EU are obliged to take the necessary precautions when transferring mentally or physically ill applicants for international protection under the Dublin system. In the judgment the CJEU interpreted Article 4 of the EU Charter of Fundamental Rights.
The Icelandic State participates in the Dublin system (on the basis of Schengen) and is also a contracting party to the ECHR. Yet, Iceland is not an EU member state and is not bound by the Charter. In this light, the possible impact of C.K. and Others for the Icelandic legal order is briefly explored. It is also noted that the Icelandic Supreme Court and the Immigration Appeals Board have previously cited the CJEU case-law regarding the Dublin regulations.
1 Inngangur
Árið 2017 kvað Evrópudómstóllinn upp athygliverðan dóm í EBD 16. febrúar 2017, PPU – C.K. o.fl., C-578/16, EU:C:2017:127.[1] Málið varðaði C.K., umsækjanda um alþjóðlega vernd í Slóveníu sem var barnshafandi á meðan málsmeðferð hennar stóð yfir skv. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir vísað til sem „Dyflinnarreglugerðin III“ eða „DRR III“).[2] Í kjölfar fæðingar barnsins kvaðst hún hafa glímt við alvarleg andleg veikindi sem læknisvottorð hafi borið vitni um. Fyrir slóvenskum dómstólum tefldi C.K. fram þeim rökum að þar sem fyrirhugaður flutningur hennar til viðtökuríkis, Króatíu, myndi hafa neikvæð áhrif á heilsufar hennar væri flutningurinn ekki forsvaranlegur.
Í dómi Evrópudómstólsins reyndi m.a. á túlkun á 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi sem kveður m.a. á um að enginn maður skuli sæta ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Fjallað verður nánar um dóminn hér að neðan en í honum er að finna mikilvæg sjónarmið varðandi flutninga í Dyflinnarmálum á umsækjendum sem glíma við alvarleg veikindi. Þá verður skoðað stuttlega hvort dómurinn hafi þýðingu fyrir íslenskan rétt en íslenska ríkið tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu. Kærunefnd útlendingamála hefur vísað til dómsins í nokkrum úrskurðum.[3]
2 Nokkur almenn atriði og forsaga dómsins
Dyflinnarreglugerðin III byggist á því meginfyrirkomulagi að almennt eigi einungis eitt þátttökuríki Dyflinnarsamstarfsins (öll aðildarríki ESB ásamt Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss) að taka umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Þetta kemur fram í 1. mgr. 3. gr. DRR III. Til að finna út hvaða ríki það er sem ber ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar er beitt tilteknum viðmiðum í ákveðinni forgangsröð, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 7. gr. DRR III.
Þessi viðmið, sem t.d. varða fylgdarlaus, ólögráða börn, útgáfu vegabréfsáritana o.fl., er að finna í III. kafla reglugerðarinnar. Þegar búið er finna út hvaða ríki það er sem ber ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar samkvæmt viðmiðunum og það ríki hefur gengist við þeirri ábyrgð er sá umsækjandi sem um ræðir almennt fluttur til þess ríkis. Í reglugerðinni er kveðið nánar á um hvernig að þessu skuli staðið, sbr. ákvæði í V. og VI. kafla og reglugerð framkvæmdastjórnar ESB nr. 1560/2003, með síðari breytingum.[4]
Framangreint felur í sér meginfyrirkomulag Dyflinnarsamstarfsins. Frá því má þó finna viss frávik. Þannig er að finna reglu í 1. mgr. 17. gr. DRR III um að aðildarríki sé heimilt, upp á eigin spýtur, að taka umsókn til efnislegrar meðferðar þó það beri ekki slíka ábyrgð samkvæmt viðmiðum III. kafla. Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur þetta ákvæði verið túlkað í samræmi við orðalag þess, þ.e. að um sé að ræða heimild fyrir aðildarríkin en ekki skyldu.[5] Annað frávik frá meginfyrirkomulagi Dyflinnarsamstarfsins, sem skiptir jafnframt máli í tengslum við umfjöllun um dóm í máli C.K. o.fl., er 2. mgr. 3. gr. DRR III. Í því ákvæði felst m.a. að aðildarríkin eru skuldbundin til að flytja ekki umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef:
[R]ökstuddar ástæður eru til að ætla að kerfisgallar séu á málsmeðferð umsókna um hæli og á móttökuskilyrðum fyrir umsækjendur í því aðildarríki, sem valda hættu á ómannlegri eða lítillækkandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi […].
Þessi regla 2. mgr. 3. gr. DRR III rekur rætur sínar til dóms Evrópudómstólsins í sameinuðum málum EBD 21. desember 2011, N.S. o.fl., C-411/10 og C-439/10, EU:C:2011:865.[6] Í þeim málum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu á grundvelli túlkunar á 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi að kerfisgalli (e. systemic deficiency) á málsmeðferð og móttökuaðstæðum í viðtökuríki (í þessu tilviki Grikklandi) kæmi í veg fyrir flutning skv. þágildandi Dyflinnarreglugerð nr. 343/2003[7] (hér eftir vísað til sem „Dyflinnarreglugerðin II“ eða „DRR II“):[8]
[T]he Member States, including the national courts, may not transfer an asylum seeker to the ‘Member State responsible’ within the meaning of Regulation No 343/2003 where they cannot be unaware that systemic deficiencies in the asylum procedure and in the reception conditions of asylum seekers in that Member State amount to substantial grounds for believing that the asylum seeker would face a real risk of being subjected to inhuman or degrading treatment within the meaning of Article 4 of the Charter.
Þessi túlkun Evrópudómstólsins á 4. gr. sáttmála ESB um grundvallarréttindi, sem kom fram í gildistíð DRR II, er nú útfærð í 2. mgr. 3. gr. núgildandi DRR III. Með því fyrirkomulagi vaknaði þó m.a. sú spurning hvort kerfisgallar á málsmeðferð og móttökuaðstæðum í viðtökuríki fælu í sér einu undantekninguna frá því að ekki skyldi flytja umsækjanda til viðtökuríkis skv. DRR III eða hvort aðrar og þá víðtækari undantekningar væru til sem eftir atvikum gætu þá fallið undir 4. gr. sáttmála ESB um grundvallaréttindi eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).[9] Það er m.a. í þessu ljósi sem lesa verður dóm í C.K. o.fl. enda lá fyrir í því máli að aðstæður í viðtökuríki, Króatíu, voru almennt taldar góðar, m.a. af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og því var enginn kerfisgalli til staðar í því ríki.
3 Aðdragandi í máli C.K. o.fl. gegn Slóveníu
Í stuttu máli má útskýra bakgrunn málsins á þennan veg. Málið varðaði fyrirhugaðan flutning slóvenskra yfirvalda á C.K., sýrlenskum ríkisborgara, maka hennar og nýfæddu barni, frá Slóveníu til Króatíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar III. Við beitingu DRR III höfðu slóvensk yfirvöld aflað tryggingar frá króatískum yfirvöldum þess efnis að C.K. og fjölskyldu hennar yrði útvegað húsnæði við hæfi og heilbrigðisþjónusta þar í landi. Í því ljósi töldu slóvensk yfirvöld forsvaranlegt að flytja fjölskylduna til Króatíu. Fjölskyldan sætti sig þó ekki við þá ákvörðun slóvenskra yfirvalda og fór með málið fyrir dómstóla þar í landi.
Fyrir dómstólum byggðu þau einkum á þeirri málsástæðu að þar sem andlegu heilsufari C.K. væri verulega áfátt, gæti flutningurinn haft alvarleg neikvæð áhrif á heilsu hennar sem og ungabarnsins. Málið fór fyrir nokkur dómstig í Slóveníu, m.a. til stjórnskipunardómstóls (e. Constitutional Court) sem vísaði málinu aftur til meðferðar fyrir Hæstarétti með þeim fyrirmælum að sá dómstóll skyldi taka til skoðunar hvort flutningurinn sem slíkur gæti, í ljósi einstaklingsbundinna aðstæðna C.K., falið í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í kjölfarið óskaði Hæstiréttur Slóveníu eftir forúrskurði Evrópudómstólsins.
Meðal annars var leitað eftir svari Evrópudómstólsins við því hvort 4. gr. sáttmála ESB um grundvallarréttindi útilokaði flutning á umsækjanda um alþjóðleg vernd ef flutningurinn fæli í sér ómannlega eða vanvirðandi meðferð, þrátt fyrir að ekki væri til staðar kerfisgalli á málsmeðferð og móttökuaðstæðum í viðtökuríki í skilningi 2. mgr. 3. gr. DRR III. Með öðrum orðum þá var m.a. óskað eftir svari við því hvort i) einungis kerfisgalli skv. 2. mgr. 3. gr. DRR III gæti komið í veg fyrir flutning, eða ii) hvort aðrar og víðtækari ástæður gætu einnig komið til skoðunar sem myndu þá falla undir 4. gr. sáttmálans um grundvallarréttindi.
4 Dómur Evrópudómstólsins
Áður en Evrópudómstóllinn kvað upp dóm í málinu lá fyrir álit lögsögumanns Tanchev.[10] Niðurstaða lögsögumannsins var sú að einungis kerfisgallar á málsmeðferð og móttökuaðstæðum í viðtökuríki gætu komið í veg fyrir flutning umsækjanda. Evrópudómstóllinn fylgdi ekki áliti lögsögumannsins og komst að annarri niðurstöðu. Dómstóllinn vísaði m.a. til þess að með DRR III, samanborið við DRR II, hefði verið stefnt að aukinni réttarvernd til handa umsækjendum, m.a. hvað varðaði grundvallarréttindi.[11] Sjónarmið um skilvirkni Dyflinnarsamstarfsins eru því ekki þau einu sem leggja á til grundvallar við framkvæmd þess.
Dómstóllinn tók einnig fram, með vísan til fyrri dómaframkvæmdar, að afleidda löggjöf ESB, líkt og DRR III, þyrfti að túlka og beita í samræmi við sáttmála ESB um grundvallarréttindi.[12] Í þeim efnum væri 4. gr. sáttmálans sem kveður m.a. á um bann við ómannlegri eða vanvirðandi meðferð algild. Við mat á því hvers konar veikindi einstaklinga gætu fallið undir 4. gr. sáttmálans tók Evrópudómstóllinn mið af túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) á 3. gr. MSE sem krefst þess að veikindi nái tilteknu alvarleikastigi.[13] Hvað aðstæður í Króatíu varðaði benti dómstóllinn sérstaklega á að gögn málsins gæfu ekki til kynna að kerfisgalli væri á málsmeðferð eða móttökuaðstæðum þar í landi.[14] Engu að síður tók dómstóllinn fram að (73. og 74. mgr. dómsins):
That said, it cannot be ruled out that the transfer of an asylum seeker whose state of health is particularly serious may, in itself, result, for the person concerned, in a real risk of inhuman or degrading treatment within the meaning of Article 4 of the Charter, irrespective of the quality of the reception and the care available in the Member State responsible for examining his application.
In that context, it must be held that, in circumstances in which the transfer of an asylum seeker with a particularly serious mental or physical illness would result in a real and proven risk of a significant and permanent deterioration in his state of health, that transfer would constitute inhuman and degrading treatment, within the meaning of that article.
Samkvæmt framangreindu getur flutningurinn sjálfur, þegar um er að ræða umsækjanda sem glímir við verulega slæmt heilsufar, leitt til brots gegn 4. gr. sáttmálans um grundvallarréttindi, óháð því hvernig aðstæðum í viðtökuríki er háttað. Þetta er því önnur nálgun á 4. gr. sáttmálans en var um að ræða í máli N.S. o.fl. þar sem útgangspunkturinn var kerfisgalli í viðtökuríki. Evrópudómstóllinn fjallaði svo m.a. um þýðingu gagna sem umsækjendur leggja fram um heilsufar sitt, svo sem læknisvottorð, en aðildarríkin verða að taka slík gögn með í reikninginn við mat á því hvort hægt sé að flytja viðkomandi (75. mgr. dómsins):
[…] where an asylum seeker provides, particularly in the context of an effective remedy guaranteed to him by Article 27 of the Dublin III Regulation, objective evidence, such as medical certificates concerning his person, capable of showing the particular seriousness of his state of health and the significant and irreversible consequences to which his transfer might lead, the authorities of the Member State concerned, including its courts, cannot ignore that evidence. They are, on the contrary, under an obligation to assess the risk that such consequences could occur when they decide to transfer the person concerned or, in the case of a court, the legality of a decision to transfer, since the execution of that decision may lead to inhuman or degrading treatment of that person (see, by analogy, judgment of 5 April 2016, Aranyosi and Căldăraru, C‑404/15 and C‑659/15 PPU, EU:C:2016:198, paragraph 88).
Í þessu samhengi tiltók Evrópudómstóllinn jafnframt að hlutverk stjórnvalda væri fólgið í því að eyða öllum alvarlegum efasemdum um áhrif flutnings á heilsu viðkomandi umsækjanda.[15] Í dóminum var þó einnig lögð áhersla á, með vísan til 3. gr. MSE og dómaframkvæmdar MDE, að í sjálfu sér væri ekki útilokað að flytja veikan einstakling til viðtökuríkis, að því gefnu að gripið væri til nauðsynlegra ráðstafana (78. mgr. dómsins):
It is apparent from the case-law of the European Court of Human Rights that Article 3 of the ECHR does not, in principle, require a Contracting State to refrain from proceeding with the removal or expulsion of a person where he is fit to travel and provided that the necessary appropriate measures, adapted to the person’s state of health, are taken in that regard (see, to that effect, ECtHR, 4 July 2006, Karim v. Sweden, CE:ECHR:2006:0704DEC002417105, § 2, and 30 April 2013, Kochieva and Others v. Sweden, CE:ECHR:2013:0430DEC007520312, § 35).
Samkvæmt þessu er hægt að flytja einstakling sem talinn er fær um að ferðast til viðtökuríkis að því skilyrði uppfylltu að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar í samræmi við heilsufar viðkomandi. Í dómi Evrópudómstólsins er m.a. tekið fram að slíkar ráðstafanir geti falist í því að viðkomandi umsækjandi sé í umsjá heilbrigðisstarfsfólks á meðan flutningi stendur ásamt nauðsynlegum útbúnaði, lyfjum o.s.frv.[16] Þá þurfi aðildarríkið sem skipuleggur flutninginn að geta gengið úr skugga um að viðkomandi hljóti tafarlausa umönnun við móttöku í viðtökuríki.[17] Í þeim tilgangi geti þurft að koma upplýsingum um heilsufar viðkomandi tímanlega til stjórnvalda í viðtökuríki, en um miðlun upplýsinga af þessum toga er fjallað um í 31. og 32. gr. DRR III, líkt og dómstóllinn benti á.[18]
Ef varúðarráðstafanir sem þessar duga ekki til getur þurft að fresta framkvæmd flutnings tímabundið, eða þar til viðkomandi telst fær um að ferðast.[19] Þá vísaði Evrópudómstóllinn til þess að í þeim tilvikum þar sem horfur á bata væru ekki líklegar innan skamms tíma, eða ef löng frestun á flutningi gæti leitt til versnandi heilsufars, gæti það aðildarríki sem um ræðir ákveðið að taka umsókn viðkomandi til efnismeðferðar á grundvelli 1. mgr. 17. gr. DRR III.[20] Engin skylda væri þó til staðar hvað varðaði beitingu á því ákvæði.[21] Það væri dómstólsins sem óskaði eftir forúrskurði í málinu að taka framangreind sjónarmið með í reikninginn við úrlausn á máli C.K. o.fl.
5 Ályktanir um dóminn
Með dómi Evrópudómstólsins í máli C.K. o.fl. var vissulega stigið framfaraskref hvað varðar aukin grundvallarréttindi til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd í Dyflinnarmálum. Evrópudómstóllinn hefur í raun verið á sambærilegri vegferð í öðrum fyrri málum sem hafa varðað túlkun á DRR III, en dómstóllinn hefur ítrekað bent á að með þeirri reglugerð, ólíkt DRR II, hafi verið stefnt að auknum réttindum fyrir umsækjendur.[22]
Í dóminum leggur Evrópudómstóllinn bersýnilega áherslu á mikilvægi þess að einstaklingsbundnar aðstæður umsækjenda, í þessu tilviki heilsufar, séu rannsakaðar og hvort flutningur sem slíkur til viðtökuríkis geti haft þar neikvæð áhrif. Sé svo geta aðildarríkin þurft að grípa til ýmissa varúðarráðstafana, svo sem að slá flutningi á frest.
Kerfisgalli í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 3. gr. DRR III, er því ekki eina ástæðan sem umsækjendur geta borið fyrir sig til að koma í veg fyrir flutning. Í raun væri sú niðurstaða afar sérstök enda myndi það þýða að gildissvið 4. gr. sáttmála ESB um grundvallarréttindi væri í raun takmarkað við ákvæði í afleiddri löggjöf DRR III.
Víðtækari ályktanir verða þó varla dregnar af dóminum því eftir stendur að erfitt er að sýna fram á kerfisgalla í skilningi 2. mgr. 3. gr. DRR III sem og veikindi sem geta fallið undir 4. gr. sáttmála ESB um grundvallarréttindi. Þröskuldurinn sem slíkur er því hár og líklega aðeins í undantekningartilfellum sem veikindi umsækjanda ná því alvarleikastigi sem 4. gr. sáttmálans krefst, lesin með hliðsjón af 3. gr. MSE.
6 Hefur dómurinn þýðingu fyrir íslenskan rétt?
Við stutta skoðun á því hvort dómurinn geti haft þýðingu fyrir íslenskan rétt er rétt að taka fram að íslenska ríkið er þátttakandi í Dyflinnarsamstarfinu. Það fyrirkomulag er byggt á þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu en þann 18. maí 1999 var undirritaður í Brussel samningur sem ráð ESB og Ísland og Noregur gerðu með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna („Brussel-samningurinn“).
Brussel-samningurinn var fullgiltur af hálfu Íslands þann 26. maí 2000, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 21/2000. Þann 23. júlí 2013 var ráði ESB svo tilkynnt um samþykki Íslands á Dyflinnarreglugerðinni III, sem fól í sér breytingu á Brussel-samningnum, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014. Skuldbinding íslenska ríkisins um þátttöku í Dyflinnarsamstarfinu er því fyrst og fremst af þjóðréttarlegum toga. DRR III hefur ekki verið innleidd í íslenskan rétt.
Dyflinnarsamstarfið fellur ekki innan efnissviðs EES-samningsins. Af þessu leiðir m.a. að ákvæði 6. gr. EES-samningsins (áhrif dómafordæma Evrópudómstólsins) eða 7. gr. hans (innleiðing tilskipana/reglugerða í landsrétt) hafa ekki þýðingu hvað varðar stöðu DRR III eða áhrif dóma Evrópudómstólsins í íslenskum rétti. Af framangreindu leiðir jafnframt að íslenskir dómstólar eða kærunefnd útlendingamála geta ekki aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á DRR III.[23]
Til þess er hins vegar að líta að í 9. gr. Brussel-samningsins felst m.a. að samningsaðilar muni í sérstakri samsettri nefnd fylgjast með því hvernig Evrópudómstóllinn túlkar ákvæði sem falla undir samninginn. Þannig er gert ráð fyrir því að höfð sé hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Þetta fyrirkomulag Brussel-samningsins virðist hafa gengið eftir í framkvæmd, a.m.k. að nokkru leyti, því bæði Hæstiréttur Íslands og kærunefnd útlendingamála hafa vísað til dóma Evrópudómstólsins varðandi túlkun á Dyflinnarreglugerðunum II og III.
Í dómi Hæstaréttar í H 405/2013 vísaði rétturinn til EBD 29. janúar 2009, Petrosian, C-19/08, EU:C:2009:41[24], sem var fyrsti dómurinn sem Evrópudómstóllinn kvað upp varðandi túlkun á DRR II. Í úrskurðum kærunefndar útlendingamála hefur nefndin vísað til nokkurra dóma Evrópudómstólsins um túlkun á DRR III, þ.m.t. umrædds dóms í máli C.K. o.fl. gegn Slóveníu.[25] Dómar Evrópudómstólsins um túlkun á Dyflinnarreglugerðunum (II og III) virðast því hafa nokkur áhrif að íslenskum rétti.
Að lokum er rétt að taka fram, hvað varðar umræddan dóm í máli C.K. o.fl., að íslenska ríkið er ekki bundið af sáttmála ESB um grundvallarréttindi. Eins og kemur fram að ofan byggist niðurstaða dómsins þó verulega á túlkun á því ákvæði. Sú umfjöllun dómsins sem snýr að túlkun á 4. gr. sáttmálans hefur líklega takmarkaða eða enga þýðingu fyrir íslenskan rétt. Sá hluti dómsins sem snýr að umfjöllun og túlkun á ákvæðum DRR III getur haft meira gildi, en þó með þeim fyrirvara að þau ákvæði séu ekki túlkuð verulega í ljósi sáttmálans.
Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld og dómstólar séu ekki bundin af sáttmála ESB um grundvallarréttindi er mögulega hægt að ná fram sams konar niðurstöðu að íslenskum rétti og í C.K. o.fl. með öðrum leiðum, nánar tiltekið 3. gr. MSE, sbr. lög nr. 62/1994 og 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. MDE hefur t.d. lagt áherslu á að við framkvæmd Dyflinnarsamstarfsins þurfi samningsríkin að gæta að skuldbindingum sínum skv. MSE, sbr. t.d. dóm dómstólsins 21. janúar 2011 í máli nr. 30696/09 (M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi).[26]
Heimildaskrá
Lenaerts, La vie aprés l‘avis: Exploring the principle of mutual trust (yet not blind trust), Common Market Law Review, 54. útgáfa 3. tölubl. 2017, bls. 805-840
Dómaskrá
Dómar Hæstaréttar Íslands
Hrd. 24. október 2013 (405/2013)
Dómar Evrópudómstólsins
EBD 29. janúar 2009, Petrosian, C-19/08, EU:C:2009:41
EBD 21. desember 2011, N.S. o.fl., C-411/10 og C-439/10, EU:C:2011:865
EBD 16. febrúar 2017, PPU – C.K. o.fl., C-578/16, EU:C:2017:127
EBD 23. janúar 2019, M.A. o.fl., C-661/17, EU:C:2019:53
Álit lögsögumanns Evrópudómstólsins
Álit 9. febrúar 2017, PPU – C.K. o.fl., C-578/16, EU:C:2017:108
Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu
MDE 21. janúar 2011 í máli nr. 30696/09 (M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi)
Ákvarðanir Mannréttindadómstóls Evrópu
Ákv. 7. mars 2000 í máli nr. 43844/98 (T.I. gegn Bretlandi)
Úrskurðir kærunefndar útlendingamála
KNÚ 14. mars 2017 (144/2017)
KNÚ 19. apríl 2017 (242/2017)
KNÚ 23. maí 2017 (291/2017)
KNÚ 23. maí 2017 (297/2017)
Eftirmálsgreinar
[1] Dómur Evrópudómstólsins í EBD 16. febrúar 2017, PPU – C.K. o.fl., C-578/16, EU:C:2017:127.
[2] Reglugerð ráðsins nr. 604/2013 frá 26. júní 2013, um að koma á fót viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkjanna, OJ L 180, 29.6.2013, bls. 31-59.
[3] T.d. úrskurðir kærunefndar útlendingamála 23. maí 2017 nr. 297/2017 og 23. maí 2017 nr.291/2017.
[4] Commission Regulation (EC) No. 1560/2003 of 2 September 2003, laying down detailed rules for the application of Council Regulation (EC) No. 343/2003 establishing the criteria and mechanism for determining the Member State responsible for examining an asylum application lodged in one of the Member States by a third-country national, OJ L 222, 5.9.200, bls. 3-23.
[5] T.d. EBD 23. janúar 2019, M.A. o.fl., C-661/17, EU:C:2019:53, 71. mgr.
[6] Sameinuð mál EBD 21. desember 2011, N.S. o.fl., C-411/10 og C-439/10, EU:C:2011:865.
[7] Council Regulation (EC) No. 343/2003 of 18 February 2003, establishing the criteria and mechanisms for determining the Member State responsible for examining an asylum application lodged in one of the Member States by a third-country national, OJ L 50, 25.2.2003.
[8] Sameinuð mál EBD 21. desember 2011, N.S. o.fl., C-411/10 og C-439/10, EU:C:2011:865, 94. mgr. dómsins.
[9] Frekari umfjöllun má t.d. nálgast í K. Lenaerts: „La vie aprés l‘avis: Exploring the principle of mutual trust (yet not blind trust“, Common Market Law Review, 54. útgáfa 3. tölubl., 3. júní 2017, bls. 831 og áfram.
[10] Álit Tanchev lögsögumanns, frá 9. febrúar 2017, PPU – C.K. o.fl., C-578/16, EU:C:2017:108.
[11] 61. og 62. mgr. dómsins.
[12] 59. mgr. dómsins.
[13] 68. mgr. dómsins.
[14] 71. mgr. dómsins.
[15] 76. mgr. dómsins.
[16] 81. mgr. dómsins.
[17] 82. mgr. dómsins.
[18] 82.-83. mgr. dómsins.
[19] 85. mgr. dómsins.
[20] 88. mgr. dómsins.
[21] 88. mgr. dómsins.
[22] Sjá t.d. 61 og 62. mgr. dómsins og dómaframkvæmd sem þar er vísað til.
[23] Sjá í þessum efnum lög nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls frá 2. maí 1992.
[24] Dómur Evrópudómstólsins í EBD 29. janúar 2009, Petrosian, C-19/08, EU:C:2009:41.
[25] T.d. úrskurðir kærunefndar útlendingmála 23. maí 2017 nr. 297/2017, 23. maí 2017 nr. 291/2017, 19. apríl 2017 nr. 242/2017 og 14. mars 2017 nr. 144/2017.
[26] Í áðurnefndum dómi Evrópudómstólsins í máli N.S. og aðrir (88.-90. mgr.) vísaði dómstóllinn til þessa dóms MDE.