Eftir Peter Dalmay, aðstoðarmann hæstaréttardómara.
* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.
Efnisyfirlit
2 Almennt um beitingu íslenskra samkeppnisyfirvalda og dómstóla á 53. gr. EES-samningsins
3 Mál Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvik
3.1 Niðurstöður samkeppnisyfirvalda um beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins
3.2 Dómar héraðsdóms og Landsréttar
Ágrip
Í greininni er fjallað um nýlegan dóm Hæstaréttar í máli nr. 42/2019 þar sem Norvik hf. var gert að greiða sekt vegna brota dótturfélags síns Byko ehf. gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Sjónum er beint að þeim þætti dómsins sem laut að broti gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins og þeim ályktunum sem draga má af forsendum hans um beitingu ákvæðisins í íslenskum rétti.
Abstract
This article discusses the recent finding of the Supreme Court of Iceland in case no. 42/2019 where Norvik hf. was ordered to pay a fine, on behalf of its subsidiary Byko ehf., for a violation of Article 10 of the Competition Act and Article 53(1) of the EEA Agreement. The article focuses on the part of the judgment where the Court found a violation of Article 53 of the EEA Agreement and the conclusions that can be drawn from its premises regarding the application of the provision under Icelandic law.
1 Inngangur
Með dómi Hæstaréttar Íslands 7. janúar 2021 (42/2019) var Norvik hf. gert að greiða 400 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota dótturfélags síns, Byko ehf., gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 („samkeppnislög“) og 1. mgr. 53. gr. Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið („EES-samningurinn“), sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Brot Byko voru einkum talin felast í reglubundnum og tíðum samskiptum við helsta keppinaut sinn, Húsasmiðjuna ehf., þar sem aflað var upplýsinga um verð á grófvörum og þeim upplýsingum miðlað áfram til stjórnenda fyrirtækjanna. Í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að samskiptin hafi falið í sér samstilltar aðgerðir sem höfðu að markmiði að raska samkeppni á milli fyrirtækjanna í andstöðu við fyrrgreind ákvæði samkeppnislaga og EES-samningsins.
Í greininni verður fjallað um efnisatriði dómsins hvað varðar brot fyrirtækjanna gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins og þær ályktanir sem draga má af forsendum hans um beitingu ákvæðisins í íslenskum rétti. Í greininni verður hins vegar ekki fjallað um skýringu Hæstaréttar á öðrum efnisatriðum.
2 Almennt um beitingu íslenskra samkeppnisyfirvalda og dómstóla á 53. gr. EES-samningsins[1]
Í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem lögfestur er hér á landi með lögum nr. 2/1993, er lagt bann við samningum milli fyrirtækja, ákvörðunum samtaka fyrirtækja og samstilltum aðgerðum sem geta haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað.[2] Ákvæði 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga er efnislega samhljóða umræddu ákvæði EES-samningsins enda sækir íslenska ákvæðið fyrirmynd sína til evrópsks samkeppnisréttar.[3]
Í 1. mgr. 21. gr. samkeppnislaga er mælt fyrir um að Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar skuli beita 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, eftir því sem kveðið er á um í lögum. Þá skulu Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála jafnframt tryggja að ákvæði 53. gr. EES-samningsins séu virt, með þeim takmörkunum sem leiðir af EES-samningnum sjálfum, sbr. 1. mgr. 25. gr. sömu laga.[4]
Þá segir í 1. mgr. 26. gr. samkeppnislaga að ef Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstólar beita ákvæðum laganna vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skulu þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Í þessu sambandi segir í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum að ef áhrifa af aðgerðum fyrirtækja gætir bæði á Evrópska efnahagssvæðinu („EES“) og Íslandi, þannig að 53. gr. EES-samningsins og 10. gr. samkeppnislaga eigi við, skuli báðum bálkum beitt samtímis. Þar sem samhliða beiting getur haft í för með sér ólíkar niðurstöður er sérstaklega áréttað að ef ákvæðin stangast á skuli innlendur samkeppnisréttur víkja.[5] Af þessu er ljóst að EES-réttur takmarkar að vissu marki beitingu innlendra samkeppnislaga þegar ákvæði 53. gr. EES-samningsins á við.
3 Mál Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvik
Mál Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvik á rætur sínar að rekja til tilkynningar Múrbúðarinnar ehf. til Samkeppniseftirlitsins í október 2010 um tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar til þess að fá Múrbúðina til þess að taka þátt í ólögmætu samráði þeirra auk tilkynningar um ólögmætt verðsamráð fyrirtækjanna. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 var Norvik gert að greiða 650 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota Byko gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með því að hafa átt í ólögmætu samfelldu samráði með Húsasmiðjunni á markaði fyrir alhliða byggingarvörur á Íslandi. Húsasmiðjan hafði áður gert sátt um málið og viðurkennt brot gegn sömu ákvæðum.
3.1 Niðurstöður samkeppnisyfirvalda um beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var eins og að framan greinir komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin hefðu meðal annars brotið gegn 53. gr. EES-samningsins. Í ákvörðuninni var vörumarkaður málsins skilgreindur sem alhliða sala á byggingarvörum. Þá var talið að líta mætti á landið heilt og óskipt sem landfræðilegan markað málsins og einnig á höfuðborgarsvæðið. Við meðferð málsins var hins vegar, til einföldunar, einungis stuðst við höfuðborgarsvæðið sem landfræðilegan markað þess enda höfðu atvik málsins mest áhrif þar. Í ljósi þessa dró stjórnvaldið þá ályktun að markaðurinn teldist verulegur hluti af EES[6] og vísaði því til stuðnings til tilkynningar Eftirlitsstofnunar EFTA („ESA“) um leiðbeiningar um hugtakið „áhrif á viðskipti“ eins og það er notað í 53. og 54. gr. EES-samningsins.[7] Til viðbótar tók stjórnvaldið mið af því að fyrirtækin í málinu voru í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins og að þau áhrif, sem stöfuðu af brotum þeirra, væru því til þess fallin að hindra núverandi og mögulega keppinauta frá öðrum EES-ríkjum í því að ná fótfestu á íslenska markaðnum. Af þessu var talið leiða, með hliðsjón af málsatvikum, að brotin hefðu verið til þess fallin að hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkja í skilningi 53. gr. EES-samningsins. Með vísan til sömu röksemda og lágu að baki niðurstöðu stjórnvaldsins um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga var því komist að þeirri niðurstöðu að Byko hefði einnig brotið gegn umræddu ákvæði EES-samningsins.
Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 var niðurstaða Samkeppniseftirlitsins staðfest um brot Byko gegn 10. gr. samkeppnislaga. Áfrýjunarnefndin taldi brotin hins vegar ekki jafn umfangsmikil og kerfisbundin og Samkeppniseftirlitið hafði lagt til grundvallar, auk þess taldi hún ósannað að brotið hafi verið gegn 53. gr. EES-samningsins. Nánar tiltekið taldi áfrýjunarnefndin að Samkeppniseftirlitinu hefði láðst að rökstyðja með fullnægjandi hætti á hvaða hátt brotin hefðu getað raskað samkeppni á EES í skilningi ákvæðisins. Að mati áfrýjunarnefndarinnar myndu slík brot þvert á móti leiða til þess að svigrúm gæti skapast til samkeppni með því að bjóða lægri verð. Þetta myndi leiða til þess að íslenskir neytendur gætu „beint viðskiptum sínum til annarra seljenda, hvort sem er með beinum pöntunum á byggingarvöruefni frá útlöndum, eða með því að erlendar byggingarvöruverslanir hefji starfsemi hér eins og raunin hefur orðið“. Í úrskurðinum kom loks fram að málið hafði ekki verið reifað frá því sjónarmiði að háttsemi fyrirtækjanna hefði haft áhrif á erlenda birgja eða aðra viðskiptamenn í EES-ríkjum heldur hafi rökstuðningurinn einungis verið almenns eðlis. Var því ekki fallist á að fyrirtækin hefðu gerst brotleg gegn 53. gr. EES-samningsins.
3.2 Dómar héraðsdóms og Landsréttar
Samkeppniseftirlitið skaut úrskurði áfrýjunarnefndarinnar til Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 41. gr. samkeppnislaga. Í millitíðinni féll dómur Hæstaréttar, H 360/2015, þar sem átta starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar voru sakfelldir fyrir brot gegn 10. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga. Héraðsdómur komst að annarri niðurstöðu en áfrýjunarnefndin hvað beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins varðar.[8] Í forsendum dómsins kom meðal annars fram að líta bæri svo á að orðalagið „geti haft áhrif“ milli EES-ríkja í skilningi ákvæðisins fæli í sér að samningurinn eða aðgerðin geti haft áhrif, bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna. Í ljósi þess að Hæstiréttur hafði í fyrrnefndu sakamáli skýrt 10. gr. samkeppnislaga til samræmis við ákvæði 53. gr. EES-samningsins væri engum vafa undirorpið að beita bæri ákvæðunum samhliða í málinu.
Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar af hálfu fyrirtækjanna. Öfugt við héraðsdóm taldi Landsréttur að fyrirtækin hefðu ekki gerst brotleg gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins.[9] Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að hin landfræðilega takmörkun á markaði málsins kæmi ekki í veg fyrir að brotin gætu haft áhrif á EES þótt hún gæfi vísbendingu um að áhrifa brotanna gætti einkum á Íslandi. Að mati dómsins væri ljóst að aðgerðir Byko og Húsasmiðjunnar hefðu haft mikil áhrif á íslenskan markað en þegar á hinn bóginn væri litið til eðlis brotanna og markaðarins sem þau beindust að, bæri að taka undir með áfrýjunarnefnd samkeppnismála að Samkeppniseftirlitið hefði ekki sýnt fram á með nægjanlegum líkum að brotin gætu hafa haft áhrif á EES.
3.3 Dómur Hæstaréttar
Með dómi Hæstaréttar var Norvik gert að greiða 400 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota dótturfélags síns Byko gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins.[10] Dómurinn áréttaði að skilyrðið um „áhrif á viðskipti“ í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins væri sjálfstætt skilyrði EES-réttar sem bæri að meta með sjálfstæðum hætti í hverju máli. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins bæri við mat á því, hvort umrætt skilyrði væri uppfyllt, að horfa til þess „hvort unnt sé að sjá fyrir með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum að samningar eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna“. Af þessu leiddi, að mati dómsins, að ekki þyrfti að sýna fram á að samningar eða samstilltar aðgerðir myndu hafa eða hefðu haft áhrif á viðskiptin heldur einungis að þau væru til þess fallin að hafa slík áhrif, að teknu tilliti til eðli samninganna og samstilltu aðgerðanna og þeirra vara sem þau taka til, stöðu fyrirtækjanna á viðeigandi markaði og annarra þátta sem gætu haft þýðingu við umrætt mat. Loks væri ljóst, með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, að samningar og samstilltar aðgerðir, sem tækju til eins EES-ríkis í heild, gætu venjulega haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkja.
Í ljósi framangreinds, og að teknu tilliti til atvika málsins, var það niðurstaða Hæstaréttar að beita bæri ákvæði 53. gr. EES-samningsins samhliða 10. gr. samkeppnislaga í málinu. Í fyrsta lagi væri hinn landfræðilegi markaður málsins landið heilt og óskipt. Í öðru lagi væru fyrirtækin í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins. Í þriðja lagi hafi aðgerðir fyrirtækjanna beinst að vörum sem hefðu að stórum hluta verið fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum og endurseldar hér á landi. Loks hefðu aðgerðirnar getað torveldað að mögulegir keppinautar frá öðrum ríkjum EES gætu náð fótfestu á mörkuðum málsins.
4 Helstu ályktanir
Bannákvæði 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins nær til samninga, ákvarðana samtaka fyrirtækja og samstilltra aðgerða sem geta haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna. Líkt og fram kemur í forsendum dóms Hæstaréttar ber að meta skilyrðið um áhrif á viðskipti með sjálfstæðum hætti í hverju máli fyrir sig. Við umrætt mat skiptir höfuðmáli hvort unnt sé að sjá fyrir með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum að viðkomandi aðgerð geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna. Aðalatriðið er með öðrum orðum hvort viðkomandi samningur eða aðgerð geti haft áhrif á mynstur viðskipta á EES. Er umrædd skýring Hæstaréttar á ákvæði 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins í samræmi við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins sem rétturinn vísar beinlínis til í þessu sambandi.[11]
Af forsendum dóms Hæstaréttar leiðir að til þess að regla EES-réttar um bann við ólögmætu samráði verði virk er ekki nauðsynlegt að unnt sé að sýna fram á tengsl milli hinnar meintu samkeppnisröskunar og þess að samningurinn geti haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna. Þá er heldur ekki nauðsynlegt að samningurinn eða aðgerðin muni hafa eða hafi haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna heldur nægir að samningurinn eða aðgerðin sé til þess fallin að hafa slík áhrif.[12] Í þessu sambandi ber að hafa í huga að skilyrði til beitingar á ákvæðinu geta verið uppfyllt án tillits til þess hvort áhrifin séu jákvæð eða neikvæð. Viðskiptamynstur getur þannig einnig orðið fyrir áhrifum þegar samningur eða aðgerð leiðir til aukinna viðskipta.[13] Af þessu leiðir að það er ekki nauðsynlegt að sýna fram á að samningurinn eða aðgerðin hafi í raun haft áhrif á viðskipti til þess að ákvæðið eigi við, heldur einungis að þau séu til þess fallin að hafa slík áhrif með hliðsjón af mismunandi þáttum, s.s. eðli samningsins eða aðgerðarinnar og þeirra vara sem þau taka til, stöðu viðkomandi fyrirtækja á markaði auk annarra þátta sem geta skipt máli við umrætt mat.
Samkvæmt framangreindu staðfesti Hæstiréttur réttilega að það er ekki skilyrði að viðskipti innan EES séu takmörkuð eða að þau dragist saman til þess að 53. gr. EES-samningsins geti átt við. Nægilegt sé að samningar eða samstilltar aðgerðir geti komið í veg fyrir samkeppni frá mögulegum keppinautum frá öðrum EES-ríkjum.
Til viðbótar framangreindu áréttaði Hæstiréttur að samningar og samstilltar aðgerðir sem taka til eins EES-ríkis í heild, líkt og í umræddu máli, geta venjulega talist hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna. Í þessu sambandi ber þó að taka fram að áhrifin þurfa að vera „merkjanleg“ og er almennt unnt að meta hvort svo sé með tilvísun til stöðu og mikilvægis hlutaðeigandi fyrirtækja á markaði.[14] Virðist Hæstiréttur hafa tekið mið af yfirburðastöðu fyrirtækjanna á öllu landinu og talið hana hafa skipt verulegu máli við mat á því hvort beita bæri ákvæði 53. gr. EES-samningsins í málinu.
5 Lokaorð
Dómur Hæstaréttar í framangreindu máli felur, að mati höfundar, í sér mikilvæga áréttingu á réttri beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins í íslenskum rétti og leiðsögn varðandi þau sjónarmið sem taka ber til skoðunar við mat á því hvort umrætt ákvæði EES-samningsins eigi við í einstökum tilfellum. Er hið síðarnefnda ekki síður mikilvægt þar sem vísbendingar eru um að fyrirtæki hér á landi kunni að skorta þekkingu á evrópskum samkeppnisreglum og beitingu þeirra á Íslandi.[15]
Heimildaskrá
Alþingistíðindi.
Ólafur Jóhannes Einarsson: „Beiting á 53. og 54. gr. EES-samningsins á Íslandi og túlkun
samkeppnislaga í ljósi EES-réttar“. Úlfljótur, 3. tbl. 2019, bls. 435-462.
Páll Hreinsson: „Samræmd EES-túlkun“. Tímarit lögfræðinga, 3. tbl. 2014, bls.
273-305.
Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Reykjavík 2000.
[1] Um heildstæða umfjöllun á beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins á Íslandi vísast til Ólafur Jóhannes Einarsson: „Beiting á 53. og 54. gr. EES-samningsins á Íslandi og túlkun samkeppnislaga í ljósi EES-réttar“, bls. 435-462.
[2] Samkeppnisreglur eru veigamikill hluti EES-samningsins og eru efnislega samhljóða samkeppnisreglum Evrópusambandsins („ESB“), sbr. Alþt. 2004-05, A-deild, þskj. 883 – 590. mál. Sjá til hliðsjónar Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 807.
[3] Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2000 segir meðal annars: „Fyrirmynd ákvæðisins er sótt til 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og er framkvæmd Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, auk dómstóla EB og framkvæmdastjórnar EB, leiðbeinandi við túlkun ákvæðisins eftir því sem við á um markaðsaðstæður hér á landi“. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins byggist á 1. mgr. 101. gr. Sáttmálans um starfshætti ESB (e. the Treaty on the Functioning of the European Union). Af þessu leiðir að samkeppnisyfirvöld hafa ekki óbundnar hendur við túlkun þeirra jafnvel þegar um er að ræða samninga sem eingöngu hafa áhrif á viðskipti innan einstakra EES-ríkja, sbr. 3. gr. EES-samningsins og markmið EES-samningsins um einsleitni. Í þessu sambandi vísast jafnframt til 3. gr. laga nr. 2/1993 þar sem kveðið er á um þá skyldu að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggjast, sbr. til hliðsjónar Páll Hreinsson: „Samræmd EES-túlkun“, bls. 275-276.
[4] Umrædd ákvæði voru sett í kjölfar þess að reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004. Reglugerðin var síðan innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 811/2006. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að samkeppnislögunum segir um þetta meðal annars: „Innleiðing reglugerðarinnar hefur þær breytingar helstar í för með sér að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA-ríkjunum fá heimild til að beita ákvæðum 53. og 54. gr. EES- samningsins fullum fetum, en samkvæmt gildandi lögum hafa aðeins Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimild til að beita ákvæðunum, sbr. 56. gr. EES- samningsins. Nánari útfærsla á beitingu 53. og 54. gr. kemur fram í bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Á grundvelli þessarar breytingar verður íslenskum samkeppnisyfirvöldum heimilt og skylt að afgreiða ákveðin mál á grundvelli ákvæða 53. og 54. gr. EES-samningsins hér á landi. Tilgangurinn með því að skylda samkeppnisyfirvöld aðildarríkjanna til beitingar ákvæðanna er að tryggja samræmda málsmeðferð á öllum stigum máls.”
[5] Alþt. 2004-05, A-deild, þskj. 883 – 590. mál.
[6] Sjá kafla 18 í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015.
[7] Birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins nr. 291, 30.11.2006, bls. 46 og EES viðbæti nr. 59, bls. 18. Leiðbeiningarnar eru byggðar á leiðbeiningum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem voru birtar í Stjórnartíðindum ESB nr. 101, 27.4.2004, bls. 81. Leiðbeiningarnar eru gefnar út í því skyni að viðhalda jafngildum samkeppnisskilyrðum og tryggja að samkeppnisreglum EES-samningsins sé beitt með sama hætti á öllu EES. Gerðin er ekki bindandi en hefur að geyma meginsjónarmið um túlkun Evrópudómstólsins á hugtakinu „áhrif á viðskipti“.
[8] Héraðsdómur Reykjavíkur, 16. maí 2018, E-550/2016.
[9] L 490/2018.
[10] Við meðferð málsins sendi ESA skriflegar athugasemdir til Hæstaréttar á grundvelli 2. mgr. 28. gr. samkeppnislaga auk þess sem stofnunin kom athugasemdum sínum á framfæri munnlega við flutning þess fyrir Hæstarétti. ESA hafði áður komið að sambærilegum skriflegum athugasemdum bæði við meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti.
[11] Í dómi Hæstaréttar er vísað til dóms Evrópudómstólsins 16. júlí 2015, ING Pensii, C-172/14, EU:C:2015:484. Vísast um þetta jafnframt til eftirfarandi dóma Evrópudómstólsins: dómur Evrópudómstólsins 23. nóvember 2006, Asnef-Equifax, C-238/05, EU:C:2006:734, mgr. 34; dómur Evrópudómstólsins 24. september 2009, Erste Group Bank o.fl., C-125/07, C-133/07, C-135/07 og C-137/07, EU:C:2009:576, mgr. 36; og dómur Evrópudómstólsins 11. júlí 2013, Ziegler, C-439/11 P, EU:C:2013:513, mgr. 92.
[12] Sjá til hliðsjónar mgr. 26 í áðurnefndum leiðbeiningum ESA og þá dóma sem þar er vísað til.
[13] Sjá til hliðsjónar mgr. 34 í áðurnefndum leiðbeiningum ESA og þá dóma sem þar er vísað til.
[14] Til hliðsjónar um þetta vísast til áðurnefndra leiðbeininga ESA, mgr. 44 – 49.
[15] Sjá rit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2020: „Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála“, bls. 20-21. Ritið er aðgengilegt hér: https://www.samkeppni.is/media/skyrslur/Thekking-og-vidhorf-stjornenda-islenskra-fyrirtaekja-til-samkeppnismala.pdf