Getur Norður-Kórea löglega beitt kjarnavopnum í ljósi yfirlýsinga forseta Bandaríkjanna?

Eftir Davíð Örn Sveinbjörnsson
Aðjúnkt við Háskóla Íslands og héraðsdómslögmann hjá ADVEL lögmönnum.

 Efnisyfirlit:

  1. Inngangur
  2. Vaxandi spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu
  3.  Kjarnavopn og ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins
    3.1. Almennt
    3.2. Ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins frá 1996
  4. Gildi einhliða yfirlýsinga að þjóðarétti
  5. Möguleg áhrif yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna

Ágrip

Í greininni eru möguleg lagaleg áhrif nýlegrar yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem gjöreyðingu Norður-Kóreu var hótað skoðuð og metin í ljósi tveggja fordæma Alþjóðadómstólsins.

  1. Inngangur

Árið 1996 gaf Alþjóðadómstóllinn í Haag (hér eftir Alþjóðadómstóllinn) allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (hér eftir SÞ) ráðgefandi álit um lögmæti beitingu kjarnavopna. Í áliti sínu taldi dómstóllinn leiða af eðli kjarnavopna að beiting eða ógn um beitingu þeirra myndi almennt fara gegn reglum þjóðaréttar sem gilda í vopnuðum átökum. Hins vegar taldi dómstóllinn sig ekki getað útilokað þann möguleika að beiting eða ógn um beitingu kjarnavopna kynni að vera réttlætanleg í sérstökum aðstæðum þegar tilvist ríkisins er í húfi.

Tuttugu árum seinna stendur alþjóðasamfélagið frammi fyrir því að hinar sérstöku aðstæður verði að veruleika vegna ummæla forseta Bandaríkjanna í ræðu sinni á 72. allsherjarþingi SÞ þar sem gjöreyðingu Norður-Kóreu var hótað.

Í þessari stuttu grein verður leitast við að skoða þjóðréttarleg áhrif framangreindrar hótunar forseta Bandaríkjanna í ljósi hins ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti notkunar kjarnavopna frá 1996 og almennra reglna þjóðaréttarins um áhrif einhliða yfirlýsinga ráðamanna ríkja.

  1. Vaxandi spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu

Í kjölfar þess að Donald J. Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna í ársbyrjun 2017 hefur spenna í samskiptum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna aukist verulega. Grafalvarleg staða er komin upp í samskiptum ríkjanna og hefur Norður-Kórea á síðastliðnum mánuðum ögrað og ógnað nágrannaríkjum sínum og Bandaríkjunum með eldflaugatilraunum og öðrum aðgerðum sem náð hafa út fyrir landsteina ríkisins.[1] Í stað hefðbundinna diplómatískra viðbragða við ástandinu á Kóreuskaga hefur forseti Bandaríkjanna, að því virðist, lagt megináherslu á að svara ögrunum Norður-Kóreu með ógnandi yfirlýsingum sem fela í sér óræða hótun um beitingu kjarnavopna.

Á fréttamannafundi 8. ágúst 2017 í Bridgewater, New Jersey, sagði forsetinn:

North Korea best not make any more threats to the United States. They will be met with fire and fury like the world has never seen. He has been very threatening … and as I said they will be met with fire, fury and frankly power, the likes of which this world has never seen before.“[2]

Tveimur dögum seinna ítrekaði hann afstöðu sína með eftirfarandi ummælum:

„If North Korea does anything in terms of even thinking about attack, of anybody that we love or we represent or our allies or us, they can be very, very nervous. I’ll tell you why … Because things will happen to them like they never thought possible.“[3]

Á 72. allsherjarþingi SÞ 19. september 2017 hótaði forsetinn svo gjöreyðingu Norður-Kóreu kæmi til átaka:

„The US has great strength and patience, if it is forced to defend ourselves or our allies, we will have no choice but to totally destroy North Korea.”[4] 

Athygli vekur að í ummælum forsetans felst ekki eingöngu fullyrðing um að Bandaríkjamenn muni verja sig og bandamenn sína, heldur einnig að slík sjálfsvörn muni leiða til gjöreyðingar Norður-Kóreu. Að teknu tilliti til grundvallarreglna þjóðaréttar um rétt ríkja til sjálfsvarnar er erfitt að skilja ummælin öðruvísi en svo að hér sé ólögmætri beitingu vopnavalds hótað, jafnvel þó Bandaríkjunum hafi verið ögrað. Þó vissulega hafi Bandaríkin, eins og önnur ríki, heimild til þess að bera fyrir sig sjálfsvörn þá er beiting slíks úrræðis háð takmörkunum. Þannig verður lögmætri sjálfsvörn eingöngu beitt með hóflegum hætti að teknu tilliti til árásar, ógnar, eða íhlutunar sem brugðist er við.[5] Öll valdbeiting umfram það sem nauðsynlegt er eða hóflegt má teljast brýtur þannig í bága við grundvallarreglur þjóðaréttar. Beiting vopnavalds með þeim afleiðingum að ríki verði gjöreyðilagt verður seint talin hófleg.

  1. Kjarnavopn og ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins

3.1. Almennt

Kjarnavopn eru ein þekktasta tegund gjöreyðingarvopna í heiminum. Þrátt fyrir að þessi tegund vopna hafi eingöngu verið beitt einu sinni í hernaði, þegar Bandaríkin slepptu tveimur kjarnavopnum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945 undir lok seinni heimstyrjaldarinnar,[6] hafa rétt um 2.000 slíkar sprengjur verið sprengdar af átta þjóðum í tilraunaskyni frá 1945.[7]

Notkun kjarnavopna hefur frá upphafi þótt umdeild og hafa ríki heimsins reglulega tekist á um lögmæti þeirra. Hefur alþjóðasamfélagið brugðist við ógninni sem af kjarnavopnum steðjar með alþjóðasamningum[8] og fjölmörgum ályktunum á vettvangi SÞ[9] þar sem notkun og varsla hefur jafnvel verið álitin ólögmæt að þjóðarétti vegna eðlis og gjöreyðingarkrafts vopnanna.

3.2. Ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins frá 1996

Árið 1996 kallaði allsherjarþing SÞ eftir ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins um lögmæti kjarnavopna.[10] Í raun fólst í spurningu þeirri sem lögð var fyrir dómstólinn að skoða þyrfti hvort eðli kjarnavopna leiddi til þess að notkun þessara vopna yrði ávallt talin ólögleg.

Þó ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins séu formlega óbindandi að þjóðarétti hafa þau verulega þýðingu við skýringu gildandi réttar í réttarkerfinu. Alþjóðadómstóllinn er almennt talinn æðsta dómsvald í þjóðarétti og túlkanir hans á reglum þjóðaréttar eru taldar leiðbeinandi skýringar sem lagalega og siðferðislega þýðingu hafi.[11] Leiðir þetta jafnframt af almennt vel ígrunduðum rökstuðningi sem að baki álitum dómstólsins liggur, en við undirbúning þeirra fylgir dómstóllinn sömu verkferlum og gilda þegar um ágreiningsmál er að ræða.[12]

Dómstóllinn svaraði spurningu allsherjarþingsins með ítarlegum rökstuðningi og gaf svar við henni í sex liðum. Að stærstum hluta voru svörin óumdeild og snéru að almennum takmörkunum til notkunar á kjarnavopnum.[13] En einn svarliðurinn, fimmti liðurinn, skar sig úr en þar klofnaði dómstóllinn í afstöðu sinni.

Með sjö atkvæðum gegn sjö þar sem úrslitaatkvæðið féll með forseta dómstólsins taldi Alþjóðadómstóllinn að beiting eða ógn um beitingu kjarnavopna myndi almennt fara gegn reglum þjóðaréttar sem gilda í vopnuðum átökum, sérstaklega meginreglum og lögum mannúðarréttar. Hins vegar taldi dómstóllinn sig ekki getað ályktað með endanlegum hætti að beiting eða ógn um beitingu kjarnavopna yrði talin lögleg eða ólögleg í sérstökum aðstæðum sjálfsvarnar þar sem tilvist ríkisins væri í húfi.

Framangreind afstaða dómstólsins byggði á mati um að eðli kjarnavopna útiloki í sjálfu sér að grunnreglum þjóðaréttar sem gilda í vopnuðum átökum sé fylgt.[14] Í mannúðarrétti er almennt gerð sú krafa að vopnum sé eingöngu beitt í hernaðarlegum tilgangi, með hóflegum hætti í hlutfalli við ógnin sem að steðjar, á sem mannúðlegasta hátt og þannig að eingöngu sé miðað á lögmæt skotmörk.[15] Vopn eða hernaðaraðferðir sem brjóta gegn framangreindum viðmiðum fela þannig í sér ólögmætan hernað, hvort heldur litið er til Genfarsamninga,[16] Haag-samninga[17] eða venjuréttar á sviði mannúðarréttar. Dómstóllinn taldi nánast útilokað að kjarnavopnum mætti beita án þess að bitni á óbreyttum borgurum og svokölluðum hlutlausum svæðum, en þau svæði njóta sérstakrar verndar í alþjóðasamningum á sviði mannúðarréttar.[18] Gjöreyðileggingin sem vopnin valda og hin langvarandi áhrif sökum geislavirkni leiða þá einnig til þess að notkun þeirra verður seint talin hófleg eða mannúðleg og skortir talsvert á að notkun geti talist lögmæt. Á framangreindum forsendum og með vísan til gildandi reglna þjóðaréttarins á þessu sviði, að teknu tilliti til annarra alþjóðlegra skuldbindinga ríkja s.s. á sviði mannréttinda og alþjóðlegs umhverfisréttar,[19] komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að almennt bryti notkun kjarnavopna gegn alþjóðalögum, þ. á m. hótanir um beitingu þeirra.

Þrátt fyrir að dómstóllinn í forsendum sínum og niðurstöðu hafi talið nánast útilokað að kjarnavopnum mætti beita með löglegum hætti þá gat hann ekki útilokað með öllu að notkun kynni að vera lögmæt, t.a.m. þegar tilvist ríkis væri í húfi. Niðurstaðan er ekki óumdeild enda klofinn dómur. Slíkur skortur á stuðningi helmings dómenda getur vissulega vakið upp efasemdir um lagalega og leiðbeinandi þýðingu álitsins, sérstaklega þar sem bent hefur verið á að nokkuð skorti á rökstuðningi dómsins fyrir undantekningunni um að ríki kynni að vera heimilt að beita kjarnavopnum ef tilvist þess væri í húfi.[20] Nálgun dómstólsins er hins vegar varfærin og felur ekki í sér afdráttarlausa afstöðu að ríki væri heimilt að beita kjarnavopnum heldur fyrst og fremst að slíkt sé ekki útilokað í öfgakenndum aðstæðum. Meira að segja í séráliti eins dómarans, Higgins, var ekki talið útilokað að kjarnavopnum gæti verið beitt með hóflegum hætti og án þess að valda ónauðsynlegum þjáningum í einkar sérstökum en ófyrirséðum aðstæðum.[21] Þó samhljóma niðurstaða hafi ekki fengist stendur álitið eftir sem áður óbreytt og er ekki í mótsögn við seinni álit eða dómaframkvæmd dómstólsins. Verður að líta á það sem leiðbeinandi um gildandi rétt um lögmæti notkunar og beitingu kjarnavopna, þó með þeirri áherslu að niðurstaðan felur ekki í sér staðfestingu á lögmæti notkunar kjarnavopna.

  1. Gildi einhliða yfirlýsinga að þjóðarétti

Þrátt fyrir að ríki heimsins skuldbindi sig venjulega með beinum hætti með þjóðréttarsamningum hefur þýðing einhliða yfirlýsingar ráðamanna aukist frá því um miðja 20. öld, þannig að skuldbundið geti ríki til jafns við þjóðréttarsamninga að tilteknum skilyrðum fullnægðum.[22]

Í svokölluðum kjarnorkutilraunamálum fyrir Alþjóðadómstólnum árið 1974, sem Ástralía og Nýja-Sjáland höfðuðu gegn Frakklandi vegna kjarnorkutilrauna þess síðarnefnda í suðurhluta Kyrrahafs, var leyst úr ágreiningnum á grundvelli einhliða yfirlýsinga ráðamanna Frakklands.[23] Dómstóllinn mat einhliða yfirlýsingar tiltekinna ráðamanna, sérstaklega forseta landsins, þannig að í þeim fælist einhliða skuldbinding Frakklands um að stöðva kjarnorkutilraunir á hinum umþrættu svæðum.[24] Nálgun Alþjóðadómstólsins í málunum um hvenær einhliða yfirlýsingar skapa lagalegar skuldbindingar að þjóðarétti er upplýsandi og leiddi afstaða dómstólsins til þess að ágreiningnum í málinu var sjálfhætt.

Dómstóllinn taldi, sem leiðir af fullveldi ríkja, að þegar ætlunin er að yfirlýsing sé skuldbindandi verður ríkið almennt talið skuldbundið.[25] Skiptir ekki máli hvort yfirlýsing sé sérstaklega móttekin eða samþykkt af hálfu annarra ríkja eða í hvaða aðstæðum eða á hvaða formi slík yfirlýsing er gefin.[26] Hins vegar vandast málin ef ríki vill ekki kannast við skuldbindingargildi yfirlýsingar eftir á. Af niðurstöðu dómstólsins og að teknu tilliti til skrifa fræðimanna má ætla að slíkar yfirlýsingar verði að skoðast í góðri trú og taka verður mið af væntingum sem önnur ríki í góðri trú mega bera á grundvelli yfirlýsingarinnar.[27]

Alþjóðadómstóllinn leit til þess í framangreindum málum að einhliða yfirlýsingar franskra yfirvalda hefðu verið gefnar vegna þeirrar umræðu sem ágreiningurinn hafði skapað, utan réttarins, opinberlega og gagnvart öllum þjóðum.[28] Yfirlýsingarnar hefðu verið almennar og skýrar hvað afleiðingar og ætlan ríkisins varðaði. Dómstóllinn taldi að Frakkland hafi mátt vita að önnur ríki tækju mark á yfirlýsingunum og myndu treysta þeim.[29] Við mat á efni yfirlýsinganna taldi dómstóllinn að þær væru skýrar að efninu til og að teknu tilliti til heildarmats þeirra þátta sem að ofan eru nefndir hefðu þær lagalega skuldbindandi áhrif á Frakkland.[30]

Af niðurstöðu dómstólsins má ráða að við mat á skuldbindingargildi einhliða yfirlýsingar ráðamanna verði að taka mið af ýmsum þáttum. Í fyrsta lagi hvort ráðamaður hafi, að þjóðarétti, þá stöðu að geta skuldbundið ríki. Í annan stað þurfi að líta til efnis yfirlýsingarinnar og hvort hún innifeli skuldbindingu. Í þriðja lagi þarf að meta hversu skýr og ótvíræð yfirlýsing sé um afstöðu eða ætlan ríkisins og þá verði einnig að taka tillit til samhengisins. Að lokum má ætla að vettvangur yfirlýsingarinnar sé þýðingarmikill, s.s. hvort ummælum sé beint til ríkja, fjölmiðlamanna eða annarra. Við mat á framangreindum atriðum verður að skoða aðstæður heildstætt og ávallt í góðri trú.

  1. Möguleg áhrif yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna

Þegar lagt er mat á lagalega þýðingu yfirlýsingu forseta Bandaríkjanna 19. september 2017, þ. á m. að hvaða leyti Norður-Kórea getur gripið til ráðstafana á grundvelli hennar, er rétt að taka mið af þeim þáttum sem Alþjóðadómstóllinn lagði til grundvallar í fyrrgreindum kjarnorkutilraunamálum.

Donald J. Trump er forseti Bandaríkjanna og sem slíkur kemur hann fram fyrir hönd þeirra á alþjóðavettvangi með sambærilegum hætti og forseti Frakklands í framangreindum málum og hefur þannig möguleika á að skuldbinda ríki sitt að þjóðarétti með einhliða yfirlýsingu.[31] Ræða hans var flutt á allsherjarþingi SÞ og orðunum beint til alþjóðasamfélagsins í heild. Efni yfirlýsingarinnar var skýrt, gjöreyðing Norður-Kóreu var hótað kæmi til átaka. Sú hótun er einkar trúverðug í ljósi framkvæmanleika hennar, en Bandaríkin búa yfir einu stærsta kjarnavopnasafni heimsins ásamt Rússlandi.[32] Þó ummælin eigi sér stað í samhengi ögrandi aðgerða Norður-Kóreu felst í ummælunum hótun um svo ofsafengin viðbrögð af hálfu Bandaríkjanna að skoða verði þau sjálfstætt, enda komin framúr eðlilegri áréttingu um sjálfsvarnarrétt ríkja.

Með hliðsjón af þeim viðmiðum sem Alþjóðadómstóllinn lagði til grundvallar í kjarnorkutilraunamálunum telur undirritaður óhjákvæmilegt að álykta annað en að ummælin verði að taka alvarlega og kunni að hafa lagaleg áhrif hvað mögulegan rétt Norður-Kóreu varðar. Bandaríkin hafa með skýrum og opinberum hætti frammi fyrir alþjóðasamfélaginu hótað gjöreyðingu Norður-Kóreu. Í sjálfu sér kann hér að vera um ólögmæta hótun að ræða sem brjóti gegn grunnreglum þjóðaréttar um bann við beitingu eða hótun um beitingu vopnavalds.

Með skýrari hætti felast hin lagalegu áhrif í því að Norður-Kórea má óttast um tilvist ríkisins komi til vopnaðra átaka. Í ljósi ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins frá 1996 kann ótti Norður-Kóreu, verandi trúverðugur í ljósi aðstæðna, að opna á lögmæta notkun ríkisins á kjarnavopnum gegn Bandaríkjunum að öðrum ströngum skilyrðum uppfylltum. Væntanlega er þetta í fyrsta sinn frá því Alþjóðadómstóllinn gaf álit sitt sem ríki hefur, með óvarkárum orðum, raunverulega skapað þær aðstæður að annað ríki sem býr yfir kjarnavopnum þurfi að óttast um tilvist sína. Afleiðingarnar eru alvarlegar, lögmæt notkun kjarnavopna er ekki útilokuð, þó vissulega sé þær enn fjarlægar í ljósi eðlis og áhrifa kjarnavopna.

Til viðbótar stigmögnunar áhrifum yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna á þá spennu sem fyrir er á Kóreuskaganum og milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu eru framangreind lagaleg áhrif á réttlætanlega notkun kjarnavopna. Vonandi reynir ekki á að Norður-Kórea beiti eða reyni að réttlæta beitingu kjarnavopna, mikilvægara er þó að lærdómur sé dregin af ummælunum og ákjósanlegt að Bandaríkin dragi í land með fullyrðingar sem þessar. Ummælin eru umfram allt tilefni til áminningar um mikilvægi þess að ráðamenn séu meðvitaðir um ábyrgð sína og þau áhrif sem orð þeirra geta haft á alþjóðlegum vettvangi. 

Abstract

The article discusses the potential legal effects of a recent statement made by the president of the United States at the United Nations, where the total destruction of North Korea was threatened. The statement is in particular assessed in light of two decisions made by the International Court of Justice, addressing the legality of using nuclear weapons on the one hand and the effects of unilateral statements made by states on the other.

Heimildarskrá:

Camille Goodman: „Acta Sunt Servanda? A Regime for Regulating the Unilateral Acts of States at International Law“. Australian Year Book of International Law, 25. árg. 2006, bls. 43-74.

Curtis A. Bradley og Trevor W. Morrison: „Historical Gloss and the Separation of Powers“. Harvard Law Review, 126. árg., 2. tbl. 2012, bls. 411-485.

Daryl Kimball: „The Nuclear Testing Tally“, https://www.armscontrol.org/factsheets/nucleartesttally, 3 September 2017 (skoðað 20. október 2017).

Donald Trump: https://gadebate.un.org/sites/default/files/gastatements/72/us_en.pdf (skoðað 20. október 2017).

F. Blaine Sloan: „Advisory Jursidiction of the International Court of Justice“. California Law Review, 38. hefti, 5. bindi 1950, bls. 830.

Frederic L. Kirgis: „International Agreements and U.S. Law“. ASIL Insights, 2. bindi, 5. tbl. 1997.

Fritz Kalshoven and Liesbeth Zegveld: Constraints on the Waging of War. An Introduction to International Humanitarian Law. 3. útgáfa. Genf 2001.

James Griffiths, et. al. „North Korea Launches missile over Japan“, http://www.cnn.com/2017/09/14/asia/north-korea-missile-launch/index.html, 15. september 2017 (skoðað 20. október 2017).

Jo M. Pasqualucci: The Practice and Procedure of the Inter-American Court of Human Rights. Cambridge 2003.

Joshua E. Kastenberg: „The Use of Conventional International Law in Combating Terrorism: A Maginot Line for Modern Civilization Employing the Principles of Anticipatory Self-Defense & Preemption“, Air Force Law Review, 55. árg. 2004, bls. 87-125.

Julie Calidonio Schmid: „Advisory Opinion on Human Rights: Moving Beyond a Pyrrhic Victory“. Duke Journal of Comparative & International Law, 16. bindi 2. tbl. 2006, bls. 415-456.

Karl Zemanek: „Unilateral Legal Acts Revisited“. International Law: Theory and Practice – Essays in Honour of Eric Suy. Ritsj. Karel Wellens. Haag 1998, bls. 209-221.

Kelsey Davenport: „Nuclear Weapons: Who Has What at a Glance“ https://www.armscontrol.org/factsheets/Nuclearweaponswhohaswhat, 3 október 2017 (skoðað 20. október 2017).

Larry A. Niksch: „North Korea‘s Nuclear Weapons Program“. Library of Congress Washington DC Congressional Research Service, 2005.

Mahasen Mohammad Aljaghoub: The Advisory Function of the International Court of Justice 1946 – 2005. Leipzig 2006.

Martii Koskenniemi: „The Politics of International Law“. European Journal of International Law, 1. tbl. 1990, bls. 4-32.

Melissa Chan: „Here’s What Donald Trump Has Said About Nuclear Weapons“, http://time.com/4437089/donald-trump-nuclear-weapons-nukes/, 3. ágúst 2016 (skoðað 20. október 2017).

Nicholas Quinn Rosenkranz: „Executing the Treaty Power“. Harvard Law Review, 118. árg, 6. tbl. 2005, bls. 1867-1938.

Nina Tannenwald: „The Nuclear Taboo: The United States and the Normative Basis of Nuclear Non-Use“. International Organization, 53. árg., 3 tbl. 1999, bls. 433-468.

Oona A. Hathaway: „Presidential Power over International Law: Restoring the Balance“. The Yale Law Journal, 119. árg., 2. tbl. 2009. bls. 140-268.

Peter Baker and Choe Sang-Hun: „Trump threatens ‚Fire and Fury‘ Against North Korea if It Endangers the U.S.“, https://www.nytimes.com/2017/08/08/world/asia/north-korea-un-sanctions-nuclear-missile-united-nations.html, 8. ágúst 2017 (skoðað 20. október 2017).

Pieter H.F. Bekker: „Advisory Opinions of the World Court on the Legality of Nuclear Weapons“. ASIL Insights, 1. bindi, 5. tbl. 1996.

Rebecca M.M. Wallace: International Law. London 2005.

Richard L. Armitage: „A Comprehensive Approach to North Korea. Strategic Forum, nr. 159, 1999.

Selig S. Harrison: „Did North Korea Cheat“. The Asia Pacific Journal, 3. bindi, 3. tbl. 2005.

„Trump to North Korea: Be very, very nervous“, http://www.bbc.com/news/world-us-canada-40894529, 11. ágúst 2017 (skoðað 20. október 2017).

„US Relations With North Korea. Fact Sheet“, Vefsíða utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, https://www.state.gov/r/pa/ei/bgn/2792.htm, 2016 (skoðað 20. október 2017).

Ward Wilson: „The winning weapon? Rethinking nuclear weapons in light of Hiroshima“. International Security, 31. bindi, 4. tbl. 2007, bls. 162-179.

Dómaskrá:

Dómar Alþjóðadómstólsins:

AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), dómur frá 20. desember 1974, ICJ Reports 1974, bls. 253.

AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), dómur frá 20. desember 1974, ICJ Reports 1974, bls. 457.

AD, Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons, ráðgefandi álit frá 8. júlí 1996, ICJ Reports 1996, bls. 226.

[1] T.a.m. eldflaugatilraunir yfir Japan, sjá t.d. frétt CNN: James Griffiths o.fl.: „North Korea launches missile over Japan“, http://www.cnn.com/. Sögulega hafa Bandaríkin og Norður-Kórea átt regluleg samskipti um kjarnavopn og spenna stigmagnast í þeim efnum, er þeim samskiptum gerð góð grein í eftirfarandi skrifum: Selig S. Harrison: „Did North Korea Cheat?“. Richard L. Armitage: „A Comprehensive Approach to North Korea“. Larry A. Niksch: „North Korea’s Nuclear Weapons Program“.

[2] Peter Baker and Choe Sang-Hun: „Trump threatens ‚Fire and Fury‘ Against North Korea if It Endangers the U.S.“, https://www.nytimes.com/.

[3] „Trump to North Korea: Be very, very nervous“, http://www.bbc.com/.

[4] Umrædd ræða Donald J. Trump er aðgengileg í heild á vefsíðu SÞ: https://gadebate.un.org/sites/default/files/gastatements/72/us_en.pdf.

[5] Almennt virðast fræðimenn á einu máli hvað kröfu um hóflega beitingu sjálfsvarnar varðar sbr.: Joshua E. Kastenberg: „The Use of Conventional International Law in Combating Terrorism: A Maginot Line for Modern Civilization Employing the Principles of Anticipatory Self-Defense & Preemption“, bls. 110. John Alan Cohan: „The Bush Doctrine and the Emerging Norm of Anticipatory Self-Defense in Customary International Law“, bls. 337. Rebecca M.M. Wallace: International Law, bls. 276-284. Christina Gray: International Law and the Use of Force, bls 116-166.

[6] Ward Wilson: „The winning weapon? Rethinking nuclear weapons in light of Hiroshima“, bls. 162-164. Nina Tannenwald: „The Nuclear Taboo: The United States and the Normative Basis of Nuclear Non-Use“, bls. 433.

[7] Daryl Kimball: „The Nuclear Testing Tally“, https://www.armscontrol.org/.

[8] Má hér m.a. nefna „Samning um bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðan sjávar“ frá 5. ágúst 1963, „Samning um að dreifa ekki kjarnavopnum“ frá 1. júlí 1968, „Samning um bann við staðsetningu kjarnorkuvopna og annarra gjöreyðingarvopna á hafsbotni og í honum“ frá 11. febrúar 1971, „Samning um fækkun á langdrægum kjarnaeldflaugum“ frá 3. janúar 1993, „Samningur um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn“ frá 10. september 1996, og „Samning um fækkun á langdrægum kjarnaeldflaugum“ frá 31. júlí 1997. Bandaríkin hafa haft aðkomu að framangreindum samningum og undirritað þá eða fullgilt. Norður-Kórea er hins vegar í dag ekki aðili að neinum framangreindra samninga. Til viðbótar má nefna að opnað var fyrir undirskriftir nýs þjóðréttarsamnings um allsherjarbann við kjarnavopnum 7. júlí 2011, sá samningur hefur þó ekki tekið gildi þegar þetta er ritað og hvorki Bandaríkin né Norður-Kórea hafa undirritað samninginn.

[9] Má hér nefna sem dæmi eftirfarandi ályktanir allsherjarþings SÞ: A/RES/52/36 (1997); A/RES/65/59 (2011); A/RES/65/40 (2011); A/RES/1653 (XVI); A/RES/33/71 (1978); A/RES/46/37D (1991); A/RES/45/59 (1990); A/RES/2826 (XXVI).

[10] Spurning allsherjarþingsins var framsett í ályktun nr. 49/75 K sem samþykkt var 15. desember 1994 og hljóðaði þannig: „Er hótun um beitingu eða beiting kjarnavopna undir einhverjum kringumstæðum lögleg samkvæmt reglum þjóðaréttar?“ Þessi spurning var svo tekin fyrir í málinu AD, Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons, Advisory Opinion, 8. júlí 1996, ICJ Reports 1996, bls. 226.

[11] Julie Calidonio Schmid: „Advisory Opinion on Human Rights: Moving Beyond a Pyrrhic Victory“, bls. 415-416. Jo M. Pasqualucci: The Practice and Procedure of the Inter-American Court of Human Rights, p. 29. Mahasen Mohammad Aljaghoub: The Advisory Function of the International Court of Justice 1946 – 2005, bls. 12-14; F. Blaine Sloan: „Advisory Jursidiction of the International Court of Justice“, bls. 850-852.

[12] Pieter H.F. Bekker: „Advisory Opinions of the World Court on the Legality of Nuclear Weapons“.

[13] Í fyrsta lagi taldi dómstóllinn að hvorki í venjurétti né hefðbundnum þjóðarétti væri að finna sérstaka heimild til þess að beita kjarnavopnum eða ógna með þeim. Í öðru lagi taldi dómstóllinn með ellefu atkvæðum gegn þremur að hvorki í venjurétti né hefðbundnum þjóðarétti mætti finna heildar- eða allsherjarbann við beitingu kjarnavopna eða ógnun með þeim. Í þriðja lagi var Alþjóðadómstóllinn einhuga um að valdbeiting eða ógn um valdbeitingu með atbeina kjarnavopna sem færi gegn 4. mgr. 2. gr. stofnsáttmála SÞ og uppfyllti ekki öll skilyrði 51. gr. hans væri ólögmæt. Í fjórða lagi taldi dómstóllinn að beiting eða ógn um beitingu kjarnavopna yrði ávallt að vera samrýmanleg kröfum þjóðaréttar sem gildi í vopnuðum átökum, sérstaklega meginreglum og lögum mannúðarréttar, sem og sérstökum skyldum skv. þjóðréttarsamningum og öðrum skuldbindingum sem fjalla sérstaklega um notkun kjarnavopna. Í sjötta svarliðnum taldi dómstóllinn að ríkjum væri skylt að leitast við, í góðri trú, að ljúka viðræðum sem leiði til afvopnunar kjarnavopna í hvers kyns formi. Sjá nánar AD, Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons, Advisory Opinion, 8. júlí 1996, ICJ Reports 1996, bls. 226, málsgrein 105.

[14] Réttarsviðið taldi dómstóllinn að hefði sérstaka þýðingu.

[15] Anders Hendriksen: International Law, bls. 297-300. Fritz Kalshoven og Liesbeth Zegveld: Constraints on the Waging of War. An Introduction to International Humanitarian Law. bls. 37-38, 84-86, 203-204.

[16] Þ. á m. Genfarsamningur um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna á vígvelli frá 12. ágúst 1949, Genfarsamningur um bætta meðferð særðra, sjúkra og skipreka sjóliða á hafi frá 12. ágúst 1949, Genfarsamningur um meðferð stríðsfanga frá 12. ágúst 1949 og Genfarsamningur um vernd almennra borgara á stríðstímum frá 12. ágúst 1949.

[17] Þ. á m. Haag sáttmála um reglur og venjur stríðs á landi frá 29. júlí 1899 og Haag sáttmála um reglur og venjur stríðs á landi frá 18. október 1907.

[18] Fritz Kalshoven og Liesbeth Zegveld: Constraints on the Waging of War. An Introduction to International Humanitarian Law, bls. 52-71.

[19] En til þeirra réttarsviða var m.a. vísað í forsendum álitsins þó áherslan og nálgun dómstólsins hafi verið byggð á reglum alþjóðlegs mannúðarréttar vegna lex specialis eðlis þeirra reglna gagnvart mannréttindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti.

[20] Meðal þeirra sem gagnrýndu þetta var Higgins sem skilaði séráliti í málinu. Einnig hafa fræðimenn s.s. Louise Doswald-Beck gagnrýnt þetta í skrifum sínum, sjá t.d.: Louise Doswald-Beck: „International humanitarian law and the Advisory Opinion of the International Court of Justice on the legality of the threat or use of nuclear weapons“, https://www.icrc.org.

[21] AD, Legality of the Threat or Use of Nuclear Weapons, sérálit Higgins frá 8. júlí 1996, ICJ Reports 1996, bls. 583. Louise Doswald-Beck: „International humanitarian law and the Advisory Opinion of the International Court of Justice on the legality of the threat or use of nuclear weapons“, https://www.icrc.org.

[22] Camille Goodman: „Acta Sunt Servanda? A Regime for Regulating the Unilateral Acts of States at International Law“, bls. 43-45. Karl Zemanek: „Unilateral Legal Acts Revisited“, bls. 209-211 og 213-217. Anders Hendriksen: International Law, bls. 33-34. Rebecca M.M. Wallace: International Law, bls. 254-256.

[23] AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), dómur frá 20. desember 1974, ICJ Reports 1974, bls. 253. AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), dómur frá 20. desember 1974, ICJ Reports 1974, bls. 457.

[24] AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), málsgrein 51. AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), málsgrein 53.

[25] AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), málsgreinar 42-46. AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), málsgreinar 45-49.

[26] id.

[27] Martii Koskenniemi: „The Politics of International Law“, bls. 24-25. Camille Goodman: „Acta Sunt Servanda? A Regime for Regulating the Unilateral Acts of States at International Law“, bls. 52-59. Karl Zemanek: „Unilateral Legal Acts Revisited“, bls. 217-218.

[28] AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), málsgrein 50. AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), málsgrein 52.

[29] AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), málsgrein 51. AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), málsgrein 53. Samanber og umfjöllun fræðimanna t.d.: Camille Goodman: „Acta Sunt Servanda? A Regime for Regulating the Unilateral Acts of States at International Law“, bls. 52-59. Karl Zemanek: „Unilateral Legal Acts Revisited“, bls. 217-218.

[30] AD, Nuclear Tests (Ástralía gegn Frakklandi), málsgrein 51. AD, Nuclear Tests (Nýja Sjáland gegn Frakklandi), málsgrein 53.

[31] Forseti Bandaríkjanna hefur almennt nokkuð breiða heimild til þess að undirrita samninga við önnur ríki án aðkomu Bandaríkjaþings, þó vissulega séu honum settar skorður í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Nánari umfjöllun má sjá t.d. hjá: Oona A. Hathaway: „Presidential Power over International Law: Restoring the Balance“. Curtis A. Bradley og Trevor W. Morrison: „Historical Gloss and the Separation of Powers“, bls. 468-476. Nicholas Quinn Rosenkranz: „Executing the Treaty Power“. Frederic L. Kirgis: „International Agreements and U.S. Law“.

[32] Kelsey Davenport: „Nuclear Weapons: Who Has What at a Glance“, https://www.armscontrol.org/.