eftir Eirík Jónsson
prófessor við lagadeild Háskóla Íslands,
og Halldóru Þorsteinsdóttir
sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík
Ágrip
Í greininni er fjallað um nýlega dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu er snertir ábyrgð netmiðla á ummælum þriðja manns. Þá er hugað að þýðingu þessarar dómaframkvæmdar fyrir beitingu hérlendra ábyrgðarreglna.
- Inngangur
Undanfarin misseri hefur mannréttindadómstóll Evrópu glímt við nokkur mál er snerta ábyrgð netmiðla, eða öllu heldur þeirra sem þá reka, á ummælum þriðja manns, þ.e. þeirra sem rita ummæli inn á miðlana. Hafa úrlausnir dómstólsins orðið tilefni nokkurrar gagnrýni og vangaveltna um hver réttarstaða slíkra miðla nákvæmlega er gagnvart slíkum ummælum. Hér verður þessi dómaframkvæmd stuttlega rakin en síðan hugað að þýðingu hennar fyrir beitingu hérlendra ábyrgðarreglna.
Í upphafi skal tekið fram að í málunum reynir á mörk tjáningarfrelsis annars vegar, sbr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og friðhelgi einkalífs hins vegar, sbr. 8. gr. sáttmálans. Þannig vísa netmiðlarnir iðulega til tjáningarfrelsis síns andspænis hugsanlegri ábyrgð þeirra á ummælum þriðja manns, á meðan þau ummæli sem um ræðir snerta gjarnan friðhelgi einkalífs þeirra sem þau lúta að. Umrædd réttindi togast því á í málunum og mannréttindadómstóllinn þarf að finna hið hæfilega jafnvægi á milli þeirra.
- Delfi-málið 2015
Sumarið 2015 kvað yfirdeild mannréttindadómstólsins upp dóm í svokölluðu Delfi máli.[1] Málið snérist um vefmiðillinn Delfi AS, sem er ein stærsta fréttaveitan í Eistlandi og var að birta yfir 300 fréttir á dag er atvik málsins áttu sér stað, sem lesendum gafst síðan kostur á að gera athugasemdir við, þ.e. skilja eftir ummæli sín. Aftan við hverja frétt var þannig reitur til að setja fram athugasemd, og jafnframt reitur fyrir nafn viðkomandi og netfang, sem sagt var valkvætt. Tekið var fram á vefsíðunni að höfundar athugasemdanna, en ekki Delfi AS, bæru ábyrgð á þeim. Athugasemdirnar hlóðust beint inn á vefinn, þ.e. án einhvers konar ritstjórnar af hálfu miðilsins. Miðillinn var samt með tiltekið kerfi til að fjarlægja athugasemdir, þ.e. hægt var að setja fram einskonar kvörtun, sem leiddi þá til þess að færslum var eytt, auk þess sem miðillinn skimaði fyrir nánar tilteknum orðum og eyddi sjálfkrafa færslum sem innihéldu þau. Á degi hverjum bárust um 10.000 athugasemdir, flestar undir dulnefnum. Árið 2006 birti vefmiðillinn frétt þess efnis að tiltekið fyrirtæki, sem sinnti ferjusiglingum milli eistneska meginlandsins og tiltekinna eyja, hefði með breytingu á siglingaleið sinni takmarkað möguleika á að svonefndir ísvegir yrðu lagðir út í eyjarnar. Inn á vefinn raðaðist mikill fjöldi athugasemda, og þar af voru u.þ.b. 20 sem innihéldu persónulegar hótanir og ögrandi orðalag gegn stjórnarmanni í fyrirtækinu, sem var einnig megineigandi þess. U.þ.b. sex vikum síðar var kvartað yfir ummælunum af hálfu stjórnarmannsins og voru þau þá fjarlægð. Í kjölfarið höfðaði hann mál á hendur Delfi AS, sem var dæmt til að greiða honum skaðabætur vegna ummælanna og námu þær 320 evrum. Delfi AS leitaði þá til mannréttindadómstóls Evrópu. Deild dómstólsins komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og var málinu síðan vísað til yfirdeildarinnar. Í dómi yfirdeildarinnar er að finna ýmis almenn sjónarmið um Internetið og réttarstöðuna þar. Þar eru síðan sett fram nánar tiltekin atriði eða viðmið sem yfirdeildin telur rétt að líta til við mat á því hvort ábyrgð vefmiðils á ummælum þriðja manns samrýmist 10. gr. Þessi atriði eru nánar tiltekið eftirfarandi:
- Samhengi ummælanna.
- Möguleikar á ábyrgð höfunda ummælanna í stað ábyrgðar miðilsins.
- Úrræðin sem miðillinn notaði til að koma í veg fyrir eða fjarlægja hin ærumeiðandi ummæli.
- Áhrif dóms aðildarríkisins fyrir miðilinn.
Í dóminum er fjallað um hvert og eitt þessara viðmiða m.t.t. atvika málsins og m.a. nefnt að vefmiðillinn hafi ekki verið aðgerðalaus gagnvart ummælum eða verið í hlutverki hreins tæknilegs milligönguaðila, heldur haft umtalsverða stjórn á ummælunum og auk þess haft fjárhagslega hagsmuni af notkun athugasemdakerfisins. Lögð er nokkur áhersla á að Delfi sé stór og faglega stýrður vefmiðill, rekinn á viðskiptalegum grunni, og málið lúti því ekki að annars konar vettvangi fyrir tjáningu á Internetinu, eins og spjallborðum og samfélagsmiðlum. Þá er þung áhersla lögð á það að ummælin sem um ræddi hafi í meginatriðum innihaldið hatursáróður og hvatningu til ofbeldis og því verið bersýnilega ólögmæt. Um ábyrgð höfunda ummælanna kemur fram að þrátt fyrir að kostur hafi verið á því að gera kröfu á hendur þeim hafi verið uppi óvissa um möguleika á að finna út hverjir höfundarnir væru, hvort sem litið væri til opinberra úrræða eða úrræða miðilsins sjálfs. Ummælin hafi ekki verið tekin út fyrr en eftir sex vikur og 10. gr. komi ekki í veg fyrir að vefmiðlar verði gerðir ábyrgir fyrir því að vanrækja að taka út augljóslega ólögmæt ummæli án tafar, jafnvel þó krafa um slíkt komi ekki fram. Loks hafi þær skaðabætur sem dæmdar voru verið lágar og dómurinn haft takmörkuð áhrif fyrir Delfi. Á grundvelli heildarmats á umræddum atriðum og atvikum málsins var það niðurstaða yfirdeildarinnar að ekki hefði verið brotið gegn 10. gr. sáttmálans.
Dómurinn vakti nokkuð hörð viðbrögð og sætti talsverðri gagnrýni.[2] Þannig voru ýmsir til þess að gagnrýna dóminn fyrir að vera skref aftur á bak í vernd tjáningarfrelsis. Þá má gagnrýna dóminn fyrir að vera býsna óljósan – þar eru sett fram ýmis almenn viðmið sem þessi nánar tilteknu atvik eru síðan metin eftir, en erfitt er að ráða af honum almennar reglur. Þannig vöknuðu ýmsar spurningar um það hvað slíkir vefmiðlar þyrftu nákvæmlega að gera til að mæta þeim kröfum sem gerðar verða til slíkra athugasemdakerfa og eftirlits þeirra með þeim. Þótt gagnrýna megi dóminn á framangreindum grunni skal bent á að í reynd er um hefðbundið verklag að ræða hjá mannréttindadómstólnum, þ.e. að atvik séu metin með hliðsjón af almennum viðmiðum og að niðurstaðan byggist á heildarmati. Þá má segja að enda þótt erfitt sé að ráða af dóminum hvaða kröfur nákvæmlega verði gerðar til eftirlits vefmiðla með athugasemdakerfum, hafi að vissu marki skýrst hvaða atriði hafi þýðingu við matið.
- MTE-málið 2016
Til að flækja myndina frekar, féll annar dómur snemma árs 2016, í svokölluðu MTE máli.[3] Þar varð niðurstaðan sú að ábyrgð sem vefmiðlar höfðu verið látnir sæta í Ungverjalandi, vegna athugasemda þriðja manns (þriðju manna) við fréttir um viðskiptahætti fyrirtækis, bryti gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki verður annað séð en að það athugasemdakerfi sem um ræddi hafi verið býsna svipað því sem á reyndi í Delfi málinu. Í dóminum dregur mannréttindadómstóllinn fram sömu fjögur viðmiðin við matið og í Delfi málinu, sem áður voru nefnd, þó með örlítið öðrum hætti,[4] og telur þau leiða til annarrar niðurstöðu. Þetta mál sé verulega öðruvísi. Meðal lykilatriða í þeim efnum er að dómstóllinn tekur fram að þrátt fyrir að ummælin sem um ræði hafi verið særandi og óhefluð þá séu þau ekki skýrlega ólögmæt, og teljist klárlega ekki til hatursáróðurs eða hvatningar til ofbeldis, líkt og raunin hafi verið í Delfi málinu. Þá hafi ummælin í reynd snert viðskiptalega hagsmuni fyrirtækis en vernd slíkra hagsmuna sé umtalsvert önnur en vernd persónulegra réttinda einstaklinga. Það er einnig athyglisvert að dómstóllinn tekur fram, sem ekki var gert í Delfi málinu, að taka verði mið af sérkennum tjáningarmátans á sumum vefsvæðum. Þrátt fyrir að orðfærið í þeim ummælum sem um ræði teljist til „lélegra stílbragða“ sé það samt algengt á mörgum vefsvæðum – sem dragi úr þeim áhrifum sem hægt sé að eigna ummælunum. Þá finnur dómstóllinn að því að ungversku dómstólarnir hafi ekkert vikið að þætti höfunda ummælanna. Hann tekur einnig fram að þar sem slík miðlun athugasemda teljist fjölmiðlun af tiltekinni tegund sé erfitt að samræma ábyrgð miðilsins fordæmum dómstólsins um að ekki beri að refsa blaðamanni fyrir að miðla ummælum annarra, nema mjög ríkar ástæður séu fyrir því. Ennfremur vísar dómstóllinn m.a. til þess að ummælin hafi verið fjarlægð um leið og tilkynning hafi borist um málshöfðun. Þá er tekið fram að enda þótt miðlunum hafi ekki verið gert að greiða bætur, geti ábyrgð netmiðils haft neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfi athugasemda, t.d. með því að þvinga miðilinn til að loka athugasemdakerfi sínu. Þessar afleiðingar geti, beint eða óbeint, haft letjandi áhrif (e. chilling effect) á tjáningarfrelsi á Internetinu. Niðurstaða dómstólsins var sem fyrr segir sú að brotið hefði verið gegn 10. gr. og tók dómurinn fram að það væri engin ástæða til að ætla að kerfi „tilkynningar og fjarlægingar“ (e. notice-and-take-down-system) hafi ekki verið fullnægjandi leið til að tryggja viðskiptalegt orðspor þess fyrirtækis sem taldi sig skaðað með ummælunum.[5]
- Pihl-málið 2017
Í febrúar 2017 tók mannréttindadómstóllinn síðan ákvörðun í svonefndu Pihl máli.[6] Málsatvik voru þau að í september 2011 birtist færsla á bloggsíðu tiltekins félags, sem ekki var rekið í fjárhagslegum tilgangi, þar sem Pihl var sakaður um að taka þátt í nasistaflokki. Bloggsíðan heimilaði athugasemdir en skýrlega var tekið fram að ummæli væru ekki athuguð fyrir birtingu og að þeir sem tjáðu sig bæru ábyrgð á eigin ummælum. Var farið fram á að þeir sem tjáðu sig „sýndu góða hegðun og færu að lögum“. Degi eftir að færslan var sett inn setti óþekktur aðili (sem notaði dulnefni) inn ummæli um að Pihl væri líka hasshaus samkvæmt fólki sem aðilinn hefði talað við. Átta dögum síðar ritaði Pihl athugasemd við færsluna þess efnis að upplýsingarnar þar væru rangar og ætti þegar í stað að fjarlægja. Daginn eftir voru færslan og ofannefnd ummæli fjarlægð og ný færsla sett inn þar sem félagið sagði fyrri færsluna hafa verið ranga og baðst afsökunar á mistökunum. Pihl höfðaði mál gegn félaginu og krafðist táknrænna bóta að fjárhæð 1 sænsk króna á þeim grunni að færslan, sem og fyrrnefnd ummæli, fæli í sér ærumeiðingu sem félagið bæri ábyrgð á. Sænskir dómstólar höfnuðu kröfum Pihl sem kvartaði þá til mannréttindadómstóls Evrópu á þeim grunni að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs hans samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að kæran væri ekki tæk til meðferðar. Í ákvörðuninni er m.a. vísað til þess að ærumeiðing þurfi að ná vissu alvarleikastigi svo að reyni á 8. gr. og tekið fram að ummælin sem um ræði hafi klárlega ekki falið í sér hatursáróður eða hvatningu til ofbeldis. Þar er síðan vísað til viðmiðanna fjögurra úr Delfi málinu og framkvæmt mat á grundvelli þeirra. Leggur dómstóllinn þar m.a. áherslu á þá staðreynd að félagið sem um ræddi sé lítið og starfi ekki í fjárhagslegum tilgangi, sé ekki þekkt hjá almenningi og því hafi verið ólíklegt að það myndi draga að sér mörg ummæli eða að ummælin um Pihl yrðu víðlesin. Þá er vísað til þess að Pihl hafi fengið vitneskju um IP-tölu þeirrar tölvu sem notuð var til að setja inn umrædd ummæli en þó lægi ekki fyrir að hann hefði gert nokkuð frekar til að öðlast vitneskju um höfundinn. Í niðurlagi segir að í ljósi þess sem rakið hafi verið, og sérstaklega þeirrar staðreyndar að athugasemdin hafi, þrátt fyrir að vera móðgandi, ekki jafngilt hatursáróðri eða hvatningu til ofbeldis og hún hafi verið birt á lítilli bloggsíðu, sem rekin væri af félagi sem starfaði ekki í fjárhagslegum tilgangi og fjarlægði hana daginn eftir að beiðni Pihl var sett fram og níu dögum eftir að athugasemdin var birt, telji dómstóllinn að athafnir innanlandsdómstólanna hafi rúmast innan þess svigrúms sem þeir hafa til mats og að þeir hafi fundið hæfilegt jafnvægi á milli réttar Pihl samkvæmt 8. gr. og gagnstæðs réttar félagsins til tjáningarfrelsis samkvæmt 10. gr.
- Hvað má leiða af dómunum og hver er þýðing þess fyrir íslenskan rétt?
Það verður að segjast eins og er að það er svolítið erfitt að láta framangreindar úrlausnir ríma fyllilega saman og í reynd er ekki hægt að túlka síðari dóminn, sem og ákvörðunina, öðruvísi en sem a.m.k. eitt skref frá Delfi, í kjölfar gagnrýninnar sem sá dómur fékk, en segja má að með því sé tjáningarfrelsi aukið en vernd einkalífs minnkuð miðað við það sem ráða mátti af Delfi. Þótt dómstóllinn sé að nota sömu viðmiðin í báðum dómum virðist hann nálgast einstök atriði með aðeins mismunandi hætti og nefnir auk þess að nokkru leyti ný sjónarmið í MTE málinu, sbr. m.a. það sem að framan er nefnt um sérkenni tjáningarmátans á vissum vefsvæðum.
Hvað má þá leiða af þessu öllu saman? Í fyrsta lagi að hér virðist réttarstaðan nokkuð óljós hvað varðar ábyrgð netmiðla á ummælum þriðja manns. Má réttilega gagnrýna mannréttindadómstólinn fyrir að taka ekki með skýrari hætti á málum, enda hafa umræddar aðstæður mikla þýðingu í núverandi umhverfi netmiðlanna. Í því sambandi athugast að mikið af ummælum í athugasemdakerfum netmiðlanna eru nafnlaus (eða notast við dulnefni) og þá er auðvitað líklegt að sá sem telur á sig hallað beini kröfum sínum að þeim sem koma að miðlinum. Það ræðst þá af ábyrgðarreglum hvers og eins ríkis hvort miðillinn geti borið ábyrgð. Ljóst virðist að slík ábyrgð er víða möguleg í aðildarríkjum sáttmálans, þ.á m. hér á landi, þar sem í reynd er að nokkru marki mælt með beinum hætti fyrir um slíka ábyrgð í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 51. gr. laganna ber ábyrgðarmaður þeirra vefmiðla sem teljast til fjölmiðla samkvæmt lögunum ábyrgð á ólögmætum ummælum sem ekki er kunnugt hver er höfundur að. Fjölmiðlaveitan ber síðan ábyrgð á greiðslu þeirra fésekta eða skaðabóta sem ábyrgðarmanninum kann að vera gert að greiða, sbr. 2. mgr. 51. gr. laganna. Þannig er ljóst að ef Delfi málið hefði átt sér stað hér á landi hefði ábyrgðarmaður miðilsins borið ábyrgð á ummælunum og Delfi AS borið ábyrgð á greiðslu skaðabótanna, samkvæmt beinum fyrirmælum í lögunum. Að sama skapi er ljóst að almennar reglur hér á landi geta staðið til ábyrgðar í framangreinda veru, utan gildissviðs laganna. Þannig kann sá sem heldur úti bloggsíðu er fellur utan gildissviðs fjölmiðlalaga t.d. að verða gerður ábyrgur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna ummæla sem aðrir setja fram á síðu hans, svo fremi sem hann telst hafa sýnt af sér saknæma háttsemi.[7] Í slíkum tilvikum standa dómstólar þá eftir með spurninguna – hvenær má beita slíkum reglum landsréttar til ábyrgðar vegna ummæla annarra á Internetinu án þess að brjóta gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu? Um það er samkvæmt framangreindu ýmislegt óljóst. Það er að vísu ljóst að slík ábyrgð getur vel farið saman við 10. gr., líkt og Delfi málið ber með sér. Hún getur hins vegar einnig brotið gegn ákvæðinu, líkt og MTE málið ber með sér. Það verður þá einfaldlega að leitast við að framkvæma mat á grundvelli þeirra viðmiða sem mannréttindadómstóllinn notast við samkvæmt framansögðu. Ljóst er að það sem mestu virðist skipta í þeim efnum er alvarleiki ummælanna. Þannig virðist slík ábyrgð almennt ekki skapa sérstök vandamál í tilviki hatursáróðurs, hvatningar til ofbeldis og líklega annarra mjög grófra ummæla, en í tilviki vægari ummæla, t.d. móðgunar, er ljóst að ábyrgð af hálfu miðlanna myndi oft brjóta gegn 10. gr. Annað sem virðist skipta verulegu máli er hvernig miðlinum nákvæmlega er háttað, svo sem stærð hans og þess aðila sem að honum stendur, og hvort um fjárhagslegan tilgang sé að ræða. Þannig er mun líklegra að ábyrgð af hálfu ábyrgðarmanns og fjölmiðlaveitunnar sjálfrar teldist innan marka 10. gr. í tilviki stærstu og mest lesnu fréttamiðlanna hér á landi en í tilviki minni miðla sem ekki eru reknir í fjárhagslegum tilgangi. Þótt framangreind atriði virðist skipta hvað mestu máli reynir samkvæmt framansögðu einnig á fleiri viðmið, sem snerta m.a. hvernig eftirlitskerfi miðilsins er háttað, og niðurstaðan er háð heildstæðu mati. Þá verður að telja ljóst að því betur sem dómstólar aðildarríkjanna rökstyðja niðurstöðu sína um ábyrgð með tilliti til þeirra viðmiða sem mannréttindadómstóllinn hefur sett fram samkvæmt framansögðu, því líklegra er að mannréttindadómstóllinn láti sitja við það mat þeirra.[8]
Hér væri sannarlega óskandi að við skýrari og afdráttarlausari viðmið væri að styðjast en vonast verður til að línur skýrist frekar eftir því sem dómum mannréttindadómstólsins á þessu sviði fjölgar.
Heimildaskrá
Dirk Voorhoof: „Delfi AS v. Estonia: Grand Chamber confirms liability of online news portal for offensive comments posted by its readers“. Strasbourg Observer, 18. júní 2015 (http://hdl.handle.net/1854/LU-6900877).
Eiríkur Jónsson: „Ábyrgð á birtu efni á Internetinu“. Afmælisrit Björn Þ. Guðmundsson sjötugur 13. júlí 2009. Reykjavík 2009, bls. 103-135.
Eiríkur Jónsson: „Ábyrgðarreglur fjölmiðlalaga“. Afmælisrit Páll Sigurðsson sjötugur 16. ágúst 2014. Reykjavík 2014, bls. 185-210.
Lisl Brunner: „The Liability of an Online Intermediary for Third Party Content: The Watchdog Becomes the Monitor: Intermediary Liability after Delfi v Estonia“. Human Rights Law Review, 1. tbl., 16. bindi 2016, bls. 163-174.
Oddný Mjöll Arnardóttir: „Organised Retreat? The Move from ‘Substantive’ to ‘Procedural’ Review in the ECtHR’s Case Law on the Margin of Appreciation“. ESIL Conference Paper Series, Conference Paper No. 4/2015.
Oddný Mjöll Arnardóttir: „The “Procedural Turn” under the European Convention on Human Rights and Presumptions of Convention Compliance“. International Journal of Constitutional Law, 15. bindi 2017.
Róbert R. Spanó: „Hvar liggur ábyrgðin? Ólögmæt ummæli í athugasemdakerfum vefsíðna í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu“. Fullveldi í 99 ár. Safn ritgerða til heiðurs dr. Davíð Þór Björgvinssyni sextugum. Reykjavík 2017, bls. 283-303.
Róbert R. Spanó: „Intermediary Liability for Online User Comments Under the European Convention on Human Rights“. Human Rights Law Review, 2017.
Abstract
The article explains and discusses recent case-law from the European Court of Human Rights concerning the liability of online intermediaries for third party content. It also addresses the importance of these recent judgments for the application of Icelandic rules on liability.
[1] MDE, Delfi AS gegn Eistlandi, 16. júní 2015 (64569/09).
[2] Sjá t.d. Lisl Brunner: „The Liability of an Online Intermediary for Third Party Content: The Watchdog Becomes the Monitor: Intermediary Liability after Delfi v Estonia“, og Dirk Voorhoof: „Delfi AS v. Estonia: Grand Chamber confirms liability of online news portal for offensive comments posted by its readers“.
[3] MDE, Magyar Tartalomszolgáltatók Egyesülete og Indez.hu Zrt gegn Ungverjalandi, 2. febrúar 2016 (22947/13).
[4] Framsetning viðmiðanna er með eilítið mismunandi hætti, sbr. mgr. 144 til 161 í Delfi dóminum annars vegar og mgr. 72 til 88 í MTE dóminum hins vegar.
[5] Um frekari umfjöllun um framangreinda dóma skal bent á Róbert R. Spanó: „Hvar liggur ábyrgðin? Ólögmæt ummæli í athugasemdakerfum vefsíðna í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu“, og Róbert R. Spanó: „Intermediary Liability for Online User Comments Under the European Convention on Human Rights“.
[6] Ákv. MDE, Rolf Anders Daniel Pihl gegn Svíþjóð, 7. febrúar 2017 (74742/14).
[7] Eiríkur Jónsson: „Ábyrgðarreglur fjölmiðlalaga“, bls. 205. Sjá einnig um efnið Eiríkur Jónsson: „Ábyrgð á birtu efni á Internetinu“, bls. 120-128.
[8] Þetta leiðir af þeirri þróun sem átt hefur sér stað á allra síðustu árum, þar sem dómstóllinn hefur fært út svigrúm aðildarríkjanna til mats í málum þar sem reynir á mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs, að því gefnu að dómstólar aðildarríkjanna hafi framkvæmt mat samkvæmt þeim viðmiðum sem dómstóllinn hefur sett fram. Hér er ekki ráðrúm til að rekja þá þróun frekar en benda má t.d. á umfjöllun í Oddný Mjöll Arnardóttir: „Organised Retreat? The Move from ‘Substantive’ to ‘Procedural’ Review in the ECtHR’s Case Law on the Margin of Appreciation“, og Oddný Mjöll Arnardóttir: „The “Procedural Turn” under the European Convention on Human Rights and Presumptions of Convention Compliance“.