Gildissvið fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu*

Eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við Lagadeild HÍ, og Dr. Hafstein Dan Kristjánsson, lektor við Lagadeild HÍ og stipendiary lecturer við Balliol College og St. Anne’s College, Oxford.

* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.

Efnisyfirlit

1 Inngangur
2. Hugtakið almennt lagaákvæði
3. Stjórnvaldsfyrirmæli
4. Aðrir árekstrar
4.1 Réttlægri réttarheimildir
4.2 EES-reglur rekast á innbyrðis
5. Réttilega innleidd skuldbinding samkvæmt EES-samningnum
6. Skýrt og óskilyrt lagaákvæði
7. Nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað
8. Niðurstöður og hugleiðingar um framsetningu ákvæðisins


Ágrip

Greinin fjallar um EES-forgangsregluna sem fyrirhugað er að bæta við lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, en frumvarp þess efnis er nú til meðferðar á Alþingi. Fyrirhuguð forgangsregla kveður á um að ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum. Tilgangur greinarinnar er að brjóta einstök hugtök og skilyrði forgangsreglunnar til mergjar og greina þau með gagnrýnum hætti til að varpa ljósi á gildissvið reglunnar. Meðal annars er vikið að því hvaða tegundir settra laga munu lúta forgangsreglunni og hvernig hún á við um almenn stjórnvaldsfyrirmæli, þ.m.t. reglugerðir ráðherra. Þá er sjónum beint að því hvað felist í skilyrðum forgangsreglunnar um að ákvæði sé skýrt og óskilyrt og innleiði réttilega skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum. Að lokum eru settar fram hugleiðingar um hvort ástæða sé til að skerpa á orðalagi reglunnar í tilteknum atriðum, þ. á m. hvort hluta af orðalagi hennar sé hugsanlega ofaukið.

Abstract

The article analyses the EEA priority rule, which has been proposed to be add to the Act on the European Economic Area no. 2/1993, pursuant to a legislative bill which is currently being discussed by Alþingi. According to the proposed rule, clear and unconditional statutory provisions that correctly implement EEA-rules shall take precedence over other incompatible statutory provisions, unless Alþingi has stipulated otherwise. The same applies to administrative rules. The purpose of the article is to critically analyse the concepts and conditions of the priority rule in order to shed light on its scope. The article explores inter alia which types of statutory laws will be subject to the priority rule and how it applies to administrative rules, including ministerial regulations. Moreover, the article analyses the rule’s conditions that a statutory provision needs to be clear and unconditional and that it correctly implements an obligation under the EEA Agreement. Lastly, the article reflects on whether the proposed rule could in some aspects be phrased in a clearer manner than is proposed in the bill, including whether some of its text may be superfluous.


1 Inngangur

Fyrir liggur frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið (EES-lögin) þar sem lagt er til að lögfest verði ný forgangsregla sem verði að 4. gr. laganna. Með frumvarpsákvæðinu er stefnt að því að tryggja fullnægjandi innleiðingu á bókun 35 við EES-samninginn. Frumvarpsákvæðið hljóðar svo:

„Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“

Tilgangur greinarinnar er að brjóta einstök hugtök og skilyrði fyrirhugaðrar forgangsreglu til mergjar og greina þau með gagnrýnum hætti til að varpa ljósi á gildissvið reglunnar. Meðal annars verður vikið að því hvaða tegundir settra laga munu lúta forgangsreglunni og hvernig hún á við um almenn stjórnvaldsfyrirmæli, þ.m.t. reglugerðir ráðherra. Þá verður sjónum beint að því hvað felist í skilyrðum forgangsreglunnar um að ákvæði sé skýrt og óskilyrt og innleiði réttilega skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum. Við greiningu á þessum atriðum verður eðli máls samkvæmt horft náið til umfjöllunar í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu þar sem einstök skilyrði reglunnar eru skýrð m.a. með hliðsjón af bókun 35 og öðrum reglum EES-réttar.[1] Í greininni verður að auki leitast við að draga fram möguleg álitaefni varðandi gildissvið forgangsreglunnar sem ekki er tekin bein afstaða til í greinargerðinni, setja þau í fræðilegt samhengi og taka afstöðu til þeirra eftir föngum. Að lokum verða settar fram hugleiðingar um hvort fyrirhuguð forgangsregla gæti orðast á annan hátt en lagt er til í frumvarpinu, þ.m.t. hvort sumum skilyrðum hennar sé hugsanlega ofaukið. Áður en lengra er haldið ber að árétta að þingleg meðferð frumvarpsins stendur enn yfir og munu þau álitaefni sem velt verður upp í þessari grein vafalaust fá nánari umfjöllun á Alþingi. Þess skal einnig getið að umfjöllun um fyrirhugaða forgangsreglu var fylgt úr hlaði með fyrri grein höfunda á þessum vettvangi, en þessi grein tekur við þar sem henni sleppir.[2]

2 Hugtakið almennt lagaákvæði

Eins og áður kom fram gerir frumvarpsákvæðið ráð fyrir að skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum skuli ganga framar „öðru almennu lagaákvæði“ ef efnisreglur ákvæðanna rekast á.[3] Af orðalagi frumvarpsákvæðisins er því ljóst að það lýtur ekki að árekstrum laga við ákvæði stjórnarskrárinnar eins og jafnframt er áréttað í skýringum með frumvarpinu.[4] Ekki fer á milli mála að fari lög sem innleiða EES-skuldbindingu í bága við stjórnarskrána víkja lögin.[5] Sama gildir ef slík lög ganga gegn óskráðum stjórnskipulegum grundvallarreglum sem eru jafnréttháar stjórnarskránni og lúta 1. mgr. 79. gr. hennar, þ.m.t. reglum sem helgast af stjórnskipunarvenju, enda verður slíkum reglum ekki haggað með almennum lögum. Það er jafnframt ljóst að bókun 35 gerir ekki kröfu um að innleiddar EES-reglur njóti forgangs fram yfir stjórnarskrár EFTA-ríkjanna.[6]        

Frumvarpsákvæðið tekur sem fyrr segir til árekstrar „almennra lagaákvæða“. Af skýringum með frumvarpinu má ráða að með „almennu lagaákvæði“ sé átt við ákvæði í almennum lögum Alþingis, sbr. 44. gr. stjskr. og einnig 26. gr. stjskr.[7] Með hliðsjón af þessu vaknar sú spurning hvort frumvarpsákvæðið takmarkist við almenn lög eða hvort það geti einnig tekið til annarra tegunda settra laga í þrengri merkingu, svo sem bráðabirgðalaga. Bráðabirgðalög eru sett af forseta Íslands að tillögu ráðherra þegar brýna nauðsyn ber til enda sé Alþingi ekki að störfum, sbr. 28. gr. stjskr. Bráðabirgðalög eru jafnrétthá almennum lögum meðan þau gilda, en þau falla úr gildi ef þau eru ekki samþykkt af Alþingi eftir að það er komið saman á ný.[8]

Orðalag og uppbygging frumvarpsákvæðisins, þ.m.t. hugtakið „almennt lagaákvæði“, og skírskotun ákvæðisins til þess að Alþingi geti mælt fyrir um frávik frá því með lögum, kynni að mæla gegn því að bráðabirgðalög falli undir það, enda teljast þau hvorki til almennra laga né eru þau sett af Alþingi sem fyrr segir. Á hitt er þó að líta að frumvarpsákvæðið og skýringar með því eru ekki með öllu afdráttarlausar um að því verði ekki beitt um aðra flokka settra laga í þrengri merkingu að almennum lögum frágengnum (þó getur það aldrei átt við um stjórnarskrána o.þ.h. sem fyrr segir). Þá gætu markmið ákvæðisins mælt með rýmri túlkun að þessu leyti, enda einskorðast efni bókunar 35 ekki við almenn lög í merkingu 44. gr. stjórnarskrárinnar, heldur lýtur bókunin almennt að settum lögum (e. statutory provisions). Eftir stendur þó að orðalag frumvarpsákvæðisins bendir fremur til þess að fyrri málsliður þess taki aðeins til almennra laga Alþingis í merkingu 44. gr. stjskr.[9]                                                      

Fyrirhuguð forgangsregla tekur m.a. til árekstrar milli laga sem innleiða EES-skuldbindingu og laga sem innleiða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar. Í því tilliti eiga sérstök sjónarmið við um ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu sem veitt er lagagildi með lögum nr. 62/1994.[10] Fyrir það fyrsta verður að telja ólíklegt að sú staða komi upp að innleiddar EES-reglur rekist á ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu án þess að unnt sé að samrýma viðkomandi reglur með túlkun. Er þá til þess að líta að ákveðnar kröfur um vernd grundvallarréttinda leiða af Mannréttindaskrá ESB og óskráðum meginreglum ESB-réttar, sem binda að vísu ekki EFTA-ríkin en setja engu að síður mark sitt á afleiddar gerðir sem teknar eru upp í EES-samninginn. Þá verður að hafa í huga að í EES-rétti má eftir atvikum finna samsvarandi grundvallarréttindum og tryggð eru í Mannréttindasáttmála Evrópu stoð í óskráðum meginreglum EES-réttar.[11] Í ljósi framangreinds hlýtur útgangspunkturinn að vera sá að EES-reglur sem innleiddar eru í íslenskan rétt uppfylli kröfur um vernd grundvallarréttinda, sem leiða bæði af Evrópurétti og EES-rétti, og séu því í samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu. Þó er ekki unnt að fullyrða í eitt skipti fyrir öll að óskráðar meginreglur EES-réttar um grundvallarréttindi séu ætíð sama efnis og ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.[12]

Hvað sem öðru líður verður að hafa í huga að mörg veigamestu ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu eiga sér hliðstæðu í stjórnarskránni. Ef innleiddar EES-reglur stönguðust á við slík ákvæði gengi stjórnarskráin ætíð framar eins og áður kom fram.[13] Jafnframt má benda á að ef innleidd EES-regla reyndist ekki uppfylla kröfur um vernd grundvallarréttinda sem fá stoð í óskráðum meginreglum EES-réttar, má færa rök fyrir því að hún myndi ekki teljast til skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum sem félli undir fyrirhugaða forgangsreglu, eins og rökstutt er aftar í greininni.

3 Stjórnvaldsfyrirmæli

Samkvæmt síðari málslið frumvarpsákvæðisins tekur það, auk almennra laga, einnig til stjórnvaldsfyrirmæla sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum. Hér er vísað til reglugerða og annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla, á borð við reglur, gjaldskrár og samþykktir, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í frumvarpsákvæðinu felst þannig að stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða EES-reglu skulu ganga framar öðrum ósamrýmanlegum stjórnvaldsfyrirmælum.

Á hinn bóginn verður ekki ótvírætt ráðið af orðalagi frumvarpsákvæðisins hvort það geri ráð fyrir að stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða EES-reglu geti vikið til hliðar ósamrýmanlegri reglu í almennum lögum.[14] Til samanburðar má geta þess að samkvæmt 2. gr. norsku EES-laganna skulu stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða EES-reglu ganga framar ósamrýmanlegum lögum Stórþingsins, að því tilskildu að lögin séu yngri en stjórnvaldsfyrirmælin.[15] Umfjöllun í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi mælir þó gegn því að slíkri reglu verði fundin stoð í frumvarpsákvæðinu. Í greinargerðinni segir þannig m.a. að með ákvæðinu sé „rétthæð réttarheimilda ekki raskað“, auk þess sem tekið er fram að rekist stjórnvaldsfyrirmæli á ákvæði í almennum lögum „[geti] löggjafinn einn gripið inn í og breytt viðkomandi lagaákvæði, numið það úr gildi eða mælt fyrir um forgang með sérstökum og afmörkuðum hætti“.[16] Við þetta má bæta að lögmætisreglan og lagaáskilnaðarreglur stjórnarskrárinnar, sem verður ekki vikið til hliðar með lögum, kunna að takmarka svigrúm löggjafans til að setja almenna reglu í þá veru að stjórnvaldsfyrirmæli geti gengið framar almennum lögum.[17]

4 Aðrir árekstrar

4.1 Réttlægri réttarheimildir

Spyrja má hvernig fyrirhuguð forgangsregla horfir við réttlægri réttarheimildum en almennum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, t.d. réttarvenju, meginreglum laga og eðli máls, eða fordæmi eða dómvenju sem byggjast á slíkum réttarheimildum.[18] Fyrir það fyrsta er ljóst að EES-regla sem er innleidd með almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum myndi ganga framar ósamrýmanlegri réttlægri réttarheimild í samræmi við almennar reglur um rétthæð réttarheimildanna og lex superior regluna. Árekstur milli þessara réttarheimilda fellur utan fyrirhugaðrar forgangsreglu enda takmarkast hún sem fyrr segir við árekstur reglna í almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Niðurstaðan verður á sama veg ef dæminu er snúið við, þ.e. EES-reglan sem á í hlut hefur ekki verið formlega innleidd með almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum en fær allt að einu stoð í réttlægri réttarheimild, t.d. óskráðri meginreglu í íslenskum rétti, eftir atvikum með túlkun þeirrar réttarheimildar til samræmis við EES-rétt. Slík „ólögfest EES-regla“ myndi þannig alla jafna víkja fyrir ósamrýmanlegum almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum í samræmi við almennar reglur um rétthæð réttarheimildanna og lex superior regluna, á sama hátt og í dæminu sem tekið var í upphafi kaflans. Áreksturinn félli jafnframt utan fyrirhugaðrar forgangsreglu af sömu ástæðum og að framan greinir.[19] Forsenda þeirrar niðurstöðu er ætíð sú að ekki sé unnt að koma í veg fyrir áreksturinn með því að túlka viðkomandi lög eða stjórnvaldsfyrirmæli til samræmis við EES-regluna á grundvelli lögskýringarreglu 3. gr. EES-laganna.[20]

Loks má velta fyrir sér hvort fyrirhuguð forgangsregla myndi ná yfir tilvik þar sem EES-regla væri talin gilda í íslenskum rétti á grundvelli lögjöfnunar frá tilteknu ákvæði í almennum lögum. Staðan væri þá sú að EES-reglan rúmaðist ekki innan lagaákvæðisins sjálfs en stæði engu að síður í mjög nánum tengslum við það, þ.e. tilvikið væri ólögákveðið en eðlislíkt og samkynja hinu lögákveðna tilviki.[21] Ef forgangsreglan væri talin ná yfir slíka EES-reglu, sem gilti í íslenskum rétti á grundvelli lögjöfnunar, fæli sú niðurstaða væntanlega í sér að forgangsreglan væri skýrð rúmt með vísan til markmiða hennar og tengsla við bókun 35, þar sem orðalag hennar miðast við almenn lög og stjórnvaldsfyrirmæli, eins og áður kom fram.

4.2 EES-reglur rekast á innbyrðis

Sú staða gæti komið upp að tvær eða fleiri innleiddar EES-reglur rekist á innbyrðis. Ljóst er að slíkur árekstur fellur utan fyrirhugaðrar forgangsreglu, enda lýtur hún einungis að forgangi innleiddra EES-reglna gagnvart öðrum almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem innleiða ekki EES-reglur („séríslenskum“). Þá kemur til skoðunar hvernig leyst yrði úr árekstri af fyrrgreindum toga, en í því sambandi koma tveir kostir til greina. Annars vegar mætti hugsa sér að leysa úr árekstrinum í samræmi við almennar forgangsreglur íslensks réttar, þ.e. lex posterior og lex specialis. Hins vegar mætti hugsa sér að leysa úr honum á grundvelli sjónarmiða EES-réttar um mismunandi rétthæð ólíkra tegunda EES-reglna. Í því fælist að leyst yrði úr árekstrinum á þann veg að niðurstaðan yrði sú sama og hún yrði samkvæmt EES-rétti.[22] Þótt afleiddar gerðir njóti formlega sömu stöðu og meginmál EES-samningsins, sbr. 119. gr. hans, standa veigamikil rök til þess að taka í þessu sambandi mið af uppbyggingu, efni og markmiðum samningsins. Meðal þeirra er að ná fram einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu. Í því tilliti verður að hafa í huga að afleiddar gerðir ESB-réttar eru réttlægri réttarheimildir en t.d. stofnsáttmálarnir. Þá má geta þess að EFTA-dómstóllinn hefur annars vegar bent á að túlka beri tilskipanir til samræmis við meginmál EES-samningsins og hins vegar vísað til reglna í meginmáli EES-samningsins sem „frumréttar“ (e. primary EEA law).[23] Með hliðsjón af framansögðu er ekki ósennilegt að ef afleidd gerð EES-réttar stangaðist á við reglu í meginmáli EES-samningsins myndi niðurstaðan verða sú að beita bæri síðarnefndu reglunum en með því fengist sambærileg niðurstaða og í Evrópurétti.[24] Að teknu tilliti til þessa og markmiðsins um einsleitni má því telja rökrétt að leysa úr árekstri milli innleiddra EES-reglna, að samræmisskýringu frágenginni, eftir viðteknum sjónarmiðum í EES-rétti um samspil réttarheimilda EES-réttar.

Öðru máli gegnir um árekstur innleiddra EES-reglna sem fá stoð annars vegar í settum lögum og hins vegar í réttlægri réttarheimild. Þá er ekki um að ræða árekstur milli jafnrétthárra réttarheimilda í íslenskum rétti, ólíkt tilvikinu hér á undan. Því verður leyst úr slíkum árekstri í samræmi við almennar reglur um rétthæð réttarheimildanna og lex superior forgangsregluna. Áður en þeim yrði beitt væri þó rétt að leitast við að samrýma réttarheimildirnar með túlkun eftir fremsta megni þannig að niðurstaðan yrði í sem bestu samræmi við EES-rétt, þ.e. í samræmi við efni og samspil réttarheimildanna í EES-rétti hverju sinni.

5 Réttilega innleidd skuldbinding samkvæmt EES-samningnum

Fyrirhuguð forgangsregla gildir um ákvæði almennra laga (eða stjórnvaldsfyrirmæla) sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum, eins og áður var rakið.[25] Skilyrðið um „rétta innleiðingu“ í frumvarpsákvæðinu vísar til þess að EES-regla hafi verið innleidd í íslenskan rétt í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, eins og ákvæðið er túlkað í dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins.[26] Umrætt skilyrði lýtur á hinn bóginn ekki að því hvort EES-regla hafi verið innleidd á stjórnskipulega réttan hátt. Það er þó vitaskuld frumforsenda þess að EES-regla geti haft réttaráhrif í landsrétti og fallið undir gildissvið frumvarpsákvæðsins að hún hafi verið innleidd á stjórnskipulega réttan hátt og sé jafnframt að efni til í samræmi við stjórnskipulegar reglur.[27]

Af fyrrgreindu skilyrði frumvarpsákvæðisins um „rétta innleiðingu“ EES-reglu er ljóst að óinnleiddar EES-reglur falla ekki undir gildissvið fyrirhugaðrar forgangsreglu, heldur EES-reglur sem innleiddar hafa verið með almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.[28] Á hinn bóginn vaknar sú spurning hvað sé nánar fólgið í þeim áskilnaði frumvarpsákvæðisins að lög eða stjórnvaldsfyrirmæli „innleiði“ EES-reglu og hvenær hún telst vera „réttilega“ innleidd.

Ekki fer á milli mála að fyrirhuguð forgangsregla á við um lagaákvæði sem innleiða EES-reglur samkvæmt efni og tilgangi sínum, t.d. ákvæði EES-laganna sem lögfestu meginmál EES-samningsins o.fl., sem og ýmis lög og reglur sem sett eru gagngert til að innleiða afleiddar gerðir í viðaukum EES-samningsins, m.a. tilskipanir og reglugerðir. Þá verður að telja að fyrirhuguð forgangsregla nái yfir lög og reglur sem uppfylla EES-skuldbindingu samkvæmt efni sínu, eftir atvikum ef þau eru túlkuð til samræmis við EES-rétt, þótt yfirlýstur tilgangur þeirra sé ekki beinlínis sá að innleiða slíka skuldbindingu.[29] Af framansögðu leiðir að öll ákvæði almennra laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem að efni til fullnægja skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum teljast „innleiða“ slíkar skuldbindingar og njóta þar með forgangsáhrifa á grundvelli frumvarpsákvæðisins, að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Kemur þá til skoðunar hvenær EES-regla telst vera „réttilega“ innleidd í íslenskan rétt. Ef EES-regla er ranglega innleidd í íslenskan rétt, svo sem vegna misskilnings á gildissviði eða inntaki hennar, er ljóst að viðkomandi lagaákvæði (eða ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla) myndi ekki njóta forgangsáhrifa á grundvelli fyrirhugaðrar forgangsreglu, enda fæli það þá ekki í sér innleiðingu á skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum. Einnig má velta fyrir sér hvernig færi um tilvik þar sem EES-regla hefur verið innleidd með réttum hætti en þó einungis að hluta. Má sem dæmi nefna reglu í EES-tilskipun sem felur í sér hámarkssamræmingu en lagaákvæði sem innleiðir regluna í íslenskan rétt gengur lengra eða skemur en rúmast innan marka tilskipunarinnar. Með hliðsjón af markmiði fyrirhugaðrar forgangsreglu má færa rök fyrir þeirri niðurstöðu að sá hluti lagaákvæðis sem felur í sér rétta innleiðingu á EES-reglu myndi njóta forgangsáhrifa, en ekki sá hluti þess sem felur í sér ranga innleiðingu, sé yfirleitt unnt að skilja þar á milli. Ef fallist er á það sem hér hefur verið rakið verður niðurstaðan sú að fyrirhuguð forgangsregla veiti lagaákvæði forgangsáhrif að því marki sem það felur í sér rétta innleiðingu á EES-reglu. Sami skilningur hefur verið lagður í forgangsreglu 2. gr. norsku EES-laganna.[30]

Hér á undan var fjallað um tilvik þar sem íslenski löggjafinn eða stjórnvöld hafa ranglega innleitt EES-skuldbindingu. Að því frágengnu vaknar sú spurning hvernig fari um tilvik þar sem EES-regla sem hefur verið réttilega innleidd í landsrétt reynist á hinn bóginn vera ógild að EES-rétti. Nánar tiltekið gæti aðdragandinn verið sá að samsvarandi afleidd gerð ESB sé, t.d. samkvæmt dómi Evrópudómstólsins, talin brjóta í bága við rétthærri réttarheimildir í Evrópurétti, á borð við fjórfrelsisákvæði stofnsáttmálanna eða ákvæði Mannréttindaskrár ESB. Ekki er sjálfgefið að slík niðurstaða í ESB-rétti leiði til þess að samsvarandi EES-regla sé ógild, vegna mismunandi inntaks ESB- og EES-réttar á ýmsum sviðum. Það er þó mögulegt að annmarkinn á ESB-reglunni sé þess eðlis að sama hljóti að gilda um hliðstæðu hennar í EES-rétti, þ.e. ef réttarstaðan er að öllu leyti sú sama í báðum lagakerfum.[31] Í slíku tilviki, þar sem EES-regla er ógild að EES-rétti í fyrrgreindum skilningi, má færa rök fyrir því að lagaákvæði sem innleiðir slíka EES-reglu í landsrétt falli utan fyrirhugaðrar forgangsreglu enda lúti það þá í reynd ekki að skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum. Ætla verður að það haggi ekki þeirri niðurstöðu þótt viðkomandi EES-regla hafi ekki (enn) formlega verið felld úr viðkomandi viðauka EES-samningsins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Fær þessi niðurstaða einnig stoð í því markmiði forgangsreglunnar að uppfylla þá skyldu sem felst í bókun 35.

Loks má nefna það tilvik að EES-tilskipun sem felur í sér lágmarkssamræmingu sé innleidd í íslenskan rétt með víðtækari hætti en lágmarkinu nemur. EES-reglan teldist þá réttilega innleidd sem slík, en íslensku innleiðingarlögin gengju lengra án þess þó að fara í bága við tilskipunina eða aðrar reglur EES-réttar. Vaknar þá spurningin hvort hin víðtækari útfærsla EES-reglunnar í íslenskum lögum ætti að njóta forgangsáhrifa að öllu leyti eða einungis að því marki sem hún svarar til lágmarkskrafna viðkomandi tilskipunar. Orðalag frumvarpsákvæðisins, þ.e. vísun í „skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum“, og markmið þess að innleiða bókun 35, renna stoðum undir þá niðurstöðu að viðkomandi lagaákvæði myndi í fyrrgreindu tilviki einungis njóta forgangs gagnvart ósamrýmanlegum lögum að því marki sem það uppfyllir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum en ekki umfram það, sé yfirleitt unnt að skilja þar á milli.[32] Til þess er einnig að líta að hvorki frumvarpsákvæðið né skýringar með frumvarpinu veita haldbæra stoð fyrir annarri niðurstöðu en þeirri sem að framan greinir.

6 Skýrt og óskilyrt lagaákvæði

Það er jafnframt skilyrði forgangsáhrifa samkvæmt frumvarpsákvæðinu að um sé að ræða skýrt og óskilyrt lagaákvæði (eða ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla), en þetta skilyrði á rætur að rekja til bókunar 35. Nánar tiltekið hefur EFTA-dómstóllinn skýrt bókunina svo að hún mæli einungis fyrir um forgang innleiddra EES-reglna sem eru nægilega skýrar og óskilyrtar (e. sufficiently clear and unconditional) til að einstaklingar og lögaðilar geti byggt réttindi á viðkomandi reglu, t.d. í dómsmáli.[33] Þetta skilyrði felur þó í reynd í sér óverulega takmörkun á gildissviði bókunar 35 enda þarf ekki mikið til að EES-regla teljist uppfylla skilyrðið. Til að mynda hafa almennu reglurnar um fjórfrelsið verið taldar nægilega skýrar og óskilyrtar í þessum skilningi jafnvel þótt þær séu matskenndar og dýnamískar í eðli sínu.[34] Þó eru ekki öll ákvæði meginmáls EES-samningsins sem teljast nægilega skýr og óskilyrt í framangreindum skilningi.[35]

Við mat á því hvort tiltekin EES-regla uppfylli skilyrðið um að vera nægilega skýr og óskilyrt hefur EFTA-dómstólinn einkum litið til þess hvort sambærileg regla í ESB-rétti uppfylli efnislega hliðstætt skilyrði til að hún hafi bein réttaráhrif í aðildarríkjum ESB.[36] Bein réttaráhrif og raunar einnig forgangsáhrif í ESB-rétti hafa verið talin takmarkast við þær reglur ESB-réttar sem teljast nægilega skýrar og óskilyrtar.[37] Bein réttaráhrif og forgangsáhrif eru ekki hluti af EES-rétti með sama hætti, enda grundvallast bókun 35 á því að EES-samstarfið feli ekki í sér framsal á lagasetningarvaldi til stofnana EFTA, þótt hún geri, sem fyrr segir, kröfu um forgang innleiddra EES-reglna í landsrétti gagnvart öðrum settum lögum.[38]

Með töluverðri einföldun felst í beinum réttaráhrifum ESB-réttar að einstaklingar og lögaðilar geta byggt rétt beint á reglum Evrópuréttar fyrir dómstólum og stjórnvöldum án þess að þær hafi verið sérstaklega innleiddar í landsrétt.[39] Eins og kunnugt er var beinum réttaráhrifum ESB-réttar slegið föstum varðandi tiltekið ákvæði í þágildandi stofnsáttmála í Van Gend en Loos málinu.[40] Síðan sá dómur gekk hefur töluverð dómaframkvæmd mótast um hvort og þá hvernig bein réttaráhrif horfa við mismunandi tegundum réttarheimilda í ESB-rétti og efni þeirra. Í ljósi þeirrar dómaframkvæmdar má halda því fram að ESB-regla teljist almennt vera nægilega skýr og óskilyrt nema augljóst sé að hún uppfylli ekki þær kröfur, en þó verður einnig að huga að tegundum réttarheimilda í þessu sambandi.[41] Reglur sem myndu alla jafna ekki uppfylla skilyrðið eru t.d. almennt orðaðar stefnuyfirlýsingar sem einstaklingar og lögaðilar geta ekki byggt réttindi á beint. Sama á við um reglur sem fela aðildarríki eða stofnun ESB að grípa til ákveðinna aðgerða til að útfæra eða framkvæma viðkomandi réttindi til þess að þau verði virk.[42]

Með hliðsjón af framansögðu má velta því upp hvort nauðsynlegt sé að orða umrætt skilyrði í fyrirhugaðri forgangsreglu. Sams konar skilyrði birtist ekki í texta 2. gr. norsku EES-laganna en ákvæðið hefur þó verið túlkað í samræmi við bókun 35 að þessu leyti.[43] Á hinn bóginn var skilyrðið tekið berum orðum fram í áðurgildandi 2. gr. finnsku EES-laganna. Þó er sá munur á finnska ákvæðinu og ákvæði fyrirliggjandi frumvarps að í hinu fyrrnefnda var skilyrðið tengt við þá EES-reglu sem um ræðir (skýr og óskilyrt EES-regla), en í frumvarpsákvæðinu tengist skilyrðið því lagaákvæði sem innleiðir EES-regluna (skýrt og óskilyrt lagaákvæði).[44] Að framangreindu virtu kemur til skoðunar hvort umrætt skilyrði bókunar 35 lúti að EES-reglunni sem slíkri eða þeim landslögum sem innleiða hana. Dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins tekur ekki afdráttarlaust af skarið um þetta atriði.[45] Hvað sem því líður benda tengsl bókunar 35 við reglurnar um bein réttaráhrif og forgangsáhrif í Evrópurétti til þess að skilyrðið lúti að EES-reglunni án tillits til útfærslu hennar í landsrétti. Enn fremur verður að hafa í huga að almennt myndi lagaákvæði sem á annað borð réttilega innleiðir slíka EES-skuldbindingu uppfylla skilyrðið um að vera nægilega skýrt og óskilyrt.[46] Þannig gæti sú staða komið upp að íslenskt lagaákvæði sé nægilega skýrt og óskilyrt en ekki sú EES-regla sem það innleiðir. Samkvæmt orðalagi frumvarpsákvæðisins veitir það slíku lagaákvæði forgangsáhrif enda þótt viðkomandi EES-regla falli ekki undir skuldbindinguna samkvæmt bókun 35, en sú niðurstaða kann að skjóta skökku við í ljósi framangreinds.

Að lokum má velta því fyrir sér hvort dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins um bókun 35 kunni að þróast á þann veg að hann muni horfa í ríkari mæli til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins um bein réttaráhrif við afmörkun á inntaki þeirra forgangsáhrifa sem bókun 35 áskilur varðandi innleiddar EES-reglur. Sú dómaframkvæmd Evrópudómstólsins er yfirgripsmikil og hefur að geyma ýmis blæbrigði. Til að mynda hefur því verið slegið föstu í dómaframkvæmdinni að tilskipanir hafi lóðrétt bein réttaráhrif (e. vertical direct effect). Í þeim felst að einstaklingar og lögaðilar geta í ESB-rétti byggt rétt beint á óinnleiddri eða ranglega innleiddri tilskipun, eftir að fresturinn til að innleiða hana er liðinn, í máli gagnvart stjórnvöldum í aðildarríki.[47] Aftur á móti hafa tilskipanir ekki lárétt bein réttaráhrif (e. horizontal direct effect), en í því felst að einstaklingar og lögaðilar geta almennt ekki byggt rétt beint á óinnleiddri eða ranglega innleiddri tilskipun í máli gagnvart öðrum einkaaðilum.[48]

Þar sem inntak bókunar 35 tengist á ákveðinn hátt skilyrðum umræddrar dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins um bein réttaráhrif ESB-réttar, sem fyrr segir, er ekki útilokað að síðar muni geta reynt á nánari afmörkun þessara tengsla í dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins, t.d. það hvort forgangsáhrif samkvæmt bókun 35 í tilviki innleiddra tilskipana eigi að meginreglu einungis við þegar einkaaðilar bera þær fyrir sig gagnvart stjórnvöldum (lóðrétt), en ekki gagnvart öðrum einkaaðilum (lárétt). Þetta er aðeins eitt dæmi af fleirum um hvernig reynt gæti í EES-rétti á túlkun bókunar 35 í ljósi reglna ESB-réttar bein réttaráhrif og að hvaða leyti samsvörun sé þar á milli. Í þessu sambandi ber þó að árétta þann reginmun sem er á lagakerfunum tveimur að forgangsáhrif bókunar 35 einskorðast við innleiddar EES-reglur (í EFTA-ríkjunum sem búa við tvíeðlisskipan), á meðan bein réttaráhrif og forgangsáhrif í ESB-rétti miðast við ESB-reglurnar sem slíkar óháð innleiðingu. Hvað sem öðru líður er ljóst að verði fyrirhuguð forgangsregla að lögum kann við beitingu hennar, þ.m.t. túlkun á skilyrðinu um að regla sé skýr og óskilyrt, að þurfa að líta til dómaframkvæmdar um inntak beinna réttaráhrifa í ESB-rétti, að svo miklu leyti sem við getur átt.

7 Nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað

Frumvarpsákvæðið hefur að geyma fyrirvara á þá leið að það skuli gilda „nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað“. Sambærilegur fyrirvari er ekki orðaður í forgangsreglu 2. gr. norsku EES-laganna, en á móti hefur verið bent á að hún hafi stöðu almennra laga og norski löggjafinn geti því vikið henni til hliðar með lögum.[49] Varðandi frumvarpsákvæðið má því spyrja hvaða tilgangi áður tilvitnað orðalag þjóni. Ljóst er að þótt umrætt orðalag væri ekki að finna í  frumvarpsákvæðinu myndi það ekki breyta neinu um valdheimildir löggjafans samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeim felst að löggjafinn getur ætíð breytt lögum eða fellt þau úr gildi, eða sett ný lög sem ganga framar þeim sem fyrir eru. Með skírskotun til þess verður ekki betur séð en að fyrirvarinn hafi í meginatriðum táknræna þýðingu.[50] Hann leiðir til sömu niðurstöðu og lögskýringarregla 3. gr. EES-laganna og líkindareglan um að lög séu talin vera í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar nema annað verði ráðið af viðkomandi lögum, þ.e.a.s. að lagaákvæði verða túlkuð á þann hátt að þau samræmist EES-rétti nema annað verði skýrlega ráðið af þeim. Verði fyrirhuguð forgangsregla að lögum má ætla að stoðir þeirrar ályktunar styrkist í íslenskum rétti. Framangreindar reglur munu því væntanlega standa til þess að löggjafinn muni þurfa að mæla skýrt fyrir um það í lögum ef ætlunin er að víkja frá forgangsreglunni og um leið þeirri skyldu varðandi forgangsáhrif innleiddra EES-reglna sem felst í bókun 35.[51] Það mun þó hér sem endranær koma í hlut íslenskra dómstóla að meta hvaða kröfur verða gerðar að þessu leyti í einstökum tilfellum og er erfitt að fullyrða um það almennt séð við hvaða aðstæður þeim verður talið fullnægt.[52]

Vekja má athygli á því að síðari málsliður frumvarpsákvæðisins inniheldur ekki hliðstæðan fyrirvara um að ráðherra (eða önnur stjórnvöld) geti í almennum stjórnvaldsfyrirmælum kveðið svo á að þau skuli eftir atvikum ganga framar ósamrýmanlegum stjórnvaldsfyrirmælum sem innleiða EES-reglur. Af því verður þó ekki fyrirvaralaust dregin sú ályktun að ákvæðið takmarki að þessu leyti almennar heimildir ráðherra og annarra stjórnvalda til að mæla fyrir um innbyrðis samspil ólíkra stjórnvaldsfyrirmæla við setningu þeirra eftir því sem rúmast innan viðeigandi lagaheimilda.[53] Slík ályktun verður enn síður dregin af frumvarpsákvæðinu ef fallist er á að fyrirvarinn í fyrri málslið ákvæðisins gegni fyrst og fremst áminningarhlutverki fremur en að honum sé ætlað að hafa sjálfstætt efnislegt inntak.

8 Niðurstöður og hugleiðingar um framsetningu ákvæðisins

Í greininni hefur gildissvið forgangsreglunnar sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi verið brotið til mergjar lið fyrir lið, auk þess sem ýmis álitaefni viðvíkjandi því hafa verið dregin fram og afstaða tekin til þeirra eftir föngum. Meðal annars var velt upp því álitaefni hvort aðrar tegundir setts réttar í þrengri merkingu en almenn lög geti rúmast innan frumvarpsákvæðisins, t.d. bráðabirgðalög. Tilvísun ákvæðisins til „almennra lagaákvæða“ og skýringar með því virðast mæla gegn svo rúmri skýringu á ákvæðinu. Þó takmarkast bókun 35, sem ákvæðinu er ætlað að innleiða, ekki við almenn lög í þeirri merkingu sem lögð er í hugtakið í íslenskum rétti heldur vísar bókunin til settra laga almennt (e. statutory provisions). Hvað sem því líður er ljóst að hvorki bókun 35 né fyrirhuguð forgangsregla lýtur að árekstri settra laga við stjórnarskrána eða óskráðar stjórnskipulegar reglur enda eru þær rétthærri öðrum réttarheimildum.

Þá var vikið að síðari málslið frumvarpsákvæðisins sem snýr að EES-reglum sem innleiddar eru með almennum stjórnvaldsfyrirmælum, t.d. reglugerð settri af ráðherra. Dregin var sú ályktun, m.a. af skýringum með frumvarpinu, að síðari málsliður ákvæðisins einskorðist við árekstur reglna sem eiga báðar eða allar stoð í stjórnvaldsfyrirmælum, þótt orðalag ákvæðisins beri það ekki skýrlega með sér. Á hinn bóginn felist það ekki í ákvæðinu að stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða EES-reglu geti vikið til hliðar ósamrýmanlegri reglu í almennum lögum. Að því leyti skeri frumvarpsákvæðið sig frá forgangsreglu 2. gr. norsku EES-laganna, en hún gerir ráð fyrir að stjórnvaldsfyrirmæli sem innleiða EES-reglu gangi framar yngri lögum Stórþingsins. Að þessu frágengnu var fjallað um það hvernig fyrirhuguð forgangsregla kunni að horfa við árekstrum milli settra laga annars vegar og réttlægri réttarheimilda hins vegar, auk tilvika þar sem innleiddar EES-reglur rekast á innbyrðis. Komist var að þeirri niðurstöðu að slíkir árekstrar falli í grunninn ekki undir gildissvið fyrirhugaðrar forgangsreglu, heldur fari um úrlausn þeirra eftir lex superior reglunni og eftir atvikum sjónarmiðum um samspil réttarheimilda í EES-rétti.

Því næst var vikið að því skilyrði frumvarpsákvæðisins að í hlut eigi lagaákvæði (eða ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla) sem „réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum“. Af skilyrðinu er ljóst að ranglega innleiddar EES-reglur falla í grunninn ekki undir fyrirhugaða forgangsreglu. Þó voru færð rök fyrir þeirri túlkun á ákvæðinu að sé EES-regla ranglega innleidd að hluta geti hún notið forgangsáhrifa að því marki sem hún er réttilega innleidd, sé yfirleitt unnt að skilja þar á milli. Þá voru færð rök fyrir því að gangi lagaákvæði lengra en sú EES-regla sem það innleiðir, án þess að fara í bága við EES-regluna eða aðrar reglur EES-réttar, geti lagaákvæðið notið forgangsáhrifa að svo miklu leyti sem það innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum en ekki umfram það. Loks var rökstutt að forgangsreglan eigi ekki við ef viðkomandi EES-regla telst ógild að EES-rétti, t.d. þar sem hún fer í bága við rétthærri réttarheimild í EES-rétti. Í ljósi þess að gildissvið og réttaráhrif fyrirhugaðrar forgangsreglu miðast ætíð við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum má velta fyrir sér hvort orðinu „réttilega“ sé í reynd ofaukið í reglunni („… innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum“).   

Þá var fjallað um þann þátt í gildissviði fyrirhugaðrar forgangsreglu að í hlut eigi „skýrt og óskilyrt lagaákvæði“ (eða ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla). Tilvitnað skilyrði forgangsreglunnar felur í sér óverulega takmörkun á gildissviði hennar í ljósi þess hversu rúmt sambærilegt skilyrði bókunar 35 hefur verið túlkað í dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins með hliðsjón af viðeigandi dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Til að mynda hafa fjórfrelsisreglurnar verið taldar nægilega skýrar og óskilyrtar í þessum skilningi jafnvel þótt þær séu matskenndar og dýnamískar í eðli sínu. Þá var þeirri spurningu velt upp hvort umrætt skilyrði bókunar 35 eigi við um EES-regluna sjálfa eða þau íslensku lög sem innleiða hana, en til samanburðar má geta þess að áþekk skilyrði beinna réttaráhrifa í Evrópurétti eiga við um viðkomandi ESB-reglur sem slíkar. Í þessu ljósi voru færð rök fyrir því að nærtækara gæti verið að tengja umrætt skilyrði forgangsreglunnar, um að regla sé skýr og óskilyrt, við viðkomandi EES-reglu fremur en það lagaákvæði sem innleiðir hana.


Heimildaskrá

Alþingistíðindi (þingskjöl á vef Alþingis).
Arnaldur Hjartarson, Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt, Fons Juris 2017.
Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, Bókaútgáfa Orators 1988.
Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur. Undirstöður og handhafar ríkisvalds, Bókaútgáfan Codex 2015.
Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, Bókaútgáfan Codex 2006.
Davíð Þór Björgvinsson, Lögskýringar: Kenningar, aðferðir og sjónarmið við skýringu og beitingu laga, Forlagið 2008.
Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, Universitetsforlaget 2022.
Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, 3. útg. Universitetsforlaget 2014.
Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenskum rétti“, Vefrit Úlfljóts 22. apríl 2023.
Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði: Inngangur að hinni lagalegu aðferð, Bókaútgáfan Codex 2015.
Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Freedom of Establishment“ í Research Handbook on EEA Internal Market Law, Graham Butler (ritstj.) væntanleg 2023.
Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Is the Primacy of EU-Law Absolute or Relative? Explaining Primacy in Interlocking Legal Systems“, Europarätts tidskriften 2. tbl. 2023.
Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Stjórnskipuleg lögmætisregla“, Úlfljótur 62. árg. 4. tbl. 2009, bls. 421-494.
Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Skyldur einkaaðila samkvæmt Mannréttindaskránni“, Hátíðarit Orator 2022, bls. 8-14.
Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, 4. útg. Fagbokforlaget 2022.
M. Elvira Méndez-Pinedo, EC and EEA Law: A Comparative Study of the Effectiveness of European Law, European Law Publishing 2009.
Margrét Einarsdóttir, Framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og stjórnskipuleg álitamál, Bókaútgáfan Codex 2020.
Michael Bobek, „The effect of EU law in the national legal systems“ í Catherine Barndard og Steven Peers (ritstj.), European Union Law, 3. útg. Oxford University Press 2020.
Ot.prp. nr. 79 (1991-1992): Om lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i Avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS), mv.
Paul Craig og Cráinne de Burca, EU Law: Text, Cases, and Materials. UK version, 7. útg. Oxford University Press 2020.
Páll Hreinsson, Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins, Fons Juris 2022.
Róbert R. Spanó, Túlkun lagaákvæða, 2. útg. Bókaútgáfan Codex 2019.
Sigurður Líndal og Skúli Magnússon, Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Megindrættir,Hið íslenska bókmenntafélag 2011.
Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: Grundvöllur laga – réttarheimildir, 2. útg. Hið íslenska bókmenntafélag 2007.
Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, Bókaútgáfan Codex 2000.
Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandsréttur: Lissabons-sáttmálinn með áherslu á fiski- og auðlindamál og ríkjasambandið, Lagastofnun Háskóla Íslands 2014.
Stefán Már Stefánsson, Evrópuréttur: Réttarreglur Evrópusambandsins, Lagastofnun Háskóla Íslands 2020.
Valgerður Sólnes, „Niðurstaða Alþingis um gildi alþingiskosninga 2021: Hvað gerist nú?“, Vefrit Úlfljóts 29. nóvember 2021.

Dómaskrá

Dómar Evrópudómstólsins
Dómur í máli C-26/62, Van Gend en Loos, EU:C:1963:1.
Dómur í máli C-148/78, Ratti, EU:C:1979:110.
Dómur í máli C-573/17, Poplawski II, EU:C:2019:530.

Dómar EFTA-dómstólsins
Dómur í máli E-1/94, Restamark, 16. desember 1994.
Dómur í máli E-1/01, Hörður Einarsson, 22. febrúar 2002.
Dómur í máli E-2/12, HOB-vín, 11. desember 2012.
Dómur í máli E-7/11, Grund, 8. apríl 2013.
Dómur í máli E-6/17, Fjarskipti hf., 30. maí 2018.

Úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu
Ákvörðun í máli MDE Konkurrenten.no AS gegn Noregi, 5. nóvember 2019, nr. 47341/15.
Dómur í máli MDE Norwegian Confederation of Trade Unions (LO) og Norwegian Transport Workers‘ Union (NTF) gegn Noregi, 10. júní 2021, nr. 45487/17.

Norskir dómar
Dómur Hæstaréttar Noregs í máli nr. 2016-2554.


Eftirmálsgreinar

[1] 153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál.

[2] Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenskum rétti“.

[3] Í þessu sambandi má geta þess að fyrirhuguð forgangsregla tekur til allra innleiddra EES-skuldbindinga, hvort heldur samkvæmt meginmáli EES-samningsins, bókunum, viðaukum eða afleiddum gerðum. Líklegt er að hún gildi einnig um þær óskráðu meginreglur EES-réttar sem teljast vera samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins og kunna þar með að hafa verið innleiddar með lögum nr. 2/1993. Nánar er fjallað um það í Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenskum rétti“.

[4] Sjá umfjöllun í 4. kafla og athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[5] Sjá einnig hvað norskan rétt varðar, Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 270.

[6] Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 631. Sjá einnig 1. kafla og kafla 2.1 í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[7] Sjá m.a. umfjöllun í 1. kafla, kafla 2.1 og athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Um settan rétt í þrengri merkingu, sjá Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, bls. 161-172, einkum bls. 161-163, Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði, bls. 80-113, einkum bls. 97-98, og Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði, bls. 79-82, einkum bls. 80-81.

[8] Um bráðabirgðalög, sjá t.d. Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, bls. 165-166, Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði, bls. 98-103, Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði, bls. 81, og Björg Thorarensen, Stjórnskipunarréttur. Undirstöður og handhafar ríkisvalds, bls. 465-471.

[9] Þar sem bráðabirgðalög eru sárasjaldgæf er þetta líklega ekki sérlega raunhæft álitaefni. Helgast það m.a. af þeim breytingum sem gerðar voru á starfsháttum Alþingis með stjórnarskipunarlögum nr. 56/1991 en vegna þeirra eru sjaldnast lengur skilyrði til að setja bráðabirgðalög, enda má nú alla jafna kalla Alþingi saman með skömmum fyrirvara allan ársins hring. Sem dæmi um undantekningu frá hinu síðastnefnda má nefna þá stöðu sem kom upp vegna vafa um lögmæti alþingiskosninga í Norðvesturkjördæmi 2021 sem orsakaði drátt á útgáfu kjörbréfa til nýkjörinna alþingismanna og tafði fyrir því að nýtt þing kæmi saman. Um þessa atburðarás og möguleg eftirmál hennar, sjá Valgerður Sólnes, „Niðurstaða Alþingis um gildi alþingiskosninga 2021: Hvað gerist nú?“.  

[10] Rétt er að benda á að í norsku MSE-lögunum hefur verið farin sú leið að lögfesta þar sérstaka forgangsreglu vegna ákvæða sáttmálans. Því er hugsanlegt að forgangsreglur norsku EES-laganna og MSE-laganna eigi við á sama tíma og togist þar af leiðandi á. Hefur því verið haldið fram að leysa verði úr slíkum árekstrum í ljósi eðlis og mikilvægi þeirra réttinda sem reynir á hverju sinni. Sjá 3. gr. lov om styrking av menneskerettighetenes stilling i norsk rett (menneskerettensloven) (LOV-1999-05-21-30) og 2. gr. lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS) m.v. (EØS-loven) (LOV-1992-11-27-109). Um álitaefni í norskum rétti varðandi mögulega árekstra milli innleiddra EES-reglna og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sjá Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 437-438, og Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 645.  

[11] Um vernd mannréttinda í Evrópurétti, sjá t.d. Paul Craig og Cráinne de Burca, EU Law. Text, Cases, and Materials, bls. 430-481.

[12] Athygli vekur að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ekki slegið því föstu að til sé líkindaregla um að vernd mannréttinda í tengslum við innleiddar EES-reglur sé sambærileg þeirri vernd sem leiðir af Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. svokallaða Bosphorus líkindareglu í tilviki Evrópuréttar. Sjá í þessu sambandi ákvörðun í máli MDE Konkurrenten.no AS gegn Noregi, 5. nóvember 2019, nr. 47341/15, mgr. 43, og dóm MDE í máli Norwegian Confederation of Trade Unions (LO) og Norwegian Transport Workers‘ Union (NTF) gegn Noregi, 10. júní 2021, nr. 45487/17, mgr. 105-198.

[13] Sjá einnig hvað norskan rétt varðar, Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 438, og Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 645. 

[14] Þess má geta að í 3. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál) eru tekin dæmi um EES-reglur, innleiddar með tilvísun, sem skulu samkvæmt viðkomandi innleiðingarlöggjöf ganga framar öðrum ákvæðum viðkomandi laga, ef árekstur verður. Dæmin eiga það sammerkt að varða EES-reglur sem hafa lagagildi, þ.e. teljast til almennra laga. Því er ekki um að ræða árekstur laga og stjórnvaldsfyrirmæla í umræddum tilvikum.

[15] Ákvæði 2. gr. norsku EES-laganna hljóðar svo: „Bestemmelser i lov som tjener til å oppfylle Norges forpliktelser etter avtalen skal i tilfelle konflikt gå foran andre bestemmelser som regulerer same forhold. Tilsvarende gjelder dersom en forskrift som tjener til å oppfylle Norges forpliktelser etter avtalen, er i konflikt med en annen forskrift, eller kommer i konflikt med en senere lov.“ (áh.br. höf.). Lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS) m.v. (EØS-loven) (LOV-1992-11-27-109).

[16] Athugasemdir við 1. gr. í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Sjá einnig m.a. umfjöllun í 6. kafla greinargerðarinnar, varðandi bætt verklag við laga- og reglugerðarsetningu vegna innleiðingar EES-reglna.

[17] Um lögmætisregluna almennt, sjá t.d. Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Stjórnskipuleg lögmætisregla“, og Páll Hreinsson, Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins, bls. 5-55.

[18] Yfirlit yfir almennt viðurkenndar réttarheimildir íslensks réttar má t.d. finna í Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, bls. 158, Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði, bls. 78, og Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði, bls. 75.

[19] Sjá Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 436, en þar kemur fram það álit höfunda að óskráðar reglur norsks réttar rúmist ekki innan 2. gr. norsku EES-laganna. Gagnstæð skoðun kemur fram hjá Finn Arnesen o.fl. sem telja ekki útilokað að skýra orðalagið „[b]estemmelser i lov“ svo rúmt að það nái einnig til óskráðra reglna norsks réttar. Sjá Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 641.

[20] Í 3. gr. EES-laganna er mælt fyrir um að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

[21] Um skilyrði lögjöfnunar, sjá t.d. Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, bls. 534-535, Davíð Þór Björgvinsson, Lögskýringar, bls. 188-214, Róbert R. Spanó, Túlkun lagaákvæða, bls. 308 og 314 o.áfr., og Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði, bls. 161-163.

[22] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 272-273.

[23] Dómur í máli E-7/11, Grund, mgr. 82. Athygli vekur þó að í íslenskri útgáfu dómsins kemur hugtakið frumréttur (e. primary EEA law) ekki fyrir, heldur er þess í stað vísað til EES-samningsins.

[24] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 272, Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 54 o.áfr., og Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Freedom of Establishment“, kafli 1.

[25] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 269.

[26] Um innleiðingu afleiddra gerða, sjá t.d. Arnaldur Hjartarson, Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt, bls. 149-151, og Margrét Einarsdóttir, Framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og stjórnskipuleg álitamál.

[27] Sjá einnig umfjöllun í 2. kafla hér á undan.

[28] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 204.

[29] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 267.

[30] Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 643, og Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 269.

[31] Sjá einnig umfjöllun í 2. kafla hér að framan um vernd grundvallarréttinda í ESB-rétti og EES-rétti.

[32] Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 643. Sjá einnig, hvað varðar bókun 35, Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 204.

[33] Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 642, og Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 432. Sjá t.d. mál E-1/94, Restamark, mgr. 77, og mál E-1/01, Hörður Einarsson, mgr. 53. Sjá einnig umfjöllun um E-1/10 í tengslum við bein réttaráhrif, í Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 630. Sjá einnig í sömu átt, mál E-2/12, HOB-vín, mgr. 122, og mál E-6/17, Fjarskipti hf., mgr. 28. Einnig má hér vísa til umfjöllunar í kafla 2.3, 3. kafla og athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[34] Sjá m.a. kafla 2.3 í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Annað dæmi um ákvæði í meginmáli EES-samningsins sem uppfyllir þennan áskilnað er 54. gr. samningsins um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þannig hefur EFTA-dómstóllinn slegið því föstu að nefnt ákvæði uppfylli skilyrðið, þ.e. að aðilar geti byggt rétt á því beint, sjá mál E-6/17, Fjarskipti hf., mgr. 28.

[35] Mál E-6/17, Fjarskipti hf., mgr. 27. Sjá einnig Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls.642.

[36] Um tengsl skilyrðisins við bein réttaráhrif í ESB-rétti, sjá t.d. Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, bls. 104-108. Sjá einnig t.d. mál E-1/94, Restamark, mgr. 79, og mál E-1/01, Hörður Einarsson,mgr. 54.

[37] Áður fyrr lék vafi á því hver tengslin væru milli beinna réttaráhrifa og forgangsreglu ESB-réttar (e. principle of primacy). Í nýlegri dómaframkvæmd hefur Evrópudómstóllinn lagt til grundvallar að ESB-reglur njóti ekki forgangsáhrifa nema uppfyllt séu skilyrði beinna réttaráhrifa. Af því leiðir að verði árekstur milli ESB-reglu sem nýtur ekki beinna réttaráhrifa og landslaga ber ekki víkja þeim síðarnefndu til hliðar með vísan til forgangsreglu ESB-réttar. Tók Evrópudómstóllinn af skarið um þetta í máli C-573/17, Poplawski II, mgr. 60 og 68. Sjá einnig Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Is the Primacy of EU-Law Absolute or Relative? Explaining Primacy in Interlocking Legal Systems“, bls. 33, þar sem vakin er athygli á því að ákveðin óvissa gildi um þann fræðilega grundvöll sem tengslin milli reglnanna um bein réttaráhrif og forgangsáhrif ESB-réttar byggjast á.

[38] Um bein réttaráhrif og forgangsáhrif í tengslum við EES-rétt er fjallað m.a. í M. Elvira Méndez-Pinedo, EC and EEA Law, bls. 94-97 og 145-160.

[39] Um bein réttaráhrif almennt, sjá t.d. Sigurður Líndal og Skúli Magnússon, Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Megindrættir, bls. 70-71, Stefán Már Stefánsson, Evrópuréttur. Réttarreglur Evrópusambandsins, bls. 72-83, Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandsréttur. Lissabons-sáttmálinn með áherslu á fiski- og auðlindamál og ríkjasambandið, bls. 62-66, og M. Elvira Méndez-Pinedo, EC and EEA Law, bls. 51-69.

[40] Mál C-26/62, Van Gend en Loos.

[41] Sjá t.d. Michal Bobek, „The effects of EU law in the national legal system“, bls. 159.

[42] Sjá t.d. Michal Bobek, „The effects of EU law in the national legal system“, bls. 160.

[43] Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 642.

[44] Sjá lög 1504:1993, sbr. lög 1505:1993, 2. gr.. „… 1. ovillkorliga och tillräckligt exakta bestämmelser i EES-avtalets huvudavtal eller i dess protokoll eller bilagor, 2. en sådan bestämmelse i ett direktiv till vilken det hänvisas i EES-avtalets bilagor, om bestämmelsen i direktivet är ovillkorlig och tillräckligt exakt …“ (áh.br. höf.). Sjá kafla 2.4 í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Eins og þar kemur fram voru Finnland og Svíþjóð aðilar að EES-samningnum sem EFTA-ríki áður en þau gengu í ESB árið 1995.

[45] Ákveðin ummæli í E-1/94, Restamark, kunna að benda til þess að skilyrðið, varðandi það að regla sé nægilega skýr og óskilyrt, lúti að þeim landslögum sem innleiða tiltekna EES-reglu, sjá mgr. 77. Þó eru önnur ummæli í sama dómi sem benda fremur til þess að skilyrðið lúti að EES-reglunni, þ.e. að EES-reglan verði sem slík að vera nægilega skýr og óskilyrt óháð því hvernig hún er útfærð í viðkomandi landslögum, sjá mgr. 78. Sjá einnig til hliðsjónar mál E-1/01, Hörður Einarsson, mgr. 54.

[46] Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad og Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 642.

[47] Sjá t.d. C-148/78, Ratti.

[48] Um bein réttaráhrif tilskipana, sjá t.d. Paul Craig og Cráinne de Burca, EU Law: Text, Cases, and Materials, bls. 423-428. Umfjöllun um þessi atriði má einnig finna í Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Skyldur einkaaðila samkvæmt Mannréttindaskránni“, bls. 8-14.

[49] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 268.

[50] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 268.

[51] Fredrik Sejersted, Finn Arnesen, Ole-Andreas Rognstad, Sten Foyn og Olav Kolstad, EØS-rett, bls. 268. Þar er bent á að þótt norski löggjafinn hafi formlega séð óskerta heimild til að setja lög sem ganga gegn innleiddri EES-reglu, takmarki forgangsregla 2. gr. norsku EES-laganna í reynd svigrúm löggjafans í þeim efnum með ákveðnum hætti, m.a. þar sem frávik þurfi að hafa skýra stoð í lögum. Sjá einnig Ot.prp. nr. 79, bls. 5.

[52] Sjá einnig umfjöllun m.a. í 4. kafla og athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[53] Sjá einnig til hliðsjónar umfjöllun í 6. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Þar er m.a. áréttað mikilvægi þess að bæta verklag við laga- og reglugerðarsetningu vegna innleiðingar EES-reglna, þ.m.t. samræma orðalag reglugerðarheimilda í lögum sem varða innleiðingu slíkra reglna. Með því móti megi m.a. tengja betur saman lagaheimildir til innleiðingar og setningu stjórnvaldsfyrirmæla til að forða því að reglur rekist á fyrir slysni.

Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenskum rétti*


Eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við Lagadeild HÍ, og Dr. Hafstein Dan Kristjánsson, lektor við Lagadeild HÍ og stipendiary lecturer við Balliol College og St. Anne’s College, Oxford.

*Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.

Efnisyfirlit
1 Inngangur
2 Nokkur orð um bakgrunn frumvarpsins
2.1 Bókun 35
2.2. Lögskýringarregla 3. gr. EES-laganna
3 Almennt um lagalega þýðingu og áhrif fyrirhugaðrar forgangsreglu
4 Munu óskráðar meginreglur EES-réttar njóta forgangsáhrifa?
5 Getur forgangsreglan haft afturvirk áhrif?
6 Niðurstöður


Ágrip

Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið þar sem lagt er til að bætt verði við lögin nýrri forgangsreglu. Samkvæmt fyrirhugaðri reglu skulu lagaákvæði sem réttilega innleiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningum ganga framar öðrum ósamrýmanlegum lagaákvæðum. Sama gildir um stjórnvaldsfyrirmæli. Í greininni er fyrirhuguð forgangsregla skoðuð með tilliti til áhrifa hennar á íslenskan rétt. Þar sem reglan hefur almennt gildissvið, í þeim skilningi að hún tekur til allra innleiddra EES-reglna, hvort heldur samkvæmt meginmáli EES-samningsins, bókunum, viðaukum eða afleiddum gerðum, er hún til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenskum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir verði frumvarpið að lögum. Þá er í greininni komist að þeirri niðurstöðu að óskráðar meginreglur EES-réttar sem teljast samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins muni líklega falla undir gildissvið fyrirhugaðrar forgangsreglu, að því tilskildu að þær verði taldar hafa verið innleiddar með lögum nr. 2/1993. Að lokum er tekið til skoðunar hvort fyrirhuguð forgangsregla geti verkað aftur fyrir gildistöku sína. Þótt reglunni sé ekki ætlað að hafa bein afturvirk réttaráhrif er ekki útilokað að hún geti breytt samspili lagareglna að því er varðar málsatvik til framtíðar litið þótt þau tengist lögskiptum sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar.

Abstract

The Minister of Foreign Affairs recently introduced a bill amending Act No. 2/1993 on the European Economic Area. According to the bill, a new priority rule will be added to the Act. Pursuant to the rule, statutory provisions that correctly implement EEA-rules will take precedence over other incompatible statutory provisions. The same applies to administrative rules. The article examines the proposed rule with respect to its effects on Icelandic law. Since the rule has a general scope in the sense that it applies to all implemented EEA rules, it is apt to have considerable effects on Icelandic law and legal practice in the event it becomes law. The article further concludes that unwritten general principles of EEA law, which are inherent in the EEA Agreement, are likely to fall within the scope of the proposed rule, provided that they will be deemed to have been implemented by Act No. 2/1993. Even though the rule is not meant to have direct retroactive effects it is, nevertheless, possible that it will have effects on the interplay between legal rules which, although they apply to future facts, concern legal situations that were originally formed before the proposed rule comes into force.


1 Inngangur

Í mars 2023 lagði utanríkisráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið (EES-lögin).[1] Markmið frumvarpsins er að tryggja fullnægjandi innleiðingu á bókun 35 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), m.a. í tilefni af athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að bókunin sé ekki innleidd í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti.[2] Leiðin að því markmiði, sem valin er í frumvarpinu, er að lögfest verði ný forgangsregla í EES-lögin sem verði að 4. gr. laganna. Frumvarpsákvæðið hljóðar svo:

„Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“

Tilgangur greinarinnar er að varpa ljósi á möguleg áhrif forgangsreglunnar á íslenskan rétt verði hún að lögum og nánar tilgreind álitaefni í því samhengi. Til að leggja grunn að meginefni greinarinnar verður fyrst fjallað um skuldbindingar Íslands samkvæmt bókun 35 og hvernig gildandi rétti er háttað hvað þær varðar.[3] Því næst verður fyrirhuguð forgangsregla skoðuð með tilliti til áhrifa hennar á íslenskan rétt. Í því sambandi verður sjónum m.a. beint að því álitaefni hvort fyrirhuguð forgangsregla taki til óskráðra meginreglna EES-réttar sem eru samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins, þótt þær séu ekki orðaðar þar með beinum hætti, en slíkar meginreglur hafa verið taldar falla undir sambærilega forgangsreglu norsks réttar.[4] Þá verður fjallað um álitaefni sem varða lagaskil og möguleg afturvirk áhrif forgangsreglunnar verði hún að lögum. Hafa má í huga að umfjöllun greinarinnar skarast að sumu leyti við umfjöllun um viðeigandi efnisatriði í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi, sem er ítarleg og vönduð. Það verður einnig að hafa hugfast að þingleg meðferð frumvarpsins er á frumstigi þegar þetta er ritað og munu fyrrgreind álitaefni vafalaust fá nánari umfjöllun á Alþingi. Sama á við um önnur álitaefni viðvíkjandi afmörkun á gildissviði og skilyrðum fyrirhugaðrar forgangsreglu, svo og álitaefni sem varða stjórnskipulegt gildi slíkrar reglu, sem falla utan efnissviðs þessarar greinar og bíða síðari umfjöllunar m.a. á Alþingi.[5] Áður en vikið verður að umfjöllunarefni greinarinnar þykir þó rétt að taka fram að fyrirhuguð forgangsregla virðist rúmast innan stjórnskipulegra valdheimilda löggjafans til að mæla fyrir um samspil settra laga, en þess er að gæta að reglan felur sem slík ekki í sér framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Þá verður að gera ráð fyrir að hún verði túlkuð í framkvæmd til samræmis við stjórnarskrána.

2 Nokkur orð um bakgrunn frumvarpsins

2.1 Bókun 35

Með fyrrnefndri bókun 35 við EES-samninginn skuldbinda EFTA-ríkin sig til að tryggja innleiddum EES-reglum forgang að landsrétti með ákveðnum hætti.[6] Bókun 35 hljóðar nánar tiltekið svo í íslenskri þýðingu:

„Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig;

Stök grein
Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“[7]

Með bókun 35 skuldbinda EFTA-ríkin sig þannig til þess, ef þörf krefur, að setja lagaákvæði þess efnis að EES-reglur sem hafa verið innleiddar í landsrétt gangi framar öðrum settum lögum (e. statutory provisions) ef þau rekast á. Baksvið bókunar 35 er forgangsregla Evrópuréttar en henni var slegið fastri í dómi Evrópudómstólsins í máli Costa gegn E.N.E.L.[8] Í forgangsreglu Evrópuréttar felst, með ákveðinni einföldun, að reglur Evrópuréttar hafa forgang gagnvart ósamrýmanlegum reglum landsréttar.[9] Bókun 35 fól hins vegar í sér ákveðna málamiðlun gagnvart EFTA-ríkjunum að því leyti að hún stefnir að því að skapa einsleitt EES-svæði án þess að skylda EFTA-ríkin til að framselja lagasetningarvald til stofnana EES.[10]

Bókun 35 tekur mið af því að Ísland og Noregur búa við tvíeðlisskipan þar sem þjóðréttarlegar skuldbindingar öðlast ekki bein réttaráhrif að landsrétti nema þær séu innleiddar í landslög með stjórnskipulega réttum hætti.[11] Þegar lög, sem innleiða EES-reglu (t.d. samkvæmt tilskipun eða reglugerð ESB), eru sett getur það gerst að þau stangist á við önnur sett lög, og hefðbundin sjónarmið um samræmisskýringu og forgang lagaákvæða (m.a. lex specialis) tryggi ekki framgang EES-reglunnar. Þegar svo háttar til þarf samkvæmt bókun 35 að vera tryggt að EES-reglan (sett lög sem innleiða hana í landsrétt) gildi framar hinum lögunum þannig að EES-reglan öðlist tilætluð réttaráhrif að landsrétti og einstaklingar og lögaðilar geti því byggt rétt á henni. Sigurður Líndal og Skúli Magnússon hafa raunar bent á að EFTA-ríkjunum beri skylda til að tryggja áhrif EES-reglu í landsrétti án tillits til bókunar 35, en þá skyldu megi einnig leiða af almennum reglum þjóðaréttar og trúnaðarreglu 3. gr. EES-samningsins.[12]

Hafa ber hugfast að bókun 35 leggur ekki þá skyldu á EFTA-ríkin að stjórnarskrárbinda reglu um forgang innleiddra EES-reglna. Skuldbindingin samkvæmt bókun 35 felur það eitt í sér að tryggja skuli með lögum að innleidd EES-regla gangi framar öðrum settum lögum.[13] Af því leiðir jafnframt að bókun 35 áskilur ekki að EES-regla (lög sem innleiða EES-skuldbindingu) gangi framar stjórnskipulegum reglum í rétti EFTA-ríkjanna.[14]

2.2. Lögskýringarregla 3. gr. EES-laganna

Í 3. gr. EES-laganna er að finna lögskýringarreglu sem ætlað er að innleiða bókun 35 í íslenskan rétt. Í ákvæðinu segir nánar tiltekið að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Í skýringum við 3. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að EES-lögunum er m.a. ráðgert að „innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram.“[15]   

Í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi eru færð rök fyrir því hvers vegna lögskýringarregla 3. gr. EES-laganna feli ekki í sér fullnægjandi innleiðingu á bókun 35 í íslenskan rétt eins og ESA byggir einnig á í rökstuddu áliti sínu þar að lútandi.[16] Í greinargerðinni er jafnframt vísað til fræðiskrifa þar sem bent hefur verið á að 3. gr. EES-laganna kunni að ganga of skammt til að uppfylla þá skuldbindingu sem felst í bókun 35, m.a. í ljósi þess hvernig umræddu ákvæði EES-laganna hefur verið beitt í íslenskri dómaframkvæmd.[17]

Í stuttu máli er meginástæða þess að 3. gr. EES-laganna er ekki talin duga til að uppfylla skuldbindinguna samkvæmt bókun 35 sú að Hæstiréttur hefur í nokkrum málum komist að þeirri niðurstöðu að samræmisskýring samkvæmt 3. gr. EES-laganna geti ekki leitt til þess að sett lög sem innleiða EES-reglur gangi sjálfkrafa framar öðrum settum lögum.[18] Þannig hafa íslenskir dómstólar almennt ekki farið þá leið að skýra innleiddar EES-reglur sem sérreglur er gangi framar ósamrýmanlegum yngri lögum á grundvelli lex specialis reglunnar. Þess ber þó að geta að í skýringum við 3. gr. EES-laganna, sem vitnað var til framar í kaflanum, er einungis ráðgert að innleiddar EES-reglur séu „jafnan“ virtar sem sérreglur í þessum skilningi.[19] Því veita hvorki texti 3. gr. EES-laganna né lögskýringargögn varðandi ákvæðið nægilega afgerandi stoð fyrir beitingu lex specialis reglunnar til að ljá innleiddum EES-reglum forgangsáhrif gagnvart ósamrýmanlegum yngri lögum þannig að markmið bókunar 35 nái fram að ganga.[20]  

3 Almennt um lagalega þýðingu og áhrif fyrirhugaðrar forgangsreglu

Athugunarefni er hverju forgangsreglan, sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi, muni breyta verði hún að lögum, þ.e. hverju hún bæti við lögskýringarreglu 3. gr. EES-laganna og almennar forgangsreglur íslensks réttar (m.a. lex specialis regluna). Í stuttu máli verður lagaleg þýðing nýju forgangsreglunnar sú að EES-reglur sem innleiddar eru með settum lögum, að meðtöldum reglum meginmáls EES-samningsins sem hefur lagagildi hér á landi samkvæmt 2. gr. EES-laganna, munu fá forgang gagnvart öðrum ósamrýmanlegum settum lögum, ef árekstur verður. Samsvarandi regla mun gilda um árekstur stjórnvaldsfyrirmæla. Ekki myndi koma til kasta forgangsreglunnar fyrr en útséð væri með að lagareglurnar sem rekast á yrðu ekki túlkaðar til samræmis hvor við aðra, sbr. 3. gr. EES-laganna.

Verði frumvarpsákvæðið að lögum verður þannig til ný almenn forgangsregla til viðbótar við lex superior, lex specialis og lex posterior. Af fyrirhugaðri forgangsreglu leiðir, svo langt sem hún nær, að sett lög sem innleiða EES-reglur ganga ætíð framar ósamrýmanlegum settum lögum og skiptir þá ekki máli hvort síðarnefndu lögin eru sérlög eða yngri lög. Mun það jafnframt eiga við um samspil laga, sem sett hafa verið fyrir gildistöku forgangsreglunnar, til framtíðar litið. Þannig gengur fyrirhuguð forgangsregla lengra en sú ráðagerð sem birtist í fyrrgreindum skýringum við 3. gr. EES-laganna um að innleiddar EES-reglur verði „jafnan“ virtar sem sérlög og gangi á þeim grundvelli framar öðrum lögum.[21] Löggjafinn mun þó eðli málsins samkvæmt geta mælt fyrir um frávik frá forgangsreglunni með síðari lögum eins og beinlínis er ráðgert í frumvarpsákvæðinu, sbr. orðin „nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað“.[22]

Því má til sanns vegar færa að verði fyrirhuguð forgangsregla að lögum munu einstaklingar og lögaðilar njóta ríkari möguleika en áður til að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum og byggja málatilbúnað sinn á því að íslensk lagaákvæði skuli víkja fyrir ákvæðum EES-samningsins og öðrum innleiddum EES-reglum, að réttarfarsskilyrðum uppfylltum.[23] Að sama skapi verður íslenskum dómstólum skylt að ljá innleiddum EES-reglum aukið vægi í dómsúrlausnum andspænis ósamrýmanlegum settum lögum sem munu þá víkja fyrir hinum fyrrnefndu á grundvelli fyrirhugaðrar forgangsreglu, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað í síðarnefndu lögunum. Leiki vafi á því hvort árekstur sé til staðar milli innleiddrar EES-reglu og annars lagaákvæðis munu íslenskir dómstólar geta aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þar að lútandi að uppfylltum skilyrðum laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.[24]   

Þar sem fyrirhuguð forgangsregla hefur almennt gildissvið, í þeim skilningi að hún tekur til allra innleiddra EES-skuldbindinga, hvort heldur samkvæmt meginmáli EES-samningsins, bókunum, viðaukum eða afleiddum gerðum, er hún til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenskum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir verði frumvarpið að lögum.[25] Í því sambandi verður m.a. að hafa hugfast að grunnreglur EES-samningsins um fjórfrelsið, sem koma fram í meginmáli EES-samningsins, hafa víðtækt gildissvið. Þær binda fyrst og fremst EFTA-ríkin en sumar þeirra geta þó einnig bundið einkaaðila við ákveðnar aðstæður.[26] Þær eru jafnframt matskenndar og dýnamískar í þeim skilningi að inntak þeirra markast að miklu leyti af dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins, og eftir atvikum dómaframkvæmd Evrópudómstólsins um hliðstæðar reglur Evrópuréttar.[27] Sú staða getur því komið upp að sett lög séu talin samræmast EES-rétti þegar þau taka gildi en síðari túlkun EFTA-dómstólsins á EES-reglum leiði til þeirrar niðurstöðu að lögin teljist stangast á við þær.[28]    

Verði forgangsreglan að lögum gæti réttarþróun í EES-rétti því haft meira afgerandi áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila fyrir tilstuðlan reglunnar en samkvæmt gildandi rétti. Þau áhrif gætu verið bæði jákvæð og neikvæð. Jákvæðu áhrifin myndu felast í því að einstaklingar gætu framfylgt réttindum sínum samkvæmt innleiddum EES-reglum með markvissari hætti fyrir íslenskum dómstólum en þeir geta nú, eins og rakið var hér að framan. Hin hliðin á peningnum, þ.e. neikvæðu áhrifin, gætu birst í því að einstaklingar og lögaðilar gætu þurft að sæta því að lagareglu, sem þeir hafa reitt sig á í lögskiptum sínum innbyrðis eða við stjórnvöld, ef til vill um langa hríð, væri í dómsmáli hér á landi eða í framkvæmd stjórnvalda vikið fyrirvaralaust til hliðar á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki réttilega innleiddum EES-reglum. Til grundvallar slíkri niðurstöðu gæti t.d. legið ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem aflað hefði verið undir rekstri dómsmáls þar sem leyst er úr viðkomandi réttarágreiningi.[29]

Almennt þegar lagareglum lýstur saman og önnur þeirra gengur framar hinni samkvæmt forgangsreglu á borð við lex superior, lex specialis eða lex posterior er afleiðingin sú að lagareglan sem víkur hefur að því leyti ekki réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Aftur á móti heldur lagareglan gildi sínu nema hún sé felld brott. Sú staða kann þó að vera fyrir hendi að árekstur lagareglna sé alger en þegar svo háttar til hefur lagaregla, sem ekki verður beitt andspænis annarri ósamrýmanlegri lagareglu, ekki réttaráhrif í neinum þeirra tilvika sem falla undir gildissvið hennar.[30] Hitt er einnig til að lagareglur rekist á að hluta, en þá hefur lagaregla réttaráhrif í öðrum tilvikum en þeim sem falla undir aðra ósamrýmanlega lagareglu.

Framangreint mun eiga við um fyrirhugaða forgangsreglu ef hún verður að lögum. Þau lög sem munu víkja fyrir ósamrýmanlegum lögum sem innleiða EES-reglur munu halda gildi sínu þótt þau muni ekki hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu að hluta eða í heild. Í því sambandi má t.d. nefna að fjórfrelsisreglurnar gilda um tilvik þar sem reynir á för framleiðsluþáttanna (vörur, þjónustu, fólk og fjármagn) yfir landamæri innan EES-svæðisins.[31] Þær gilda því ekki um tilvik sem hafa ekki slík áhrif yfir landamæri, þ.e. svokallaða „hreinræktaða“ innri stöðu (e. purely or wholly internal situation). Þá er svokölluð „öfug mismunun“ (e. reverse discrimination) almennt heimil samkvæmt fjórfrelsisreglunum en í henni felst að íslenski löggjafinn getur látið aðrar eða strangari reglur gilda um íslenska aðila vegna t.d. viðskipta þeirra sín á milli hér á landi en erlenda aðila að því gefnu að viðskiptin hafi engin áhrif yfir landamæri innan EES-svæðisins.[32] Í slíkum tilfellum kemur ekki til árekstrar milli fjórfrelsisreglnanna og annarra settra laga. Af framansögðu leiðir að verði fyrirhuguð forgangsregla að lögum má ætla að oftar muni reyna á tilvik þar sem lagareglur rekast á að hluta, fremur en í heild, a.m.k. þegar um er að ræða fjórfrelsisreglurnar.[33]

4 Munu óskráðar meginreglur EES-réttar njóta forgangsáhrifa? 

Eins og áður greinir er ráðgert að fyrirhuguð forgangsregla muni gilda um lagaákvæði sem réttilega innleiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Sú tilvísun tekur m.a. til ákvæða meginmáls EES-samningsins sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. EES-laganna. Þá vaknar spurningin hvort forgangsreglan muni gilda um óskráðar meginreglur EES-réttar sem eru samtvinnaðar (e. inherent) meginmáli EES-samningsins og kunna þar með að hafa verið innleiddar með lögfestingu hans.[34] Umræddar meginreglur EES-réttar hafa einkum mótast í dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins og eiga flestar (ef ekki allar) hliðstæðu í Evrópurétti.[35] Rétt er að halda því til haga að það er í valdi íslenskra dómstóla að skera úr um hvort og þá hvaða óskráðu meginreglur EES-réttar teljist hafa verið innleiddar með lögum nr. 2/1993, en það er forsenda þess að þær geti notið forgangsáhrifa á grundvelli frumvarpsákvæðisins.[36]

Í norskum rétti hefur til samanburðar verið talið að forgangsregla 2. gr. þarlendra EES-laga taki til óskráðra meginreglna EES-réttar sem eru samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins, og njóti slíkar meginreglur því forgangs gagnvart lögum Stórþingsins. Hefur sú niðurstaða verið talin fá stoð í markmiði ákvæðisins og bókun 35.[37] Í þessu ljósi er líklegt að forgangsreglan sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi verði að þessu leyti túlkuð með sambærilegum hætti hér á landi og hin norska hliðstæða hennar, þ.e. að hún taki til óskráðra meginreglna EES-réttar sem eru samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins, að því tilskildu að þær teljist hafa verið innleiddar í íslenskan rétt með 2. gr. EES-laganna. Þetta þýðir jafnframt að þær óskráðu meginreglur EES-réttar, sem teljast ekki samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins og því ekki innleiddar í íslenskan rétt á þeim grunni, munu ekki falla undir fyrirhugaða forgangsreglu nema þær séu innleiddar með öðrum settum lögum.[38] Helgast sú niðurstaða af því að fyrirhuguð forgangsregla takmarkast við ákvæði settra laga (og stjórnvaldsfyrirmæla) sem réttilega innleiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum.

Dæmi um óskráðar meginreglur EES-réttar, sem gætu fengið aukið vægi í íslenskum rétti á grundvelli fyrirhugaðrar forgangsreglu, eru jafngildisreglan og skilvirknisreglan (e. principles of equivalence and effectiveness) en þær kunna að teljast samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins í framangreindum skilningi og því mögulega innleiddar í íslenskan rétt.[39] Í þessum meginreglum felast m.a. ákveðnar kröfur til málsmeðferðar þegar reynir á EES-reglu í dómsmáli eða stjórnsýslumáli. Af framansögðu leiðir að yrði fyrirhuguð forgangsregla að lögum gæti í réttarframkvæmd reynt í auknum mæli á mögulegt samspil slíkra óskráðra meginregla EES-réttar við íslenskar réttarfarsreglur. Sama myndi eiga við um málsmeðferðarreglur á öðrum réttarsviðum, t.d. í stjórnsýslurétti. Hér verður þó ekki tekin afstaða til þess hversu líklegt er að reynt gæti á árekstur innlendra málsmeðferðarreglna við umræddar meginreglur EES-réttar ef fyrirhuguð forgangsregla tæki gildi. Á hinn bóginn er bent á að lögfesting hennar myndi geta vakið upp álitaefni af þessum meiði, þ.e. hvort fyrrnefndar meginreglur EES-réttar eigi að ganga framar innlendum málsmeðferðar­reglum ef þær leiða til ósamrýmanlegra niðurstaðna.[40] Sama mun vitaskuld gilda um skráðar meginreglur sem eru orðaðar í meginmáli EES-samningsins, t.d. 4. gr. um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs.[41]

Þess ber að geta að ekki gefst tóm til þess hér að greina ítarlega stöðu einstakra meginreglna EES-réttar með tilliti til þess hvort þær teljist samtvinnaðar meginmáli EES-samningsins í framangreindum skilningi og þar með innleiddar í íslenskan rétt með EES-lögunum.[42] Er látið nægja að vekja athygli á því hér að þær meginreglur EES-réttar sem svo háttar til um munu, eins og fyrr greinir, líklega falla undir gildissvið fyrirhugaðrar forgangsreglu verði hún að lögum. Í þessu sambandi mun dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins, þ.m.t. ráðgefandi álit hans, hafa mikla þýðingu þegar komist er að niðurstöðu um hvort tiltekin meginregla EES-réttar teljist samtvinnuð meginmáli EES-samningsins þannig að hún geti fallið undir fyrirhugaða forgangsreglu. Hafa ber þó hugfast að samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar er það, sem fyrr greinir, í valdi íslenskra dómstóla að skera úr um hvort tiltekin meginregla EES-réttar hafi næga stoð í ákvæðum EES-laganna og teljist þar með innleidd í íslenskan rétt.[43]

5 Getur forgangsreglan haft afturvirk áhrif?

Fyrirhuguð forgangsregla mun gilda um árekstur lagaákvæða og stjórnvaldsfyrirmæla sem falla undir gildissvið hennar og skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi lagaákvæði eða stjórnvalds­fyrirmæli hafi verið sett fyrir eða eftir gildistöku forgangsreglunnar. Forgangsáhrif reglunnar munu því ná jafnt yfir lög sem nú eru í gildi og lög sem sett verða síðar.[44]

Á hinn bóginn er það önnur og flóknari spurning hvort forgangsreglan geti haft afturvirk áhrif á úrlausn réttarágreinings sem kemur til kasta dómstóla eða annars úrskurðaraðila eftir gildistöku hennar, ef ágreiningurinn er sprottinn af málsatvikum sem áttu sér stað áður en reglan tók gildi. Spurningin er þá sú hvort dómstóll eða annar úrskurðaraðili myndi geta beitt forgangsreglunni í slíku máli þannig að leyst yrði úr árekstri innleiddrar EES-reglu og annars lagaákvæðis á annan hátt en hefði leitt af gildandi rétti þegar málsatvik áttu sér stað. Þannig gæti sú staða verið uppi að innleidd EES-regla hefði vikið fyrir ósamrýmanlegu lagaákvæði samkvæmt gildandi rétti þegar málsatvik áttu sér stað fyrir gildistöku forgangsreglunnar, en niðurstaðan yrði á gagnstæðan veg ef forgangsreglunni yrði beitt við úrlausn málsins.    

Þegar leitað er svara við framangreindri spurningu er fyrst til þess að taka að ekkert í fyrirliggjandi frumvarpi bendir til þess að forgangsreglunni sé ætlað að hafa bein afturvirk réttaráhrif. Almennt ber að gjalda varhug við því að túlka lagaákvæði á þann hátt að þau hafi að geyma afturvirkar lagareglur nema það verði skýrlega ráðið af orðalagi þeirra og eftir atvikum heildarsamhenginu, a.m.k. ef afturvirk áhrif eru íþyngjandi fyrir borgarana.[45]

Þrátt fyrir framangreint er ekki unnt að útiloka að forgangsreglan myndi geta haft þýðingu með óbeinum hætti fyrir atvik og lögskipti sem hafa átt sér stað fyrir gildistöku reglunnar. Taka má eftirfarandi dæmi af sviði refsiréttar. Aðili er ákærður í sakamáli fyrir brot gegn refsiákvæði íslenskra laga sem framið var árið 2022. Ákærði byggir á því í málsvörn sinni að refsiákvæðið stangist á við ákvæði EES-samningsins. Fyrir liggur í þessu ímyndaða dæmi að samkvæmt gildandi rétti þegar brotið var framið (2022) hefði íslenska refsiákvæðið gengið framar viðkomandi ákvæði EES-samningsins (refsiákvæðið er t.d. yngra eða sértækara). Beiting forgangsreglunnar myndi aftur á móti gera það að verkum að EES-reglan gengi framar refsiákvæðinu.

Í framangreindu dæmi virðist sú staða þannig vera uppi að sakfella bæri ákærða samkvæmt gildandi rétti árið 2022, en að sýkna bæri hann ef forgangsreglunni væri beitt við úrlausn málsins. Eins og fyrr greinir hefur fyrirhuguð forgangsregla ekki að geyma fyrirmæli um bein afturvirk áhrif reglunnar á málsatvik sem áttu sér stað fyrir gildistöku hennar. Á hinn bóginn er í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að finna sérstaka reglu sem fjallar um tilvik þegar refsilöggjöf breytist eftir að verknaður er framinn en áður en dómur gengur, en þá er meginreglan sú að dæma skal eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Reglan er háð tveimur undantekningum: Annars vegar má ekki dæma þyngri refsingu en heimilt var þegar brot var framið og hins vegar ber að refsa samkvæmt eldri lögum ef breyting á refsilöggjöf ber ekki vitni „um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar“. Í dæminu hér að framan myndi þannig reyna á hvort gildistaka fyrirhugaðrar forgangsreglu, sem veitti innleiddu EES-reglunni eftirleiðis forgang fram yfir refsiákvæðið, teldist til breytingar á refsilöggjöf í skilningi 1. mgr. 2. gr. hegningarlaga, og jafnframt hvort slík breyting væri til vitnis um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar í skilningi ákvæðisins. Væri hinu síðarnefnda svarað neitandi bæri að refsa ákærða í samræmi við gildandi rétt árið 2022. Að öðrum kosti kæmi til álita að sýkna ákærða með vísan til 1. mgr. 2. gr. hegningarlaga enda leiddi af hinni nýju forgangsreglu að refsiákvæðið þyrfti eftirleiðis að víkja fyrir innleiddu EES-reglunni.

Fleiri álitamál um áhrif fyrirhugaðrar forgangsreglu aftur í tímann geta komið upp, þ.m.t. hvort forgangsreglan geti haft þýðingu fyrir úrlausn um einkaréttarlegan ágreining sem sprottinn er af atvikum sem gerst hafa fyrir gildistöku hennar (í það minnsta að hluta til). Meginreglan er sú að réttarstaða borgaranna ræðst af lögum eins og þau eru hverju sinni. Samkvæmt almennum reglum geta ný lög því haft áhrif á viðvarandi lögskipti jafnvel þótt til þeirra hafi verið stofnað í tíð eldri laga.[46] Þannig má taka sem dæmi að aðilar hafi gert ráðningarsamning í tíð eldri laga en meðan á ráðningarsambandinu stendur taka ný lög gildi sem eiga þá eftirleiðis við um atvik í réttarsambandi aðila sem eiga sér stað eftir gildistöku nýju laganna. Á sama hátt er ekki útilokað að fyrirhuguð forgangsregla gæti breytt samspili lagareglna að því er varðar málsatvik til framtíðar litið þótt þau tengist lögskiptum sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar.[47]

6 Niðurstöður

Í greininni hefur verið fjallað um áhrif forgangsreglunnar sem lögð er til í fyrirliggjandi frumvarpi utanríkisráðherra verði það að lögum. Samkvæmt fyrirhugaðri forgangsreglu, svo langt sem hún nær, munu lög sem réttilega innleiða skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum ganga framar öðrum ósamrýmanlegum settum lögum og þá óháð því hvort síðarnefndu lögin eru yngri eða sértækari en þau fyrrnefndu. Alþingi mun þó eðli málsins samkvæmt geta mælt fyrir um frávik frá forgangsreglunni með síðari lögum eins og beinlínis er ráðgert í frumvarpsákvæðinu. Þar sem fyrirhuguð forgangsregla hefur almennt gildissvið, í þeim skilningi að hún tekur til allra innleiddra EES-reglna, hvort heldur samkvæmt meginmáli EES-samningsins, bókunum, viðaukum eða afleiddum gerðum, er hún til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenskum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir verði frumvarpið að lögum. Í því sambandi verður jafnframt að hafa hugfast að grunnreglur EES-samningsins á borð við fjórfrelsisreglurnar eru háðar túlkun EFTA-dómstólsins með hliðsjón af réttarframkvæmd í Evrópurétti. Því geta komið upp tilvik í framkvæmd þar sem erfitt verður að sjá fyrir réttarþróunina í Evrópurétti og þar með hvort íslensk lög muni halda velli andspænis öðrum lögum sem innleiða EES-reglur. Á sama tíma er forgangsreglan til þess fallin að stuðla að því að réttindi sem einstaklingar og lögaðilar njóta á grundvelli EES-samningsins séu raunhæf og virk í íslenskum landsrétti.

Í greininni var jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að þær óskráðu meginreglur EES-réttar sem teljast samtvinnaðar (e. inherent) meginmáli EES-samningsins og kunna þar með að hafa verið innleiddar í íslenskan rétt með EES-lögunum, muni líklega falla undir gildissvið fyrirhugaðrar forgangsreglu, en slíkar meginreglur hafa verið taldar falla undir sambærilega forgangsreglu norsks réttar. Þá var tekið til skoðunar hvort fyrirhuguð forgangsregla geti haft afturvirk áhrif verði hún að lögum. Færð voru rök fyrir því að þótt fyrirliggjandi frumvarp hafi ekki að geyma ráðagerð um bein afturvirk réttaráhrif forgangsreglunnar sé ekki útilokað að hún geti breytt samspili lagareglna að því er varðar málsatvik til framtíðar litið þótt þau tengist lögskiptum sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar.

Að lokum skal áréttað að þingleg meðferð á frumvarpinu er á frumstigi þegar þetta er ritað og munu fyrrgreind álitaefni vafalaust fá nánari umfjöllun á Alþingi. Sama á við um önnur álitaefni viðvíkjandi afmörkun á gildissviði og skilyrðum fyrirhugaðrar forgangsreglu, svo og álitaefni er varða stjórnskipulegt gildi slíkrar reglu, sem falla utan efnissviðs þessarar greinar og bíða síðari umfjöllunar m.a. á Alþingi.[48]  

___________________________________________________

Heimildaskrá

Alþingistíðindi.

Arnaldur Hjartarson og Stefán Már Stefánsson, „Umsögn ætluð samráðsgátt stjórnvalda vegna tillögu um lagasetningu um forgang EES-reglna“, dags. 5. mars 2023.

Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, Bókaútgáfa Orators 1988.

Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, Bókaútgáfan Codex 2006.

Davíð Þór Björgvinsson, „Fullveldi og forgangur EES-reglna“ á https://uni.hi.is/davidth/2023/04/04/fullveldi-og-forgangur-ees-reglna/?fbclid=IwAR1HXS0Xfr3DvgFQR_cgOO40SVQ2W3YdkWFQEe1331kXSGIruZLPrckzCP0 (4. apríl 2023).

Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad and Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, Universitetsforlaget 2022.

Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði: inngangur að hinni lagalegu aðferð, Bókaútgáfan Codex 2015.

Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Europerettens indflydelse på nordisk forvaltningsret“, Ráðstefnurit Norræna lögfræðingamótsins 2017, bls. 163-173.

Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Is the Primacy of EU Law Absolute or Relative? Explaining Primacy in Interlocking Legal Systems“ sem birtast mun í Europarätts tidskriften 2023.

Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, 4. útg. Fagbokfarlaget 2022.

Margrét Einarsdóttir, Framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og stjórnskipuleg álitamál, Bókaútgáfan Codex 2020.

Margrét Einarsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir, „Iceland and the EEA“, Finn Arnesen, Halvard Haukeland Fredriksen, Hans Petter Graver, Ola Mestad og Christoph Vedder (ritstj.), Agreement on the European Economic Area: A Commentary, Hart/Nomso 2018, bls. 13-35.

Marthe Kristene Fjeld Dystland, Fredrik Bøckman Finstad og Ida Sørebø, „Article 7: Binding effect and implementation of EU legal acts“, Finn Arnesen, Halvard Haukeland Fredriksen, Hans Petter Graver, Ola Melstad og Christoph Vedder (ritstj.), Agreement on the European Economic Area: A Commentary, Hart/Nomso 2018, bls. 248-270.

Ot.prp. nr. 79 (1991-1992): Om lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i Avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS), mv.

Paul Craig og Crainne de Burca, EU Law: Text, Cases, and Materials, 7. útg., OUP 2020.

Sigurður Líndal og Skúli Magnússon, Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Megindrættir, Hið íslenska bókmenntafélag 2011.

Skúli Magnússon, „Hversu ráðgefandi eru ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins? Hugleiðingar um „boðvald“ ráðgefandi álita“, Afmælisrit: Björn Þ. Guðmundsson sjötugur 13. júlí 2009 Bókaútgáfan Codex 2010, bls. 317-330.

Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, Bókaútgáfan Codex 2000.

Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandsréttur: Lissabons-sáttmálinn með áherslu á fiski- og auðlindamál og ríkjasambandið, Lagastofnun Háskóla Íslands 2014.

Stefán Már Stefánsson, Evrópuréttur: Réttarreglur Evrópusambandsins, Lagastofnun Háskóla Íslands 2020.

Dómaskrá

Dómar Evrópudómstólsins
Dómur í máli C-6/64, Costa gegn E.N.E.L., EU:C:1964:66.
Dómur í máli C-281/98, Anagonese v Cassa di Riparmio di Bolzano SpA, EU:C:2000:296.

Dómar EFTA-dómstólsins
Dómur í máli E-9/97, Erla María Sveinbjörnsdóttir, 10. desember 1998.

Íslenskir dómar
Hrd. 19. desember 1999 í máli nr. 236/1999.
Hrd. 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011.
Hrd. 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013.
Hrd. 17. apríl 2015 í máli nr. 228/2015.
Hrd. 9. maí 2022 í máli nr. 25/2022.

Danskir dómar
Hæstaréttarmál nr. 15/2014, 6. desember 2016.

Norskir dómar
Rt. 2005, bls. 597. 
HR-2016-407-U.

Eftirmálsgreinar

[1] 153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál.

[2] Rökstutt álit ESA í máli nr. 71655, dags. 30. september 2020.

[3] Sjá einkum 2. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi varðandi tilefni og nauðsyn áformaðrar lagasetningar (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[4] Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 436, sjá einnig bls. 394-395, og Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad and Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 636-637 og 641. 2. gr. lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS) m.v. (EØS-loven) (LOV-1992-11-27-109).

[5] Tekin er afstaða til stjórnskipulegs gildis frumvarpsákvæðisins í 4. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[6] Með EFTA-ríkjunum er átt við Ísland, Liechtenstein og Noreg.

[7] Stök grein bókunar 35 hljóðar svo á ensku: „For cases of possible conflicts between implemented EEA rules and other statutory provisions, the EFTA States undertake to introduce, if necessary, a statutory provision to the effect that EEA rules prevail in these cases.“

[8] Mál C-6/64, Flaminio Costa v E.N.E.L.

[9] Sjá t.d. Sigurður Líndal og Skúli Magnússon, Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðið. Megindrættir, bls. 71-72, Stefán Már Stefánsson, Evrópuréttur, bls. 159-164, Stefán Már Stefánsson, Evrópuréttur. Réttarreglur Evrópusambandsins, bls. 83-87, Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandsréttur. Lissabons-sáttmálinn með áherslu á fiski- og auðlindamál og ríkjasambandið, bls. 67-74, og Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Is the Primacy of EU Law Absolute or Relative? Explaining Primacy in Interlocking Legal Systems“.

[10] Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, bls. 102. Sjá einnig Marthe Kristene Fjeld Dystland, Fredrik Bøckman Finstad and Ida Sørebø, „Article 7: Binding effect and implementation of EU legal acts“, bls. 261. Hefur Davíð Þór nýlega orðað meginhugsunina svo: „Þessi regla um forgang ESB/EES-reglna er grundvallarregla í rétti sambandsins og byggir á þeirri einföldun hugsun að forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum.“ Davíð Þór Björgvinsson, „Fullveldi og forgangur EES-reglna“.

[11] Sama gilti um Finnland og Svíþjóð sem í upphafi tilheyrðu hópi EFTA-ríkjanna en gengu síðar í ESB, sjá Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, bls. 102.

[12] Sigurður Líndal og Skúli Magnússon, Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, bls. 174-175.

[13] Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, bls. 103, nánar tiltekið neðanmálsgrein 103.

[14] Sjá nánar umfjöllun í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi, m.a. í kafla 2.1 (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[15] 116. löggjafarþing – 1992 – 1. mál.

[16] Sjá m.a. kafla 2.1-2.3 og 2.6 í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[17] Marthe Kristene Fjeld Dystland, Fredrik Bøckman Finstad og Ida Sørebø, „Article 7: Binding effect and implementation of EU legal acts“, bls. 262-263; Margrét Einarsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir, „Iceland and the EEA“, bls. 31-32. Sjá nánar 2. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[18] Sjá t.d. Hrd. 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013. Sjá einnig umfjöllun um aðra dómaframkvæmd af þessum meiði í kafla 2.3 í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[19] 116. löggjafarþing – 1992 – 1. mál.

[20] Á það hefur jafnframt verið bent að það geti verið vandkvæðum bundið að túlka allar EES-reglur sem sérlög gagnvart öðrum lögum, t.d. fjórfrelsisreglurnar sem eru almennar í eðli sínu. Sjá Hafsteinn Dan Kristjánsson, „Europearettens indflydelse på nordisk forvaltningsret“, Ráðstefnurit Norræna lögfræðingamótsins 2017, bls. 169; Ragnhildur Helgadóttir og Margrét Einarsdóttir, „Iceland and the EEA“, bls. 29-32.

[21] Sjá m.a. umfjöllun í kafla 2.6 og 3. kafla í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022– 2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Í 3. kafla kemur fram að „[h]in almenna forsenduregla og 3. gr. laga nr. 2/1993 eins og hún hefur verið túlkuð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands [leysi] úr ósamræmi lagaákvæða í langflestum tilvikum“.   

[22] Sjá nánari umfjöllun um þennan fyrirvara í greinargerð með frumvarpinu, m.a. 4. kafla og athugasemdum við 1. gr. (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[23] Hér er m.a. vísað til grunnreglu einkamálaréttarfars um að stefnandi þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnis og nátengdrar reglu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að dómstólar verða ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli, sjá t.d. Hrd. 9. maí 2022 í máli nr. 25/2022.

[24] Í Hrd. 19. desember 1999 í máli nr. 236/1999 er komist svo að orði að „hafa [skuli] hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins komi ekkert fram sem leiða eigi til þess, að vikið verði frá því áliti“. Það fellur utan umfjöllunarefnis þessarar greinar að svara því að hvaða marki íslenskir dómstólar teljast bundnir af túlkun EFTA-dómstólsins á EES-reglu samkvæmt ráðgefandi áliti. Sjá m.a. Skúli Magnússon, „Hversu ráðgefandi eru ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins? – Hugleiðingar um „boðvald“ ráðgefandi álita”, bls. 317-330.

[25] Davíð Þór Björgvinsson hefur nefnt að tryggja megi forgang innleiddra EES-reglna „með almennri lagareglu sem tekur til allra EES-reglna sem komnar eru til framkvæmda eða með sérstökum reglum sem mæla fyrir um forgang í einstökum tilfellum, eða með lögskýringarreglu ef hún tryggir að EES-reglan gildi“. Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur, bls. 103, nánar tiltekið neðanmálsgrein 103. Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að fyrstnefnda leiðin verði farin til að tryggja fullnægjandi innleiðingu á bókun 35, þ.e. að lögfest verði almenn forgangsregla í EES-lögin þess efnis sem áður greinir. Sjá nánar umfjöllun í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi, m.a. í kafla 2.1 (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[26] Sjá dæmi um hið síðarnefnda varðandi regluna um frjálst flæði launþega, mál C-281/98, Anagonese v Cassa di Riparmio di Bolzano SpA.

[27] Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 435.

[28] Á þetta er bent í umsögn Arnaldar Hjartarsonar og Stefáns Más Stefánssonar um frumvarpið, dags. 5. mars 2023.

[29] Sjá einnig umsögn Arnaldar Hjartarsonar og Stefáns Más Stefánssonar um frumvarpið, dags. 5. mars 2023.

[30] Sjá einnig umfjöllun í 3. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[31] Tekið skal fram að fjórfrelsisreglurnar binda fyrst og fremst aðildarríkin/EFTA-ríkin. Sumar þeirra geta þó einnig bundið einkaaðila við ákveðnar aðstæður. Sjá dæmi um hið síðarnefnda varðandi regluna um frjálst flæði launþega, mál C-281/98 Anagonese v Cassa di Riparmio di Bolzano SpA, mgr. 36.

[32] Sjá t.d. Paul Craig og Crainne de Burca, EU Law. Text, Cases, and Materials, bls. 827, 849 og 875.

[33] Sjá einnig umfjöllun í 3. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi þar sem m.a. er dregin sú ályktun að fátítt sé að „tvær réttarreglur rekist á að öllu leyti“ (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[34] Sjá mál E-9/97, Erla María Sveinbjörnsdóttir, mgr. 63.

[35] Stefán Már Stefánsson, Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 173-175.

[36] Hrd. 19. desember 1999 í máli nr. 236/1999.

[37] Halvard Haukeland Fredriksen og Gjermund Mathisen, EØS-rett, bls. 436, sjá einnig bls. 394-395, og Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad and Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 636-637 og 641. 2. gr. lov om gjennomføring i norsk rett av hoveddelen i avtale om Det europeiske økonomiske samarbeidsområde (EØS) m.v. (EØS-loven) (LOV-1992-11-27-109). Sjá einnig almenna umfjöllun um norrænan rétt í kafla 2.4 í greinargerð með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál).

[38] Sjá til hliðsjónar svokallað Ajøs-mál í Danmörku (hæstaréttarmál nr. 15/2014, 6. desember 2016). Niðurstaða meiri hluta Hæstaréttar Danmerkur varð sú að óskráð meginregla um bann við mismunun á grundvelli aldurs væri „frístandandi“ þar sem hún væri ekki samofin stofnsáttmálum ESB og hefði þar með ekki verið innleidd með dönskum innleiðingarlögum vegna sáttmálanna.

[39] Um áhrif meginreglna EES-réttar á innlenda málsmeðferð m.a. fyrir dómstólum, sjá Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad and Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 522-529 (á bls. 523-525 er fjallað um jafngildis- og skilvirknisreglurnar í þessu sambandi). Sjá einnig bls. 636 í sama riti þar sem nefnt er að Hæstiréttur Noregs hafi í Rt. 2005, bls. 597 slegið því föstu að jafngildis- og skilvirknisreglurnar teljist innleiddar í norskan rétt, sbr. 1. gr. þarlendra EES-laga sem veitir meginmáli EES-samningsins lagagildi.

[40] Til samanburðar má benda á að í norskum rétti hefur verið byggt á meginreglum EES-réttar til fyllingar réttarfarslöggjöf þar í landi, sjá t.d. Rt. 2005, bls. 597.  

[41] Sjá t.d. ákvörðun Hæstaréttar Noregs í HR-2016-407-U (kæruleyfismál), en í henni var lagt til grundvallar að regla norskra réttarfarslaga sem fól í sér að stefnandi þurfti að setja málskostnaðartryggingu þar sem hann var ekki búsettur í Noregi, á meðan öðru máli gegndi um aðila búsetta í Noregi, fæli í sér mismunun sem færi í bága við 4. gr. EES-samningsins. Sjá einnig Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad and Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 523-524, þ.m.t. neðanmálsgrein 1813.

[42] Í dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins hafa margar þessara meginreglna verið leiddar af meginmáli EES-samningsins m.a. með vísun í trúnaðarskyldu 3. gr. hans, þar á meðal skaðabótaregla EES-réttar og reglan um samræmda túlkun EES-réttar, ásamt jafngildis- og skilvirknisreglunum. Sjá Finn Arnesen, Simen Hammersvik, Erling Hjelmeng, Olav Kolstad and Ole-Andreas Rognstad, Oversikt over EØS-retten, bls. 636 og dóma sem þar er vísað til.

[43] Hrd. 19. desember 1999 í máli nr. 236/1999.

[44] Sami skilningur var lagður í 2. gr. norsku EES-laganna þegar hún var sett 1992. Sjá Ot.prp. nr. 79, bls. 5.

[45] Ármann Snævarr, Almenn lögfræði, bls. 323.

[46] Sjá t.d. Hrd. 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011, sbr. einnig Hrd. 17. apríl 2015 í máli nr. 228/2015.  

[47] Um afturvirkni laga, sjá almenna umfjöllun í Hafsteinn Dan Kristjánsson, Að iðka lögfræði, bls. 52-55.

[48] Tekin er afstaða til stjórnskipulegs gildis frumvarpsákvæðisins í 4. kafla greinargerðar með fyrirliggjandi frumvarpi (153. löggjafarþing 2022–2023, þingskjal 1392 – 890. mál). Mat á stjórnskipulegu gildi ákvæðisins fellur utan efnissviðs þessarar greinar enda þarfnast það nánari umfjöllunar en hér verður við komið. Á hinn bóginn er fljótt á litið ekkert sem bendir til annars en að það rúmist almennt séð innan valdheimilda Alþingis samkvæmt stjórnarskrá að setja forgangsreglu á borð við þá sem lögð er til í frumvarpinu, enda lýtur hún einungis að innbyrðis samspili laga Alþingis að því marki sem þau rekast á, sem og stjórnvaldsfyrirmæla, eins og nánar er rökstutt í fyrrnefndum kafla greinargerðar með frumvarpinu.

Um beitingu 53. gr. EES-samningsins í íslenskum rétti: Dómur Hæstaréttar Íslands 7. janúar 2021 (42/2019)*

Eftir Peter Dalmay, aðstoðarmann hæstaréttardómara.

* Grein þessi hefur verið ritrýnd og staðist þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru samkvæmt reglum Vefrits Úlfljóts.

Efnisyfirlit

1 Inngangur

2 Almennt um beitingu íslenskra samkeppnisyfirvalda og dómstóla á 53. gr. EES-samningsins

3 Mál Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvik

3.1 Niðurstöður samkeppnisyfirvalda um beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins

3.2 Dómar héraðsdóms og Landsréttar

3.3 Dómur Hæstaréttar

4 Helstu ályktanir

5 Lokaorð

Heimildaskrá


Ágrip

Í greininni er fjallað um nýlegan dóm Hæstaréttar í máli nr. 42/2019 þar sem Norvik hf. var gert að greiða sekt vegna brota dótturfélags síns Byko ehf. gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Sjónum er beint að þeim þætti dómsins sem laut að broti gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins og þeim ályktunum sem draga má af forsendum hans um beitingu ákvæðisins í íslenskum rétti.

Abstract

This article discusses the recent finding of the Supreme Court of Iceland in case no. 42/2019 where Norvik hf. was ordered to pay a fine, on behalf of its subsidiary Byko ehf., for a violation of Article 10 of the Competition Act and Article 53(1) of the EEA Agreement. The article focuses on the part of the judgment where the Court found a violation of Article 53 of the EEA Agreement and the conclusions that can be drawn from its premises regarding the application of the provision under Icelandic law.


1 Inngangur

Með dómi Hæstaréttar Íslands 7. janúar 2021 (42/2019) var Norvik hf. gert að greiða 400 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota dótturfélags síns, Byko ehf., gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 („samkeppnislög“) og 1. mgr. 53. gr. Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið („EES-samningurinn“), sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Brot Byko voru einkum talin felast í reglubundnum og tíðum samskiptum við helsta keppinaut sinn, Húsasmiðjuna ehf., þar sem aflað var upplýsinga um verð á grófvörum og þeim upplýsingum miðlað áfram til stjórnenda fyrirtækjanna. Í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að samskiptin hafi falið í sér samstilltar aðgerðir sem höfðu að markmiði að raska samkeppni á milli fyrirtækjanna í andstöðu við fyrrgreind ákvæði samkeppnislaga og EES-samningsins. 

Í greininni verður fjallað um efnisatriði dómsins hvað varðar brot fyrirtækjanna gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins og þær ályktanir sem draga má af forsendum hans um beitingu ákvæðisins í íslenskum rétti. Í greininni verður hins vegar ekki fjallað um skýringu Hæstaréttar á öðrum efnisatriðum. 

2 Almennt um beitingu íslenskra samkeppnisyfirvalda og dómstóla á 53. gr. EES-samningsins[1]

Í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem lögfestur er hér á landi með lögum nr. 2/1993, er lagt bann við samningum milli fyrirtækja, ákvörðunum samtaka fyrirtækja og samstilltum aðgerðum sem geta haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað.[2] Ákvæði 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga er efnislega samhljóða umræddu ákvæði EES-samningsins enda sækir íslenska ákvæðið fyrirmynd sína til evrópsks samkeppnisréttar.[3]

Í 1. mgr. 21. gr. samkeppnislaga er mælt fyrir um að Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar skuli beita 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, eftir því sem kveðið er á um í lögum. Þá skulu Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála jafnframt tryggja að ákvæði 53. gr. EES-samningsins séu virt, með þeim takmörkunum sem leiðir af EES-samningnum sjálfum, sbr. 1. mgr. 25. gr. sömu laga.[4]

Þá segir í 1. mgr. 26. gr. samkeppnislaga að ef Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála eða dómstólar beita ákvæðum laganna vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skulu þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Í þessu sambandi segir í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum að ef áhrifa af aðgerðum fyrirtækja gætir bæði á Evrópska efnahagssvæðinu („EES“) og Íslandi, þannig að 53. gr. EES-samningsins og 10. gr. samkeppnislaga eigi við, skuli báðum bálkum beitt samtímis. Þar sem samhliða beiting getur haft í för með sér ólíkar niðurstöður er sérstaklega áréttað að ef ákvæðin stangast á skuli innlendur samkeppnisréttur víkja.[5] Af þessu er ljóst að EES-réttur takmarkar að vissu marki beitingu innlendra samkeppnislaga þegar ákvæði 53. gr. EES-samningsins á við.

3 Mál Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvik

Mál Samkeppniseftirlitsins gegn Byko og Norvik á rætur sínar að rekja til tilkynningar Múrbúðarinnar ehf. til Samkeppniseftirlitsins í október 2010 um tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar til þess að fá Múrbúðina til þess að taka þátt í ólögmætu samráði þeirra auk tilkynningar um ólögmætt verðsamráð fyrirtækjanna. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 var Norvik gert að greiða 650 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota Byko gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með því að hafa átt í ólögmætu samfelldu samráði með Húsasmiðjunni á markaði fyrir alhliða byggingarvörur á Íslandi. Húsasmiðjan hafði áður gert sátt um málið og viðurkennt brot gegn sömu ákvæðum.

3.1 Niðurstöður samkeppnisyfirvalda um beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins var eins og að framan greinir komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin hefðu meðal annars brotið gegn 53. gr. EES-samningsins. Í ákvörðuninni var vörumarkaður málsins skilgreindur sem alhliða sala á byggingarvörum. Þá var talið að líta mætti á landið heilt og óskipt sem landfræðilegan markað málsins og einnig á höfuðborgarsvæðið. Við meðferð málsins var hins vegar, til einföldunar, einungis stuðst við höfuðborgarsvæðið sem landfræðilegan markað þess enda höfðu atvik málsins mest áhrif þar. Í ljósi þessa dró stjórnvaldið þá ályktun að markaðurinn teldist verulegur hluti af EES[6] og vísaði því til stuðnings til tilkynningar Eftirlitsstofnunar EFTA („ESA“) um leiðbeiningar um hugtakið „áhrif á viðskipti“ eins og það er notað í 53. og 54. gr. EES-samningsins.[7] Til viðbótar tók stjórnvaldið mið af því að fyrirtækin í málinu voru í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins og að þau áhrif, sem stöfuðu af brotum þeirra, væru því til þess fallin að hindra núverandi og mögulega keppinauta frá öðrum EES-ríkjum í því að ná fótfestu á íslenska markaðnum. Af þessu var talið leiða, með hliðsjón af málsatvikum, að brotin hefðu verið til þess fallin að hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkja í skilningi 53. gr. EES-samningsins. Með vísan til sömu röksemda og lágu að baki niðurstöðu stjórnvaldsins um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga var því komist að þeirri niðurstöðu að Byko hefði einnig brotið gegn umræddu ákvæði EES-samningsins.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 var niðurstaða Samkeppniseftirlitsins staðfest um brot Byko gegn 10. gr. samkeppnislaga. Áfrýjunarnefndin taldi brotin hins vegar ekki jafn umfangsmikil og kerfisbundin og Samkeppniseftirlitið hafði lagt til grundvallar, auk þess taldi hún ósannað að brotið hafi verið gegn 53. gr. EES-samningsins. Nánar tiltekið taldi áfrýjunarnefndin að Samkeppniseftirlitinu hefði láðst að rökstyðja með fullnægjandi hætti á hvaða hátt brotin hefðu getað raskað samkeppni á EES í skilningi ákvæðisins. Að mati áfrýjunarnefndarinnar myndu slík brot þvert á móti leiða til þess að svigrúm gæti skapast til samkeppni með því að bjóða lægri verð. Þetta myndi leiða til þess að íslenskir neytendur gætu „beint viðskiptum sínum til annarra seljenda, hvort sem er með beinum pöntunum á byggingarvöruefni frá útlöndum, eða með því að erlendar byggingarvöruverslanir hefji starfsemi hér eins og raunin hefur orðið“. Í úrskurðinum kom loks fram að málið hafði ekki verið reifað frá því sjónarmiði að háttsemi fyrirtækjanna hefði haft áhrif á erlenda birgja eða aðra viðskiptamenn í EES-ríkjum heldur hafi rökstuðningurinn einungis verið almenns eðlis. Var því ekki fallist á að fyrirtækin hefðu gerst brotleg gegn 53. gr. EES-samningsins.

3.2 Dómar héraðsdóms og Landsréttar

Samkeppniseftirlitið skaut úrskurði áfrýjunarnefndarinnar til Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 41. gr. samkeppnislaga. Í millitíðinni féll dómur Hæstaréttar, H 360/2015, þar sem átta starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar voru sakfelldir fyrir brot gegn 10. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 41. gr. a samkeppnislaga. Héraðsdómur komst að annarri niðurstöðu en áfrýjunarnefndin hvað beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins varðar.[8] Í forsendum dómsins kom meðal annars fram að líta bæri svo á að orðalagið „geti haft áhrif“ milli EES-ríkja í skilningi ákvæðisins fæli í sér að samningurinn eða aðgerðin geti haft áhrif, bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna. Í ljósi þess að Hæstiréttur hafði í fyrrnefndu sakamáli skýrt 10. gr. samkeppnislaga til samræmis við ákvæði 53. gr. EES-samningsins væri engum vafa undirorpið að beita bæri ákvæðunum samhliða í málinu. 

Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar af hálfu fyrirtækjanna. Öfugt við héraðsdóm taldi Landsréttur að fyrirtækin hefðu ekki gerst brotleg gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins.[9] Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að hin landfræðilega takmörkun á markaði málsins kæmi ekki í veg fyrir að brotin gætu haft áhrif á EES þótt hún gæfi vísbendingu um að áhrifa brotanna gætti einkum á Íslandi. Að mati dómsins væri ljóst að aðgerðir Byko og Húsasmiðjunnar hefðu haft mikil áhrif á íslenskan markað en þegar á hinn bóginn væri litið til eðlis brotanna og markaðarins sem þau beindust að, bæri að taka undir með áfrýjunarnefnd  samkeppnismála  að Samkeppniseftirlitið hefði ekki sýnt fram á með nægjanlegum líkum að brotin gætu hafa haft áhrif á EES.

3.3 Dómur Hæstaréttar

Með dómi Hæstaréttar var Norvik gert að greiða 400 milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna brota dótturfélags síns Byko gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins.[10] Dómurinn áréttaði að skilyrðið um „áhrif á viðskipti“ í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins væri sjálfstætt skilyrði EES-réttar sem bæri að meta með sjálfstæðum hætti í hverju máli. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins bæri við mat á því, hvort umrætt skilyrði væri uppfyllt, að horfa til þess „hvort unnt sé að sjá fyrir með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum að samningar eða samstilltar aðgerðir fyrirtækja geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna“. Af þessu leiddi, að mati dómsins, að ekki þyrfti að sýna fram á að samningar eða samstilltar aðgerðir myndu hafa eða hefðu haft áhrif á viðskiptin heldur einungis að þau væru til þess fallin að hafa slík áhrif, að teknu tilliti til eðli samninganna og samstilltu aðgerðanna og þeirra vara sem þau taka til, stöðu fyrirtækjanna á viðeigandi markaði og annarra þátta sem gætu haft þýðingu við umrætt mat. Loks væri ljóst, með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, að samningar og samstilltar aðgerðir, sem tækju til eins EES-ríkis í heild, gætu venjulega haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkja.

Í ljósi framangreinds, og að teknu tilliti til atvika málsins, var það niðurstaða Hæstaréttar að beita bæri ákvæði 53. gr. EES-samningsins samhliða 10. gr. samkeppnislaga í málinu. Í fyrsta lagi væri hinn landfræðilegi markaður málsins landið heilt og óskipt. Í öðru lagi væru fyrirtækin í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins. Í þriðja lagi hafi aðgerðir fyrirtækjanna beinst að vörum sem hefðu að stórum hluta verið fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum og endurseldar hér á landi. Loks hefðu aðgerðirnar getað torveldað að mögulegir keppinautar frá öðrum ríkjum EES gætu náð fótfestu á mörkuðum málsins.

4 Helstu ályktanir

Bannákvæði 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins nær til samninga, ákvarðana samtaka fyrirtækja og samstilltra aðgerða sem geta haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna. Líkt og fram kemur í forsendum dóms Hæstaréttar ber að meta skilyrðið um áhrif á viðskipti með sjálfstæðum hætti í hverju máli fyrir sig. Við umrætt mat skiptir höfuðmáli hvort unnt sé að sjá fyrir með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum að viðkomandi aðgerð geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna. Aðalatriðið er með öðrum orðum hvort viðkomandi samningur eða aðgerð geti haft áhrif á mynstur viðskipta á EES. Er umrædd skýring Hæstaréttar á ákvæði 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins í samræmi við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins sem rétturinn vísar beinlínis til í þessu sambandi.[11]

Af forsendum dóms Hæstaréttar leiðir að til þess að regla EES-réttar um bann við ólögmætu samráði verði virk er ekki nauðsynlegt að unnt sé að sýna fram á tengsl milli hinnar meintu samkeppnisröskunar og þess að samningurinn geti haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna. Þá er heldur ekki nauðsynlegt að samningurinn eða aðgerðin muni hafa eða hafi haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna heldur nægir að samningurinn eða aðgerðin sé til þess fallin að hafa slík áhrif.[12] Í þessu sambandi ber að hafa í huga að skilyrði til beitingar á ákvæðinu geta verið uppfyllt án tillits til þess hvort áhrifin séu jákvæð eða neikvæð. Viðskiptamynstur getur þannig einnig orðið fyrir áhrifum þegar samningur eða aðgerð leiðir til aukinna viðskipta.[13] Af þessu leiðir að það er ekki nauðsynlegt að sýna fram á að samningurinn eða aðgerðin hafi í raun haft áhrif á viðskipti til þess að ákvæðið eigi við, heldur einungis að þau séu til þess fallin að hafa slík áhrif með hliðsjón af mismunandi þáttum, s.s. eðli samningsins eða aðgerðarinnar og þeirra vara sem þau taka til, stöðu viðkomandi fyrirtækja á markaði auk annarra þátta sem geta skipt máli við umrætt mat.

Samkvæmt framangreindu staðfesti Hæstiréttur réttilega að það er ekki skilyrði að viðskipti innan EES séu takmörkuð eða að þau dragist saman til þess að 53. gr. EES-samningsins geti átt við. Nægilegt sé að samningar eða samstilltar aðgerðir geti komið í veg fyrir samkeppni frá mögulegum keppinautum frá öðrum EES-ríkjum.

Til viðbótar framangreindu áréttaði Hæstiréttur að samningar og samstilltar aðgerðir sem taka til eins EES-ríkis í heild, líkt og í umræddu máli, geta venjulega talist hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna. Í þessu sambandi ber þó að taka fram að áhrifin þurfa að vera „merkjanleg“ og er almennt unnt að meta hvort svo sé með tilvísun til stöðu og mikilvægis hlutaðeigandi fyrirtækja á markaði.[14] Virðist Hæstiréttur hafa tekið mið af yfirburðastöðu fyrirtækjanna á öllu landinu og talið hana hafa skipt verulegu máli við mat á því hvort beita bæri ákvæði 53. gr. EES-samningsins í málinu.

5 Lokaorð

Dómur Hæstaréttar í framangreindu máli felur, að mati höfundar, í sér mikilvæga áréttingu á réttri beitingu á ákvæði 53. gr. EES-samningsins í íslenskum rétti og leiðsögn varðandi þau sjónarmið sem taka ber til skoðunar við mat á því hvort umrætt ákvæði EES-samningsins eigi við í einstökum tilfellum. Er hið síðarnefnda ekki síður mikilvægt þar sem vísbendingar eru um að fyrirtæki hér á landi kunni að skorta þekkingu á evrópskum samkeppnisreglum og beitingu þeirra á Íslandi.[15]


Heimildaskrá

Alþingistíðindi.

Ólafur Jóhannes Einarsson: „Beiting á 53. og 54. gr. EES-samningsins á Íslandi og túlkun

samkeppnislaga í ljósi EES-réttar“. Úlfljótur, 3. tbl. 2019, bls. 435-462.

Páll Hreinsson: „Samræmd EES-túlkun“. Tímarit lögfræðinga, 3. tbl. 2014, bls.

273-305.

Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Reykjavík 2000.


[1] Um heildstæða umfjöllun á beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins á Íslandi vísast til Ólafur Jóhannes Einarsson: „Beiting á 53. og 54. gr. EES-samningsins á Íslandi og túlkun samkeppnislaga í ljósi EES-réttar“, bls. 435-462.

[2] Samkeppnisreglur eru veigamikill hluti EES-samningsins og eru efnislega samhljóða samkeppnisreglum Evrópusambandsins („ESB“), sbr. Alþt. 2004-05, A-deild, þskj. 883 – 590. mál. Sjá til hliðsjónar Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 807. 

[3] Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2000 segir meðal annars: „Fyrirmynd ákvæðisins er sótt til 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og er framkvæmd Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, auk dómstóla EB og framkvæmdastjórnar EB, leiðbeinandi við túlkun ákvæðisins eftir því sem við á um markaðsaðstæður hér á landi“. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins byggist á 1. mgr. 101. gr. Sáttmálans um starfshætti ESB (e. the Treaty on the Functioning of the European Union). Af þessu leiðir að samkeppnisyfirvöld hafa ekki óbundnar hendur við túlkun þeirra jafnvel þegar um er að ræða samninga sem eingöngu hafa áhrif á viðskipti innan einstakra EES-ríkja, sbr. 3. gr. EES-samningsins og markmið EES-samningsins um einsleitni. Í þessu sambandi vísast jafnframt til 3. gr. laga nr. 2/1993 þar sem kveðið er á um þá skyldu að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggjast, sbr. til hliðsjónar Páll Hreinsson: „Samræmd EES-túlkun“, bls. 275-276.

[4] Umrædd ákvæði voru sett í kjölfar þess að reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004. Reglugerðin var síðan innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 811/2006. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að samkeppnislögunum segir um þetta meðal annars: „Innleiðing reglugerðarinnar hefur þær breytingar helstar í för með sér að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA-ríkjunum fá heimild til að beita ákvæðum 53. og 54. gr. EES- samningsins fullum fetum, en samkvæmt gildandi lögum hafa aðeins Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimild til að beita ákvæðunum, sbr. 56. gr. EES- samningsins. Nánari útfærsla á beitingu 53. og 54. gr. kemur fram í bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Á grundvelli þessarar breytingar verður íslenskum samkeppnisyfirvöldum heimilt og skylt að afgreiða ákveðin mál á grundvelli ákvæða 53. og 54. gr. EES-samningsins hér á landi. Tilgangurinn með því að skylda samkeppnisyfirvöld aðildarríkjanna til beitingar ákvæðanna er að tryggja samræmda málsmeðferð á öllum stigum máls.”

[5] Alþt. 2004-05, A-deild, þskj. 883 – 590. mál.

[6] Sjá kafla 18 í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015

[7] Birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins nr. 291, 30.11.2006, bls. 46 og EES viðbæti nr. 59, bls. 18. Leiðbeiningarnar eru byggðar á leiðbeiningum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem voru birtar í Stjórnartíðindum ESB nr. 101, 27.4.2004, bls. 81. Leiðbeiningarnar eru gefnar út í því skyni að viðhalda jafngildum samkeppnisskilyrðum og tryggja að samkeppnisreglum EES-samningsins sé beitt með sama hætti á öllu EES. Gerðin er ekki bindandi en hefur að geyma meginsjónarmið um túlkun Evrópudómstólsins á hugtakinu „áhrif á viðskipti“.

[8] Héraðsdómur Reykjavíkur, 16. maí 2018, E-550/2016.

[9] L 490/2018.

[10] Við meðferð málsins sendi ESA skriflegar athugasemdir til Hæstaréttar á grundvelli 2. mgr. 28. gr. samkeppnislaga auk þess sem stofnunin kom athugasemdum sínum á framfæri munnlega við flutning þess fyrir Hæstarétti. ESA hafði áður komið að sambærilegum skriflegum athugasemdum bæði við meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti.

[11] Í dómi Hæstaréttar er vísað til dóms Evrópudómstólsins 16. júlí 2015, ING Pensii, C-172/14, EU:C:2015:484. Vísast um þetta jafnframt til eftirfarandi dóma Evrópudómstólsins: dómur Evrópudómstólsins 23. nóvember 2006, Asnef-Equifax, C-238/05, EU:C:2006:734, mgr. 34; dómur Evrópudómstólsins 24. september 2009, Erste Group Bank o.fl., C-125/07, C-133/07, C-135/07 og C-137/07, EU:C:2009:576, mgr. 36; og dómur Evrópudómstólsins 11. júlí 2013, Ziegler, C-439/11 P, EU:C:2013:513, mgr. 92. 

[12] Sjá til hliðsjónar mgr. 26 í áðurnefndum leiðbeiningum ESA og þá dóma sem þar er vísað til.

[13] Sjá til hliðsjónar mgr. 34 í áðurnefndum leiðbeiningum ESA og þá dóma sem þar er vísað til.

[14] Til hliðsjónar um þetta vísast til áðurnefndra leiðbeininga ESA, mgr. 44 – 49.

[15] Sjá rit Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2020: „Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála“, bls. 20-21. Ritið er aðgengilegt hér: https://www.samkeppni.is/media/skyrslur/Thekking-og-vidhorf-stjornenda-islenskra-fyrirtaekja-til-samkeppnismala.pdf

Áhrif innleiðingar þriðja orkupakka ESB í íslenskan rétt

Eftir Rögnu Árnadóttur, lögfræðing og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar

Sækja pdf-útgáfu

Efnisyfirlit

1   Inngangur
2   Aðdragandi

2.1      Fyrsti orkupakkinn
2.2      Annar orkupakkinn

3   Þriðji orkupakkinn verður til
4   Helstu nýmæli þriðja orkupakkans

4.1      Aðgreining á eignarhaldi flutningskerfa og öðrum orkurekstri
4.2      Efling raforkueftirlits innan ríkjanna
4.3      Miðlæg samvinna og samræming
4.4      Áhrif ACER á Íslandi
4.5      Örstutt um sæstreng

5   Lokaorð
Heimildaskrá


Ágrip

Í greininni verður leitast við að varpa ljósi á þær meginbreytingar sem þriðji orkupakki ESB hefur í för með sér fyrir íslenskan rétt þegar og ef Ísland afléttir stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá árinu 2017 um að fella gerðir honum tengdar inn í EES-samninginn. Efni orkupakkans er sett í samhengi við áratuga þróun innri markaðarins fyrir raforku og einkenni hans, sem og sérstöðu raforku sem vöru. Farið er yfir helstu nýmæli orkupakkans og mögulegar breytingar á íslenskri löggjöf. Þær myndu einna helst lúta að raforkueftirliti Orkustofnunar. Einnig er fjallað um valdheimildir Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER) gagnvart eftirlitsyfirvöldum í aðildarríkjunum og ástæður þess að til beitingar þeirra mun ekki koma gagnvart Orkustofnun á meðan íslenskt raforkukerfi er ótengt kerfum annarra landa.

Abstract

This article highlights the main effects of the European Union’s third energy package on Icelandic energy legislation, if and when Iceland lifts its constitutional requirements regarding the EEA Joint Committee’s decision from 2017 to incorporate the energy package into the EEA agreement. Here, the content of the energy package is put in context with the development of the internal energy market and its characteristics. Main changes in the package are reviewed as well as possible changes in Icelandic legislation, which would mainly apply to the national regulator, Orkustofnun. The decision-making power of ACER is also described and why it wouldn’t apply to Iceland while its energy system is not connected to that of another country with an interconnector.


1   Inngangur

Í maí 2017 ákvað sameiginlega EES-nefndin að fella svonefndan þriðja orkupakka Evrópusambandsins inn í EES-samninginn.[1] EFTA-ríkin þrjú sem eiga aðild að EES – Ísland, Liechtenstein og Noregur – gerðu stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina og mun hún því ekki öðlast gildi fyrr en öll þrjú ríkin, Ísland, Liechtenstein og Noregur, hafa aflétt fyrirvaranum fyrir sitt leyti. Þjóðþing síðastnefndra tveggja ríkja hafa aflétt fyrirvaranum en það hefur Alþingi ekki gert. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir löggjafarþingið 2017-2018 kemur þó fram sú ráðagerð ríkisstjórnarinnar að leggja fram tillögu til þingsályktunar um staðfestingu fyrrgreindrar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, svo og frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum.[2] Þessi þingmál höfðu ekki verið lögð fram þegar þingfundum var frestað fyrir sumarhlé þann 13. júní 2018.

Umræða hefur skapast um efni þriðja orkupakkans, bæði á Íslandi og í Noregi. Einkum hefur verið deilt á valdheimildir Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði (e. Agency for the Cooperation of Energy Regulators, hér eftir skammstöfuð ACER). Er því fullt tilefni til að skoða þær heimildir nánar sem og meginefni þriðja orkupakkans og áhrifa innleiðingar hans í íslenskan rétt. Tekið skal fram að umfjöllunin í þessari grein takmarkast við löggjöf Evrópusambandsins á sviði raforku.

2   Aðdragandi

Evrópusambandið hefur unnið að sameiginlegri orkustefnu og innri markaði með raforku um áratuga skeið. Þegar á níunda áratug síðustu aldar skilgreindi Evrópusambandið raforku, og þjónustu henni tengda, eins og hverja aðra vöru og þjónustu innan sambandsins. Sérstaða raforku var þó viðurkennd og hindranir í því sambandi: Auk hinnar almennu áskorunar í Evrópusambandinu um efnahagslega og félagslega aðlögun kæmu hin sértæku álitaefni hvað varðar orkuöryggi og sérstöðu rafmagns sem þýðingarmikillar vöru.[3]

Grænbók um orkustefnu var gefin út árið 1995. Í henni kom fram að mikilvægt væri að koma á innri markaði fyrir orku með því að setja sameiginlegar reglur og fjarlægja hindranir. Markaðurinn lyti sömu lögmálum og innri markaður Evrópusambandsins og þannig tryggt að orka yrði aðgengileg notendum á sem hagkvæmastan hátt, hvort sem um væri að ræða einstaklinga eða fyrirtæki. Ýmis sjónarmið voru sett fram um mikilvægi og þýðingu orku fyrir sambandið í heild sem og innan aðildarríkjanna.[4]

2.1   Fyrsti orkupakkinn

Í framhaldinu samþykkti Evrópuþingið og ráðherraráð Evrópusambandsins nokkrar gerðir um orkumál, einkum varðandi raforku og jarðgas. Eru þær gjarnan kallaðar fyrsti orkupakki ESB. Meðal þeirra var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Með henni var komið á samkeppni í raforkuvinnslu og fyrstu skrefin stigin til að notendur gætu valið hjá hvaða fyrirtæki þeir keyptu rafmagn. Þá voru gerðar kröfur um aðskilnað samkeppnishluta frá sérleyfisrekstri, þ.e. bókhaldslegan aðskilnað raforkuvinnslu, raforkuflutnings og raforkudreifingar. Fyrrgreind tilskipun var innleidd í íslenskan rétt sjö árum síðar með setningu raforkulaga nr. 65/2003. Viðamikil vinna lá að baki þeim lagabreytingum sem rakti sig allt til ársins 1996.[5]

2.2   Annar orkupakkinn

Upp úr aldamótum fór fram endurskoðun og mat á reynslunni af fyrsta orkupakkanum. Leiddi það til samþykktar á öðrum orkupakka ESB. Meðal gerða þar var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku (hér eftir nefnd önnur raforkutilskipun ESB) og tók hún við af tilskipun 96/92/EB. Þar var mælt fyrir um opnun markaða og frekari aðskilnað samkeppnis- og einokunarþátta í rekstri raforkufyrirtækja, einkum rekstrarþátta dreifiveitna.[6] Var efni hennar meðal annars  innleitt í íslenskan rétt í II. og IV. kafla laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði nr. 58/2008.[7]

3   Þriðji orkupakkinn verður til

Í byrjun árs 2007 lagði framkvæmdastjórn ESB fram orðsendingu um orkustefnu fyrir Evrópu.[8] Lögð var áhersla á að styrkja áfram innri markað fyrir raforku og að gripið yrði til frekari aðgerða til að tryggja Evrópubúum sjálfbæra, örugga og samkeppnishæfa orku. Orkustefnan var jafnframt tengd 20-20-20 markmiðunum, þ.e. að árið 2020 skyldu endurnýjanlegir orkugjafar sjá ríkjunum fyrir a.m.k. 20% orkuþarfarinnar, orkunýtni skyldi aukin um 20% og losun gróðurhúsalofttegunda minnkuð um 20%.

Í framhaldinu, eða í september 2007, lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri löggjöf ásamt breytingum á gildandi löggjöf um innri markað fyrir raforku og jarðgas. Gerðirnar voru samþykktar árið 2009 og mynda þær þriðja orkupakka ESB. Um raforku er fjallað í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2009/713/EB frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, reglugerð 2009/714/EB frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og loks tilskipun 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku (hér eftir nefnd þriðja raforkutilskipun ESB), og kom hún í stað annarrar raforkutilskipunarinnar.

4   Helstu nýmæli þriðja orkupakkans

Helstu nýmæli þriðja orkupakkans lúta að frekari aðskilnaði milli flutningsaðila og annarrar orkutengdrar starfsemi. Einnig er mælt fyrir um aukið sjálfstæði raforkueftirlits innan ríkjanna, sem og samstarf þeirra og samhæfingu yfir landamæri.

4.1   Aðgreining á eignarhaldi flutningskerfa og öðrum orkurekstri

Gerð er krafa um aðgreiningu á eignarhaldi flutningskerfis og annarrar orkutengdrar starfsemi, sbr. ákvæði 9. gr. þriðju raforkutilskipunar ESB. Er hér gengið lengra en í fyrri orkupökkunum, sem mæltu fyrir um bókhaldslegan og rekstrarlegan aðskilnað, sbr. umfjöllun hér að framan. Markmiðið er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra milli vinnslu- og söluaðila annars vegar og flutningskerfisstjóra hins vegar.[9]

Flutningur raforku hér á landi er í höndum Landsnets hf. og eru eigendur þess vinnsluaðilar raforku. Slíkt eignarhald væri að öllu jöfnu ekki í samræmi við ákvæði þriðju raforkutilskipunarinnar. Ekki er þó nauðsynlegt að gera breytingar þar á í tilefni af innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt þar sem Íslandi var veitt undanþága frá þessu skilyrði tilskipunarinnar í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017. Þessi áskilnaður þriðja pakkans hefur því engin áhrif á Íslandi.

4.2   Efling raforkueftirlits innan ríkjanna

Þriðji orkupakkinn leggur áherslu á sjálfstæði eftirlitsaðila með raforkumarkaði. Tryggja skal áfram að eftirlitsaðili sé sjálfstæður gagnvart raforkufyrirtækjunum en einnig að hann sé lagalega aðgreindur og óháður öllum öðrum opinberum aðilum, sbr. 35. gr. þriðju raforkutilskipunarinnar. Þannig taki eftirlitsaðili m.a. ekki við beinum fyrirmælum frá neinni ríkisstofnun eða öðrum opinberum aðila, tryggt verði að hann geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir og hann hafi aðskildar árlegar fjárúthlutanir og að stjórnarmenn í stjórn eftirlitsaðila eða yfirstjórn séu skipaðir í fimm til sjö ára tímabil, sem heimilt sé að endurnýja einu sinni. Þessi aukna krafa um sjálfstæði kallar á breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun nr. 83/2003.

Eftirlit með aðilum á raforkumarkaði er hjá Orkustofnun og Samkeppniseftirlitinu. Leyfi Orkustofnunar þarf til að reisa og reka raforkuver og er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW, sbr. 4. gr. raforkulaga. Samkvæmt 24. gr. raforkulaga skal Orkustofnun hafa eftirlit með því að fyrirtæki, sem starfa samkvæmt raforkulögum, fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Fyrir Orkustofnun skal árlega leggja til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins og hefur stofnunin eftirlit með framkvæmd hennar, sbr. 9. gr. a og 9. gr. b raforkulaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 26/2015. Raunar er þar um að ræða innleiðingu á 22. gr. þriðju raforkutilskipunarinnar.[10]

Í 27. gr. raforkulaga kemur fram að samkeppnislög gildi um þá atvinnustarfsemi sem raforkulög nái til og að Samkeppniseftirlitið hafi eftirlit með því að fyrirtæki sem stundi vinnslu eða sölu á raforku niðurgreiði ekki þá starfsemi með sérleyfisstarfsemi sem fyrirtækið hefur einnig með höndum.

Þriðja raforkutilskipun ESB gerir nýjar kröfur um þau verkefni sem eftirlitsaðilum með raforku eru fengin. Í 37. gr. tilskipunarinnar eru talin upp verkefni og skyldur raforkueftirlits í hverju aðildarríki. Ef ákvæðið er borið saman við ákvæði 23. gr. annarrar raforkutilskipunar ESB má sjá að um auknar skyldur er að ræða. Verkefni tengd kerfisáætlun eru hluti af þessum nýju skyldum en þau eru eins og fyrr segir nú þegar komin til framkvæmda hér á landi með lögum nr. 26/2015 um breytingu á raforkulögum. Sem dæmi um önnur ný verkefni á sviði raforkueftirlits sem leiða af þriðju raforkutilskipuninni má nefna nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði raforku, athuganir á starfsemi raforkumarkaðar til að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að markaðurinn starfi eðlilega, yfirferð kerfisreglna (svonefndra netmála, sjá nánari umfjöllun í kafla 4.3 hér á eftir), þátttaka í ACER, nýjar heimildir til beitingar stjórnvaldsviðurlaga og eftirlit og skýrslugerð um raforkuöryggi.

Þá er í 4. tölul. fyrrgreindrar 37. gr. mælt fyrir um að aðildarríki skuli tryggja að eftirlitsyfirvöldum séu veittar heimildir sem geri þeim kleift að sinna tilteknum skyldum sínum á skilvirkan og skjótan hátt. Meðal annars ber aðildarríkjunum að tryggja að eftirlitsyfirvöld geti beitt skilvirkum viðurlögum á raforkufyrirtæki sem uppfylla ekki skyldur sínar samkvæmt tilskipuninni eða leggja til að valdbær dómstóll beiti slíkum viðurlögum. Til þeirra telst heimild til beitingar viðurlaga í formi sekta.

Fyrir liggja drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum. Gert er ráð fyrir ákvæði þess efnis að Orkustofnun sé sjálfstæð í ákvörðunum sínum þegar hún sinnir raforkueftirliti og geti ráðherra ekki gefið fyrirmæli um framkvæmd þess.[11] Áfram er þó gert ráð fyrir að stofnunin heyri að öðru leyti undir yfirstjórn ráðherra, sbr. 1. gr. laga um Orkustofnun og að ráðherra skipi orkumálastjóra til fimm ára í senn (þ.e. ekki eru sett takmörk fyrir hversu oft er unnt að endurskipa hann).

Þá er gert ráð fyrir nýjum heimildum til að áminna og leggja stjórnsýslusektir á fyrirtæki á orkumarkaði, hvort sem um er að ræða vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki eða dreifiveitur, vegna brota á tilteknum ákvæðum raforkulaga. Slíkar ákvarðanir yrðu ekki kæranlegar til ráðuneytisins heldur úrskurðarnefndar raforkumála.[12] Valdheimild sem þessi fæli í sér verulega breytingu á eftirlitsstarfsemi Orkustofnunar. Þótt Orkustofnun hafi heimild til að leggja á dagsektir skv. 2. gr. laga um Orkustofnun og 26. gr. raforkulaga varða brot á raforkulögum refsingu (en ekki stjórnsýsluviðurlögum) eins og viðurlagaákvæði 44. gr. laganna er úr garði gert. Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum hvort vegið hafi verið og metið hvort stjórnsýsluviðurlög veiti hér betra aðhald en refsingar. Með vísan til alls framangreinds sýnist vera tilefni til að skoða fyrirhugaðar breytingar á lögum um Orkustofnun og raforkulögum nánar vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum.

4.3   Miðlæg samvinna og samræming

Þá fjallar þriðji orkupakkinn um samstarf eftirlitsaðila og samræmingu yfir landamæri. Ekki verður séð að sá hluti orkupakkans hafi afgerandi áhrif hér á landi. Áður en fjallað verður nánar um efni hans verða til glöggvunar rekin örfá atriði um eðli raforkukerfa og atriði sem þarf að huga að við stýringu þeirra á innri markaði raforku í Evrópu:

1) Til að tryggja jafnvægi í raforkukerfi þarf stöðuga stýringu þannig að vinnsla raforku haldist í hendur við notkun á hverjum tíma. Kerfisstjórnandinn (oftast flutningsfyrirtæki á borð við Landsnet) leikur þar stórt hlutverk.

2) Kerfisstjórnunin, þ.e. stýring og rekstur flutningskerfisins, fer fram á grundvelli kerfisreglna, svokallaðra netmála. Um er að ræða skilmála sem varða rekstur og stýringu flutningskerfisins.[13] Annars vegar er um að ræða landsnetmála sem settir eru af kerfisstjóra (flutningsfyrirtæki) í aðildarríkjunum. Hins vegar eru settir samevrópskir netmálar á grundvelli heimilda í 6. gr. reglugerðar 2009/714/EB. Tilgangur þeirra er m.a. að stýra og veita skilvirkan aðgang að flutningsnetum yfir landamæri. Skilmálarnir eru samdir af Evrópuneti raforkuflutningskerfisstjóra (e. ENTSO-E) og ACER og gilda einkum fyrir samtengd flutningskerfi.

3) Aukin áhersla á endurnýjanlega orkugjafa felur í sér nýja áskorun við rekstur raforkukerfanna, einkum vegna þess að möguleikinn til nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa á borð við sólarorku og vindorku ræðst af náttúruöflunum og getur breyst hratt á meðan hægt er að kveikja og slökkva á vatnsorkuverum og orkuverum sem nota jarðefnaeldsneyti eftir þörfum. Ekki síst vegna þessa er þörf á sérstökum ráðstöfunum til að tryggja óhindrað flæði raforku, afhendingaröryggi og orkuöryggi, það er að segja á fleiri samræmdum aðgerðum og aukinni stýringu.

Minnt skal á í þessu samhengi að íslenskt raforkukerfi er ótengt öðrum. Því á framangreind lýsing á eðli og áskorunum samtengdra kerfa ekki við hér, og þar af leiðandi heldur ekki margt í hlutverki og starfsemi ACER eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

ACER var sett á fót til að stuðla að skilvirkri starfsemi innri markaðs ESB fyrir raforku (svo og jarðgas, en einungis verður fjallað um raforkuhlutann hér). Í því skyni skal stofnunin m.a. stuðla að samvinnu eftirlitsyfirvalda og að eftirlitsstarfsemi þeirra í samræmi við þriðju raforkutilskipunina sé samræmd á viðunandi hátt. Starfsemi stofnunarinnar beinist fyrst og fremst að landsbundnum eftirlitsyfirvöldum (sem á Íslandi er Orkustofnun) og kerfisstjórum (á borð við Landsnet).[14] ACER getur skv. 4. gr. reglugerðar 2009/713/EB beint álitum og tilmælum til þessara aðila, sem og til framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins.

ACER getur tekið ákvarðanir í ákveðnum tilvikum. Stofnunin skal samþykkja einstakar ákvarðanir um tæknileg málefni í samræmi við ákvæði þriðju raforkutilskipunarinnar. Þegar um er að ræða grunnvirki milli aðildarríkja getur hún tekið ákvarðanir í þeim málum sem falla innan reglusetningarvalds eftirlitsyfirvalda ríkjanna sem kunna að innihalda skilyrði og skilmála fyrir aðgangi og rekstraröryggi (netmála). Þetta er bundið við tilvik þegar viðkomandi eftirlitsyfirvöld hafa ekki getað komist að samkomulagi innan ákveðins tíma eða að fenginni sameiginlegri beiðni frá þessum yfirvöldum. [15] ACER getur því tekið bindandi ákvarðanir hvað varðar skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að og rekstraröryggi sæstrengs eða flutningslínu ef ágreiningur er á milli eftirlitsstofnana viðkomandi ríkja.[16] Ákvarðanir ACER beinast gegn landsbundnum eftirlitsyfirvöldum (en ekki einkaaðilum).

4.4   Áhrif ACER á Íslandi

Sökum þess að ACER getur tekið slíkar lagalega bindandi ákvarðanir gagnvart eftirlitsyfirvöldum aðildarríkja ESB hefur verið álitamál hvernig fara skuli um mál sem lúta að EFTA-ríkjunum. Stóðu samningaviðræður yfir milli EFTA-ríkjanna um þetta atriði í nokkur ár.[17] Var að lokum samið um að beiting valdheimilda gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrði í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).[18] Um aðkomu ESA að ACER er fjallað í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017. ESA tekur fullan þátt í starfi ACER, þó án atkvæðisréttar. Sama gildir um eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna.

Mikilvægt er að hafa í huga, þegar rætt er um valdheimildir ACER, sem eru í höndum ESA gagnvart EFTA-ríkjunum, að þessar stofnanir geta einungis tekið bindandi ákvarðanir þegar eftirlitsaðilar í ríkjunum geta ekki náð samkomulagi sín á milli um atriði er varða grunnvirki yfir landamæri. Með öðrum orðum þá gilda þær einungis þegar álitamálið lýtur að tengingum milli landa með flutningslínu eða sæstreng. Raforkukerfi Íslands er ekki tengt við önnur lönd. Af þeim sökum geta ekki komið upp þau tilvik að ESA beiti hinum bindandi valdheimildum gagnvart Orkustofnun.

Vísast til munu áhrif ACER hér á landi varða aðra þætti, til dæmis er lúta að því að stuðla að samræmdri framkvæmd á ýmsum efnisatriðum þriðja pakkans. Eins og áður segir hefur stofnunin heimildir til að beina tilmælum og álitum til eftirlitsyfirvalda. Hversu mikið mun kveða að slíkum aðgerðum á eftir að koma í ljós en minnt er á að ekki yrði um bindandi aðgerðir að ræða.

4.5   Örstutt um sæstreng

Íslensk stjórnvöld könnuðu fyrir nokkru kosti og galla þess að leggja sæstreng til Bretlands og skilaði verkefnisstjórn, skipuð af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skýrslu árið 2016.[19] Jafnframt skilaði verkefnisstjórnin skýrslu um viðræður við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands.[20] Ekki gefst tækifæri til að fjalla ítarlega um þetta mál hér en lítið hefur gerst í því undanfarin ár. Hér skal undirstrikað að lagning sæstrengs er á endanum háð vilja íslenskra og breskra stjórnvalda. Auk stjórnvalda hefur Alþingi fjallað um málið og myndi væntanlega gera það að nýju ef hreyfing kæmist á það. Í öllu falli væri ráðlegt, ef ekki nauðsynlegt, að setja lagaramma um sölu rafmagns um sæstreng þar sem fjallað væri um skilyrði leyfisveitinga, eignarhald og fleira. Valdheimildum ACER (ESA í tilviki Íslands) hefur þegar verið lýst en þær lúta á engan hátt að þeirri ákvörðun hvort leggja eigi sæstreng að ekki.

5   Lokaorð

Þegar litið er yfir þróun orkulöggjafar Evrópusambandsins, eins og hún kemur fyrir sjónir í fyrsta og öðrum orkupakkanum, er rauði þráðurinn sá að setja á fót innri markað fyrir raforku og auka þannig samkeppni og tækifæri til fjárfestinga í starfsemi sem áður var njörvuð niður í einokunarumhverfi og ríkisrekstri. Var sú löggjöf ESB innleidd í íslenskan rétt af yfirlögðu ráði að undangenginni áralangri vinnu og greiningum. Segja má að þriðji pakkinn sé rökrétt framhald af fyrri lagasetningu ESB en þar eru þó nýmæli sem lúta að auknu eftirliti með rafmagnsmörkuðum í aðildarríkjunum og samhæfingu þess. Eðlilegt og nauðsynlegt er að fara vel yfir efni og áhrif þessa.

Mikil umræða hefur verið um valdheimildir ACER, enda nýlunda að miðlæg stofnun Evrópusambandsins fái valdheimildir er lúta að raforkumarkaði. Hér ber að undirstrika nokkur atriði: Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER verða í höndum ESA. Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa. Íslenskt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng. Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins.

Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði stofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits. Nærtækara væri að ræða hvernig æskilegt væri að útfæra þessa þætti í íslenskum rétti. Einnig væri rétt að greina betur áhrif samstarfs eftirlitsyfirvalda innan ACER og hvernig best væri að tryggja íslenska hagsmuni þar.


Heimildaskrá

Alþingistíðindi

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

Communication from the Commission to the European Council and the European Parliament – An energy policy for Europe, COM(2007) 1 final. Framkvæmdarstjórn ESB, Brussel 2007.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum, og lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðlagaákvæði), mál nr. S-16/2018. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 13. mars 2018.

For a European Union Energy Policy. Green Paper (presented by the Commission), COM(94) 659 final. Framkvæmdastjórn ESB, Brussel 1995.

Minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis dags. 12. apríl 2018, um okkur atriði tengd upptöku þriðja orkupakka ESB inn í EES-samninginn. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavík 2017.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/713/EB.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/714/EB.

Skýrsla verkefnisstjórnar sæstrengs til iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Reykjavík 2016.

Skýrsla verkefnisstjórnar sæstrengs vegna viðræðna við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Reykjavík 2016.

The Internal Energy Market (Commission Working Document), COM(88) 238 final. Framkvæmdarstjórn ESB, Brussel 1988.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB.

 


Eftirmálsgreinar

[1] Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

[2] Þingmálaskrá 148. löggjafarþings 2017-2018. Stjórnarráð Íslands, 15. desember 2017.

[3] The Internal Energy Market (Commission Working Document), COM(88) 238 final, Brussels 2.5.1988, bls. 7.

[4] For a European Union Energy Policy. Green Paper (presented by the Commission), COM(94) 659 final, Brussels 23.2.1995, bls. 4-5.

[5] Frumvarp til raforkulaga, þskj. 700, 462. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: https://www.althingi.is/altext/128/s/0700.html. [Sótt á vefinn 8.7.2018.]

[6] Sjá 2. kafla athugasemda við tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, þskj. 967, 648. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/133/s/0967.html. [Sótt á vefinn 8.7.2018.]

[7] Lagabreytingar um opnun markaða höfðu þegar verið samþykktar, sjá bráðabirgðaákvæði IV í raforkulögum nr. 65/2003.

[8] Communication from the Commission to the European Council and the European Parliament – An energy policy for Europe, COM(2007) 1 final, Brussels 10.1.2007.

[9] Sjá 11. og 12. tölul. aðfararorða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB.

[10] Sjá kafla 2.1. í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 26/2015, þskj. 372, 305. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/144/s/0372.html. [Sótt á vefinn 8.7.2018.]

[11] Norðmenn töldu að nauðsynlegt væri að skilja að þessa starfsemi frá öðrum þáttum Norges vassdrags- og energidirektorat (NVE) og fela nýrri einingu, Reguleringsmyndigheten for energi (RME), umrædd verkefni, sjá t.d. ákvæði § 2-3 um eftirlitsstofnun og áfrýjunarnefnd (n. Reguleringsmyndighed og klagenemnd) í 2. kafla laga um breytingar á orkulögum nr. 50 frá 29. júní 1990 (n. Endringslov til energiloven (tredje energimarkedspakke), nr. 21 frá 25. maí 2018.

[12] Drög að frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, með síðari breytingum, og lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðlagaákvæði), mál nr. S-16/2018. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 13. mars 2018.

[13] Sjá t.d. skýringar á netmálum í 2. kafla almennra athugasemda í frumvarpi til laga nr. 24/2018 um breytingu á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets (ýmsar breytingar), þskj. 184, 115. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/148/s/0184.html. [Sótt á vefinn 8.7.2018.]

[14] Sjá 7.-14. lið aðfararorða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/713/EB.

[15] Sjá 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/713/EB, sbr. og 7.-9. gr.

[16] Sjá a-lið 1. tölul. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/713/EB.

[17] Skýrsla Gunnars Braga Sveinssonar um utanríkis- og alþjóðamál, þskj. 1009, 611. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/145/s/1009.pdf, bls. 38-39. [Sótt á vefinn 8.7.2018.]

[18] Minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis dags. 12. apríl 2018, um okkur atriði tengd upptöku þriðja orkupakka ESB inn í EES-samninginn. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 17. apríl 2017.

[19] Skýrsla verkefnisstjórnar sæstrengs til iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Skýrslan er birt á vefslóðinni: https://www.stjornarradid.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/Acrobat/Skyrsla-verkefnisstjornar-saestrengs6juli2016-LOKAEINTAK.pdf

[20] Skýrsla verkefnisstjórnar sæstrengs vegna viðræðna við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands. Skýrslan er birt á vefslóðinni: https://www.stjornarradid.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/Acrobat/Skyrsla-verkefnisstjornar-vegna-vidraedna-vid-Breta6juliLOKA.pdf

Skuldajöfnuður að EES-rétti – Rökstutt álit ESA 7. febrúar 2018

Eftir Stefán A. Svensson, hrl., LL.M

Ágrip

Í greininni er gerð grein fyrir rökstuddu áliti ESA 7. febrúar 2018 um ætlaða vanrækslu íslenska ríkisins á innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana, í tengslum við reglur um skuldajöfnuð, þ.á m. dómaframkvæmd Hæstaréttar sem liggur því til grundvallar og mögulegum lögfylgjum sem af því geta leitt.

Abstract

This article outlines the EFTA Surveillance Authority’s (ESA) reasoned opinion of 7 February 2018 regarding Iceland’s purported failure to adequately implement Directive 2001/24/EC of the European Parliament and the Council of 4 April 2001 on the reorganisation and winding-up of credit institutions in relation to rules on set-off. The judgments of the Supreme Court of Iceland which underlie the reasoned opinion are considered, as well as the potential legal consequences of the reasoned opinion.

  1. Inngangur

Þann 7. febrúar sl. birti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) rökstutt álit þar sem niðurstaðan var sú að íslensk stjórnvöld hefðu ekki innleitt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana með fullnægjandi hætti, fyrst og fremst í tengslum við reglur um skuldajöfnuð.[1]

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar skal lánastofnun slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem í gildi er í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í tilskipuninni.[2] [3]

Athugasemdir ESA taka meðal annars til ákvæðis 23. gr. tilskipunarinnar um rétt til skuldajöfnuðar, en ákvæðið hljóðar svo:

  1. Samþykkt endurskipulagningarráðstafana eða það að slitameðferð hefur hafist skal ekki hafa áhrif á rétt lánardrottna til að krefjast skuldajöfnunar krafna sinna gegn kröfum lánastofnunarinnar þegar slík skuldajöfnun er heimiluð í lögum sem gilda um kröfu lánastofnunarinnar.
  2. Ákvæði 1. mgr. skal ekki koma í veg fyrir aðgerðir vegna ógildingar, ógildanleika eða skorts á réttarvernd sem mælt er fyrir um í l-lið 2. mgr. 10. gr.

Hvað viðvíkur efni 23. gr. tilskipunarinnar þá segir meðal annars í áliti ESA:

This means that if the credit institution’s claim is regulated by another law than Icelandic law, the creditor of that institution shall have a right to demand set-off, even if set-off is not permitted under Icelandic law, provided it is permitted by the law applicable to the claim (and not otherwise voided etc. under the provisions foreseen in Articles 10(2)(l), subject always to the limitation in Article 30(1): see paragraph 2 of Article 23).

Samkvæmt þessu felst í 23. gr. tilskipunarinnar að réttur gagnaðila til skuldajöfnuðar við kröfu fjármálafyrirtækis í slitum, skal fara eftir lögum þess lands sem um kröfu fjármálafyrirtækisins í slitum gilda. Er þetta undantekning frá meginreglunni sem birtist í 10. gr. tilskipunarinnar, þ.e. að um slit fari eftir lögum og reglum heimaríkis.[4] Þessi undantekning takmarkar þó ekki rétt fjármálafyrirtækis í slitum til að grípa til rifunarráðstafana og viðlíkra réttarúrræða eftir lögum heimaríkis í samræmi við l. lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar, en að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar gildir 10. gr. hennar ekki ef ráðstöfun sú sem riftun (eða t.d. ógilding) beinist að lýtur lögum annars ríkis og ráðstöfunin væri óhnekkjanleg samkvæmt lögum hins sama ríkis.[5] [6]

Með öðrum orðum, í 10., 23. og 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar felst, (i) að réttur gagnaðila fjármálafyrirtækis í slitum til skuldajöfnuðar skal lúta lögum þess lands sem um aðalkröfuna (eða ráðstöfunina sem hún er sprottin af) gilda (þ.e. lögum þess lands sem krafa fjármálafyrirtækis í slitum á hendur gagnaðila lýtur), (ii) án þess þó að slíkt takmarki möguleika fjármálafyrirtækis í slitum á að hnekkja skuldajöfnuðinum eftir lögum heimaríkis síns, svo sem með riftun á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða ógildingu samkvæmt lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en að því gættu (iii) að ráðstöfunin væri ekki óhnekkjanleg samkvæmt lögum þess lands sem hún laut.[7] [8] Svo dæmi sé tekið, ef fjármálafyrirtæki er í slitum eftir lögum lands A, en á kröfu á hendur gagnaðila sem lýtur lögum lands B, þá fer réttur gagnaðila til að skuldajafna kröfu sem hann á gagnvart fjármálafyrirtækinu í slitum eftir lögum lands B (þótt óheimilt væri samkvæmt lögum lands A). Fjármálafyrirtækið í slitum getur hins vegar reynt að hnekkja þeirri ráðstöfun eftir lögum lands A, nema ráðstöfunin sé óhnekkjanleg eftir lögum lands B. 

Í áliti ESA er jafnframt vísað til 25. gr. tilskipunarinnar þar sem segir:

Greiðslujöfnunarsamningar skulu falla einvörðungu undir lög sem gilda um slíka samninga.[9]

Hvað viðvíkur efni 25. gr. tilskipunarinnar þá segir meðal annars í áliti ESA:

It therefore follows from Article 25 of the Directive that, if the law chosen by the parties to the netting agreement as the governing law grants a broad right of netting, this right should be enforceable against a credit institution (and/or its liquidator), even though the credit institution undergoing winding-up proceedings is situated in a jurisdiction which provides for a more limited right of netting. Thus, the law of the contract applies, to the exclusion of any other potentially applicable legal system. This also follows from the use of “solely” in the text of Article 25 of the Directive.

  1. Íslensk lög og dómaframkvæmd

Í 104. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, kemur fram að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, nái sú heimild sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar fer að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í 1. mgr. hinnar síðastnefndu lagagreinar kemur fram að veiti dómstóll hér á landi lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skal sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðru aðildarríki. Þá segir í 2. mgr. að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum með þeim frávikum sem talin eru upp í a. til n. liðum ákvæðisins. Samkvæmt j. lið skulu samningar um skuldajöfnuð fara að lögum þess ríkis sem um samninginn gilda.

Í rökstuddu áliti ESA eru tveir hæstaréttardómar gerðir að sérstöku umtalsefni. Annars vegar Hrd. 28. október 2013 (552/2013) (Commerzbank AG gegn Kaupþingi hf.). Forsaga málsins var sú að aðilar þess gerðu með sér rammasamning um afleiðuviðskipti, svokallaðan ISDA samning, 7. janúar 2003 og áttu á grundvelli hans með sér ýmis afleiðuviðskipti. C gjaldfelldi þá samninga 9. október 2008 á grundvelli ákvæðis í samningnum og í kjölfar þess voru afleiðuviðskiptin gerð upp. Niðurstaða uppgjörs á þeim samningum var sú að K átti inni tiltekna fjárhæð hjá C. Samkvæmt gögnum málsins fékk C framselda kröfu á hendur K og lýsti bankinn þeirri kröfu við slit K 29. desember 2009. Krafðist C viðurkenningar á henni sem almennri kröfu og jafnframt skuldajafnaðar við fyrrgreinda kröfu K á hendur C. Í málinu var meðal annars á því byggt af hálfu C að samkvæmt áðurnefndum ISDA samningi aðila skyldu ensk lög um hann gilda, þ.m.t. kröfu K, og þar með um heimild til skuldajafnaðar. Vísaði C meðal annars í þessu sambandi til j. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 og viðeigandi ákvæða tilskipunarinnar sem getið hefur verið. Í dómi Hæstaréttar sagði:

 Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur mál þetta þrisvar áður komið til kasta Hæstaréttar. Í dómum réttarins í málum nr. 723/2012 og nr. 166/2013 hefur því verið slegið föstu að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gildi ákvæði laga nr. 21/1991, en ekki ensk lög. Verður sú niðurstaða lögð til grundvallar í máli þessu.

 Í Hrd. 19. desember 2012 (723/2012), á milli sömu málsaðila, hafði rétturinn meðal annars komist svo að orði, eftir að hafa vísað til áðurgreindra ákvæða 104. gr. og 99. gr. laga nr. 161/2002, þ.m.t. j. liðar 2. mgr. 99. gr.:

 Í fyrsta málslið 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 kemur á hinn bóginn fram að við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækisins og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur fyrirtækinu falli í gjalddaga. Samningsákvæði það um skuldajöfnuð sem sóknaraðili vísar til fjallar almennt um efnisleg skilyrði skuldajafnaðar í lögskiptum aðila og getur ekki haft áhrif á þær réttarreglur sem gilda um skuldajafnaðarrétt við slit fjármálafyrirtækis sem fram fara hér á landi. Af þessu leiðir að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki ensk lög. Beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns til þess að afla matsgerðar um efni enskra laga um skuldajafnaðarrétt hans við slitin er því bersýnilega um atriði sem ekki skiptir máli við úrlausn á ágreiningi aðila … 

Samkvæmt þessu taldi Hæstiréttur, að þrátt fyrir ákvæði 104. gr. laga nr. 161/2002 þess efnis að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, fari að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna (þ.á m. j. lið 2. mgr. 99. gr.), þá leiddi af meginreglu 1. mgr. 102. gr. sömu laga þess efnis að um slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækisins og kröfur á hendur því, að um rétt við slit K til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu K á hendur gagnkröfuhafa giltu ákvæði laga nr. 21/1991.[10] Ákvæði 1. mgr. 102. gr. virðist þannig, að þessu leyti, ganga framar reglu 104. gr. laganna.

Hins vegar vísar ESA til Hrd. 8. maí 2014 (120/2014) (De Nederlandsche Bank N.V. gegn LBI hf.). Hér var kærður úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna við slit L stöðu kröfu D, seðlabanka Hollands, í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og heimild til að skuldajafna kröfunni gegn innstæðu á reikningi L hjá D. Krafan var reist á innstæðu L á svokölluðum HAM-innlánsreikningi sem stofnaður var í tilefni af því að útibúi L í Hollandi var komið á fót. Vorið 2008 gerðu aðilar með sér samkomulag þar sem meðal annars var kveðið á um að skyldi L verða ófær um að greiða innstæður yfirtæki D rétt innstæðueigenda að því marki sem hann hefði greitt kröfur þeirra eftir þeim reglum sem um það giltu. Hóf L í kjölfarið að taka við innlánum á svonefnda Icesave reikninga í Hollandi. Í október 2008 tilkynnti L að bankanum væri ókleift að fullnægja skuldbindingum sínum gagnvart innstæðueigendum vegna þrenginga á lánsfjármörkuðum. Í kjölfarið stóð D þeim sem voru með Icesave reikninga í útibúi L í Hollandi skil á innstæðunum. Samhliða því fékk D framsal frá hverjum þeirra fyrir kröfum á hendur L. Þá millifærði D einnig innstæðu á HAM-innlánsreikningi L yfir á svonefndan DIA-reikning.  D lýsti síðan kröfu við slit L og hélt því meðal annars fram að sér væri heimilt að skuldajafna kröfu sinni á hendur L við kröfu hans vegna innstæðunnar hjá D. Þessu hafnaði Hæstiréttur hins vegar, meðal annars með svofelldum rökstuðningi, eftir að hafa vísað til ákvæða 99., 102. og 104. gr. laga nr. 161/2002 og 100. gr. laga nr. 21/1991.

 Af framansögðu leiðir að um skuldajöfnuð við slit fjármálafyrirtækis fer eftir samningi aðila en þegar honum sleppir gilda lög þess ríkis sem eiga við um samninginn. Það veltur því á þeim hvernig hann fer fram, en í þeim efnum er ýmist að lög ríkja geri ráð fyrir að kröfur falli niður sjálfkrafa þegar þær geta mæst eða að lýsa verði yfir skuldajöfnuði, sem getur þá haft áhrif með yfirlýsingunni eða verið afturvirkur frá því kröfur gátu mæst hvað greiðslutíma varðar. Frá slíkum almennum reglum er síðan vikið við ákveðnar aðstæður með því að þrengja eða rýmka rétt til skuldajafnaðar. Að því leyti sem hér hefur verið rakið fer um heimild sóknaraðila til að skuldajafna gagnvart innstæðu varnaraðila hjá honum eftir hollenskum lögum. Það breytir því þó ekki að slit varnaraðila fara eftir íslenskum lögum og því verður skuldajöfnuði gagnvart honum ekki lýst yfir við slitin nema fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, enda verður ekki talið að vikið hafi verið frá þeim reglum með 1. mgr. 104. gr., sbr. j. lið 2. mgr. 99. gr., laga nr. 161/2002. Ef víkja átti frá þeim reglum hefði þurft að koma ótvírætt fram þar sem slíkt hefði getað valdið því að kröfuhöfum væri mismunað við slitin eftir því hvaða reglur giltu um skuldajöfnuð, en jafnræði kröfuhafa er grundvallarregla við slit fjármálafyrirtækja á sama veg og við gjaldþrotaskipti. Verður með engu móti ráðið af lögskýringagögnum að slíkt hafi staðið til þegar j. liður 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 var lögfestur með lögum nr. 130/2004. 

Hæstiréttur vísar þannig til þess, að undantekningar frá reglum laga nr. 21/1991 um skilyrði skuldajafnaðar geti raskað jafnræði kröfuhafa sem teljist „grundvallarregla við slit fjármálafyrirtækja á sama veg og við gjaldþrotaskipti“ og það verði „með engu móti ráðið af lögskýringagögnum að slíkt hafi staðið til þegar j. liður 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 var lögfestur með lögum nr. 130/2004“.[11] Áherslan er því á meginreglur íslensks gjaldþrotaréttar, studd sérstökum rökum um jafnræði kröfuhafa. Virðast dómarnir að þessu leyti einnig til marks um vægi rótgróinna sjónarmiða á sviði lagatúlkunar að íslenskum rétti, jafnvel þótt slíkt kunni að leiða af sér niðurstöðu sem samrýmist ekki þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, svo sem að EES-rétti.[12]

Samkvæmt framansögðu er staðan að íslenskum rétti sú, miðað við afdráttarlausa dómaframkvæmd Hæstaréttar, að skuldajöfnuði verður ekki lýst yfir við slit fjármálafyrirtækis nema fullnægt sé skilyrðum laga nr. 21/1991, þ.á m. 100. gr. laganna, „enda verður ekki talið að vikið hafi verið frá þeim reglum með 1. mgr. 104. gr., sbr. j. lið 2. mgr. 99. gr., laga nr. 161/2002“. Gildir þannig einu þótt skuldajöfnuður hafi verið heimilaður gagnaðila fjármálafyrirtækis (gagnkröfuhafa) eftir lögum þess ríkis sem krafa fjármálafyrirtækis í slitum (aðalkröfuhafa) á hendur honum laut.

Af öllu framangreindu leiðir því, að gagnkröfuhafi (kröfuhafi við slit fjármálafyrirtækis) kann að fara á mis við skuldajöfnuð sem hann hefði að réttu lagi átt að njóta samkvæmt 23. gr. (og 25. gr.) tilskipunar nr. 2001/24/EB.

  1. Samræmi íslenskra laga við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum og úrræði ESA

Í áliti ESA kemur fram að framangreind afstaða þess efnis að skuldajöfnuði verður ekki lýst yfir við slit fjármálafyrirtækis nema fullnægt sé skilyrðum laga nr. 21/1991, og þar með án tillits til ákvæða 23. gr. og 25. gr. tilskipunarinnar, fullnægi ekki skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, þ.á m. um að túlka innlend lög til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.[13] Nánar tiltekið segir meðal annars:

As stated in its letter of formal notice, the Authority considers that Article 99(2)(j) of Act No. 161/2002, as interpreted by the Supreme Court in the light of Article 102 of Act No. 161/2002 and Article 100 of Act No. 21/1991 (i.e. to the effect that a provision in an agreement between parties stating that the agreement shall be governed by the law of another EEA State does not prevail over Icelandic insolvency rules), does not comply with Article 25 of the Directive (which requires that netting agreements are governed solely by the law of the contract that governs such agreements) or Article 23 of the Directive (containing a protection for set-off claims, subject to the relevant rules on voidability). 

 Consequently, it is the opinion of the Authority that Article 99(2)(j) of Act No. 161/2002, as interpreted by the Supreme Court of Iceland, does not adequately implement Article 23 or 25 of the Directive, since it does not ensure a derogation from the general principle that the law of the home EEA State shall apply, in order to secure that the creditors’ rights to set-off and netting are not undermined.

Segir síðan að „[p]ursuant to the second paragraph of Article 31 of the Agreement between the EFTA States on the Establishment of a Surveillance Authority and a Court of Justice, the EFTA Surveillance Authority requires Iceland to take the measures necessary to comply with this reasoned opinion within two months of its receipt“. Í 2. mgr. 31. gr. tilvísaðs samnings segir að „[e]f viðkomandi ríki breytir ekki í samræmi við álitið innan þess frests sem Eftirlitsstofnun EFTA setur getur hún vísað málinu til EFTA-dómstólsins“.

Með öðrum orðum, þá er unnt að höfða svokallað samningsbrotamál gegn íslenska ríkinu, geri íslenska ríkið ekki viðeigandi úrbætur. Niðurstaða slíks samningsbrotamáls getur verið að íslenska ríkið hafi vanrækt skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. EFTA- dómstóllinn hefur hins vegar enga heimild til að breyta lögum ríkja eða dæma ríki til að greiða sektir.[14]

  1. Þýðing alls framangreinds

Hvað sem framangreindu líður, þ.m.t. ef breytingar eru gerðar á innlendum lögum til samræmis við athugasemdir ESA, getur slíkt ekki haggað, með afturvirkum hætti a.m.k., þeim réttarreglum sem slit fjármálafyrirtækja lutu, þ.m.t. ef réttur til skuldajöfnunar er um garð genginn vegna fyrirmæla laga nr. 21/1991, sbr. einnig hér til hliðsjónar Hrd. 7. desember 2011 (614/2011), þar sem sagði meðal annars:

Að meginreglu verður nýjum lögum beitt um lögskipti sem undir þau falla þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, enda ræðst réttarstaða manna af lögum eins og þau eru hverju sinni. Þegar meta þarf hvort efni séu til að víkja frá þeirri meginreglu verður að gæta að því hvort réttarsamband, sem stofnað var til í gildistíð eldri laga, hafi verið fullmótað og komið í endanlegt horf þegar hin nýju lög tóku gildi.  Sé með nýjum lögum ekki hróflað við þeim þáttum í myndun réttarsambands eða réttarstöðu sem liðnir voru við gildistöku þeirra verða þau að móta þá þætti réttarsambandsins, sem varða tímann eftir það, þótt þau kunni að hrófla við þeirri réttarstöðu sem ella hefði verið uppi eftir eldri lögum.[15] [16]

Geti aðili á hinn bóginn sýnt fram á, að ætluð vanræksla íslenska ríkisins við að fullnægja samningsskuldbindingum sínum hafi valdið sér tjóni, svo sem að viðkomandi hafi að sönnu farið á mis við skuldajöfnuð við slit fjármálafyrirtækis sem hann hefði ellegar notið, kynni viðkomandi mögulega að geta sótt skaðabætur á hendur íslenska ríkinu að uppfylltum skilyrðum skaðabótaábyrgðar að EES-rétti og íslenskum rétti.[17]  Í því tilviki að landsréttur er ekki réttilega lagaður að ákvæðum tilskipunar, eins og krafist er í 7. gr. EES-samningsins, leiðir það af þessu samningsákvæði svo tilgangi þess verði náð að krefjast má skaðabóta að þremur skilyrðum fullnægðum, sbr. nánar EFTAD, mál nr. E-9/97 (Erla María Sveinbjörnsdóttir gegn íslenska ríkinu). Í fyrsta lagi verður að felast í tilskipuninni að aðilar öðlist tiltekin réttindi og ákvæði hennar verða að bera með sér hver þau réttindi eru. Í öðru lagi verður að vera um nægilega alvarlega vanrækslu á skuldbindingum ríkisins að ræða.[18] Í þriðja lagi verður að vera orsakasamband milli vanrækslu ríkisins á skuldbindingum sínum og þess tjóns sem viðkomandi verður fyrir. Þá hljóta sjónarmið á borð við tómlæti og fyrningu að geta komið til skoðunar.

Miðað við þá hagsmuni sem oft er um að tefla í málum sem þessum, kynnu bætur að hlaupa á verulegum fjárhæðum ef á bótaskyldu væri fallist á annað borð. Hver niðurstaðan hér verður, þ.m.t. hvort þeir sem farið hafa á mis við skuldajöfnuð hafi uppi kröfur gegn íslenska ríkinu, mun framtíðin leiða í ljós.

Heimildaskrá 

Davíð Þór Björgvinsson. EES-réttur og landsréttur. Reykjavík 2006.

Davíð Þór Björgvinsson. Lögskýringar. Reykjavík 2008.

Moss, Fletcher and Isaacs. The EU Regulation on Insolvency Proceedings. Oxford 2016.

Róbert R. Spanó. Túlkun lagaákvæða. Reykjavík 2007.

Sigurður Líndal, „Um lagaskil og afturvirkni laga“. Úlfljótur, 2006, 1. tbl.

Stefán Már Stefánsson. Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Reykjavík 2000.

Stefán Már Stefánsson. Íslenzkur gjaldþrotaréttur. Reykjavík 1978.

UNCITRAL. Legislative Guide on Insolvency Law. New York 2005.

Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason. Kröfuréttur – Þættir. Reykjavík 2014.

Viðar Már Matthíasson. Endurheimt verðmæta við gjaldþrot. Reykjavík 2001.

 Dómaskrá

Hrd. 15. maí 2003 (477/2002)

Hrd. 9. desember 2010 (79/2010)

Hrd. 7. desember 2011 (614/2011)

Hrd. 10. maí 2012 (459/2011)

Hrd. 19. desember 2012 (723/2012)

Hrd. 24. janúar 2013 (10/2013)

Hrd. 28. október 2013 (552/2013)

Hrd. 8. maí 2014 (120/2014)

Hrd. 2. október 2014 (92/2013)

Hrd. 17. apríl 2015 (231/2015)

Hrd. 13. maí 2015 (160/2015)

 

EFTAD, mál E-9/97

EFTAD, mál E-28/13

[1] Álitið er aðgengilegt á vefsíðu ESA, undir slóðinni http://www.eftasurv.int/da/DocumentDirectAction/outputDocument?docId=4155.

Álitið er sett fram með stoð í 31. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls þar sem fram kemur meðal annars að telji ESA að EFTA-ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum skal hún „leggja fram rökstutt álit sitt um málið eftir að hafa gefið viðkomandi ríki tækifæri til að gera grein fyrir máli sínu“.

[2] Í alþjóðlegum gjaldþrotarétti er oft rætt um þá lagaskilareglu, að um skiptameðferð fari eftir lögum þess ríkis þar sem hún hefst (lex fori concursus), og er henni meðal annars ætlað að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika við skiptameðferð. Umfjöllun um hana má meðal annars finna í UNCITRAL Legislative Guide on Insolvency Law, bls. 67 o.áfr., aðgengileg á vefsíðu UNCITRAL (United Nations Commission on International Trade Law), undir slóðinni https://www.uncitral.org/pdf/english/texts/insolven/05-80722_Ebook.pdf.

[3] Um markmið tilskipunarinnar segir meðal annars í aðfaraorðum hennar:

(6) Stjórnvöld og dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis skulu ein hafa vald til þess að ákveða og framkvæma endurskipulagningarráðstafanir sem kveðið er á um í gildandi lögum og venjum í því aðildarríki. Vegna erfiðleikanna samfara því að samræma lög og venjur aðildarríkjanna er nauðsynlegt að koma á gagnkvæmri viðurkenningu aðildarríkjanna á ráðstöfunum sem þau gera hvert og eitt til að koma lánastofnunum, sem það hefur veitt starfsleyfi, aftur í starfshæft ástand.

(16) Jöfn meðferð allra lánardrottna krefst þess að lánastofnun sé slitið í samræmi við meginreglurnar um einingu (principle of unity) og algildi (principle of universality), en þess er krafist samkvæmt þeim að stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis hafi einkalögsögu og að ákvarðanir þeirra séu virtar og geti haft þau áhrif sem þeim er ætlað að hafa samkvæmt lögum heimaðildarríkis, án formsatriða nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.

(23) Þó að mikilvægt sé að fylgja meginreglunni um að lög heimaaðildarríkis gildi um endurskipulagningarráðstafanir eða slitameðferð, bæði hvað varðar málsmeðferð og efnislega, er einnig nauðsynlegt að hafa í huga að þetta getur verið ósamrýmanlegt þeim reglum sem almennt gilda varðandi efnahagslega og fjárhagslega starfsemi lánastofnunarinnar sem um ræðir og útibúa hennar í öðrum aðildarríkjum. Í sumum tilvikum er tilvísun í lög annars aðildarríkis óhjákvæmilegt frávik frá þeirri meginreglu að lög heimaaðildarríkis skuli gilda.

(28) Lánardrottnar, sem hafa gert samninga við lánastofnun áður en endurskipulagningarráðstafanir voru samþykktar eða slitameðferð hófst, skulu njóta verndar gagnvart ákvæðum er varða ógildingu, ógildanleika eða skort á réttarvernd, sem mælt er fyrir um í lögum heimaaðildarríkis, ef sá sem hefur hag af viðskiptunum færir rök fyrir því að engin leið sé til andæfa þeirri aðgerð sem um ræðir í viðkomandi máli.

[4] 10. gr. tilskipunarinnar hljóðar:

  1. Lánastofnun skal slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem í gildi er í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.
  2. Lög heimaaðildarríkis skulu einkum ákvarða:
  3. a) hvaða eignir tilheyra búinu og meðferð eigna sem lánastofnunin hefur aflað eftir að slitameðferð hefst;
  4. b) heimild lánastofnunar og skiptastjóra hvors um sig;
  5. c) þær aðstæður þar sem beita má skuldajöfnun;
  6. d) áhrif slitameðferðar á gildandi samninga sem lánastofnunin er aðili að;
  7. e) áhrif slitameðferðar á málsmeðferð sem einstakir lánardrottnar hefja, að undanskildum yfirstandandi málaferlum, eins og kveðið er á um í 32. gr.;
  8. f) kröfur á hendur lánastofnuninni og meðferð þeirra krafna sem lýst er eftir að slitameðferð hefst;
  9. g) reglur sem gilda um kröfulýsingu, sannprófun og skráningu krafna;
  10. h) reglur sem gilda um skiptingu afraksturs af sölu eigna, forgangsröðun fjárkrafna og réttindi lánardrottna sem

hafa fengið skuldakröfum sínum fullnægt að hluta eftir að gjaldþrotaskipti hófust, með skírskotun til hlutaréttinda eða með skuldajöfnun;

  1. i) skilyrði og áhrif þess að gjaldþrotaskiptum sé lokið, einkum með nauðungarsamningum;
  2. j) réttindi lánardrottna eftir að slitameðferð er lokið;
  3. k) hver skuli bera kostnað og útgjöld sem til falla við slitameðferð;
  4. l) reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir, séu ógildir, ógildanlegir eða

skorti réttarvernd.

[5] Í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar segir:

Ákvæði 10. gr. skal ekki gilda um reglur er varða það hvort löggerningar, sem eru öllum lánardrottnum skaðlegir,

séu ógildir, ógildanlegir eða skorti réttarvernd, í þeim tilfellum þegar sá sem hefur hag af þessum löggerningum

leggur fram sannanir um að:

— gerningurinn, sem er skaðlegur öllum lánardrottnum, fellur undir lög aðildarríkis annars en heimaaðildarríkisins, og

— lögin bjóða engin úrræði til að véfengja gerninginn sem um ræðir.

[6] Með n. lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var ætlunin að innleiða l. lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar og 30. gr. hennar í íslenskan rétt, en ákvæðið hljóðar:

  1. Þrátt fyrir ákvæði d- og e-liðar er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt. Löggerningur verður þó ekki ógiltur ef sá sem hag hefur af því að slíkur löggerningur haldi gildi sínu leggur fram fullnægjandi sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að þar sé ekki að finna ógildingarreglu sem tekur til þess tilviks sem um ræðir.

Síðari málsliðurinn var felldur inn í lögin með lögum nr. 78/2011 um breyting á lögum nr. 161/2002, undir meðförum þingsins. Í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar sagði meðal annars:

Með frumvarpinu er einnig ætlunin að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna innleiðingar tilskipunar 2001/24/EB. Því eru í 1. gr. lagðar til breytingar á 99. gr. laganna. Hér er um að ræða reglur sem fjalla um réttaráhrif þess að slit á fjármálafyrirtæki hefjist, meðal annars um lagaval og undantekningar frá þeirri meginreglu að við slit og fjárhagslega endurskipulagningu fjármálafyrirtækis skuli lög heimaríkis þess gilda við tilteknar aðstæður. Í 2. mgr. 99. gr. laganna er kveðið á um að um réttarárhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækis gildi íslensk lög en í nokkrum stafliðum er mælt fyrir um frávik frá því. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að d-liður 2. mgr. 99. gr. laganna verði ítarlegri til að innleiða að fullu 21. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Í n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna er mælt fyrir um að í ákveðnum tilvikum sé heimilt að beita ákvæðum III. kafla samningalaga um ógilda löggerninga nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót við n-lið þess efnis að löggerning megi aðeins ógilda ef sá sem hefur hag af því að hann haldi gildi sínu leggi fram sönnun um að um löggerninginn eigi að gilda lög annars ríkis og að því ríki sé ekki að finna ógildingarreglu sem nái utan um viðkomandi tilvik. Meiri hlutinn tekur fram að hér er ekki átt við ógildingarreglur samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti. Um riftun við slit fjármálafyrirtækja gilda sem fyrr riftunarreglur þess kafla, sbr. einnig 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki.  Sjá nánar þskj. 1662, 139. lögþ. 2010–2011, bls. 5 (enn óbirt í A-deild Alþt.).

Orðalag ákvæðisins vísar þannig hvorki til riftunarreglna laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. né verður slíkri skýringu fundinn augljós staður í lögskýringargögnum, sbr. þau ummæli í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar þess efnis að „[í] n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna er mælt fyrir um að í ákveðnum tilvikum sé heimilt að beita ákvæðum III. kafla samningalaga um ógilda löggerninga nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt“ og að „[m]eiri hlutinn tekur fram að hér er ekki átt við ógildingarreglur samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti“. Á hinn bóginn verður á sama tíma ráðið að ætlunin er að fullnægja skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Í EFTAD, mál E-28/13 (LBI hf. gegn Merrill Lynch International Ltd.), sem vísað er meðal annars til í hinu rökstudda áliti ESA, var meðal annars leitað svara við því hvort orðalagið „ógildi, ógildanleiki eða skortur á réttarvernd“ löggerninga sem notað er í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar taki einungis til ógildingar samkvæmt samningarétti, eða hvort það nái einnig yfir riftun samkvæmt gjaldþrotaskiptarétti, á grundvelli reglna um undanskot eins og þeirra sem er að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991. Var niðurstaða dómstólsins sú að „orðalagið „ógildi, ógildanleiki eða skortur á réttarvernd“ löggerninga í 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar vísi einnig til riftunar samkvæmt gjaldþrotarétti á grundvelli reglna um undanskot eigna frá gjaldþrotaskiptum, eins og þeirra sem er að finna í XX. kafla íslenskra laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti“, sbr. efnisgrein 46 í hinu ráðgefandi áliti. Þegar málið kom síðan til kasta Hæstaréttar, sbr. Hrd. 17. apríl 2015 (231/2015), staðfesti Hæstiréttur forsendur héraðsdóms, þar sem sagði meðal annars:

Samkvæmt öllu framangreindu verður sú ályktun dregin af fyrirmælum 1. mgr. 104. gr., laga nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. 99. gr. og 4. mgr. 103. gr. sömu laga, að ákvæði íslenskra laga, þ.e. ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, skuli gilda um riftun ráðstafana fjármálafyrirtækis sem tekið er til slita samkvæmt XII. kafla laganna. Hins vegar verður sú ályktun einnig dregin af fyrrgreindum ákvæðum að þessar reglur íslenskra laga eigi að gilda með þeim takmörkunum sem greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna, enda sé talið að þær takmarkanir eigi við um riftun ráðstafana, en líkt og áður greinir grundvallast þær takmarkanir á ákvæðum tilskipunar nr. 2001/24/EB. Var lögum nr. 78/2011 þannig sérstaklega ætlað að taka af tvímæli um rétta innleiðingu 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar.

Af hálfu stefnanda hefur verið á það bent að í áliti meirihluta viðskiptanefndar Alþingis, við meðferð þess frumvarps sem varð að lögum nr. 78/2011, sé sérstaklega tekið fram að því ákvæði sem bætt var við n-lið 2. mgr. 99. gr. laganna, sé ekki ætlað að taka til riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991. Að mati dómsins verður að horfa til þess að almennt er viðurkennt að einhliða viðhorf stjórnvalda aðildarríkis geti ekki haft þýðingu við skýringu EES-reglna. Er þannig ljóst að ákveðinn skilningur löggjafans á reglum EES-réttar við innleiðingu þeirra í íslenskan rétt getur ekki ráðið úrslitum við skýringu þessara reglna. Við slíkar aðstæður kemur hins vegar til skoðunar hvort vilji löggjafans hafi beinlínis staðið til þess að brjóta gegn reglum EES-réttar ef annar skilningur yrði lagður til grundvallar hjá þeim stofnunum sem fara með endanlega túlkun á reglum EES-samningsins.

Að mati dómara verða þau ummæli í áliti meirihluta viðskiptanefndar, sem stefnandi hefur vísað til, ekki skýrð með svo viðurhlutamiklum hætti að reglur XX. laga nr. 21/1991 eigi að gilda um riftunarkröfur fjármálafyrirtækja samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 án tillits til þess hver teljist rétt skýring 1. mgr. 30. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB. Verður því að leggja til grundvallar að vilji löggjafans hafi allt að einu staðið til þess að með setningu laganna yrði kröfum EES-samningsins að þessu leyti fullnægt.

Samkvæmt framangreindu verður ekki á það fallist með stefnanda að íslensk lög séu svo afdráttarlaus að útilokað sé að þau verði skýrð til samræmis við 1. mgr. 30. gr. umræddrar tilskipunarinnar, eins og tilskipunin hefur verið túlkuð af EFTA-dómstólnum í téðum dómi.

[7] Um samband 10., 23. og 30. gr. tilskipunarinnar sjá Moss, Fletcher and Isaacs: The EU Regulation on Insolvency Proceedings, bls. 232 o.áfr.

[8] Í áliti ESA segir nánar tiltekið:

It follows from this Article [ákvæði 23], together with Articles 10 and 30(1), that where the law applicable to the credit institution’s claim permits set-off, such set-off may be demanded by creditors. Such a set-off is subject to home State rules on voidability etc (Article 10), unless the act which it is sought to avoid etc. is subject to the law of another EEA State than the home State, and under the law of that State, that act cannot be/can no longer be challenged (Article 30(1)).

[9] Sjá hér í þessu samhengi einnig 40. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þar sem segir:

Skriflegur samningur, einn eða fleiri, milli tveggja aðila um að skyldur þeirra samkvæmt afleiðu skuli jafnast hver á móti annarri, með skuldajöfnuði, við endurnýjun eða við vanefnd, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti, skal halda gildi sínu að fullu þrátt fyrir ákvæði 91. og 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

[10] Um skilyrði skuldajöfnuðar við gjaldþrot, sjá einkum Viðar Már Matthíasson: Endurheimt verðmæta við gjaldþrot, bls. 49 o.áfr. Um skuldajöfnuð við gjaldþrot sjá einnig rit Stefáns Más Stefánssonar: Íslenzkur gjaldþrotaréttur, bls. 117 o.áfr. Ítarlega umfjöllun um skuldajöfnuð almennt má finna í riti Þorgeirs Örlygssonar og Benedikts Bogasonar: Kröfuréttur – þættir, bls. 195 o.áfr. Á bls. 255 má meðal annars finna tilvísun til Hrd. 19. desember 2012 (723/2012) í samhengi við umfjöllun um skuldajöfnuð samkvæmt sérstöku samkomulagi.

[11] Um lögskýringu almennt að íslenskum rétti, þ.á m. vægi lögskýringargagna og þegar um undantekningar frá meginreglum er að ræða, sjá einkum Davíð Þór Björgvinsson: Lögskýringar og Róbert R. Spanó: Túlkun lagaákvæða.

[12] Samkvæmt þessu virðist Hæstiréttur, eins og á stóð, hvorki hafa talið efni til að skýra ákvæði 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til samræmis við 99. og 104. gr. laganna, né líta á síðastnefndu reglurnar sem sérreglur sem ganga skyldu framar reglu 1. mgr. 102 gr., sbr. hins vegar 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 35 við EES-samninginn, sbr. einnig í þessu samhengi til hliðsjónar Hrd. 15. maí 2003 (477/2002) þar sem sagði meðal annars:

Með 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið var meginmáli EES-samningsins veitt lagagildi hér á landi. Samkvæmt 3. gr. laganna skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja. Af athugasemdum með frumvarpi til laganna um þessa grein verður ráðið, að henni hafi verið ætlað að fullnægja skuldbindingu samningsaðila í bókun 35 við EES-samninginn, en þar segir meðal annars, að komi til árekstra á milli EES-reglna, sem komnar séu til framkvæmda, og annarra settra laga skuldbindi EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefji, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. Í athugasemdunum segir jafnframt, að í 3. gr. felist meðal annars, að innlend lög, sem eigi stoð í EES-samningnum, verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki, ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta sé nauðsynlegt til að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í bókun 35 sé og skýrlega tekið fram, að þessi skýringarregla skuli ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og sé 3. gr. við það miðuð.

Í þessu ljósi verður að telja, að ákvæði 2. mgr. 14. gr. EES-samningsins um bann við skattlagningu, sem er til þess fallin að vernda óbeint framleiðsluvörur eins samningsaðila gagnvart framleiðsluvörum annarra aðila samningsins, beri að skýra sem sérreglu um skattalega meðferð á innflutningi frá öðrum EES-ríkjum, er gangi framar eldra ákvæði áðurgildandi 6. tl. 14. gr. laga nr. 50/1988 um lægri virðisaukaskatt af sölu bóka á íslenskri tungu en annarra bóka. Eftir að EES-samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 2/1993 var því óheimilt að gera greinarmun á bókum á íslensku og öðrum tungum við álagningu virðisaukaskatts.

Sjá einnig í þessu samhengi næstu neðanmálsgrein.

[13] Um almenna umfjöllun varðandi túlkun landsréttar til samræmis við EES-rétt, sjá t.d. Davíð Þór Björgvinsson: EES-réttur og landsréttur. Um takmörk á því hversu langt verður gengið sjá t.d. Hrd. 9. desember 2010 (79/2010) þar sem sagði:

Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja. Slík lögskýring tekur eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking, sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga. Orð 10. gr. laga nr. 25/1991 um beina ábyrgð dreifingaraðila á skaðsemistjóni gagnvart tjónþola hafa ótvíræða merkingu og gefa ekkert svigrúm til að hliðra þeirra ábyrgð með skýringu samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993.

Sjá áþekkan rökstuðning í Hrd. 24. janúar 2013 (10/2013) og í Hrd. 13. maí 2015 (160/2015).

[14] Um samningsbrotamál sjá Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 1063 o.áfr., þ.m.t. um réttaráhrif á bls. 1070.

[15] Um almenna umfjöllun hér að lútandi sjá t.d. Sigurður Líndal: „Um lagaskil og afturvirkni laga“.

[16] Sjá einnig hér Hrd. 10. maí 2012 (459/2011) í svokölluðu Stapa-máli þar sem sagði meðal annars:

Við vanlýsingu kröfu stefnda féll hún niður ,,gagnvart búi“ áfrýjanda sem var til slitameðferðar. Slitastjórn ákvað að leita eftir nauðasamningi við lánardrottna eftir upphaf slitameðferðar. Um þær nauðasamningsumleitanir fór samkvæmt tilgreindum ákvæðum XXI. kafla laga nr. 21/1991 eins og mælt var fyrir um í 3. mgr. 103. gr. a. í lögum nr. 161/2002 og áréttað í skýringum með 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 44/2009. Regla 3. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 á því ekki við í málinu. Þegar leitað er nauðasamnings við lánardrottna samkvæmt XXI. kafla laga nr. 21/1991 er það gert vegna þrotabús eða slitameðferðar fjármálafyrirtækis. Takist nauðasamningur og verði hann staðfestur, eins og við á um áfrýjanda, heldur fjármálafyrirtækið áfram að vera til, en kröfur á hendur því og efndir þeirra breytast í samræmi við efni nauðasamnings. Samkvæmt þessu og með vísan til orðalags upphafsákvæðis 118. gr. laga nr. 21/1991 hefur krafa stefnda fallið niður vegna vanlýsingar við slitameðferð á áfrýjanda og hefur eftirfarandi nauðsamningur engin áhrif á þau lok kröfuréttindanna. Lokamálsliður 1. mgr. 152. gr. laga nr. 21/1991 rennir einnig stoðum undir þessa niðurstöðu.

[17] Um skaðabótaskyldu aðildarríkja EES-samningsins vegna ófullnægjandi innleiðingar afleiddrar löggjafar sjá t.d. Davíð Þór Björgvinsson: EES-réttur og landsréttur, bls. 196 o.áfr.

[18] Um þetta annað skilyrði bótaábyrgðar gefur að líta athyglisverða umfjöllun í Hrd. 2. október 2014 (92/2013), ásamt tilvísunum til dómaframkvæmdar EFTA-dómstólsins. Þar sagði nánar tiltekið:

Annað skilyrði bótaábyrgðar lýtur sem fyrr segir að því hvort brot á EES-rétti teljist nægilega alvarlegt. EFTA-dómstóllinn hefur í dómum sínum ítrekað bent á að almennt sé það í verkahring landsdómstóla að leggja mat á atvik máls og skera úr um hvort skilyrðum skaðabótaábyrgðar ríkis sé fullnægt, sbr. dóma hans 30. maí 2002 í máli nr. E-4/01 og 20. júní 2008 í máli nr. E-8/07. EFTA-dómstóllinn hefur eigi að síður lýst ákveðnum aðstæðum og sjónarmiðum sem rétt sé að landsdómstóllinn hafi hliðsjón af í því mati, sbr. dóm hans 10. desember 2010 í máli nr. E-2/10. Þar telur EFTA-dómstóllinn hafa þýðingu hvort ríkið hafi með bersýnilegum og alvarlegum hætti virt að vettugi þær takmarkanir sem valdheimildum þess séu settar. Við það mat skipti verulegu máli, hversu skýrt og nákvæmt það ákvæði er sem brotið er gegn, og hvert svigrúm það eftirlætur innlendum stjórnvöldum. Þá hafi það einnig verulega þýðingu hvort brotinu og því tjóni sem af hlaust hafi verið valdið af ásetningi eða misgáningi og hvort um er að ræða afsakanlegan misskilning á EES-reglum. Við matið beri auk þess að hafa hliðsjón af því hvort skýr dómaframkvæmd liggi fyrir um túlkun þeirrar reglu sem um ræðir.

Var skilyrðinu ekki talið fullnægt í þessu máli.

Breytt landslag á greiðsluþjónustumarkaði

Eftir Kolbrúnu Söru Másdóttur
meistaranema við lagadeild HÍ
og Thelmu Christel Kristjánsdóttur
BA-nema við lagadeild HÍ*

*Greinin er eftir laganema. Hún hefur staðist ritrýni samkvæmt ritrýnireglum tímaritsins og hefur verið samþykkt til birtingar af ritnefnd.

  1. Inngangur
  2. Ný tilskipun
  3. Víðtækara gildissvið
  4. Nýir aðilar á markaði
    1. Almennt
    2. Stofnsetningarréttur
    3. Ábyrgð á óheimilum færslum
  5. Tæknilegir staðlar
  6. Persónuvernd – styrkt sannvottun
  7. Lokaorð

Ágrip

Í þessari grein er fjallað um nýja tilskipun Evrópusambandsins nr. 2015/2366 sem gengur undir heitinu PSD II og mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á greiðsluþjónustumarkaðinn. Gert er grein fyrir áhrifum hennar á samkeppnisumhverfið, tækifærum og áskorunum fyrir gamla og nýja aðila á markaðnum, breytingum á gildissviði regluverksins og persónuvernd einstaklinga.

  1. Inngangur

Aðferðir við greiðslumiðlun hafa tekið hröðum breytingum á síðustu árum og orðið fjölbreyttari. Til dæmis má nefna að með tilkomu nýjunga frá fjártæknifyrirtækjum (e. fintech) hafa komið fram greiðslulausnir sem gera fólki kleift að greiða í gegnum farsíma og jafnvel með snertilausum greiðsluhringjum sem hafa verið markaðssettir.[1] Þær lausnir hafa þó aðallega byggt á hefðbundnum kortakerfum, þ.e. debet- og kreditkortum, en fjármálafyrirtæki eru í dag umsvifamestu greiðsluþjónustuveitendur hér á landi.[2] Af hálfu Evrópusambandsins (ESB) hefur verið leitast við að bregðast við þessari þróun með því að endurskoða tilskipun um greiðsluþjónustu sem íslensk löggjöf byggir á.[3] Hér verður fjallað um nýja tilskipun frá Evrópusambandinu nr. 2015/2366 um greiðsluþjónustu, sem aðildarríkjum sambandsins bar að innleiða í landslög fyrir 13. janúar síðastliðinn. Tilskipunin hefur þýðingu fyrir EES-samninginn en hún er til skoðunar hjá EES- EFTA ríkjunum áður en hún verður send til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Eftir að nefndin hefur tekið hana upp í EES-samninginn þarf að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt. Skoðuð verða áhrif hennar á samkeppnisumhverfið, tækifæri fyrir nýja aðila, auknar skyldur fjármálafyrirtækja og persónuvernd.

  1. Ný tilskipun

Regluverk um greiðsluþjónustu sem er í gildi hér á landi á rætur sínar að rekja til tilskipunar nr. 2007/64/EB (PSD I) sem var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 7. nóvember 2008. Ísland innleiddi svo tilskipunina á grundvelli 7. gr. EES-samningsins með lögum nr. 120/2011. [4] Frá því að PSD I tók gildi hafa miklar tækninýjungar komið fram er snúa að greiðsluþjónustu og hefur m.a. fjöldi rafrænna greiðslna aukist og nýjar tegundir af greiðsluþjónustu verið teknar í notkun á markaðnum. Þessar breytingar reyndu á gildandi regluverk og gerðu meðal annars að verkum að nýjar gerðir greiðsluþjónustu féllu ekki undir gildissvið PSD I. Þessar nýju áskoranir höfðu í för með sér lagalega óvissu, mögulegar öryggisáhættur og slakari neytendavernd á tilteknum sviðum.[5]

Þann 11. janúar 2012 gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út grænbókina ,,Green paper towards an integrated European market for card, internet and mobile payments”. Þar kom fram að margir kostir fælust í því að efla innri markaðinn í greiðsluþjónustu. Þar mætti fyrst nefna aukna samkeppni, í öðru lagi aukið val neytenda og gagnsærri markað, í þriðja lagi öflugri nýsköpun og að lokum aukið öryggi greiðslna og traust viðskiptavina.[6]

Til að bregðast við örri þróun í greiðsluþjónustu og efla hinn stafræna innri markað setti Evrópusambandið (ESB) nýja tilskipun nr. 2015/2366 þann 25. nóvember 2015. Aðildarríkjum Evrópusambandsins bar að innleiða hana í landslög fyrir 13. janúar 2018 og hefur hún gengið undir nafninu PSD II.[7] Markmið hinnar nýju tilskipunar er að fella nýjar tegundir greiðsluþjónustu undir regluverkið, gera löggjöfina skýrari og tryggja jafna framkvæmd innan Evrópusambandsins.[8]

Meðal úrræða tilskipunarinnar til að ná ofangreindum markmiðum er að banna viðbótargjöld þegar greitt er með korti. Í inngangsorðum tilskipunarinnar kemur fram að viðbótargjöld hafi verið uppspretta óvissu meðal neytenda og bannið hefur einnig verið talið stuðla að skilvirkum innri markaði. Til að nefna dæmi má ekki krefja neytanda um greiðslu 110 króna fyrir vöru sem kostar 100 krónur vegna þess að greitt er með korti, hvort sem er á netinu eða í verslun.[9] Tilskipunin kynnir auk þess til leiks nýja aðila inn á markaðinn og stefnir með því að efla neytendavernd og auka samkeppni, en nánar verður vikið að þeim í kafla 4.[10]

Aðildarríki ESB skulu hafa innleitt tilskipunina í landsrétt sinn fyrir 13. janúar 2018 og hefur hún því tekið gildi innan Evrópusambandsins. Tilskipunin fellur innan EES-samstarfsins og er sameiginlega EES-nefndin með tilskipunina til skoðunar.[11] Hún á því eftir að taka tilskipunina upp í EES-samninginn sem er undanfari þess að Íslandi beri að innleiða hana. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur skipað nefnd til að vinna frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni en ljóst er að þar sem um tilskipun er að ræða hafa yfirvöld val um form og aðferð við framkvæmdina.[12]

  1. Víðtækara gildissvið

Eins og áður kom fram er markmið PSD II tilskipunarinnar að víkka út gildissvið regluverksins um greiðsluþjónustu. Það má leiða af 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga um greiðsluþjónustu nr. 120/2011 (hér eftir ,,gþl.“), sem sett voru til innleiðingar á PSD I,[13] að þeir sem veita greiðsluþjónustu þurfa að vera innan aðildarríkis, hvort sem þeir eru einn eða fleiri. Aðildarríki er ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. gþl. Gildissvið núverandi laga er svo afmarkað enn frekar í 3. mgr. 1. gr. gþl. sem kveður á um að lögin gildi aðeins um greiðsluþjónustu veitta í evrum eða gjaldmiðli annars aðildarríkis, þar með talið íslensku krónunni.

Með PSD II verður breyting á þessu. Gildissvið regluverksins verður víkkað þar sem það mun ná til allra gjaldmiðla og jafnframt verður ekki lengur skilyrði að báðir greiðsluþjónustuveitendur séu innan Evrópska efnahagssvæðisins, heldur nægir að annar hvor þeirra sé þar staddur.[14] Að auki má nefna að fyrir utan fyrrgreinda rýmkun á gildissviði fellir PSD II einnig nýja aðila, svokallaða þriðju aðila, sem áður féllu ekki undir regluverk PSD I, undir regluverk tilskipunarinnar. [15]

PSD II lætur ekki þar við sitja, heldur þrengir einnig undantekningar frá gildissviði tilskipunarinnar sem finna mátti í PSD I, en ekki verður farið með tæmandi hætti yfir þær breytingar hér. Margar undantekningar haldast þó óbreyttar þar á meðal þær sem snúa að reiðufé, tékkum og víxlum.[16] Hins vegar þrengjast aðrar undantekningar, til dæmis þær sem snúa að fjarskiptafyrirtækjum og milligöngu umboðsmanns, en þær má finna í 2. og 12. tölul. 2. gr. núverandi gþl.[17]

  1. Nýir aðilar á markaði

4.1. Almennt

PSD II boðar komu tveggja nýrra aðila á markaðinn; greiðsluvirkjanda (e. payment initiation service providers, ,,PISP”) og upplýsingaþjónustuveitanda (e. account information service provider, ,,AISP”), sem í þessari grein verða saman nefndir þriðju aðilar (e. third party service providers, ,,TPPs”).

PSD II skilgreinir greiðsluvirkjanda sem þann er veitir þjónustu við greiðsluvirkjun og upplýsingaþjónustuveitanda sem þann er veitir upplýsingaþjónustu.[18]

Þjónusta við greiðsluvirkjun er skilgreind í 15. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar:

,,Service to initiate a payment order at the request of the payment service user with respect to a payment account held at another payment service provider”

Upplýsingaþjónusta er skilgreind í 16. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar:

,,Online service to provide consolidated information on one or more payment accounts held by the payment service user with either another payment service provider or with more than one payment service provider”.

Einn og sami aðilinn getur þó í raun verið bæði greiðsluvirkjandi og upplýsingaþjónustuveitandi. Greiðsluvirkjendur hafa aldrei umráð yfir fjármunum notanda heldur sjá þeir aðeins um að framkvæma greiðsluna. Ef greiðsluvirkjandi ætlar hins vegar að veita þjónustu þar sem hann hefur umráð yfir fjármunum þarf hann að afla sérstaks leyfis til þess. Í ljósi þess að þriðju aðilar hafa aldrei umráð yfir fjármunum notanda eru ekki gerðar neinar kröfur um eigið fé slíkra aðila heldur aðeins um að þeir hafi ábyrgðartryggingu.[19] Það eru því sett vægari skilyrði fyrir því að koma inn á markaðinn sem þriðji aðili en gilda um fyrirtæki sem taka við innlánum. Þau fyrirtæki sem taka við innlánum verða hér kölluð reikningsveitendur til aðgreiningar frá þriðju aðilum.

Ein af þeim stóru breytingum sem tilskipunin hefur í för með sér er að reikningsveitendur þurfa að veita greiðsluvirkjendum aðgang að reikningi notanda ef reikningur er aðgengilegur á netinu. Í því sambandi er engin þörf á samningi við reikningsveitanda svo lengi sem samþykki notanda er fyrir hendi.[20]

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að greiðsluþjónustur geta verið í margs konar myndum, til dæmis smáforritum, og geta því verið notendavænni en hinn hefðbundni heimabanki. Til einföldunar má sem dæmi nefna að einstaklingar, sem geyma fjármuni sína hjá banka, geta eftir innleiðingu PSD II notast við þjónustu greiðsluvirkjanda sem myndi sjá um að framkvæma greiðsluna. Aðilar sem eru í viðskiptum við fleiri en einn banka gætu að auki haft betri yfirsýn yfir fjármál sín með hjálp upplýsingaþjónustuveitanda sem gæti gert upplýsingarnar aðgengilegri fyrir einstaklinginn með því að safna þeim saman á einn stað.

Þriðju aðilar auka samkeppni á markaði, ekki aðeins að því leyti að fjöldi aðila á markaði eykst heldur koma að auki inn fleiri form greiðsluþjónustu sem neytendur geta valið úr.[21] Það eykur enn fremur á samkeppnina að greiðsluþjónustuveitendur verða nú að veita hinum nýju aðilum aðgang að upplýsingum um reikning notanda og þar á meðal um viðskiptasögu þeirra.[22] Þá er vert að hafa í huga að Google og aðrir tæknirisar hafa þróað forrit sem gætu talist vera þriðju aðilar þ.e. Google pay og Android pay. Það má ætla að slíkir tæknirisar séu reyndari í hagnýtingu persónuupplýsinga en viðskiptabankarnir og gætu því veitt bönkunum verðuga samkeppni. Ef horft er á þróunina á Íslandi í tengslum við fjártækni (e. fintech) þá hafa bankar almennt ekki þróað nýjar lausnir innan bankanna heldur kosið að vinna með þriðja aðila, fjártækniaðila.[23] Bankarnir gætu því einnig notið góðs af þeirri nýsköpun sem tilskipunin hvetur til.

4.2. Stofnsetningarréttur

Í 31. gr. EES-samningsins er kveðið á um stofnsetningarrétt (e. freedom of establishment) líkt og gert er í ESB. Stofnsetningarrétturinn á bæði við um einstaklinga og lögaðila.[24] Réttinn má greina í frumstofnsetningarrétt sem felst í því að hefja atvinnurekstur eða flytja rekstur frá einu ríki til annars og afleiddan stofnsetningarrétt sem felst í því að setja á fót dótturfélag, útibú eða umboðsskrifstofu í öðru aðildarríki.[25] Í samræmi við stofnsetningarréttinn nægir greiðsluþjónustu að fá leyfi í einu ríki þ.e. heimaríki (e. home member state) til að mega stunda greiðsluþjónustu innan allra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Til að koma í veg fyrir misnotkun er það þó gert að skilyrði að fyrirtæki stundi að minnsta kosti hluta starfsemi sinnar í heimaríki.[26] Það ríki sem starfsemin er flutt til er þá kallað gistiríki (e. host member state).[27] PSD II setur fleiri takmarkanir á stofnsetningarréttinn til dæmis tilkynningarskyldur á greiðsluþjónustufyrirtæki til heimaríkis.[28] Yfirvöld gistiríkis mega þar að auki krefjast þess að greiðsluþjónustufyrirtæki tilkynni þeim reglulega um hvers konar greiðsluþjónustu þau bjóði upp á innan yfirráðasvæðis þeirra. Gistiríki mega að auki skylda fyrirtækin til að setja á stofn svokallaðan aðaltengilið (e. central contact point) til að auðvelda upplýsingaflæði.[29]

4.3. Ábyrgð á óheimilum færslum

Þegar nýir aðilar koma inn á markaðinn skiptir miklu máli að skýrt sé hver ber ábyrgð þegar illa fer, þar sem kortasvik geta numið töluverðum upphæðum. Þrátt fyrir að upphæðir verði aldrei nákvæmar hefur verið nefnt að árið 2013 hafi kortasvik numið um 1,4 milljarði evra.[30] Greiðsla er talin óheimil þegar samþykki er ekki til staðar.[31]

Með PSD I setti ESB í fyrsta skipti bindandi reglur um ábyrgð í tilviki sviksamlegra nota á rafrænu greiðslutæki.[32] Almennt hvílir skylda til endurgreiðslu á greiðsluþjónustuveitanda greiðanda þegar greiðsla hefur ekki verið heimil. Í þeim tilvikum þegar greiðandi notar greiðsluvirkjanda þá skal reikningsveitandi endurgreiða tapið. Greiðsluvirkjandi þarf ekki að endurgreiða reikningsveitanda nema hann beri sjálfur ábyrgð á hinni óheimiluðu færslu.[33]

Ábyrgðin getur þó fallið á notanda þjónustu þegar hann hefur vanrækt skyldur sínar samkvæmt 69. gr. tilskipunarinnar með stórfelldu gáleysi (e. gross negligence) eða viðhaft sviksamlega háttsemi (e. acting fraudulently). Ef greiðsluþjónustufyrirtæki hefur ekki notast við styrkta sannvottun (e. strong customer authentication), sem nánar verður vikið að í kafla 6, ber notandi þó ekki ábyrgð þrátt fyrir stórfellt gáleysi heldur aðeins ef um svik er að ræða. Að lokum má nefna að skylda til endurgreiðslu fellur á móttakanda greiðslu eða greiðsluþjónustu hans þegar styrkt sannvottun er ekki móttekin með réttum hætti.[34]

Réttarstaða neytenda er auk þess styrkt með því að greiðsluþjónustu er almennt skylt að endurgreiða óheimila færslu innan dags nema í þeim tilvikum þegar sterkur grunur er á því að hin óheimila greiðsla stafi af sviksamlegri háttsemi notanda. Þetta var gert vegna þess hversu mismunandi greiðsluþjónustuveitendur túlkuðu skilyrði PSD I um að endurgreiða ,,immediately”.[35]

  1. Tæknilegir staðlar

Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (e. European banking authority, ,,EBA“) semji tæknilega eftirlitsstaðla (e. regulatory technical standards) til að útfæra nánar einstaka þætti tilskipunarinnar. EBA er meðal annars veitt heimild til að útfæra nánar reglur um eftirfarandi: Skilyrði og eftirlit með öryggisráðstöfunum,[36] ábyrgðartryggingar þriðju aðila,[37] samskipti milli eftirlitsaðila í mismunandi löndum[38] og þær kröfur sem gerðar eru til styrktrar sannvottunar.[39] EBA starfar á grundvelli reglugerðar nr. 1093/2010 og samkvæmt henni er áskilið að staðlarnir séu tæknilegir í eðli sínu en ekki stefnumótandi.[40] Arnaldur Hjartarson hefur þó bent á að í ljósi þess að tæknilegar ákvarðanir byggist með einum eða öðrum hætti á stefnumótandi hugmyndum sé ekki einfalt að skilja á milli stefnumótandi ákvarðana og tæknilegra ákvarðana. Það megi því líta á þessi ákvæði sem áréttingu á því að setning efnisréttar skuli að meginstefnu til vera í höndum löggjafa sambandsins en ekki einstakra stofnana. Efnissvið staðlanna skal því afmarkað í þeim efnisrétti sem heimilar lagasetninguna sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1093/2010. Ofangreindir staðlar eru þar með afmarkaðir í PSD II tilskipuninni. Framkvæmdastjórnin þarf að lokum að samþykkja staðlana en hún veitir samþykki sitt með ákvörðun eða setningu reglugerðar, þ.e. með framseldri reglugerð.[41]

Þeir staðlar sem framkvæmdastjórnin samþykkir og gefur út sem reglugerðir hafa því bein réttaráhrif innan aðildarríkja Evrópusambandsins sbr. 2. mgr. 288. gr. Sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SFE).[42] Ákvarðanir eru einnig bindandi innan Evrópusambandsins þ.e. til þeirra sem þeim er beint að, sbr. 4. mgr. 288. gr. SFE.[43] Gerðir (reglugerðir, tilskipanir og ákvarðanir) þurfa þó að hafa verið teknar upp í EES-samninginn til að öðlast gildi í EES-ríkjunum, þar með talið Íslandi. Auk þess þarf að innleiða þær í landsrétt á Íslandi, sbr. 7. gr. laga nr. 2/1993 og því hafa þær ekki bein réttaráhrif.[44]

  1. Persónuvernd – styrkt  sannvottun

Auk PSD II þá öðlast ný reglugerð um persónuvernd einnig gildi innan Evrópusambandsins árið 2018 (e. General Data Protection Regulation ,,GDPR‘‘).[45] Líkt og PSD II þá fellur reglugerðin innan EES-samstarfsins og er hún enn til skoðunar hjá sameiginlegu EES-nefndinni.[46] Ísland ber svo að innleiða hana á grundvelli 7. gr. EES-samningsins eftir að hún hefur verið tekin þar upp. Við könnun á persónuverndarskilyrðum PSD II er nauðsynlegt að hafa GDPR til hliðsjónar. Hvorug gerðin nefnir hina á nafn en þegar PSD II var samþykkt miðaði hún að því að fyrirrennari GDPR[47] myndi gilda við vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli PSD II.[48] Bæði GDPR og PSD II byggja á þeim markmiðum að neytendur hafi stjórn yfir upplýsingum sem varða þá og að viðkomandi upplýsingar séu varðveittar örugglega þrátt fyrir að PSD II opni á flæði upplýsinga en GDPR styrki rétt einstaklinga yfir upplýsingum sínum.

Þegar vinnsla persónuupplýsinga á sér stað á grundvelli PSD II ber að vísa í viðeigandi lagagrundvöll og tilgreina á nákvæman hátt tilgang vinnslunnar. Þar að auki þarf að grípa til viðeigandi öryggisráðstafana samkvæmt reglum um persónuvernd[49] sem og uppfylla grunnreglur um nauðsyn, meðalhóf, takmörkun vegna tilgangs og meðalhóf við geymslutíma upplýsinganna.[50]

Ein af þeim áhugaverðu nýjungum sem PSD II setur fram eru lagaskilyrði öryggisráðstafana og vottana, en þau voru að miklu leyti ekki í PSD I.[51] Með tilskipuninni verða öryggiskröfur hertar við framkvæmd rafrænna greiðslna og við vernd fjárhagslegra persónuupplýsinga.[52]

PSD II hefur þá stefnu að greiðsluþjónustur á rafrænu formi skuli ávallt veittar á öruggan hátt, með tækni sem getur sannreynt örugga vottun notandans og dregið úr hættu á svikum.[53] Greiðsluþjónustuveitendur bera ábyrgð á öryggisráðstöfunum.[54]

Styrkt sannvottun (e. strong customer authentication) er auðkenningarferli sem vottar annaðhvort auðkenni notanda greiðsluþjónustu eða hvort notkun greiðslutækis sé heimil. Auðkenningarferlið byggist á því að tveir þættir vottunar verði að vera til staðar.[55]

Vottanir geta meðal annars byggt á:

  • hlut sem viðskiptavinur hefur í fórum sínum; svo sem auðkennislykli eða korti,
  • vitneskju notanda; til dæmis leyninúmeri eða lykilorði, eða
  • persónugreinanlegum þáttum; svo sem fingurskanna eða raddauðkenningu.[56]

Því fleiri þættir sem notaðir eru saman því meira er öryggið.[57] Þeir þættir vottunar sem eru notaðir eiga að vera sjálfstæðir, sem leiðir til þess að brot á einum þætti dregur ekki úr áreiðanleika annarra þátta og ber að hanna þá þannig að þeir tryggi trúnað vottunargagna.[58] Í tilfelli rafrænna greiðslna þarf enn fremur að vera hægt að sítengja hluta af styrktu sannvottuninni við tilgreinda upphæð og greiðanda. Öryggisráðstafanir ættu þó að vera í samræmi við þá áhættu sem fylgir greiðsluþjónustunni og öryggiskröfur mega ekki verða til þess að hamla notkun þriðja aðila á greiðsluþjónustu. [59]

Aðildarríki skulu tryggja að greiðsluveitendur noti styrkta sannvottun þegar greiðendur a) nálgast á rafrænan hátt greiðslureikning sinn, b) þegar þeir virkja rafræna greiðslu og c) þegar framkvæma á aðgerð í gegnum utanaðkomandi rás sem eykur möguleika á sviksamlegri háttsemi eða annarri misnotkun.

Mikilvægi styrktrar sannvottunar er undirstrikað með reglum um ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda. Almennt liggur skylda til endurgreiðslu á greiðsluþjónustuveitanda greiðanda en móttakandi eða greiðsluþjónustuveitandi hans verður ábyrgur fyrir öllum óheimiluðum færslum ef styrkt sannvottun er ekki móttekin með réttum hætti líkt og kom fram í kafla 4.2.[60]

Greiðsluþjónustuveitendur skulu vera tilkynningarskyldir til þar til bærra yfirvalda árlega eða oftar með uppfærðu mati á aðgerðar- og öryggisáhættum í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem þeir veita.[61] Í tilfelli meiri háttar rekstrar- eða öryggisatburða skal greiðsluþjónustuveitandi án ótilhlýðilegrar tafar tilkynna þar til bærum yfirvöldum í aðildarríki sínu um þann atburð. Í þeim tilfellum þar sem atburður hefur haft eða getur haft áhrif á fjárhagslega hagsmuni notanda, skal greiðsluþjónustuveitandi einnig tilkynna honum án ótilhlýðilegrar tafar um atburðinn og allar ráðstafanir sem hægt er að grípa til í því skyni að lágmarka áhrif atburðarins.[62] Í samanburði við GDPR þá skal samkvæmt þeirri reglugerð tilkynna öryggisbrot til eftirlitsyfirvalda eigi seinna en 72 klst. síðar. Jafnframt skal ábyrgðaraðili tilkynna skráðum einstaklingi ef líklegt er að öryggisbrotið leiði af sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklingsins.[63] Bæði GDPR og PSD II fylgja ákveðnar tilkynningarskyldur sem bærum aðilum ber að fylgja í hvívetna en ljóst er að tilfelli tilkynninga eru ekki þau sömu. Þá er einnig vert að benda á að brot á GDPR geta falið í sér gríðarlega háar sektir[64] en ekki eru sektarákvæði í PSD II. Það getur því skipt máli undir hvora gerðina brot falla.

  1. Lokaorð

Tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu, PSD II, getur haft töluverð áhrif á greiðsluþjónustumarkaðinn á Íslandi og jafnframt um allt Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er hægt að slá neinu föstu um áhrif tilskipunarinnar en ætla má að tilskipunin muni reynast áskorun fyrir núverandi aðila á markaðnum. Mörg sóknarfæri eru þó til staðar bæði fyrir hina hefðbundnu viðskiptabanka og fjártæknifyrirtæki. Tækifærin felast ekki aðeins í veitingu greiðsluþjónustu heldur gætu fjártæknifyrirtæki til dæmis þróað sannvottanir og lausnir fyrir þær ströngu öryggiskröfur sem PSD II setur. Því má ætla að þrátt fyrir að ýmsar áskoranir leiði af tilskipuninni séu tækifærin ekki síðri.

Abstract

This articles concerns Directive 2015/2366 of the European Parliament and of the Council of 25 November 2015 on payment services in the internal market. The article addresses new challenges and possibilities in the payment service market, extension of the scope of regulatory coverage and changes in data protection.

HEIMILDASKRÁ

Alþingistíðindi.

Arnaldur Hjartarson: Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt. Reykjavík 2017.

EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins:

http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/B15542CEDCD0AD08002576BE005E64A3/$file/32007L0064.pdf (skoðað 27. janúar 2018).

European commission: Green paper towards an integrated European market for card, internet and mobile payments. 11. janúar 2012.

Eyvindur G. Gunnarsson: ,,Frjáls stofnsetningarréttur fjármálastofnana samkvæmt EES-samningnum’’. Þjóðarspegillinn 2010. Ritstj. Helgi Áss Grétarsson. Reykjavík 2010, bls. 17-27.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins – Staðreyndarskjal. ,,Payment Services Directive: frequently asked questions’’. Brussel, 8. október 2015. http://europa.eu/rapid/press-release_MEMO-15-5793_en.htm?locale=en (skoðað 22. desember 2017).

Friðrik Þór Snorrason: ,,Fjármálamarkaðurinn fyrir og eftir ný lög um greiðsluþjónustu’’, https://www.rb.is/frett/fjarmalamarkadurinn-fyrir-og-eftir-ny-log-um-greidsluthjonustu (skoðað 22. desember 2017).

Greiðsluþjónusta á 21. öld. Seðlabanki Íslands. Fjármálainnviðir 5. rit 7. júní 2017.

Guidance on Multi-factor Authentication. State service commission Nýja- Sjáland. 1. útg. júní 2006.

María Nieves Pacheco Jiménez: ,,Payment services evolution: From the European directive of 2007 to the digital single market and the European directive of 2015‘‘. International Journal of Social Science and Economic Research, 1. útg. 7. tbl. 2016, bls. 1018-1025.

Mary Donnelly: ,,Payments in the digital market: Evaluating the contribution of Payment Services Directive II’’. Computer Law and Security review, 6. tb. 32. árg. 2016, bls. 827-839.

Maximilian Yang: ,,Card Payments and Consumer Protection in Germany’’. Anglo-German Law Journal 2. útg. 2016, bls. 6-37.

Reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016.

Reinhard Steenot: ,,Allocation of liability in case of fraudulent use of an electronic payment instrument: the new directive on payment services in the internal market”. Computer law and security report. 6. tbl. 24. árg. 2008, bls. 555-561.

Rhys Bollen: ,,Recent developments in mobile banking and payments’’, Journal of International Banking law and Regulation. 9. tbl. 24. árg. 2009, bls. 454-469.

Robert Schütze: An introduction to European law. Second edition. Cambridge 2015.

Sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins.

Santiago Carbó – Valverde and Charles M Kahn: ,,Payment systems in the US and Europe: Efficiency, soundness and chellenges’’. Banco De Espana, Revitsa de Estabilidad Financiera, núm. 30.

Sigurður Líndal og Skúli Magnússon: Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Reykjavík 2011.

Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandsréttur. Reykjavík 2014.

Tilskipun Evrópusambandsins nr. 2015/2366.

Tilskipun Evrópusambandsins nr. 2007/64/EC.

Tilskipun Evrópusambandsins nr. 2010/20193.

Tæknin, internetið og fjármálaþjónusta. Helena Pálsdóttir. Fjármál – Vefrit Fjármálaeftirlitsins. 2. tbl. október 2017.

Vefsíða EFTA, http://www.efta.int/eea-lex/32015L2366 og http://www.efta.int/eea-lex/32016R0679  (skoðað 25. janúar 2018).

Vefsíða Kerv, https://kerv.com.

[1] Vefsíða Kerv, https://kerv.com.

[2] 67. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366. Greiðsluþjónusta á 21. öld. bls. 28. Friðrik Þór Snorrason: ,,Fjármálamarkaðurinn fyrir og eftir ný lög um greiðsluþjónustu’’, http://http://www.rb.is.

[3] 67. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[4] Þskj. 1190, 139. lögþ. 2010-11, bls. 33 (enn óbirt í A-deild Alþt.). B-liður 7. gr. EES samningsins, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Sjá EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins: http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/B15542CEDCD0AD08002576BE005E64A3/$file/32007L0064.pdf

[5] 3. og 4. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[6] Green paper towards an integrated European market for card, internet and mobile payments, 1. kafli.

[7] Tilskipun ESB nr. 2015/2366.

[8] 6. tölul. inngagnsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[9] Payment Services Directive: frequently asked questions, spurning 5.a. Sjá einnig Maximilian Yang: ,,Card Payments and Consumer Protection in Germany’’, bls. 22-23. Sjá einnig 66. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366. Sjá einnig Santiago Carbó – Valverde and Charles M. Kahn: ,,Payment systems in the US and Europe: Efficiency, soundness and chellenges’’, bls. 16.

[10] 6. gr. og 33. gr. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[11] Vefsíða EFTA: http://www.efta.int/eea-lex/32015L2366.

[12] Arnaldur Hjartarson: Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt, bls. 135. Sigurður Líndal og Skúli Magnússon: Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 171. B-liður 7. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

[13] Þskj. 1190, 139. lögþ. 2010-11, bls. 33 (enn óbirt í A-deild Alþt.).

[14] 2. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[15] 1. mgr. 2. gr. sbr. 3. mgr. 4. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366 sbr. viðauka I við hana og með hliðsjón af 28. og 29. tölul. inngangsorða tilskipunarinnar.

[16] A. og g. liður 3. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366 í samanburði við a. og g. lið tilskipunar ESB nr. 2007/64/EC.

[17] Sjá Mary Donnelly: ,,Payments in the digital market: Evaluating the contribution of Payment Services Directive II’’, bls. 831 og 832.

[18] 18. og 19. mgr. 4. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366 og viðauka I við hana. Ekki er um formlegar þýðingar að ræða og að hluta til var stuðst við þýðingar Friðriks Þórs Snorrasonar í: ,,Fjármálamarkaðurinn fyrir og eftir ný lög um greiðsluþjónustu’’, http://http://www.rb.is.

[19] 2. og 3. mgr. 5. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366 með hliðsjón af 31 og 35. tölul. inngangsorða hennar.

[20] 66. og 67. tilskipunar ESB nr. 2015/2366 með hliðsjón af 31. og 32. tölul. inngangsorða hennar.

[21] 67. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[22] Tæknin, internetið og fjármálaþjónusta, bls. 3.

[23] Tæknin, internetið og fjármálaþjónusta, bls. 2.

[24] 1. mgr. 31. gr. og 34. gr. EES-samningsins. Sjá einnig Robert Schutze: An introduction to European law  bls. 279-280.

[25] Eyvindur G. Gunnarsson: ,,Frjáls stofnsetningarréttur fjármálastofnana samkvæmt EES- samningnum’’, bls. 17.

[26] 3. mgr. 11. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366 með hliðsjón af 36. tölul. inngangsorða hennar.

[27] 9. mgr. 11. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[28] 28. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[29] 2. og 4. mgr. 29. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[30] Mary Donnelly: ,,Payments in the digital market: Evaluating the contribution of Payment Services Directive II’’, bls. 833.

[31] 2. mgr. 64. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[32] Reinhard Steenot: ,,Allocation of liability in case of fraudulent use of an electronic payment instrument: the new directive on payment services in the internal market’’, bls. 555.

[33] 1. og 2. mgr. 73. gr. og 1. og 2. mgr. 74. gr.  tilskipunar ESB nr. 2015/2366. Sjá einnig Mary Donnelly: ,,Payments in the digital market: Evaluating the contribution of Payment Services Directive II’’, bls. 834.

[34] 1. og 2. mgr. 73. gr. og 1. og 2. mgr. 74. gr.  tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[35] Ibid.

[36] 4. mgr. 95. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[37] 4. mgr. 5. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[38] 5. mgr. 28. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[39] 98. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[40] Í 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 16. gr. reglugerðar ESB nr. 1093/2010.

[41] Arnaldur Hjartarson: Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt, bls. 118-119.

[42] Sigurður Líndal og Skúli Magnússon: Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, bls. 57. Arnaldur Hjartarson: Evrópskur bankaréttur og áhrif hans á íslenskan rétt, bls. 59. Robert Schütze: An introduction to European law, bls. 117. Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandsréttur, bls. 64.

[43] Sigurður Líndal og Skúli Magnússon: Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, bls. 60.

[44] Sigurður Líndal og Skúli Magnússon: Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, bls. 135.

[45] Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/49/EB (almenna persónuverndarreglugerðin), skv. íslenskri þýðingu á drögum reglugerðarinnar frá 21.4.2017 birt á heimasíðu Persónuverndar með leyfi Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.

[46] Vefsíða EFTA, http://www.efta.int/eea-lex/32016R0679.

[47] Tilskipun 95/46/EB (almenna persónuverndargerðin).

[48] 89. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[49] Tilskipunin vísar í fyrirrennara GDPR en skv. 1. mgr. 2. gr. GDPR gildir reglugerðin um vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og um vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skráningarkerfi.

[50] 89. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[51] Mary Donnelly: ,,Payments in the digital market: Evaluating the contribution of Payment Services Directive II’’, bls. 836.

[52] María Nieves Pacheco Jiménez: ,,Payment services evolution: From the European directive of 2007 to the digital single market and the European directive of 2015’’, bls. 1023.

[53] 95. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[54] 91. tölul. inngangsorða tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[55] Payment Services Directive: frequently asked questions, spurning 16.

[56] 1. mgr. 97. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[57] Rhys Bollen: ,,Recent developments in mobile banking and payments’’, bls. 3. Sjá einnig. Guidance on Multi-factor Authentication’’, bls. 12. Sjá einnig Payment Services Directive: frequently asked questions, spurning 16.

[58] ,,Payment Services Directive: frequently asked questions’’, spurning 16.

[59] 1. mgr. 97. gr. tilskipunar og 96. tölul. inngangsorða tilskipunar nr. 2015/2366.

[60] 2. mgr. 74. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[61] 1. og 2. mgr. 95. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[62] 1. og 2. mgr. 96. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366. Þar til bær yfirvöld skulu svo án ótilhlýðilegrar tafar tilkynna til EBA og ECB um þau atriði sem skipta máli, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 96. gr. tilskipunar ESB nr. 2015/2366.

[63] 33. og 34. gr. reglugerðar ESB nr. 2016/679.

[64] VIII. kafli reglugerðar ESB nr. 2016/679.

Framkvæmd skráningar EES-launþega hér á landi á grundvelli 89. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 í ljósi skuldbindinga samningsins um Evrópska efnahagssvæðið

Eftir Bjarnveigu Eiríksdóttur
Aðjúnkt við Háskóla Íslands og héraðsdómslögmann hjá VÍK lögmannsstofu.

Efnisyfirlit

  1. Inngangur
  2. Reglur EES-réttar um frjálsa för launþega og rétt til dvalar og lögfesting þeirra hér á landi
  3. Reglur EES-réttar um jafna meðferð.
  4. Hugtakið launþegi í frjálsri för
  5. Skilgreining launþegahugtaksins við skráningu EES-launþega hér á landi
  6. Lokaorð

Ágrip

Í greininni er fjallað um heimild EES-ríkja á grundvelli 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB, sem lögfest er hér á landi með 89. gr. útlendingalaga, til að skrá EES-launþega í frjálsri för sem hafa rétt til dvalar í lengri tíma en 3 mánuði. Þjóðskrá Íslands annast þessa skráningu hér á landi. Eru í greinni leiddar líkur að því að við þá framkvæmd sé notast við þrengra hugtak á „EES-launþega í frjálsri för“ en kveðið er á um í reglum EES eins og þær hafa verið túlkaðar af Dómstóli ESB þannig að viðkomandi launþegi fær í því tilviki ekki skráð lögheimili og fær ekki kennitölu. Slíkt getur leitt til takmörkunar á réttindum hans hér á landi.

  1. Inngangur

Í meira en 20 ár hefur ríkisborgurum ríkja Evrópusambandsins (ESB) og EFTA-ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) verið frjálst að sinna atvinnustarfsemi hvar sem er á EES-svæðinu, fara milli EES-ríkja í þessu skyni og setjast þar að. Þessa frelsis njóta launþegar, þeir sem leita að atvinnu, eru sjálfstætt starfandi, hafa nægjanlegt fé milli handanna, eru veitendur og þiggjendur þjónustu eða útsendir starfsmenn erlendra þjónustufyrirtækja.[1] Þrátt fyrir að festa sé komin í framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) virðist þó sem í framkvæmd hér á landi sé ekki í öllum tilvikum ágreiningslaust hverjir geti notið réttinda sem EES-launþegar. Í þessari grein verður gerð grein fyrir reglum EES-réttar um frjálsa för launþega og hvernig framkvæmd stjórnvalda við skráningu EES-borgara sem koma til starfa á íslenskum vinnumarkaði er á skjön við gildandi reglur og til þess fallin að skapa óvissu um lagalega stöðu EES-launþega hér á landi.

  1. Reglur EES-réttar um frjálsa för launþega og rétt til dvalar og lögfesting þeirra hér á landi

Samkvæmt 28. gr. EES-samningsins,[2] sem er lögfestur hér á landi með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, skal frelsi launþega til flutninga vera tryggt í aðildarríkjum EB (nú ESB) og EFTA-ríkjunum. Í 28. gr. segir að þetta frelsi feli í sér afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum sem byggð sé á ríkisfangi og lúti að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Réttindi launþega innan EES og afnám hindrana á frjálsri för þeirra skv. 28. gr. EES-samningsins eru nánar útfærð í reglugerð ESB nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Sambandsins (launþegareglugerðinni) sem lögfest er hér á landi með lögum nr. 105/2014 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og í tilskipun 2004/38/EB um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna Í 7.-10. gr. launþegareglugerðarinnar, sbr. lög nr. 105/2014, er m.a. kveðið á um að EES-launþegar og aðstandendur þeirra skuli njóta félagslegra réttinda og skattaívilnana í því ríki sem þeir setjast að eða vinna til jafns á við íslenska ríkisborgara, auk jafnræðis á vinnumarkaði, s.s. við ráðningar og vinnuskilyrði, veikindaréttar, launa í uppsagnarfresti og orlofsréttinda. Þá kveður tilskipun 2004/38/EB[3] eins og hún var tekin upp í EES-samninginn á um rétt EES-borgara til frjálsrar farar og dvalar í öðrum EES-ríkjum. Er í tilskipuninni gerð nánari grein fyrir skilyrðum þess að EES-borgari geti talist launþegi í frjálsri för á grundvelli 45 gr. SSE, sbr. og 28. gr. EES-samningsins, og megi dveljast hér á landi. Eins og nafnið bendir til á tilskipunin ekki aðeins við um launþega heldur einnig aðra hópa EES-borgara sem hafa rétt til frjálsrar farar og dvalar. Þessir hópar njóta þó mismikilla réttinda og er t.a.m. gerð sú krafa að aðrir en launþegar og sjálfstætt starfandi og aðstandendur þeirra, hafi nægan framfærslueyri og tryggingar. Krafan um framfærslueyri og tryggingar tekur ekki til launþega og sjálfstætt starfandi heldur nægir þeim að vera hér við störf.

Tiltekin ákvæði tilskipunar 2004/38/EB eru lögfest í XI. kafla útlendingalaga nr. 80/2016. Samkvæmt 6. gr. tilskipunarinnar skulu EES-borgarar og aðstandendur þeirra eiga rétt á að dvelja í öðru EES-ríki í allt að þrjá mánuði án þess að uppfylla önnur skilyrði eða formsatriði en að hafa gilt kennivottorð eða vegabréf. Er 6. gr. innleidd með 1. mgr. 83. gr. útlendingalaga á eftirfarandi hátt:

EES- eða EFTA-borgara sem framvísar gildu vegabréfi eða kennivottorði er heimilt að koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins svo lengi sem vera hans verður ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar.

Með 1. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 2004/38/EB er kveðið á um rétt EES-borgara til dvalar í öðru EES-ríki lengur en þrjá mánuði að uppfylltum tilteknum skilyrðum og kveðið á um heimild aðildarríkja til að kveða á um skráningu þeirra. Eru þessi ákvæði innleidd með 1. og 2. mgr. mgr. 84. gr. útlendingalaga á eftirfarandi hátt:

EES- eða EFTA-borgari hefur rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af eftirtöldum skilyrðum: 

  1. er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi,
  2. ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og uppfyllir jafnframt skilyrði c-liðar, eftir því sem við á,
  3. hefur nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir,
  4. er innritaður í viðurkennda námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu. 

Krefja má EES- eða EFTA-borgara um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og gögnum sem staðfesta að hann uppfylli skilyrði a-, b- eða c-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 81. gr. Þá má krefja borgarann um að framvísa fullnægjandi ferðaskilríkjum og sýna fram á með yfirlýsingu eða jafngildum aðferðum að hann uppfylli skilyrði d-liðar 1. mgr., sbr. þó 4. mgr. 81. gr. 

Fram kemur í 8. gr. tilskipunarinnar að heimilt er að krefjast þess að EES-borgari sem dvelst lengur en þrjá mánuði í viðkomandi ríki skrái sig hjá viðeigandi yfirvöldum. Orðalag 5. mgr. 5. gr., 2. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 9. gr. tilskipunar 2004/38/ESB ber með sér að rétturinn til dvalar sé þó svo afdráttarlaus að ekki þurfi að veita EES-borgaranum sérstakt leyfi til staðfestingar á honum þó svo að það megi skylda viðkomandi til að skrá sig og jafnvel beita viðurlögum við vanrækslu.[4] Að sambandsrétti hefur þessi túlkun verið staðfest af Evrópudómstólnum.[5] Skráningarskylda EES-borgara er lögfest í 89. gr. útlendingalaga en Þjóðskrá Íslands (Þjóðskrá) sér um skráninguna á grundvelli laga nr. 21/1990 um lögheimili.[6]  Er framkvæmd skráningar nánar lýst í kafla 5 hér að neðan.

  1. Reglur EES-réttar um jafna meðferð

Jafnræðisregla 4. gr. EES-samningsins kveður á um að hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á gildissviði samningsins nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans. Þessi meginregla kemur fram í 2. mgr. 28. gr. EES-samningsins um afnám mismununar gagnvart EES-launþegum og er nánar útfærð í 7.-10. gr. launþegareglugerðarinnar, sbr. lög nr. 105/2014, og 1. mgr. 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB.[7] Í þessum ákvæðum felst að EES-launþegar skuli frá fyrsta degi njóta réttinda til jafns á við launþega sem eru ríkisborgarar gistiríkisins.[8] Á þetta ekki einungis við um skattaleg og félagsleg réttindi sem þeir launþegar sem eru ríkisborgarar gistiríkis fá sem launþegar heldur einnig réttindi sem launþegar þessir fá sökum þess að þeir eru búsettir í viðkomandi ríki.[9] Þá er einnig ljóst að ekki má binda þessi réttindi við að launþeginn sé heimilisfastur í vinnuríkinu.[10]

  1. Hugtakið launþegi í frjálsri för

Skilgreining á því hvað felst í launþegahugtakinu er sótt til evrópuréttarins. Af því leiðir að einstök ríki geta ekki uppá sitt eindæmi skilgreint hugtakið launþegi í frjálsri för þannig að fari í bága við hugtakið eins og það er skilgreint í evrópuréttinum, sbr. Hoekstra málið.[11] Í dómum Evrópudómstólsins kemur fram að launþegasamband feli í sér að launþeginn láti af hendi þjónustu fyrir og undir leiðsögn annars aðila í tiltekinn tíma gegn endurgjaldi.[12] Sökum þess að hugtakið felur í sér réttindi samkvæmt einni af grunnreglum ESB-réttar ber einnig að skýra það rúmri skýringu, sbr. Levin málið.[13] Hefur Evrópudómstóllinn vísað til þess að hver sá sem stundar vinnu sem er virk og raunveruleg (e. effictive and genuine) teljist vera launþegi í skilningi 45 gr. SSE og einnig að undanskilin séu tilvik þegar vinnuframlag er svo óverulegt (e. small scale) að það uppfyllir vart lágmarkskröfur (e. marginal) og hefur ekki sjálfstæðan tilgang (e. ancillary).[14] Meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort starf launþega uppfylli þessi viðmið.[15]

Álitamál um hvort einstaklingur telst launþegi í frjálsri för og megi þ.a.l. dvelja við störf hér á landi lengur en þrjá mánuði geta m.a. risið þegar viðkomandi sinnir óhefðbundinni, lítilli eða stopulli vinnu. Í Levin málinu,[16] sem fjallaði um launþega í 50% starfi, féllst Evrópudómstóllinn ekki á krefjast mætti þess að viðkomandi þyrfti að afla tekna sem samsvaraði lágmarksframfærsluviðmiði í vinnuríkinu til að mega teljast launþegi í frjálsri för. Í málinu kom einnig fram að það skipti ekki máli í þessu sambandi hvort viðkomandi hefði aðrar tekjur eða eignir sér til framfærslu eða hvort hann léti sér nægja þessi lágu laun. Í rökstuðningi dómsins kom fram að fyrir marga væri hlutastarf eini möguleikinn á að bæta kjör sín. Í umfjöllun dómsins endurspeglast það viðhorf að fyrir ríkisborgara eins ríkis geti lágmarkslaun í öðru ríki þar sem meiri velmegun ríkir virkað rífleg. Ekki er gerð krafa um að endurgjald fyrir vinnu sé í formi peningagreiðslu og er t.d. talið nægjanlegt, sbr. dóm í Steyman málinu[17] að vinnuveitandi láti viðkomandi launþega í té endurgjald í formi hlunninda, s.s. fæðis, húsnæðis og vasapeninga. Í máli Ninni-Orasche[18] kemur einnig fram að tímabundinn vinnusamningur, í því tilviki 10 vikur, útilokar ekki að viðkomandi geti talist vera launþegi í frjálsri för í skilningi 45. gr. SSE að því gefnu að um sé að ræða vinnu sem er virk og raunveruleg og ekki af því tagi að uppfylli ekki lágmarkskröfur og kröfu um sjálfstæðan tilgang.[19] Evrópudómstóllinn hefur þó tekið undir það að ástæða geti verið til að gæta varúðar þegar EES-borgari sem aðeins hefur starfað í viðkomandi ríki í stuttan tíma óskar þess að njóta félagslegra réttinda, s.s. námslána, og einnig að t.d. megi skoða sérstaklega vinnusamband þar sem fyrir liggur að vinnuframlag er takmarkað og óreglulegt með það fyrir augum að meta hvort starfið uppfylli lágmarkskröfur og hafi sjálfstæðan tilgang.[20]

Eins og áður er komið fram er 28. gr. EES efnislega samhljóða 45. gr. SSE. Þá hefur launþegareglugerðinni í heild sinni verið veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 105/2014. Tilskipun 2004/38/EB var hins vegar tekin upp í EES samninginn með töluverðum aðlögunum m.a. sökum þess að hugtakið „ríkisfang í Evrópusambandinu“ kemur ekki fyrir í EES-samningnum.[21] Tilskipunin hefur að hluta til verið innleidd með ákvæðum útlendingalaga. Það leiðir af 6. gr. EES að með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða EES-samningsins að túlka ákvæði hans í samræmi við úrskurði Evrópudómstólasins sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag EES-samningsins, sem eru efnislega samhljóða samsvarandi reglum SSE (áður stofnsáttmála ESB og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins) og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar sáttmálans. Af þessu leiðir að við beitingu áðurnefndra ákvæða EES-samningsins er lúta að frjálsri för launþega ber samningsaðilum að líta til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins sem varða ákvæði SSE sem eru efnislega samhljóða.[22] Í framkvæmd hefur verið gott samræmi milli dómaframkvæmdar EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins að því er lýtur að efnislega samhljóða ákvæðum samninganna og hefur sá síðarnefndi litið til dóma EFTA-dómstólsins þó ekki sé beinlínis mælt fyrir um það í EES-samningnum.[23] Þrátt fyrir að í tilskipun 2004/38/EB séu nú tiltekin ákvæði sem ekki hafa verið tekin upp í EES rétt[24] þá varða þau ákvæði ekki skilgreiningu á kjarna launþegahugtaksins sem lýst hefur verið hér að framan. Verður því að telja að tilvitnaðir dómar Evrópudómstólsins um inntak launþegahugtaksins hafi fordæmisgildi í réttarframkvæmd hér á landi.

  1. Skilgreining launþegahugtaksins við skráningu EES-launþega hér á landi

Eins og að framan greinir er EES-ríkjum heimilt samkvæmt ákvæðum 8. gr. tilskipunar 2004/38/ESB að krefjast þess að EES-borgari sem dvelst lengur en þrjá mánuði í viðkomandi ríki skrái sig hjá viðeigandi yfirvöldum. Ákvæði um slíka skráningu er lögfest í 89. gr. útlendingalaga en þar kemur fram, sbr. a-lið 2. mgr., að EES-borgara sem er launþegi og hyggst dvelja hér á landi lengur en þrjá mánuði beri að skrá sig og að við slíka skráningu skuli hann leggja fram, auk kennivottorðs eða vegabréfs, staðfestingu á ráðningu frá vinnuveitanda. Þegar viðkomandi hefur lagt fram þessi gögn á hann rétt á því að gefið verði út skráningarvottorð, sbr. 2. og 3. mgr. tilskipunar 2004/38/ESB, sbr. og 1. mgr. 89. gr. útlendingalaga.

Framkvæmd skráningar EES-borgara er í höndum Þjóðskrár og fer fram samkvæmt ákvæðum laga um lögheimili. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna skal hver sá „sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur […] eiga lögheimili samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Sá sem dvelst eða ætlar að dveljast í landinu vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur má þó eiga lögheimili hér.“

Við skráningu lögheimilis EES-borgara sem hyggst starfa hér á landi lengur en þrjá mánuði hefur Þjóðskrá krafist þess að viðkomandi leggi fram staðfestingu vinnuveitanda eða afrit af ráðningarsamningi þar sem fram kemur að hann sé ráðinn til a.m.k. þriggja mánaða og að laun hans nái lágmarksframfærsluviðmiði.[25] Í þeim tilvikum sem laun samkvæmt ráðningarsamningi ná ekki framfærsluviðmiði er viðkomandi EES-borgara heimilað að sýna fram á aðrar leiðir til framfærslu, t.d. innistæðu á bankareikningi sem samsvarar lágmarksframfærslu. Er vísað til þess að aðrar tekjur eða eigið fé þurfi samanlagt að ná lágmarksframfærslu og er í upplýsingum frá Þjóðskrá vísað til 42. gr. eldri útlendingareglugerðar nr. 53/2003 þar sem kveðið var á um að útlendingur sem óskaði dvalarleyfis skyldi sýna fram á trygga framfærslu.[26] Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár geta umsækjendur stuðst við fleiri en eina „tegund“ af framfærslu svo lengi sem að heildarupphæðin nær yfir framfærslulágmark. Nái umsækjandi ekki að sýna fram á lágmarksframfærslu samkvæmt framangreindum viðmiðum er synjað um skráningu lögheimilis hjá Þjóðskrá. Í því tilviki fær viðkomandi ekki kennitölu.[27]

Fram kemur í Cristini málinu sem vísað er til í 3. kafla að launþegi í frjálsri för skuli frá fyrsta degi njóta réttinda til jafns á við launþega sem eru ríkisborgarar gistiríkisins. Eins og lýst er í kafla 4 er hugtakið launþegi í frjálsri för sótt til evrópuréttarins og geta einstök ríki ekki uppá sitt eindæmi skilgreint það á annan hátt en þar kemur fram og þá með þeim afleiðingum að viðkomandi fær ekki notið þeirra réttinda sem fylgja stöðu launþega. Það leiðir af dómi í Levin málinu að ekki er heimilt að gera kröfu um að EES-launþegi afli sér tekna er samsvari lágmarksframfærsluviðmiði í vinnuríkinu. Í Ninni-Orasche málinu segir að tímabundinn ráðningarsamningur útiloki ekki að viðkomandi teljist launþegi í frjálsri för. Tímabundnir ráðningarsamningar eru tíðkaðir í sumum starfsgreinum þar sem álag er mismikið eftir árstíðum. Ekki er útilokað að EES-launþegi hyggi á lengri dvöl við störf hér á landi þó svo að honum bjóðist e.t.v. ekki nema stuttur samningur í byrjun. Krafa Þjóðskrár um þriggja mánaða ráðningu og viðmið um lágmarksframfærslu felur í sér einhliða túlkun á hugtakinu launþegi í frjálsri för sem sem er til þess fallin að takmarka réttindi EES-launþega og mismuna þeim. Slíkar hindranir eru í andstöðu við 28. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, launþegareglugerðina, sbr. lög nr. 105/2014, einkum 7. og 10. gr. tilskipunar 2004/38/EB eins og þau eru lögfest í II. kafla útlendingalaga., sbr. og ákvæði 1. mgr. 24. gr. tilskipunarinnar um jafna meðferð.[28]

Þeirrar afstöðu gætir hjá Þjóðskrá að réttur EES-borgara til dvalar hér á landi velti á útgáfu skráningarvottorðs.[29] Rétturinn til dvalar er eins og greinir í kafla 2 svo afdráttarlaus að ekki þarf að veita EES-borgaranum sérstakt leyfi til honum staðfestingar.[30] Á þetta var bent þegar dráttur á úthlutun kennitölu og útgáfu dvalarleyfa hindraði EES-launþega í að njóta félagslegra réttinda sem þeir áttu kröfu til á grundvelli þágildandi launþegareglugerðar, sbr. þágildandi lög nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, en börn þessara launþega fengu ekki að hefja skólagöngu.[31]

Þjóðskrá annast skráningu EES-borgara sem vísað er til í 89. gr. útlendingalaga. Það leiðir af eðli máls að stofnunin getur lagt mat á það hvort viðkomandi EES-borgari sem til hennar leitar er launþegi í skilningi EES-réttarins, s.s. hvort viðkomandi muni sinna raunverulegu starfi en ekki t.d. námi, endurhæfingu eða raunverulegu sjálfboðastarfi sem ekki er af efnahagslegum toga. Skiptir talsverðu máli að réttilega sé staðið að skráningum m.a. sökum þess munar sem er á réttindum EES-launþega og sjálfstætt starfandi hér á landi annars vegar og annarra EES-borgara hins vegar. Ljóst er samkvæmt ofangreindu að þau viðmið um lágmarksframfærslu og tímalengd ráðningasamninga sem stofnunin hefur sett sér við meðferð slíkra skráninga eru fortakslaus þannig að ekki er svigrúm til mats eins og gert er ráð fyrir í dómafordæmum þeim sem vísað hefur verið til. Er vandséð við hvaða lagaheimild slík þrenging á inntaki ákvæða um skráningu EES-launþega hér á landi styðst. Tilvísun Þjóðskrár til 42. gr. eldri reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga um dvalarleyfi er torskilin í ljósi þess að EES-launþegar hafa rétt til dvalar án þess að sérstakt skírteini um þann rétt sé gefið út, auk þess sem það er útlendingastofnun, sbr. 52. gr. útlendingalaga sem tekur ákvörðun um veitingu dvalarleyfis.[32]

Sú skráningarskylda sem að framan er vísað til kemur aðeins til þegar EES-borgari hyggst dvelja hér á landi lengur en þrjá mánuði. EES- borgarar geta komið hingað til lands og dvalið hér í allt að þrjá mánuði án þess að skrá sig. Þrátt fyrir að þessir aðilar séu ekki skráningarskyldir sjálfir hvíla margvíslegar skyldur á vinnuveitendum þeirra fari svo að þessir EES-borgarar sinni störfum af efnahagslegum toga hér á landi, s.s. að fá kerfiskennitölu,[33] skila staðgreiðslu, launatengdum gjöldum og slysatryggja þá.

  1. Lokaorð

Tilhögun skráninga hjá Þjóðskrá felur í sér takmarkanir á réttindum EES-launþega sem fá ekki samrýmst reglum EES-samningsins. Þessi framkvæmd veldur óvissu um stöðu EES-launþega hér á landi því takmarkanir á kennitöluskráningu eru til þess fallnar að torvelda þeim að sækja um og njóta þeirra réttinda sem fylgja stöðu þeirra sem launþega í frjálsri för. Þessi framkvæmd veikir einkum stöðu EES-borgara sem koma hingað til lands til að sinna óhefðbundnum störfum eða árstíðabundnum, m.a. störfum þar sem endurgjald er í formi hlunninda.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur vakið athygli á því að undanfarin ár hafi færst í aukana að atvinnurekendur hafi fengið til sín starfsfólk í ólaunaða vinnu, s.s. í ferðaþjónustu, landbúnað og í blönduð störf á sveitabýlum.[34] Ýmist séu þessir starfsmenn kallaðir „sjálfboðaliðar“ eða „starfsnemar“ sem fái ekki greitt í samræmi við kjarasamninga á vinnumarkaði og greiði ekki skatta. Yfirleitt séu þeir hvergi skráðir, ekki með kennitölu og alveg ótryggðir sem geti reynst dýrt spaug ef slys verði á vinnustað.[35] Slíkt fyrirkomulag sé í reynd efnahagsleg starfsemi og skapi eigendum starfseminnar ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði. Þessi starfsemi geti jafnframt falið í sér við nánari skoðun frekari brot, s.s. gegn skattalögum.[36]

Af könnun ASÍ á auglýsingum um sjálfboðaliðastörf má sjá að fjölmargir atvinnurekendur hafa slíka sjálfboðaliða á sínum snærum og sumir jafnvel með á annan tug slíkra starfsmanna í vinnu.[37] Óhætt er að fullyrða að margvíslegra aðgerða er þörf til að minnka umfang ólaunaðrar vinnu í efnahagslegri starfsemi eins og kallað hefur verið á.[38] Það væri spor í rétta átt að skilgreina í lögum hlutverk Þjóðskrár við skráningu EES-borgara eins og stofnunin sjálf hefur kallað á og endurskoða tilhögun skráninga á EES-launþegum.[39]

 

 

 

[1] Ríkisborgarar ESB-ríkja njóta einnig sérstakra réttinda samkvæmt ákvæðum sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) um sambandsborgara sem ekki hafa verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn).

[2] Fyrirmynd 28. gr. EES er þágildandi ákvæði í 48. gr. Rómarsáttmálans, nú 45. gr SSE um frjálsa för launþega.

[3]Tilskipunin er birt á íslensku í EES viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, 25.9.2014, bls. 909-922. Hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2007 sem er birt í EES viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 26, 8.5.2008, bls. 17. Í ákvörðuninni er að finna töluverðar aðlaganir sem taldar voru nauðsynlegar sökum þess að tilskipunin veitir Sambandsborgurnum víðtækari rétt innan ESB en ætlunin er að EES-borgarar njóti í EES-ríkjum.

[4] Sbr. athugasemdir við 22. og 23. gr. í frumvarpi sem varð a lögum nr. 86/2008 um breyting á þágildandi lögum um útlendinga nr.  96/2002. Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/2002 um útlendinga. Þskj. 572 – 337. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/135/s/0572.html (skoðað 30. október 2017).

[5] EBD, mál 48/75 Royer, ECLI:EU:C:1976:57, 33. mgr. Í dóminum sem kveðinn var upp áður en sambandsborgarahugtakið varð til í ESB-rétti kemur fram að ekki sé heimilt að vísa viðkomandi úr landi vegna þess eins að hann hafi ekki gilda skráningu. Dómurinn er um túlkun á ákvæðum tilskipunar 68/360/EBE um afnám takmarkana á ferðum og búsetu gagnvart launþegum aðildarríkjanna og fjölskyldum þeirra. Tilskipunin var í viðauka V við EES-samninginn þar til tilskipun 2004/38/ESB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem vísað er til hér að ofan. Ákvæði tilskipunar 68/360/EBE er nú að finna í tilskipun 2004/38/ESB. Sjá umfjöllun í: Steiner J, Woods L og Twigg-Flesner C, EU Law (9. útgáfa OUP 2006), bls. 423, en þar segir m.a.: „As long as the worker is a worker, he will be entitled to reside in the host Member State without formalities.“

[6] Sbr. athugasemdir við 89. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 80/2016 um útlendinga.

[7] Um tengsl 4. gr. og 28. gr. EES, sjá Páll Hreinsson, General Principles. (Baudenbacher ed.) The Handbook of EEA Law. (Springer 2016), bls. 349-389, sjá bls. 361-362.

[8] EBD, mál 39/86 Lair v Universität Hannover, ECLI:EU:C:1988:322, 42. mgr.

[9] EBD, mál 32/75 Fiorini (née Cristini) v SNCF, ECLI:EU:C:1975:120,  13. mgr.

[10] EDB, mál C-57/96 Meints v Minister van Landbouw, Natuurbeheer en Visserij, ECLI:EU:C:1997:564, 51. mgr. Sjá hér einnig 5. lið aðfararorða launþegareglugerðarinnar, sbr. lög nr. 105/2014, er þar segir: „Launafólk sem er í fastri vinnu, vinnur við árstíðabundin störf eða sækir vinnu yfir landamæri, svo og þeir sem sinna þjónustustörfum skulu, njóta slíks réttar án mismununar.“

[11] EBD, mál 75/63 Hoekstra (née Unger), ECLI:EU:C:1964:19.

[12] EDB mál 66/85 Lawrie-Blum, ECLI:EU:C:1986:284, 17. mgr.

[13] EBD, mál 53/81 Levin v Staatsecretaris van Justice, ECLI:EU:C:1982:105, 16. mgr.

[14] M.a. EBD, mál C-337/97 Meeusen v Hoofddirectie Beheer Groep, ECLI:EU:C:1999:284, 13. mgr. og C-456/02 Trojani v CAPS, ECLI:EU:C:1982:105.

[15] Sjá nánar um launþegahugtakið: Kjartan Bjarni Björgvinsson, Free Movement of Persons. (Baudenbacher ed.) The Handbook of EEA Law. (Springer 2016), bls. 473-500, sjá bls. 475-477.

[16] EBD mál 53/81 Levin. Sjá einnig sameinuð mál C-22-23/08 Vatsouras and Koupantantze, ECLI:EU:C:2009:344.

[17] EBD, mál 196/87 Udo Steyman v Staatsecretaris van Justitie, ECLI:EU:C:1988:475.

[18] EBD mál C-413/01 Franca Ninni  v Bundesminister für Wissenschaft, Verkehr und Kunst, ECLI:EU:C:2003:600.

[19] EDB mál C-413/01, sjá 25. og 26. mgr.

[20] Sjá nánar umfjöllun og dóma tilgreinda í: Kjartan Bjarni Björgvinsson, The Handbook of EEA Law. (Springer 2016), bls. 476-477. Í máli C- 46/12 L.N. v Styrelsen for Videregående Uddannelser og Uddannelsesstøtte, ECLI:EU:C:2013:97, 51. mgr., kom fram að meðan að launþegi væri í starfi sem uppfyllti kröfur bandalagsréttar um að vera virkt og raunverulegt gæti hann átt rétt á aðstoð vegna náms.

[21] Sjá ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2007 sem vísað er til hér að ofan.

[22] Davíð Þór Björgvinsson, EES-réttur og landsréttur. (Reykjavík 2006), bls. 306.

[23] Carl Baudenbacher, The Relationship between the EFTA Court and the Court of Justice of the European Communities. The Handbook of EEA Law. (Baudenbacher ed.) (Springer 2016), bls. 179-194.  Sjá einnig Vassilios Skouris, The Role of the Court of Justice of the European Union in the Development of the EEA Single Market: Advancement through Collaboration between the EFTA Court and the CJEU. EFTA Court (ed) The EEA and the EFTA Court: Decentered Integration. (2014) Hart Publishing, Oxford and Portland, bls. 3-12, bls. 6.

[24] Sjá dóm EFTA-dómstólsins í máli E-26/13 íslenska ríkið gegn Atla Gunnarssyni, [2014]EFTA Ct. Rep. 254 , 80. mgr. Þar kemur einnig fram að réttindi sem EES-borgarar höfðu öðlast á grundvelli eldri tilskipana hafi verið tekin upp í tilskipun 2004/38/EB þó svo að Evrópudómstóllinn byggi þessi réttindi nú á ákvæðum 21. gr. SSE. Upptaka tilskipunarinnar skapi hins vegar engin ný réttindi er byggi á Sambandsborgarahugtakinu.

[25] Sjá heimasíðu Þjóðskrár https://skra.is/einstaklingar/flutt-til-islands-/eg-er-ees-efta-rikisborgari/er-med-vinnu-a-islandi/ (skoðað 18. október 2017). Samkvæmt svörum Þjóðskrár 26. júní 2015 í tilefni af fyrirspurn greinarhöfundar er miðað við lágmarksframfærslu eins og hún er ákveðin hjá Reykjavíkurborg. Fyrirspurnin var gerð í tilefni af athugun greinarhöfundar á framkvæmd launþegahugtaksins á vegum sérfræðinganefndar FreSsco (Free Movement and Social Security Experts) sem starfar fyrir framkvæmdastjórn ESB, sjá heimasíðu nefndarinnar:  http://ec.europa.eu/social/main.jsp?catId=1098&langId=en (sótt 14.11.2017). Óskað var staðfestingar frá Þjóðskrá á þessum upplýsingum og bárust uppfærðar upplýsingar sem þó staðfestu óbreytta framkvæmd 31.10.2017.

[26] Reglugerðin var felld úr gildi 19. júní 2017. 1. mgr. 42. gr. var svohljóðandi: „Útlendingur sem sækir um dvalarleyfi skal sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Lágmarksframfærsla skal miðuð við útgefinn framfærslustuðul félagsþjónustu sveitarfélags á hverjum stað og á því tímamarki sem umsókn ásamt fullnægjandi fylgigögnum er lögð fram.“ Ekki er samsvarandi ákvæði í núgildandi reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 en samkvæmt 55. gr., sbr. 56. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 skulu umsækjendur um dvalarleyfi skv. VI.-IX. kafla laganna sýna fram á framfærslu. Um EES-útlendinga gilda hins vegar ákvæði XI. kafla.

[27] Svar Þjóðskrár 26. júní 2015 við fyrirspurn greinarhöfundar. Fram kemur í uppfærðum svörum Þjóðskrár að umsækjendur fái bréf ef laun ná ekki framfærsluviðmiði þar sem bent sé á að því þurfi að ná. Skili umsækjandi engum gögnum til að uppfylla þessi skilyrði skráningarinnan 30 daga frá því bréfið var sent sé beiðni hafnað.

[28] Ekki verður séð að ákvæði 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB um jafna meðferð hafi verið sérstaklega innleitt í íslenskan rétt. Ákvæðið er hins vegar útfærsla á 4. og 28. gr EES-samningsins um jafnan rétt sem eru innleiddar með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

[29] Umsögn Þjóðskrár Íslands um frumvarp til laga um útlendinga. 13 maí 2016.  145. löggjafarþing. Dbnr. 1515.  Í umsögninni segir: „Í dag tekur Þjóðskrá ákvarðanir um rétt EES-og EFTA-borgara til dvalar á Íslandi umfram 3 mánuði og ef skilyrði eru uppfyllt þá gefur stofnunin út skráningarvottorð (bréfleg staðfesting).“ Sjá http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-1515.pdf (skoðað 25. október 2017).

[30] Athugasemdir við 22. gr. í frumvarpi sem varð a lögum nr. 86/2008 um breyting á þágildandi lögum um útlendinga nr.  96/2002. Frumvarp til laga um breyting á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Þskj. 572 – 337. mál. Vefútgáfa Alþingistíðinda, slóð: http://www.althingi.is/altext/135/s/0572.html (skoðað 30. október 2017).

[31] UA 2. nóvember 2006  (4838/2006, 4839/2006, 4840/2006 og 4841/2006).

[32] Svo var einnig í gildistíð eldri laga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga nr.  53/2003.

[33] Sjá upplýsingar á heimasíðu Þjóðskrár: https://skra.is/einstaklingar/eg-og-fjolskyldan/eg-i-thjodskra/um-kennitolur/um-kerfiskennitolur/ (skoðað 30. október 2017).

[34] Minnisblað ASÍ 22. janúar 2016.  „Um ólaunaða vinnu og undirboð á íslenskum vinnumarkaði.“ http://www.asi.is/media/312714/minnisblad-um-olaunada-vinnu_mmn_hg.pdf (skoðað 25. október 2017).

[35] Bændablaðið 21. júlí 2016, bls. 4. „Lögbrot að reka efnahagslega starfsemi með sjálfboðaliðum.“

[36] Minnisblað ASÍ 22. janúar 2016.  Sjá tilvísun hér að ofan.

[37] Bændablaðið 21. júlí 2016, bls. 4. Sjá tilvísun hér að ofan.

[38] Minnisblað ASÍ 22. janúar 2016.  Sjá tilvísun hér að ofan.

[39] Umsögn Þjóðskrár Íslands um frumvarp til laga um útlendinga. 13 maí 2016.  145. löggjafarþing. Dbnr. 1515. http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-1515.pdf (skoðað 25. október 2017).

Abstract

The article addresses the right of EES-states in accordance with Article 8 of directive 2004/38/EC, that is implemented in Iceland by Article 89 of the Act on Foreigners,  to require EEA-workers that have a right of residence for more than three months to register with the relevant authorities. Register Iceland (RI) is responsible for the registration in Iceland. The article suggests that RI uses for the purpose of the registration a more restrictive concept of „worker“ than is laid down in the relevant EEA rules as interpreted by the CJEU with the effect that the relevant EEA- worker is not able to register his/her legal residence and obtain national ID number which may lead to limitation of the worker‘s enjoyment of rights based on EEA-law.

Útlendingalög – Evrópuréttur – Hugtakið launþegi í frjálsri för – Tilskipun 2004/38/EB The Act on foreigners – EEA Law – The concept of worker – Directive 2004/38/EU